07.12.1945
Sameinað þing: 13. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

16. mál, fjárlög 1946

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Frv. það til fjárl. fyrir árið 1946, er lagt var fram hér á Alþ. þ. 8. okt. s. l. og liggur nú hér til 2. umr. á þskj. 16, er það hæsta, sem enn hefur verið lagt fyrir Alþ., bæði hvað snertir tekjur og gjöld. Rekstrartekjur eru alls áætlaðar rúmar 114 millj. kr., en rekstrarútgjöldin rúmar 115 millj. kr., og rekstrarhalli áætlaður þannig tæpar 1100 þús. kr. Á sjóðsyfirliti er greiðslujöfnuður hins vegar áætlaður óhagstæður tæpar 13 millj. kr.

Á gildandi fjárl. eru rekstrartekjur áætlaðar rúmar 108 millj. kr., eða 6 millj. kr. lægri en á frv., og rekstrarútgjöldin rúmar 100 millj., eða, 15 millj. kr. lægri en 'á frv. Við afgreiðslu gildandi fjárlaga þótti ýmsum hv. þm. boginn spenntur til hins ýtrasta og full ástæða til þess að snúa nú við og taka upp meiri varfærni í rekstri ríkisins á öllum sviðum. Þál. sú um athugun á starfskerfi og rekstrargjöldum ríkisins, sem fjvn. bar fram á síðasta þingi á þskj. 1163 og samþ. var einróma, mætti a. m. k. skoðast sem viljayfirlýsing um það, að gera skyldi einhverjar tilraunir til þess að draga úr rekstrarútgjöldunum, þótt hins vegar aðrar samþykktir Alþ., svo sem afgreiðsla launalaga, gerði það algerlega ókleift að ná þeim árangri, sem til var ætlazt með samþykkt fyrrnefndrar þál.

Hækkun rekstrarútgjalda ríkissjóðs er ekki heldur út af fyrir sig nein ásökun eða last á hæstv. fjmrh. eða fjvn., og ekki getur heldur lækkun útgjalda út af fyrir sig talizt þeim til lofs, því að þetta eitt er enginn mælikvarði um góða eða illa fjármálastjórn, heldur er hitt meginatriði, að fyrir hverja krónu, sem eydd er, komi fleiri krónur inn á móti, og að hver króna, sem spöruð er, minnka ekki tekjurnar um jafnmargar eða fleiri krónur. Í þessu, og þessu einu, liggur leyndardómur fjármálamennskunnar, bæði hjá ríki og einstaklingum. Því að það væri svo afar einfalt verk, bæði fyrir fjvn. og ráðh., að skera niður miskunnarlaust alls konar útgjaldaliði, ef ekkert þyrfti að hugsa um afleiðingarnar eða bera nokkra ábyrgð á þeim gerðum, eins og það væri einnig mjög þægilegt að mega ausa út fjárhæðum án þess að þurfa að gera sér grein fyrir afleiðingunum.

Þegar bornar eru saman tekjur og gjöld á fyrstu 10 mánuðum af árunum 1944 og 1945, sést, að útgjöldin eru um 6 millj. kr. hærri á þessu tímabili árið 1945, en tekjurnar eru þá einnig 25,5 millj. kr. meiri en á sama tíma 1944. Svo að rekstrarhagurinn á árinu verður sýnilega langtum betri en menn þorðu að gera sér vonir um, þegar fjárl. yfirstandandi árs voru samin. Það verður því ekki sagt annað en að núv. hæstv. fjmrh. hafi tekizt að fylgja þessari gullvægu reglu í fjármálunum, að fá inn á árinu fleiri krónur fyrir hverja, sem út var greidd.

Það er nú alþjóð ljóst, að síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, hefur stórhugur þjóðarinnar magnazt svo að segja á öllum sviðum. Skip eru keypt og smíðuð, fleiri, stærri og betri en nokkru sinni fyrr, verksmiðjur eru reistar, hafnir byggðar, vegir lagðir og bættir, brýr gerðar og skólum, sjúkrahúsum og margvíslegum öðrum mannvirkjum komið upp í miklu stærri stíl en nokkru sinni áður. Enda mun engin ríkisstjórn önnur hafa hvatt þjóðina jafnötullega til stórræða eða stutt hana jafnörugglega til framkvæmda. Slík gerbylting á framkvæmdum til lands og sjávar getur ekki skapað neina kyrrstöðu í fjármálalífinu. Ríkissjóður einn getur ekki staðið og má ekki standa í sömu sporum eða hörfa aftur á bak. Hann, engu síður en þegnarnir, verður að eiga sinn þátt í uppbyggingu hins nýja lýðveldis, í baráttunni fyrir því, að það takmark, sem hæstv. ríkisstjórn setti sér í upphafi, „að allir geti haft vinnu í landinu við viðunandi kjör“, náist sem bezt og sem fyrst. Það ber því ekki að einblína á það eitt, hvort fjárl. eru afgr. tugþúsundum hærri eða lægri, eða hvort þau eru afgr. með rekstrarafgangi eða rekstrarhalla, heldur miklu fremur á hitt, hvort það fé, sem veitt er á fjárl., skapar þjóðinni betri lífskjör, styrkir atvinnuvegina og eflir menningu hennar. Skuldlaus ríkissjóður eða jafnvel nokkurra millj. kr. eign hans er engin trygging fyrir afkomu þjóðarinnar, ef atvinnuvegirnir eru í basli og þegnarnir í neyð. Hitt er staðreynd, sem of lítill gaumur er gefinn, að bezti varasjóður ríkisins er: blómlegir atvinnuvegir og ríkir þegnar. En þetta er hvorugt tryggt, nema í hendur haldist menning þjóðarinnar, þróttur og þor til umbrota og athafna.

Fjárlagafrv. það, sem hér er til umr., svo og brtt. þær, sem fjvn. ber fram, miða drjúgum að því, ef samþ. verða, að tryggja atvinnuvegina, auka menningu og bæta afkomu alls almennings í landinu. Í brtt. fjvn., sem í meginatriðum er enginn ágreiningur um, felst fyrst og fremst fyllsta traust til hæstv. ríkisstj., því á engan annan hátt verður skýrð sú bjartsýni, sem fram kemur hjá n. í lækkandi tekju- og gjaldaliðum fjárlagafrv., né þær ábendingar, sem gefnar eru til sparnaðar á einstökum liðum. Því að vitanlega mundi enginn nefndarmanna, sem í sannleika vantreysti hæstv. ríkisstjórn, leggja til, að henni verði veitt svo mikið fé til yfirráða sem hér er gert.

Ég vil þá fara hér nokkrum orðum um þær brtt., sem fjvn. ber fram við frv. — Það er þá fyrst við 2. gr. frv. Þar er lagt til, að tekjuáætlunin sé hækkuð á nokkrum liðum. Fyrst, að í staðinn fyrir, að gert er ráð fyrir í frv., að tekju- og eignarskattur verði 26 millj. kr., þá áætlar n. hann 29 millj. kr. Tekjurnar af þessum lið hafa líka á yfirstandandi ári verið áætlaðar á fjárl. 28,5 millj. kr. og tekjuskattsauki þar fyrir utan um 5 millj. kr., eða þessir skattar alls 33,5 millj. kr. Þetta er hámark tekju- og eignarskatts, sem verið hefur í landinu, og sýnir, að afkoma landsmanna hefur farið batnandi, en ekki versnandi. í októberlok var á þessu ári innheimt með þessum sköttum 20,7 millj. kr., eða 5,5 millj. kr. meira en á sama tíma 1944. En fjvn. hefur ekki álitið, að gerlegt væri að fara miklu hærra með áætlun um þessar tekjur, sérstaklega vegna þess, að síldarvertíðin brást á þessu ári svo mjög, eins og mönnum er kunnugt, og getur það haft nokkur áhrif á tekjuskatt á næsta ári.

Fjvn. hefur ekki lagt til, að stríðsgróðaskatturinn yrði hækkaður í frv. En þó vildi ég upplýsa hér, að á fjárl. yfirstandandi árs er hann áætlaður 9 millj. kr., þar af til ríkissjóðs 4,5 millj. kr. Nú er hann í fjárlagafrv. áætlaður 6 millj. kr., þar af 3 millj. kr. til ríkisins. Í októberlok s. l. hafði á þessu ári verið innheimt með þessum skatti 5,6 millj. kr. til ríkissjóðs. Það þykir óvarlegt að hækka áætlunina um þennan skatt frá þeirri áætlun, sem ég hef talað hér um, vegna afkomu síldarútvegsins á yfirstandandi ári.

