12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (2734)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Jónas Jónsson:

Mér er sagt, að þetta frv. muni vera búið til af mönnum, sem vinna hér á skrifstofu og eru nýlega komnir heim frá útlöndum og hafa sennilega ekki séð mikið af sveitalífinu nema þegar þeir hafa ferðazt í orlofi. Síðan mun þetta hafa verið lagað af öðrum, sem meira vita, og samt mun koma í ljós síðar, að þar sem þessi l. hafa ekki verið löguð nógu mikið, þurfi að breyta þeim á ný, áður en meiri skaði verður að.

Það eina, sem skiptir máli og verður að teljast til bóta, er það, ef ríkið leggur til hliðar nokkra summu á ári í nokkur ár í því skyni að rækta jörðina og byggja. Og þótt mönnum finnist þessi upphæð talsvert há, þá mun ekki reynast svo, að Það verði allir hlutir gerðir með þessu fé.

Sá galli, sem er á þessu frv., er eðlilegur, af því að þetta er búið til af mönnum, sem hafa ekkert vit á þessum hlutum og litla reynslu og hafa sýnilega enga hugmynd um, hvað erfitt það er að nema land á ný. Það er það fyrsta. Þess vegna flaska þeir á því að gera ráð fyrir því, að menn, sem nema land á ný, þeir geti gert það styrklaust með lágum vöxtum. Nú vil ég segja hv. þd. einfalt dæmi, sem ég held, að hafi verið minnzt á áður, af því að það kom beint inn í þingið.

Fyrir fáeinum árum keypti Búnaðarbankinn jörð á þeim stað í Ölfusi, sem af öllum er talinn líklegastur til að gera svona landnám á, Þórustaði. Ég held, að hann hafi eignazt hana fyrir 14 þúsund, illa húsaða, en þar er land, sem má gera að góðu túni, djúp mýri, sem hallar móti suðri og er ekki of blaut. Búnaðarbankinn vildi sýna, hvernig væri hægt að byggja svona jörð og reisa þar hús, sem eru heldur lítil fyrir meðalfjölskyldu, svo að það er álitið, að það þurfi að byggja eitthvað við þau, ef þar byggju fjölskyldur í heldur stærra lagi. Enn fremur þarf að byggja þar fjárhús og hlöðu við, allt úr steini. Þetta kostaði 140 þús. framarlega á stríðstímanum. Þá er eftir að byggja á þessari jörð fjós og hlöðu við það, og þar að auki er ekkert búið að gera við landið, þar var aðeins túnkragi frá fornu fari, en mýri allt í kring. Af tilviljun varð ég var við það um daginn, hvernig gengur að byggja fjós. Það voru menn, sem hafa haft landbúnaðarmál með höndum meira en ég, þeir voru að ræða um það hér í næstu stofu, hvort það væri annað vit en að láta Stafholt leggjast í eyði. Af hverju? Þetta er eitt af höfuðbólum Snorra og eitt mesta höfuðból þessa lands. Fjósið var fallið, Og hvað gerðu menn ráð fyrir, að það mundi kosta að byggja það á ný? 125 þús. kr. Og þá er spurningin fyrir ríkið, hvort það hafi handbærar 125 þús. kr. til að byggja þar fjós, svo að þar verði búið. Þetta sýnir, hversu óendanleg grunnhyggni er á bak við þetta frv. Þeim dettur hvorki meira né minna í hug en að hægt sé að láta menn mynda nýbýli styrklaust, sem áreiðanlega kosta ekki minna en kvartmilljón, ef maður tekur nauðsynleg hús, túnrækt og annað slíkt.

Ég vil enn fremur sýna annað dæmi. Það er ekki frá þessum gullflóðstímum, heldur frá því er Tryggvi Þórhallsson var í Búnaðarbankanum. Þegar hann kom þar, þá var búið að reisa talsvert af húsum í sveitum, og kreppan var komin. Þá sagði hann við mann, sem starfaði þar : Reyndu að gera uppdrætti, sem kosta ekki nema 5 þús. kr. Maðurinn gerði það. Síðan hafa verið byggð í tugatali minnstu hús í sveitum eftir svipuðum teikningum, eftir allra þrengstu línum, sem hægt var að hugsa sér.

Ég ætla auðvitað að greiða atkv. með þessu frv., að ef landið á þessar milljónir, þá séu þær settar í landbúnaðinn. En ég vil bara segja það út frá reynslunni, að ef hún á að fara að reisa nýbýli, þá geta þau ekki kostað minna en 150–250 þús. kr. undir núverandi kringumstæðum. Nú segir ríkisstj.: Höfuðstólinn á að borga og nokkuð af vöxtunum. En það verður bara ekki gert. Og þegar að því kemur, að þetta á að greiðast, þá er ekki nema um tvennt að velja, gefa nærri því allt eftir af þessum peningum eða gera það sér til skemmtunar að gera þessa menn upp og ganga af þeim dauðum. Þetta er það eina sem hægt er að gera út frá þeim skilmálum, sem hér er boðið upp á. Þetta er það, sem lífið kennir okkur.

