11.04.1946
Neðri deild: 107. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (2721)

172. mál, nýbyggingar í Höfðakaupstað

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, aðallega út af því, sem fram kom hjá hv. 2. þm. Reykv. um okkar brtt. Hann sagði, sem og rétt er, að það væri ekki gert ráð fyrir því, að Höfðahreppur legði hér fram fé til þessara framkvæmda. En ég vil benda á, að það er í raun og veru alveg eins ástatt um Höfðahrepp í þessu eins og nýbyggingarráð. Nýbyggingarráð út af fyrir sig leggur náttúrlega ekki fram fé. Það er ríkissjóður einn, sem leggur fram féð, en þó er gert ráð fyrir því í frv., að þessar framkvæmdir verði gerðar í samráði við nýbyggingarráð, sem einnig á fulltrúa í nýbyggingarnefnd, eins og Höfðahreppur: Virðist mér því samræmi í því, að nýbyggingarnefnd hafi samráð einnig við hreppsnefnd Höfðahrepps. Ég sé ekki heldur ástæðu til að óttast, að það valdi neinum árekstrum, því að það þarf að takast samstarf milli hreppsnefndar Höfðahrepps og nýbyggingarnefndar, vegna þess að um nokkurra ára skeið er samkv. frv. ætlazt til þess, að nýbyggingarnefnd taki að sér verk, sem hreppsnefndin þar á annars að vinna, eins og t. d. kemur fram í 4. gr., að nýbyggingarnefnd fari með úrskurðarvald um byggingarmál Höfðakaupstaðar. Mér virðist því, að í því efni eigi að vera samvinna á milli þessara nefnda, og einnig vegna þess, að samkv. 8. gr. frv. er ákveðið, að hreppsnefnd Höfðahrepps skuli á tilteknum tíma taka við framkvæmdum nýbyggingarnefndar, að svo miklu leyti sem þeim verði ekki ráðstafað til einstaklinga, félaga eða stofnana.

Viðkomandi brtt. okkar gat hv. 2. þm. Reykv. þess, að hann teldi, að erfitt gæti verið að verða við óskum einstakra manna, sem vildu panta hús. Það kom reyndar fram í minni ræðu, að ég gerði ráð fyrir, að í því efni væri ekki gengið lengra en svo, að það gæti fallið inn í það heildarskipulag, sem þarna væri ákveðið. Hitt getum við verið sammála um, að rétt sé að taka til greina allar sanngjarnar óskir þeirra, sem vilja eiga hús þarna, að svo miklu leyti sem þær samrýmast því heildarskipulagi, sem þar á að verða.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar brtt. Ég álít, að það væri heldur til bóta að afgr. frv. með því að samþ. þær.

Þá er það atriði viðvíkjandi 5. gr., sem hv. 2. þm: N.-M. talaði um hér og hv. frsm. fjhn. gerði hér einnig að umtalsefni. Ég er nú í raun og veru hv. 2. þm. N.-M. sammála um það, að það sé ekki sanngjarnt, að menn, sem t. d. mjög nýlega hafa fengið samninga um erfðafestu á löndum og tekið þau á leigu hjá ríkinu, en eru e. t. v. engu farnir að kosta til framkvæmda, að þeir geti, bara fyrir þessa samninga sína, fengið mikið fé hjá ríkissjóði, þegar taka á löndin til annarra nota. En ég er bara í miklum vafa um, að það verði talið fært vegna ákvæða stjskr. að setja inn slíkt ákvæði í 5. gr. frv. sem hv. 2. þm. N.-M. minntist á. Ég er að vísu ekki lögfróður maður. En það eru hér í hv. d. ýmsir lögfræðingar, þ. á m. hv. form. fjhn., hv. 4. þm. Reykv., sem gætu upplýst um þetta atriði, vænti ég. Og fleiri, sem hér eiga sæti í hv. þd., eru fróðir á því sviði. En ég fyrir mitt leyti óttast þetta, að það mundi verða talið reka sig á ákvæði stjskr. að setja slíkt ákvæði inn í frv. sem hv. 2. þm. N.-M. minntist á.