Fjvn. gerir till. um, að áætlun um tekjur af vörumagnstolli verði hækkuð um eina millj. kr., úr 10 millj. kr. í 11 millj. kr. Vörumagnstollur á fjárl. yfirstandandi árs ár áætlaður 9 millj. kr., en hafði á þessu ári í októberlok verið innheimtur kr. 10,3 millj. Hann gefur sennilega á þessu yfirstandandi ári um 12 millj. kr. í tekjur. Ég hafði nú haldið, að e. t. v. hefði mátt hækka meira áætlun um þennan toll. En fjvn. hefur orðið sammála um að ákveða hann ekki hærri í frv. Það er þó vitað, að á næsta ári má gera ráð fyrir, að flutt verði inn töluvert mikið af skipastóli til landsins, og gert er ráð fyrir, að af honum verði teknir innflutningstollar, eins og ákveðið er með l., og hér hafa ekki sézt neinar till. á Alþ. um, að svo verði ekki gert. Og þá eru ekki mikil líkindi til þess, að annað vörumagn innflutt til landsins minnki á næsta ári, heldur miklu fremur að innflutningsmagn vara aukist vegna ýmissa framkvæmda í landinu.

Þá leggur n. til, að verðtollsáætlunin verði hækkuð úr 33 millj. kr. í 35 millj. kr. Verðtollurinn er í fjárl. yfirstandandi árs áætlaður 28 millj. kr., en hefur á þessu ári verið með honum innheimt til októberloka 35 millj. kr. Eftir upplýsingum hjá fjmrn. gefur væntanlega þessi tollur um 40 millj. kr. tekjur á þessu ári. Lækkun farmgjalda hefur að sjálfsögðu nokkur áhrif til lækkunar á þessum tolli á næsta ári, og þess vegna hefur fjvn. ekki þorað að fara hærra í áætlun sinni með þennan toll en í 35 millj. kr.

Það hefði e. t. v. verið möguleiki á að fá nokkurn tekjuauka enn á frv. með því að áætla fasteignaskattinn nokkru hærri en gert er. En til þess þyrfti lagabreyt., og fjvn. sá sér ekki fært að gera á þessari áætlun neinar breyt., fyrr en slík lagabreyt. væri fyrir hendi. Þetta er fastur tekjustofn. Fasteignamatið er miðað við gamla verðlagið og væri ekki óeðlilegt, að þessar tekjur væru innheimtar með verðlagsvísitöluálagi, en til þess mundi þurfa lagabreyt. Þetta er aðeins bending til athugunar hæstv. fjmrh., hvort hann teldi, að það væri eðlilegt eða nauðsynlegt að gera hér einhverjar breyt. á.

Um stimpilgjald hefur fjvn. lagt til, að það væri hækkað í áætlun í frv. úr 2,5 millj. kr. í 3 millj. kr. Í fjárl. yfirstandandi árs er það áætlað 1,7 millj. kr., en 3 millj. kr. höfðu verið innheimtar með þessu gjaldi til októberloka á þessu ári. Fjvn. taldi því ekki óvarlegt að hækka þennan lið um 500 þús. kr.

Þá hefur fjvn. lagt til, að hækkaður verði veitingaskattur úr 600 þús. kr. í 800 þús. kr. í frv. Í fjárl. yfirstandandi árs er hann áætlaður 400 þús. kr., en með honum hefur á þessu ári verið innheimt til októberloka 780 þús. kr. Það virðist því ekki óvarlegt að hækka áætlun um hann í 800 þús. kr. Þessi tekjuaukning af þessum skatti mun stafa af miklu betra eftirliti með l. um þetta en áður hefur verið, enda kom nokkuð inn á þessu yfirstandandi ári af þessum skatti áföllnum á fyrri árum.

Þá er næst 3. gr. A. 1. N. hefur rætt við póst- og símamálastjóra, hvort gerlegt væri að hækka tekjur póstsjóðs eða minnka gjöld. Hann hefur ekki talið gerlegt að minnka útgjöld og telur, að þau muni heldur hækka en lækka frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. Hins vegar taldi hann gerlegt að hækka tvo liði í tekjuáætluninni. Annað er burðargjald fyrir blöð og tímarit, sem eru nú um 120 tonn á ári. Þessi burðargjöld hafa lítið hækkað frá því fyrir stríð, og ef þau væru hækkuð um 100%, mundi það gefa um 120 þús. kr. Póst- og símamálastjóri heldur enn fremur, að hækka mætti bögglagjöld um 50% og mundi það þá gefa um 200 þús. kr. N. hefur ekki tekið þetta upp, en þykir rétt að láta það koma fram til athugunar fyrir hæstv. fjmrh. Hann hefur hins vegar talið algerlega ógerlegt að lækka útgjöldin og telur, að það stafi mikil hækkun útgjalda frá launal., og þá sérstaklega frá reglugerð, sem hefur verið samin, eftir að launal. voru gerð, og muni sú hækkun nema um 173 þús. kr. vegna styttingar á vinnutíma.

Um landssímann, þ. e. 3. gr. 2. I. tekjur, leggur n. til, að þessi liður verði hækkaður um 370 þús. kr. Við höfum einnig rætt um það við póst- og símamálastjóra, og hefur hann talið fremur óvarlegt að hækka þennan lið mikið. Ég vil þó benda á, að í yfirlitinu yfir tekjur og gjöld landssímans eru símskeytagjöld við útlönd og símtöl raunverulega mjög lágt áætluð, en þegar sambandið við útlönd opnast og viðskipti, sem nú er þegar smátt og smátt að opnast, þá er vitað, að þessi liður fer mikið fram úr áætlun. N. hefur því hækkað tekjuáætlunina um 370 þús. kr. Aftur á móti hefur n. einnig lagt til, að hækkaður yrði liðurinn „Til notendasíma í sveitum“ úr 500 í 800 þús. kr., því að það er fyrst og fremst till. póst- og símamálastjóra annars vegar, og auk þess er n. ljóst, að þörfin fyrir síma um land allt er svo aðkallandi, ekki sízt í sveitum, og til mikilla hagsbóta fyrir dreifbýlið, að n. leggur til, að þessar till. póst- og símamálastjóra verði teknar upp. Í sambandi við þetta hefur póst- og símamálastjóri óskað eftir því, að skipuð yrði sérstaklega n. til að ákveða, hvernig fénu verði varið í hinum ýmsu héruðum, og leggur til, að það yrði formaður fjvn., búnaðarmálastjóri og póst- og símamálastjóri. Fjvn. vill ekki taka undir þetta, sér ekki ástæðu til að breyta þessu, heldur að það sé á ábyrgð póst- og símamálastjóra, eins og hingað til, en þykir rétt að skýra frá þessu, ef einhver hv. þm. vildi taka þessa till. upp. N. hefur einnig fengið frá póst- og símamálastjóra lauslega áætlun yfir, hvað mundi kosta að leggja síma á hvert heimili í landinu. Um það var þáltill. á síðasta þingi. Það liggur fyrir lauslegur útreikningur um, að það muni kosta um 100600 þús. kr. Vil ég geta þessa hér undir þessum umr.

Þá telur póst- og símamálastjóri einnig, að ef lögð væri meiri áherzla á að auka talsímalínur í landinu, þá mætti með ekki mjög miklum kostnaði ná upp mjög miklu meiri tekjum. Það liggur að sjálfsögðu til athugunar hjá hæstv. samgmrh., hvort hann vill fara inn á þær till. og taka þá lán sérstaklega til þeirra framkvæmda, sem síminn kæmi til með að standa undir í framtíðinni.

Þá hefði verið ástæða til að hækka tekjur af áfengisverzluninni. Í fjárl. eru þær rúmar 22 milljónir, og hafa nú verið innheimtar til 31. okt. 24 millj. kr. nettó og verður sennilega um 30 millj. alls í ár. N. vill þó ekki leggja til, að þessi liður verði hækkaður, sumpart vegna þess. að hún taldi, að ef aðrir liðir hefðu verið hækkaðir í frv., þá væri rétt, að fjmrh. hefði eitthvert svigrúm um tekjur, og auk þess vill hún ekki láta skoða það sem undirstrikun á, að þetta ætti að vera bezti tekjustofn ríkisins. Það er út af fyrir sig ekki gleðilegt að vita til þess, að ein meginstoðin undir ríkisútgjöldunum skuli vera þessi liður, en hins vegar, meðan ástandið er eins og það er, sér n. ekki ástæðu til að lækka það, því að það er vitað, að þessar tekjur mundu koma inn að óbreyttu ástandi.