Þá er annað, sem er dásamlegt í þessu frv. Við höfum l. um verkamannabústaði og höfum alltaf verið að bæta þau, sem er bæði rétt og fallegt. Það hefur verið til þess ætlazt, að verkamennirnir gætu eignazt þessar íbúðir, og þeim hefur oft tekizt það. Verkamannabústaðirnir, sem Héðinn Valdimarsson stóð fyrir, kostuðu 11 þús. hver íbúð, og voru það prýðilegar íbúðir miðað við það fé, og margir eiga þær sjálfir. En það, sem alltaf hefur gengið þar í gegn, er það, að bæði ríki og bær leggja mikinn styrk í þetta, það dettur engum í hug að hafa það öðruvísi. Þó dettur mönnum í hug, að hér sé hægt að fá höfuðstólinn aftur með ofurlitlum vöxtum, þó að til viðbótar við dýr íbúðarhús þurfi að taka á sig kostnaðinn af að byggja peningshús og að rækta jörðina, sem er sannarlega ekki ódýrt á þessum stöðum. Þarf ekki annað en að líta til Síberíu, þar sem kosta hér um bil ½ millj. þeir 100 ha, sem þar hafa verið þurrkaðir og eru að vísu vel ræstir fram.

Annað er það, sem ég held, að verði skrýtið í þessum byggðarhverfum, sem á sýnilega að vera hagað eftir rússneskum sið. Það er gert ráð fyrir því, að þarna geti tekizt sambúskapur, og menn hugsa sér, að þarna geti allt verið sameiginlegt, matur, vinnukraftur og annað því um líkt. Ólíklegt þykir mér, að mörg af þessum hverfum verði reist í Húnavatnssýslu. Það segi ég af því, að þaðan hafa komið flestir gáfumenn þessa lands úr einni sýslu. (GJ: Eru nú til hagskýrslur um það?) Það eru lífsins ljósu skýrslur, og þeir þm., sem þaðan hafa komið, bera þess merki. Þar er varla til tvíbýli á nokkrum bæ. Það er af því, að þeir eru svo miklir Íslendingar og hafa verið það allt frá landnámstíð, allt frá því, að Grettir var þar, og svo miklir einstaklingshyggjumenn, að þeir reyna ekki að skipta jörðunum undir núverandi kringumstæðum. Þess vegna er þessi kafli svo mikið út í loftið sem hugsanlegt er, því að það mun aldrei takast að fá menn inn í þessar sambyggðir. Þar, sem hervaldi er beitt eða stjórnarstyrkur ýmiss konar er veittur, þar getur það gengið eins og þeir kæra sig um, en öðruvísi er það ekki hægt. Síbería hefur staðið til boða, en menn hafa ekki viljað fara þangað, ekki heldur þessir menn, sem halda þessu skipulagi fram. Þeir eru eins miklir einstaklingshyggjumenn og við og eins duglegir að græða fyrir sjálfa sig og við hinir. Þetta er bara gert upp á sport, ekkert annað. Það verður gaman að sjá 10 fjölskyldur búa saman og húsfrúrnar matbúa þar til skiptis. Við ættum að koma þar, þegar þær hafa búið þar í 10 ár og fá að heyra, hvernig þessi búskapur hefur gefizt.

Við erum búnir að sjá, hvað hægt er að gera á vissum stöðum, en það er að skipta jörðunum, ef börnin vilja það. Þetta hefur undanfarin ár verið reynslan á ýmsum stöðum, sérstaklega norðan lands og í Austur-Skaftafellssýslu. Mér er kunnugt um jarðir fyrir norðan, þar sem áður bjuggu hjón, sem höfðu 3–4 vinnumenn og vinnukonur, en nú er þar enginn vinnumaður eða vinnukona, en það er búið að skipta jörðinni milli erfingjanna í 3–4 parta, þeir búa oft allir í sama túninu og nota sömu vinnutækin. En allt er byggt á því, að hver hafi sitt afmælda land, bæði tún og helzt bithaga líka, annars gengur það ekki. Ef það hefði átt að fara eftir reynslunni, þá hefði verið farin önnur leið. Þá hefði verið lagt fram fé til að hjálpa duglegum einyrkjum, sem vildu skipta jörðunum, og þá hefði verið gengið frá þessu sem styrk, en ekki sem lánum til manna. Í stuttu máli, það eru veittir hér ofurlitlir peningar, en undir svo ómerkilegu formi, að það kemur ekki að notum. Það er ekki heldur að búast við því betra, þegar á það er litið, hvernig þetta er til komið. En af því að ég veit, að það á að leggja peningana í jörðina, þó að það þyrfti að vera miklu meira, þá ætla ég að greiða atkv. með frv., þó að ég viti, að það stenzt á engan hátt dóm reynslunnar.