Tekjur tóbakseinkasölunnar eru áætlaðar í fjárl. þessa árs 7,9 millj. brúttó, en hefur verið innheimt til 31. okt. 8,7 millj. og verður a. m. k. 10 millj. kr. í ár. Þetta leggur n. til, að verði hækkað upp í 10249 þús. kr. Hækkunin á tekjum einkasölunnar er af skrifstofustjóranum í fjmrn. talin stafa að nokkru leyti frá því, að setuliðið sé að mestu leyti horfið úr landinu, og þaðan muni fólk hafa keypt nokkuð af tóbaki og ríkissjóður þá ekki haft hagnað af því.

Þá er viðtækjaverzlunin. N. leggur til að hækka þar nettótekjurnar um 150 þús. kr., og er það með tilliti til þess, að frjálsari verði verzlunin á þessari vöru á komandi ári.

Næst er landssmiðjan. Fjvn. telur, að hún eigi að takast aftur inn í fjárlfrv., eins og hún hefur verið þar áður, en í sambandi við það vill n. benda á, hvort ekki sé ástæða til að gera einhverja breyt. á stjórn þessa fyrirtækis, því að sjáanlegt er, að reksturinn 1944 hefur raunverulega gefið sama sem engar tekjur. Hann er að vísu reiknaður 30 þús. kr., en þá er reiknað með fyrningu 192 þús. kr., eða engri hækkun. N. hefur leyft sér að færa tekjuáætlunina upp í 88 þús. kr. og telur, að þá sé fyrirtækið illa rekið á þessum tíma, þó að það skili þeim hagnaði. Í sambandi við þetta hefur n. spurzt fyrir um það hjá stofnuninni, hvort hún selji ódýrar vörur og vinnu til þeirra stofnana, sem tilheyra ríkinu, því að hugsanlegt væri, að þessi útkoma stafaði af því. Einnig hefur hún spurt um það, hvernig hlutfallið væri milli sölu til þessara fyrirtækja og til einstaklinga, og við fengum þau svör, að landssmiðjan hefði selt fyrir 1220 þús. til Ríkisskip 1944, en fyrir 620 þús. til einkafyrirtækja, og álagningin á seldar vörur og vinnu sé sú hæsta, sem leyfð er af verðlagseftirlitinu, m. ö. o., sama álagning og einkafyrirtæki, sem starfa við hliðina á henni, mega hæst leggja á sínar vörur og vinnu. Með tilvísun til þessa er því sérstaklega beint til hæstv. atvmrh., sem fer með þessi mál, að gerðar séu sérstakar ráðstafanir til að laga þennan rekstur ríkisins. Það munu nú vera í stjórn þessa fyrirtækis þrír menn, sem allir á sama tíma eru stærstu viðskiptavinir þess, og er út af fyrir sig ekkert við það að athuga, nema að þetta þætti ekki eðlilegt um fyrirtæki einstaklinga, ef viðskiptavinirnir sjálfir ættu að stjórna fyrirtækjunum.

Þetta eru þá þær breyt., sem n. hefur gert á tekjuhliðinni, eða leggur til, að samþ. verði.

Ég vil aðeins fara nokkrum orðum um 3. gr. A. 5. Útvarpið, eignabreytingar. Þar er einn liður, sem heitir „Til byggingar útvarpshúss í Reykjavík“. N. hefur ekki orðið sammála um þennan lið, en er sammála um að fresta endanlegri afgreiðslu þessa máls til 3. umr., og gerði hún því engar breyt. við þennan lið við þessa umr.

Þá skal ég fara nokkrum orðum um gjaldabálkinn. Er þar fyrst 10 gr. Á henni hafa verið gerðar nokkrar breyt. N. leggur til, að gerðar verði nokkrar breyt. á utanríkismálunum, sérstaklega í sendiráðinu í Kaupmannahöfn. Þessar breyt. eru flestar eða allar gerðar í fullkomnu samkomulagi við hæstv. utanrrh. Hér hefur þó verið lagt til að setja inn á eftir 10. gr. nýjan lið, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar risna sendiherra og sendifulltrúa í lið 1–6 hefur verið skilin frá staðaruppbótinni, skiptist staðaruppbótin hlutfallslega jafnt á alla starfsmenn sendiráðanna miðað við grunnlaun þeirra.“

Þetta kemur til af því, að n. varð þess vör, að staðaruppbótinni hefur ekki verið skipt hlutfallslega jafnt milli starfsmannanna við sama sendiráð, en þegar ég tala um starfsmenn, er ekki átt eingöngu við sendiherra, heldur líka aðra starfsmenn. N. álítur, að ákveða beri þeim laun og skipta svo hlutfallslega á milli þeirra staðaruppbótinni, eftir að búið er að draga risnuna frá. Annars er þetta til athugunar fyrir utanrrn.

Þá er 11. gr. Þar gerir n. till. um niðurfærslu á skrifstofukostnaði sýslumanna og lögreglustjóra utan Reykjavíkur. Þessar till. eru nokkuð gerðar af handahófi vegna þess að n. vantaði upplýsingar frá ráðuneytinu um þennan kostnað, en n. var þó ljóst, að þessi liður hefur hækkað frá síðustu fjárl. um 300 þús. kr. Hún taldi sér skylt að benda á, að þetta ætti að lækka, a. m. k. þar til fyrir lægju ákveðnar upplýsingar um, að þetta væri raunverulegur kostnaður. Skrifstofustjórinn í dómsmrn. upplýsti, að liður 3 undir þessum lið, annar kostnaður, mundi vera áætlaður 20 þús. kr. of hátt, og hefur það verið tekið með í till. n. En síðan þessu skjali hefur verið útbýtt, hefur kostnaðaryfirlitið komið frá ráðuneytinu, og getur þurft að endurskoða þetta fyrir næstu umr., og skal n. þá taka þetta til athugunar.

Við 11. gr. A. 8. leggur n. til, að nokkuð verði fært niður. Er það gert í samráði við hæstv. dómsmrh. Það er lögreglukostnaður vegna ríkislögreglu. Hann telur, að mætti fækka um a. m. k. 10 menn, og leggur fjvn. til, að liðurinn verði færður niður um sem svarar 25% af upphæðinni,, miðað við, að á þetta komi önnur skipun, sem hæstv. ráðh. hefur skýrt n. frá, að hann sé að undirbúa.

Þá vil ég minnast aðeins á landhelgisgæzluna. Þar hefur ekki verið af ráðuneytinu óskað neinna breyt. frá því, sem er í frv. Hins vegar hefur legið fyrir skjal frá forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, sem vill fá allverulega hækkun, yfir 2 millj. kr., vegna hinna nýju strandvarðbáta. N. hefur ekki séð sér fært að taka það upp, sumpart vegna þess að henni er óljóst, eins og ef til vill mörgum öðrum, hvað verður um þau skip. Hefur þetta verið rætt við hæstv. dómsmrh., sem hefur ekkert við það að athuga á þessu stigi málsins.

Þá hefur einnig verið gerð till. um að lækka kostnað við hegningarhúsið í Reykjavík, þ. e. a. s. færa til tekna helming af kostnaðinum, sem á samkv. l. að greiðast af Reykjavíkurbæ, og mun það ekki hafa staðið í síðustu fjárl. Í öðru lagi er kostnaður við fangaklefa lögreglustöðvarinnar í Reykjavík. Þar er einnig gert ráð fyrir, að á móti komi helmingur af útlögðum kostnaði frá Reykjavíkurbæ samkv. sömu l. Þá hefur þótt nauðsyn að taka upp 50 þús. kr. til þess að greiða Hafnarfjarðarbæ upp í byggingu fangahúss samkv. lögum.

Hvað viðvíkur B-kafla þessarar gr., þá hefur n. litið svo á, að öll þau eftirlit, sem þar ræðir um, rafmagnseftirlit ríkisins, bifreiðaeftirlitið, vélaeftirlitið og löggildingarstofan, ættu að geta borið sig og tekjur að koma á móti gjöldum. Gerir n. brtt. í samræmi við það, þannig að hér komi fullar tekjur á móti öllum kostnaði. Viðvíkjandi skipaeftirlitinu hefur verið rætt við hæstv. samgmrh. L. um skipaeftirlit var breytt á síðasta þingi, svo að aukatekjurnar eiga að ganga beint í ríkissjóð á móti gjöldunum. Þetta var ekki áður í frv., og er því lagt til að breyta því. Einnig gerir n. till. um, að rafmagnseftirlitið beri sig.

Um eftirlit með verksmiðjum og vélum var uppi sú rödd í n. að taka burt skrifstofumann og lækka launaupphæðina sem samsvaraði þeim launum. N. er vel kunnugt um, að þessi stofnun er rekin þannig, að forstjórinn hefur undanfarin ár verið víðs vegar annars staðar og tekið þar mikil laun sumpart frá ríkinu, — vinnur m. a. við síldarverksmiðjuna á Skagaströnd, — og sumpart hjá einstaklingum. N. lítur því svo á, að þessi stofnun þurfi ekki þennan starfskraft. Hins vegar benti hæstv. dómsmrh. á, að auka þyrfti verulega eftirlitið, og féllst n. á að láta þetta standa í því trausti, að ráðh. sæi um, að á þessu yrði betri skipan en verið hefur.

Þá sér n. ekki ástæðu til annars en að bifreiðaeftirlitið fái fullar tekjur á móti gjöldum og gerir brtt. þar að lútandi. Sama er að segja um löggildingarstofuna, sem ætti að geta staðið undir sér. Þá hefur n. einnig lagt til, að hjá skipulagi bæja- og sjávarþorpa komi tekjur á móti gjöldum. Hefur n. rætt það við skipulagsstjóra, sem hefur bent á, að til þess þurfi lagabreyt. Hann telur einnig, að vel sé gerlegt að hækka nokkuð gjöldin fyrir þessi verk, þar sem það er í eitt skipti fyrir öll, en hefur hins vegar sagt, að hann telji, að tekjur af þessu á komandi ári muni verða meiri en gert er ráð fyrir vegna mikilla nýbygginga í landinu. Sama er að segja um matvælaeftirlitið, þar er gert ráð fyrir, að tekjur komi á móti.

Þá er kostnaður við vörumerkjaskrásetningu, sem n. hefur lagt til, að felldur yrði niður. Ég viðurkenni, að það er hæpið, hvort hægt er að uppfylla þessa ósk n. Það á að hafa þetta samkv. l., en það veltur eingöngu á því, hvort ráðuneytið sér sér fært að vinna þetta á venjulegum skrifstofutíma eða þarf aðra krafta.

Þá hefur verið lagt til, að tekinn verði upp nýr liður við þennan kafla. Það er eftirlit með viðskiptum og verðlagi á sama hátt og í fjárl. síðasta árs. Það er í fyrsta lagi viðskiptaráð. Eftir þeim gögnum, sem n. hefur fengið, er sjáanlegt, að viðskiptaráð mun þurfa að draga mjög saman seglin á næsta ári, ef það á að geta staðið undir kostnaði. Hann varð á árinu 1944 rúmlega 1500000 kr. Þegar tekið er tillit til þess, að talsverður hluti af tekjum þess hverfur nú til nýbyggingarráðs samkv. l. og þess utan er ætlazt til þess, að svo og svo mikið af vörum verði gefið frjálst, þá er ekki þess að vænta, að viðskiptaráð geti staðið undir kostnaði, nema því aðeins að hann verði færður allverulega niður. Þar er fjöldi manna með ekki neitt smáar upphæðir, því að þar eru menn, sem hafa nærri því 40 þús. kr. fyrir sín störf og svo 9 þús. kr. fyrir að gera þau. Er þetta til athugunar fyrir hæstv. ráðh., hvort hann getur nokkuð lækkað kostnað við þessa stofnun, og það er aðkallandi, ef hún á ekki að verða byrði fyrir ríkissjóð.

Þá er gert ráð fyrir, að nýbyggingarráð standi undir sér, en gjaldaupphæðin færð nokkuð niður hjá báðum þessum n. í samræmi við launal., eins og þau eru nú. Fjvn. lítur svo á, að henni beri ekki að leggja til, að önnur og meiri laun séu greidd til stofnana, sem standa fyrir utan fjárl., en eru reknar sem nokkurs konar sjálfstæðar stofnanir, heldur beri sem mest að halda sér við sambærileg laun samkv. launal.

Þá hefur n. líka talið rétt, að búnaðarráð yrði sett hér undir þennan kafla, og er kostnaður við það talinn 165 þús. kr., eins og sést á brtt. Er það nokkuð hærra en kjötverðlagsn. kostaði á síðasta ári. Það mun hafa kostað frá 15. ágúst til 15. ágúst 100 þús. kr., og auk þess eru aðrir kostnaðarliðir eins og kartöflumat o. fl., og er lagt til samkv. till. frá búnaðarráði, að þessi upphæð sé tekin upp.

Þá eru þrjár n., sem ekki hafa verið teknar upp í frv., en hefðu átt að vera þar. N. hefur fengið upplýsingar um, að samningan. utanríkisviðskipta hafi tekið ½ af út- og innfluttum vörum. En þessar upphæðir hafa ekki verið teknar inn á frumvarpið.

Þá leggur n. til, að kostnaður við húsaleigu sé færður nokkuð niður. Það er gert ráð fyrir, að hann sé 120 þús. kr. í frv., en n. færir hann niður í 80 þús. kr., í fyrsta lagi vegna þess, að þetta ætti raunverulega að greiðast mest af sjálfum sveitar- og bæjarstjórnarsjóðunum, en hérna í aths. frá ráðuneytinu stendur, að þessi l. séu svo af handahófi, að full ástæða sé til að samræma þau. N. hefur athugað, að hér á einum stað hefur þessi kostnaður orðið rúml. 6 þús. kr., og hafa þó ekki verið haldnir þar nema 6 fundir og 9 mál afgreidd. Telur n., að ekki sé ástæða til að samþ. eitt þús. kr. fyrir einn fund. Þetta er nefnt sem dæmi. Hins vegar er þetta verkefni til athugunar fyrir hæstv. félmrh. í framkvæmd.

Þá leggur n. einnig til, að gerð sé nokkur niðurfærsla á kostnaði við l. um tollgæzlu í Reykjavík. Þar leggur hún til, að lækkaður sé annar skatturinn úr 140 þús. niður í 100 þús. kr. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra er aukaaðstoð reiknuð 56 þús. kr., og kemur það fram í bréfinu, að þetta sé gert vegna aukavinnu. En fjvn. skilur þannig ákvæði launalaganna, að aukavinnu fyrir starf, sem greidd eru full laun fyrir, eigi ekki að greiða. Auk þess hefur tollstjóri sjálfur ekki áætlað þessa upphæð nema 124 þús. kr., svo að n. finnst, að færa megi þessa upphæð niður um 40 þús. krónur. Ég vil benda á, að hér er einnig önnur aukavinna við tollgæzluna og fatnaður tollvarða 53 þús. krónur. N. fær ekki skilið, að það sé rétt að greiða hverjum tollþjóni 2 þús. kr. í fatakostnað, en það er hér um bil sú upphæð, sem áætluð er hjá tollstjóra. Þetta hefur verið ákveðið á þeim tíma, þegar þessir menn voru illa launaðir og þurfti þar af leiðandi að veita þeim alls konar uppbætur. En það furðulega hefur skeð í flestum tilfellum, þar sem svona hefur staðið á, að fyrst hafa launin verið hækkuð, síðan öllum uppbótum verið haldið, sem fyrir voru, ekki aðeins eins og þær voru, heldur bætt ofan á þær uppbótum, sem fengizt hafa á aðallaunin. Þetta telur n., að þurfi að athuga vel bæði hér og annars staðar, og þetta hefur aldrei verið meining launalaganna.

Þá leggur n. til viðvíkjandi ríkisskattanefnd, að þar séu launin færð niður um rúml. 13 þús. krónur. Þetta er sumpart vegna þess, að skv. launalista þeim, sem borizt hefur, þá eru settir í fasteignanefnd tveir fastir skrifstofustjórar. Auk þess er varaformanni greidd þó nokkur upphæð til þess að taka sæti, þegar formaður verður að vera frá, án þess að formaður verði þó að greiða varaformanni. Skal þó tekið fram, að formaður hefur ekki hærri laun en hinir nefndarmennirnir. Þessi maður er hjá ríkinu, en n. hefur talið rétt, að þetta verði fært til samræmis, og leggur til, að þessi upphæð verði lækkuð um rúmar 13 þús. krónur. Skal ég láta þess getið, að í sambandi við þetta mál komu fram raddir um það í n., að það þætti ekki rétt að ganga svo nærri stofnunum, að þær hefðu ekki fulla starfskrafta, þannig að þetta var ekki afgr. ágreiningslaust. En meiri hl. lítur svo á, að hann hafi fært full rök fyrir máli sínu, að þetta megi færa til betri vegar, án þess að skerða skattaeftirlit eða tollaeftirlit í landinu.

Í 12. gr. gerir n. till. um, að landlæknisembættið sé hækkað í launum. Þetta er gert vegna þess, að fallið hefur niður að taka upp skrifstofumann landlæknis. Hefur það fallið niður hjá fjmrn. af vangá og leiðréttist hér með.

Þá er það viðvíkjandi launum héraðslækna. N. hefur að vísu ekki lagt til, að þau laun verði lækkuð, en hún vill þó benda á, að það kemur greinilega fram í áætlun frá landlækni, að m. a. hefur einn héraðslæknir nú yfir 50 þús. kr. tekjur. Gegnir hann embætti sínu með fullum launum, en auk þess hefur hann tvö héruð, ½ laun frá hvoru héraði, en þessi tvö héruð, þar sem hann gegndi aukavinnu, voru miklu hærra launuð en önnur héruð, með það fyrir augum að geta fengið þangað lækna. N. lítur svo á, að hafa beri á þessu aðra skipun en hér er gert, þá að hún hafi ekki viljað færa þau niður. Ég álít, að þetta sé til athugunar fyrir hæstv. félmrh.

Þá er það viðvíkjandi landsspítalanum. Þar eru gerðar nokkrar breyt., fyrst til samræmis, leiðrétting. Það hefur fallið niður af vangá að reikna laun Gunnlaugs Claessens. Honum eru ekki reiknuð laun sem prófessor við háskólann, svo að það ber að hækka báða liðina vegna þess. Hins vegar er annar kostnaður hækkaður um 90 þús. vegna kjötverðs í landinu, þar sem spítalastjórnin taldi, að hún hefði ekki fengið uppbætur á kjöt, sem hún yrði að kaupa, svo að hún yrði að reikna annan kostnað 90 þús. kr. hærra. Sama er að segja um spítalann á Kleppi. Þar verður þessi liður að hækka um 114 þús. kr. og á Vífilsstöðum um 100 þús. krónur. En þetta er náttúrlega úr einum vasanum í annan, og getur verið um það samkomulag milli ráðuneytanna, hvernig þau fara með þetta atriði.

Hér er svo einn liður í frv., sem ég hefði gjarnan viljað ræða við hæstv. félmrh. Það er um upptökuheimili í Elliðavogi. Að vísu hefur fjvn. ekki gert neinar sérstakar tillögur um þetta atriði, en hún vill benda á, að þetta hæli er ekki rekið samkv. lögum. En landlæknir hefur þó upplýst, að hann hefur verið beðinn að hafa bókhald fyrir það. (Félmrh.: Þetta heyrir ekki undir mig.) Ég veit ekki, hvort það er eftir ósk félmrh., en því meiri ástæða er til að taka þetta til athugunar, ef ekkert ráðuneytið vill kannast við þennan lið. Þetta er sérstakur liður, sem ekki er skv. lögum, og þó að hann sé ekki stór enn sem komið er, getur hann orðið 300 þús. kr. áður en varir, og því sjálfsagt að leita lagaheimildar um þetta.

Þá hefur n. þótt rétt að taka hér inn nýjan lið, heilsuhæli í Kaldaðarnesi. Liggja fyrir því l., að það skuli rekið á kostnað ríkisins. Þetta er um 25 þús. kr.

Þá er styrkur til byggingar fjórðungssjúkrahúss á Akureyri. Er það raunverulega ekki annað en endurveiting. Spítalinn mun nú eiga inni hjá ríkissjóði um 300 þús. krónur og hefur þá um 600 þús. kr. til að byrja með, en talið er, að sú bygging muni kosta um 5 millj. króna. Skv. viðræðu við félmrh. taldi hann, að þetta mundi vera nægilegt á þessu ári, því að verkið mundi ekki ganga hraðar en það. Ég vil geta þess, að það liggur fyrir frá landlækni bréf um það, hvaða sjúkrahús eru í byggingu. Fjvn. taldi ekki ástæðu til að taka þessa skiptingu upp í frv., en, það kann vel að vera, að hún athugi þetta nánar fyrir 3. umr. og geri kannske um það einhverja sundurliðun, en þá held ég eftir því, sem landlæknir hefur upplýst, að það sé erfitt að gera það, vegna þess að það verður að greiða fyrst til þeirra, sem fyrst byggja og eiga inni upphæð hjá ríkissjóði.

Þá er komið að þeim málum, sem mestur styrr stendur vanalega um, 13. gr., sem er um vegi og brýr. Hækkunartill. fjvn. er rúmlega 2 millj. frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. Þegar farið var að athuga þessi mál, þótti sýnt, að erfitt mundi að uppfylla óskir ríkisstj. um það að láta ákveðna aðalvegi gleypa svo að segja allt framlagið í frv. og hækka ekki neitt til annarra vega. Samgmrh. hélt mjög fast við það, að fé væri enn veitt til þess að geta lokið við Siglufjarðarskarð, Sogsskarð og Lágheiðarveg í Ólafsfirði. Þá vildi hann einnig, að veruleg upphæð yrði látin í Selvogsveg, en allir þessir vegir höfðu fengið mjög ríflega fjárhæð á síðasta þingi. Skipti á þeim 7 millj. kr., sem fjvn. leggur til, að sé úthlutað, eftir því sem kemur fram í till. hér, hafa nú farið fram og eru mjög nálægt till. vegamálastjóra. Hans till. hafa flestar verið teknar til greina. N. lítur svo á, að ekki sé hægt að skera niður vegi um hinar dreifðu byggðir, því að mikil hætta er á, að þá yrðu að engu vonir þeirra manna, sem þar standa í lífsbaráttunni, um að geta komizt úr þeirri einangrun, sem þeir nú eru í, ef skorin eru niður framlög til þeirra vega, sem voru komnir á fjárlög. Auk þess er þess ekki síður þörf, að þessir menn geti komið til sín nýtízku tækjum, traktorum, plógum og öðrum vélum. Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að minna á, að jafnvel í hinni blómlegu byggð Borgarfirði er ekki hægt að flytja slíkar vélar yfir Hvítá. Ber brýna nauðsyn til að leggja stórfé til þess að byggja brú yfir þessa á, færa öllum vinnuvélum fyrir bændur, sem þar búa. En sé þetta viðurkennt, þá er ekki hægt að neita hinu, að þeir menn, sem fjær búa og erfiðara eiga um allar samgöngur, hafa enn brýnni þörf fyrir vegi og brýr. Eigi að skera þessi framlög niður, þá verða menn að gera það upp við sig, hvort á að flytja þetta fólk í burtu, hætta að brúa ár, leggja síma og hætta að veita þeim jarðræktarstyrki, því að allt fer þetta saman. Ef meiri hl. þingsins telur rétt, að hafizt sé handa um það að gera þetta, skera þetta allt niður, þá fellir það till. um aukið fé til veganna: En sé það á annarri skoðun, verða þessar till. samþ., því að þær eru byggðar á brýnni þörf og til þess að halda við vonum þessara manna um, að bætt verði úr þessum erfiðleikum.

Vegamálastjóri hefur óskað eftir því við fjvn. að fá viðhaldsfé hækkað um 1 millj. króna. Það er nú þegar á 8. millj. króna í ár, og óskar hann eftir að fá þessa viðbót sérstaklega til að geta byggt upp veginn við Flóann, þar sem hann telur, að nú þurfi að fara fram stór viðgerð vegna hinna þungu bíla, sem fara um veginn. N. vildi ekki verða við þessum tilmælum. Hún leit svo á, að þar sem vegamálastjóri hefur fengið töluvert fé til kaupa á vélum til vegagerðar, verði það að koma fram í viðhaldi veganna, og ætti þá að vera hægt að halda vegunum betur við fyrir sama fé, eftir að hann hefur fengið vélar í stað handverkfæra. Sáum við því ekki ástæðu til að hækka þetta framlag úr þeim 8 millj. kr., sem ákveðið er í frumv. Vegamálastjóri hefur sett inn í sína vegatillögu, að 20 þús. kr. skyldu lagðar til Geiradalsvegar, en n. leit svo á, að þessi upphæð gæti fallið niður og honum bæri áð halda þessum vegi við.

Að því er brýrnar snertir, þá hefur lítil hækkun verið gerð á þeim lið frá því, sem er í frumv., framlög til þeirra aðeins hækkað um 120 þús. krónur. Um þetta atriði var mjög rætt í fjvn. Lágu fyrir alls staðar að beiðnir um nýjar brýr, og vildi n. allt gera til þess að verða við þeim tilmælum, ef mögulegt væri. Í fyrri gildandi fjárl. voru veittar 1.8 millj. kr. til brúa á landinu, en þar af fór 1 millj. til Ölfusárbrúarinnar. Nú hefur n. lagt til, að veittar verði kr. 1.620 þús. og þar af fari kr. 500 þús. til Ölfusárbrúarinnar.

Þá hefur ekki verið tekið upp hér framlag til nýrrar akbrautar um Þrengslin. Eins og þm. er kunnugt, hefur verið lagt fram álit mþn. um þetta atriði. Þetta kom svo seint, að n. hafði ekki tíma til að ræða það sérstaklega, því að á síðustu stundu kom beiðni frá viðkomandi þm., Árnesinga og Rangæinga. Ég vil aðeins benda á það, hvort hægt sé að taka upp nær 4 millj. kr. fjárveitingu til þessa vegar, eins og farið er fram á, meðan vegurinn er ekki kominn í þjóðvegatölu, en það mun þessi vegur ekki vera. Veginn yfir Hellisheiði ætti þá að leggja niður og enn fremur Selvogsveginn, en þeir eru báðir í þjóðvegatölu, en ég minnist þess ekki, að vegurinn um Þrengslin sé í þjóðvegatölu. 22 millj. kr. eru ætlaðar til þjóðvega. Hvort mun þá ekki nauðsyn fyrir þá, sem ætla að tryggja fjárframlög til hans á næstu árum, að fá því kippt í lag með því að hann verði tekinn í þjóðvegatölu? Ég vil aðeins skjóta þessu fram til athugunar. — Áður en ég skil við vegamálin, vil ég benda á það, að n. gerir till. um, að tillag til Selvogsvegar verði fært úr 750 þús. kr. niður í 600 þús. með tilliti til þess að geta veitt meira fé til hinna dreifðu byggða, enda er búið að veita mikið fé til hans áður. Svo er enn annað nýmæli í vegatill. Er það till. fjvn. um sérstaka vegi, og er það nýr liður b. Þar eru veittar 575 þús. kr. til endurgreiðslu á framlagi 1945. Stendur þannig á, að unnið hefur verið á þessu ári fyrir þetta fé fram yfir þau fjárframlög, sem ákveðin voru í síðustu fjárlögum. Mest eða allt af þessu fé hefur verið lánað úr héruðunum, svo að hægt væri að flýta vegagerðinni. Er þetta fé nú veitt til að greiða þau lán aftur, en við skiptingu vegafjárins er fullt tillit tekið til þess, að þau hefðu ekki fengið stærri skerf en þau hefðu fengið, þó að þetta hefði ekki verið unnið í sumar. Ég veit, að sumir eru óánægðir með þessa aðferð, en talið hitt réttlætismál, að veita 600 þús. kr. ofan á framlögin, heldur en að láta það koma niður á þeim á þessu ári. Þegar þetta er lagt saman við upphæðina undir a-lið, þá munu menn sjá, að þeir hafa fengið hlutfallslega hið sama fjárframlag og þeir, sem ekki fengu aukaframlag á þessu ári, annaðhvort að láni eða úr ríkissjóði. Það hefur verið fylgt í öllu till. vegamálastjóra um skiptingu brúa- og vegafjárins, nema hvað lagt er til, að framlag til brúar á Laxá í Lóni verði 20 þús. kr. hærra en til brúar á Holtakíl á Mýrum. Er það gert eftir samkomulagi við viðkomandi aðila. — Um till. til ræktunarvega er það að segja, að til þeirra hefur framlag ekki verið hækkað, svo að þetta er bara sundurliðun, eins og það hefur áður verið í fjárlögum.

Næst er gistingastyrkur. Það er lagt til að færa hann úr 211 þús. niður í 111 þús. Í yfirstandandi fjárl. er hann 11 þús. kr. Vegamálastjóri hafði lagt til að hækka hann um 200 þús. kr. með tilliti til þess sérstaklega að koma upp byggingu gistihúss í Fornahvammi. Það er ekki svo aðkallandi, að það þyrfti að láta meira en 100 þús. kr., auk þess, sem þetta ætti að fara í 20. gr. fjárl., því að þar átti það heima. Þó varð samkomulag um 111 þús. kr. fjárveitingu.

Um strandferðir ríkissjóðs hefur n. ekki séð sér fært annað en áætla 500 þús. kr. hærri upphæð en í frv. er gert ráð fyrir. Þó er það engan veginn það, sem Skipaútgerð ríkisins fer fram á, þó að dregin væri frá 300 þús. kr. upphæð vegna rekstrar Þórs. — Í sambandi við þetta vil ég persónulega benda hæstv. samgmrh. og eins hæstv. fjmrh. á, hvort ekki sé tímabært að láta ekki einn mann fara með öll þessi fjármál eftirlitslaust. Ég hygg, að í einkarekstri mundi það ekki finnast, að einum manni væri falið að fara með, ekki einasta um 3 millj. kr. rekstur, heldur og 7 millj. kr. nýja eign, þar sem ætlað er að kaupa strandferðaskip án þess að geta rætt við menn, sem bera fullkomna ábyrgð með honum. Ég tel mjög tímabært, að hér verði sett upp sérstök stjórn, sem réði með forstjóranum, og mætti þá svo fara, að slíkt óhapp kæmi ekki fyrir aftur, eins og þegar hefur komið fyrir með kaupin á strandferðabátunum. Þetta ætti að vera til athugunar fyrir ráðuneytið.

N. hefur lagt til, að styrkur til Eimskipafél. Íslands h/f falli niður. Þetta er ekki gert af neinni andúð á Eimskipafélaginu. Það kom berlega fram í n., að hér er orðin margháttuð breyting frá því, að styrkur var tekinn upp til handa félaginu. Félagið siglir eftir áætlun, og ef þörf er á að styrkja strandferðir, þá þarf áreiðanlega meiri styrk en hér er settur fram, og þótti því rétt að taka hann út, þar til málum er öðruvísi háttað.

Til flóabáta hefur fjvn. tekið upp till. samvn. samgm. Vil ég þakka n. fyrir að hafa getað skilað svo fljótt till. sínum. Hef ég ekkert við þær að athuga. Frsm. þeirrar n. mun síðar gera grein fyrir þeim í þessum umr., en till. eru óbreyttar í till. fjvn.

Þá eru það vita- og hafnarmál. Þetta er ein af þeim till., sem mest hækka fjárlögin. Kemur það til af tvennu: fyrst og fremst af því, að það verður sérstaklega að gera ráðstafanir til að taka á móti þeim stóra skipaflota, sem væntanlega kemur á árunum 1946 og 1947. Það verður að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að flotinn geti hafnað sig við beztu veiðistöðvar landsins og notið beztu vertíðar á hverjum stað, sem unnt er. Við höfum mjög mikið rætt þessi mál við hæstv. samgmrh. og við vitamálastjóra, og till. þær, sem n. ber fram, eru gerðar að mjög miklu eða mestu leyti í samráði við hæstv. samgmrh. Hann hefur einnig séð þessa þörf og fallizt á, að það megi ekki slaka neitt til á þessu, svo að þessu marki verði náð. Í öðru lagi er það vitað að þegar er búið að vinna svo mikið að hafnarframkvæmdum í landinu, að ríkissjóður skuldar meira til þessara framkvæmda en þá upphæð, sem fyrst var gert ráð fyrir í frv., svo að ef sú upphæð hefði ekki verið hækkuð, þá hefði hún ekki einu sinni dugað til að greiða þær skuldir, sem ríkissjóður var þannig kominn í og honum ber skylda til að greiða, ekki aðeins lagalega, heldur líka siðferðislega. Það er lagt til, að þessu fé verði skipt á milli þeirra hafna, sem getið er um í brtt. á þskj. 308, en það verða 4 millj. 141 þús. kr., í stað 2 millj., eins og það var upphaflega ákveðið í frv. En með því að þessi upphæð er ekki nægileg til að uppfylla allar þarfir, sem fyrir lágu, gerir n. ráð fyrir því, að það verði að veita ríkisstj. heimild til lántöku, allt að 2 millj. kr., til að bæta úr þessum sérstöku vandkvæðum vegna fiskiflotans, og enn fremur, að hæstv. samgmrh. fái 1 millj. kr. í hafnarbótasjóð: Er þá gert ráð fyrir, að rúmum 7 millj. kr. verði varið til þessara framkvæmda, en það eru þær kröfur og óskir, sem komu til n. um, að veitt verði á þessu ári. N. hefur aðeins skipt þessum 4 millj., en hins vegar lagt til, hvernig skuli skipta hinum 3 millj. kr., og sést það í nál. á bls. 4. Það er á Akranesi, allt að 700 þús. kr. Húsavík 400 þús. kr. Á Akranesi er þannig ástatt, að búið er að láta vinna fyrir allt það fé, sem fengizt hefur, og á það nú inni hjá ríkissjóði um 400 þús. kr. Þar verður því unnið fyrir 300 þús. kr. úr hafnarbótasjóði á næsta ári, auk þess sem veitt verður í fjárlögum. Hér er um að ræða nær 3 millj. kr., sem unnið verður fyrir á næsta ári, sérstaklega til þess að geta tekið á móti mótorbátaflotanum við Faxaflóa, sem kemur frá Svíþjóð. — Til Húsavíkur er lagt til, að aðeins verði veittar 200 þús. kr. í fjárl., en þar liggur fyrir að gera mannvirki, sem kosta mun 800 þús. kr., og verður að gera það á næsta ári. Hins vegar er lagt til, að Húsavík fái úr hafnarbótasjóði 400 þús. kr. — Í Hornafirði eru fyrirhugaðar stórframkvæmdir. Gert er ráð fyrir, að úr hafnarbótasjóði verði veittar 300 þús. kr. þangað. — Til Sandgerðis verða veittar 100 þús. kr. í fjárl., en þarna eru miklar framkvæmdir fyrir hendi; og þannig liggur sú höfn við, að hægt er að bæta eitthvað skilyrðin. Er þaðan stytzt á miðin frá verstöðvunum við Faxaflóa. Lagt er til, að úr hafnarbótasjóði verði veitt til viðbótar þessum 100 þús. kr. 300 þús. kr. til Sandgerðis: Það skal tekið fram í sambandi við þetta, að lögð hefur verið mjög mikil áherzla á það í fjvn., að gerð verði gangskör að því mjög bráðlega að kaupa upp eða fá samkomulag um þau mannvirki, sem þegar eru í Sandgerði, svo að það þurfi ekki að tefja fyrir þessum framkvæmdum, því að hreppurinn á ekkert í þessum byggingum, heldur einstaklingar. Ég held, að það ætti ekki að verða erfiðleikum bundið að fá um það samkomulag, því að þeir menn, sem þessar eignir eiga, mundu hafa stórkostlegan hag af, að gerðar verði þær hafnarbætur, sem ætlazt er til, að verði í næstu framtíð. — Þá er gert ráð fyrir, að landshöfn í Njarðvík, ef að l. verður það frv., sem fyrir liggur, fái um 700 þús. kr., en önnur aðkallandi hafnarmannvirki fá eftirstöðvarnar,. sem eru 600 þús. kr., eftir því sem nauðsynlegt þykir. Þá hef ég talið upp þær 3 millj., sem ég hef minnzt á. Ég veit, að þetta er stórkostleg blóðtaka fyrir ríkissjóðinn, en eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, þá verður að meta það, hvort fé, sem þannig er veitt, gefur aftur af sér tekjur í ríkissjóð eða hvort krónan sé þannig glötuð. Og ég er í engum vafa um það, að þessi fjárhæð ekki einasta gefi af sér fé inn í ríkissjóðinn, heldur er hún undirstaðan undir því, að ríkissjóður geti haft tekjur í framtíðinni til þess að hægt verði að koma upp nýjum framkvæmdum fyrir þessar upphæðir.

Það lá fyrir n. stórkostleg fjárbeiðni til Þorlákshafnar. Það er hugsað að gera þar mikil mannvirki í framtíðinni og það jafnvel í næstu framtíð. N. sá sér ekki fært að taka upp hærri upphæð í því skyni en 50 þús. kr., sumpart vegna þess, að í Þorlákshöfn er svo ástatt, að búið er að eyða í kringum 100 þús. kr. án þess að séð verði, að byrjað sé þar á nauðsynlegum mannvirkjum. Og til þess að vit sé í að byrja þar á nokkrum framkvæmdum, þarf að byrja á því að eyða þessu fé til áhaldakaupa. Það er ekkert fé veitt til Þorlákshafnar umfram það, sem ég hef áður getið um, þessar 50 þús. kr., en hins vegar mun hún náttúrlega fá sinn skerf, sem henni ber, ef eitthvað verður til í þeim sjóði, sem ég minntist á áðan, þegar hafizt verður handa um framkvæmdir. Öll þessi mál höfum við rætt við hæstv. samgmrh., áður en gengið var frá þeim. — Þá leggur n. einnig til, að tillagið til hafnarbótasjóðs sé hækkað úr 300 þús. í 800 þús. kr. og að ríkissjóður greiði hafnarbótasjóði 1/3 þeirra framlaga, sem þannig eru notuð á hverju ári. Hækkunin til hafnarbótasjóðs, sem er 500 þús. kr., er endurgreiðsla ríkissjóðs skv. l. Hafnarbótasjóður hefur þannig lánað á þessu ári 1 millj. 490 þús., kr. til hafnarmannvirkja á landinu, svo að ríkissjóður er skuldbundinn til að greiða honum 500 þús. kr. á þessu ári, enda reiknað með því, að sú upphæð komi inn, áður en hann getur lánað þá millj., sem ég gat um áðan.

Þá skal ég minnast lítils háttar á flugmálin. N. leggur til, að upphæðin til flugvallagerðar víðs vegar um landið hækki úr 450 þús. kr. í 600 þús. kr. En ég vil í sambandi við það beina því til hæstv. ráðh., sem með þessi mál hefur að gera, að bráðnauðsynlegt er að gera samninga um flugvelli og lendingarstöðvar, áður en hafizt er handa um framkvæmdir. Eftir upplýsingum, sem fyrir n. liggja, verður að greiða fyrir land á Egilsstöðum eftir mati. N. lítur svo á, að þetta ætti að vera svo mikið hagsmunamál hjá hverju héraði að fá þannig flugsamgöngur, að menn ættu ekki að nota sér það eitt til að hækka stórkostlega jarðir sínar, einungis vegna þess, að ríkissjóður ætlar að eyða fé í það að setja upp flugvelli. Það er nauðsynlegt, að annaðhvort verði komið á samningum um það eða lagaákvæði verði sett um það, að menn geti ekki á þennan hátt fengið stórar fjárhæðir fyrir aðgerðir ríkissjóðs. N. hefur lagt til, að laun flugmálastjóra og annars starfsliðs séu lækkuð nokkuð frá því, sem gert er ráð fyrir í áætluninni. Þetta embætti er ekki launað skv. launalögum, enda hefur ráðuneytið skrifað hér launin eftir reikningum embættisins. Og þó að ráðuneytið taki niðurstöðutölur þessa reiknings inn í fjárlfrv., samþ. það ekki laun starfsmannanna, og sýnir það, að þeim sjálfum hefur fundizt þetta athugavert. Þetta ætti að vera fært í sérstakan launaflokk, og er það til athugunar hjá viðkomandi ráðuneyti.

Þá er komið að 14. gr. Það er lagt til, að 500 þús. kr. verði varið til húsabóta á prestssetrum. Þessi liður er felldur niður, en hins vegar er hann færður á 20 gr. Þetta eru eignir, sem ríkissjóður á og hefur tekjur af, a. m. k. að einhverju leyti, og n. áleit, að þetta ætti þarna heima.

Ég sé ekki ástæðu til að fara hér út í neina smáliði til að þreyta hv. þm., en vil dvelja nokkuð við menntaskóla og skóla almennt. Ég hygg, að langmestur hlutinn af þeim kostnaði, sem hefur orðið af launalögunum, sem afgr. voru á síðasta þingi, sé kostnaður við fræðsluna í landinu. Í dag greiðir ríkissjóður sem sé kennurum rúma millj. í grunnlaun, prestum 500 þús. kr., en kennarar og andlega stéttin öll fá nær 2 millj. kr. í grunnlaun. En allur kostnaður við fræðslumálin verður um 7 millj. kr. úr ríkissjóði á næsta ári. Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að stundakennsla í skólum virðist vera svo stór liður í kostnaðinum, að ég tel það fyllilega þeirrar athygli vert, að það væri tekið til sérstakrar athugunar. Við höfum fengið gögn í hendur frá ráðuneytinu, sem sýna t. d., að menn hafa skyldustundir frá 8 klst. á viku hverri, sem er tæpur ½ tími á dag, og allt upp í 24 stundir, og sömu kennarar hafa kennt frá 13 og upp í 38 st. við sama skóla og bera úr býtum fyrir 5–18 klst. 22–23 kr. um tímann. Þetta stafar mest af því, að þessi skipun hefur komizt á þessi mál, þegar þessir menn voru illa launaðir og þurftu að bæta sér það upp. Nú hefur verið gerður á þessu nokkur útreikningur, og kemur þá í ljós m. a., að einn kennari hefur upp undir 50 þús. kr. tekjur, eða nánar sagt 48 þús. kr., að vísu 6 þús. og 800 kr. frá háskólanum. En svo hafði hann ekki einasta tíma til að stunda kennslu við sinn skóla, heldur einnig við aðalmenntastofnunina. Ég veit ekki, hvort þarf að gera lagabreytingu í þessu sambandi, en það þarf að gera einhverja breytingu á þessum málum. Það er ekki ætlazt til þess, að þessir menn svelti í framtíðinni, en það er ekki heldur ætlazt til þess með hinum nýju launalögum að skapa þeim svona stóran skerf úr ríkissjóði. Og er þetta til athugunar fyrir hæstv. menntmrh. — N. leggur til, að færð sé niður að verulegu leyti stundakennsla, ekki aðeins við menntaskólana, heldur að það gangi jafnt yfir alla skóla landsins, og vonast ég til þess, að þessu verði kippt í lag þegar á næsta ári. Hún hefur einnig lagt til að fella niður sérstaka liði fyrir skólastjórana, bæði í Reykjavík og á Akureyri, þá liði, sem á sínum tíma voru settir til þess að bæta mönnum það upp, sem var illa launað. Nú hafa þeir með launalögunum fengið 4 þús. kr. á ári í laun og yfirkennari við sömu stofnun dálítið minna, en eiga þá ekki að halda skólastjórnarlaunum sinum sérstaklega. Lögin sýna ekki hlutfallslega eins mikla hækkun á þessu sviði og þau hafa hækkað á öðrum sviðum.

Um háskólann er það að segja, að þar gerir n. till. um, að liðurinn: „ýmis gjöld“, sem er í frv. 85 þús. kr., verði færður niður í 75 þús. kr., vegna þess að hún hefur séð af gögnum, sem hún hefur fengið, að 25 þús. kr. hafa verið veittar í próf og tveir menn, sem annars sitja á launum, og annar þeirra sinnir alls ekki störfum, hafa fengið sínar 5 þús. kr. hvor fyrir að sitja þar í prófum. N. telur ástæðu til að lækka þennan kostnað og leggur til að færa hann niður um 10 þús. kr., og er þeim jafnað niður á þá liði skólans, sem við eiga.

Um Vélstjóraskólann hefur n. tekið upp till. um að hækka framlag til áhaldakaupa úr 10 þús. kr. í 50 þús. kr. Það ber brýna nauðsyn til þess, að við þá kennslu, sem þar fer fram, séu notuð nýtízku áhöld, ekki sízt þegar við erum að flytja inn nýtízku vélar, og væntum við, að Alþ. samþ. þessa till.

Viðvíkjandi bændaskólanum á Hólum eru þær lækkanir, sem gerðar eru, til samræmis við aðra skóla, en n. vill benda á, að einnig hér er greitt ofan á full laun skólastjóra kaup fyrir bústjórn til sama manns, og hvort ekki sé hér um sama að ræða og áður var gert, meðan laun hans voru lág, og verið á þann hátt að bæta honum þau upp, en eigi fallið niður, eftir að launin voru hækkuð. Við þessu hefði kannske ekki verið neitt að segja, ef rekstrarreikningur búsins sýndi ekki, að tap á því hefur verið um 20 þús. kr. Það væri meiri ástæða til að halda þessu, ef búið hefði sýnt afgang, en það er síður en að svo sé. — Sama er að segja um garðyrkjuskólann í Hveragerði. Þar hefur n. lagt til að lækka um 9 þús. kr. kostnaðinn við skólann, því að n. telur, að mikinn hluta af kostnaðinum ætti búið eða garðyrkjan að geta borið uppi, en hún stendur vitanlega í nánasta sambandi við hann, og þar sem kunnugt er, að blómarækt með viðskiptum við Reykjavík gefur þeim atvinnuvegi stórkostlegan gróða, getur n. ekki álitið annað en að tengja megi þetta saman, svo að ræktunin sjálf og blómaviðskiptin gætu borið uppi kostnaðinn við skólann. Hins vegar er till. n. um niðurfærslu ekki eingöngu byggð á þessu, að kostnaðurinn sé frekari við þennan skóla en aðra skóla.

N. hefur lagt til, að tekinn yrði upp nýr liður til kvennaskólans í Reykjavík, til íþróttahúss, 50 þús. kr. Einnig hefur n. tekið upp og lagt til, að hækkaður yrði styrkur á öðrum sviðum til kvenþjóðarinnar, og er þetta gert alveg sérstaklega, fyrir utan að þörf er á því, af n. sem viðurkenning fyrir það óhemju starf, sem kvenþjóðin hefur lagt til líknarmálanna í landinu. Hún hefur m. a., eins og kunnugt er, safnað öllu fé til landsspítalans, er að safna til barnaspítala, og n. telur rétt að viðurkenna þessi störf og álítur miður farið, að dregið sé úr því, að þessir starfskraftar séu framvegis fyrir hendi.

Til byggingar barnaskóla leggur n. til, að upphæðin hækki úr 1200 þús. kr. í 1700 þús. Það lágu fyrir listar frá fræðslumálastjóra, þar sem hann skýrir n. frá, að það sé svo mikil þörf á nýjum barnaskólum úti um landið, að þessi upphæð nægi ekki til þess að fullnægja þörfinni og taldi sig þurfa miklu meira fé til þess, en þó varð samkomulag um, að þessi upphæð yrði sett inn. Hvernig þessu verður skipt, get ég ekki sagt, en ef til vill tekur n. það til athugunar fyrir 3. umr. í samráði við fræðslumálastjóra. Þá er hér til héraðsskólanna, viðbótarstyrkur vegna launahækkunar 311,255 kr. Þessi upphæð hefur verið reiknuð út af fræðslumálastjóra og n. hefur lagt til, að það yrði tekið upp vegna þeirrar þál., sem kom fram hér í fyrra út af þessu máli. Stofnkostnaður héraðsskólanna er hækkaður úr 800 þús. í 1300 þús. kr. Þörfin fyrir þessa hækkun er svo mikil, að þessar 800 þús. munu ekki nægja til þess að skipta þeirri upphæð svo, að allir verði nokkurn veginn ánægðir, en einnig skiptingin á þessu verður athuguð nánar til 3. umr. — Svo er til gagnfræðaskóla gert ráð fyrir að taka upp 220 þús. kr. viðbótarstyrk. Er það einnig launahækkun vegna launal. á sama hátt og til héraðsskólanna. Það er ekki búið enn þá að reikna út, hve miklu hækkunin nemur vegna húsmæðraskóla í sveitum, og n. hefur ekki getað fengið þá upphæð, en mun athuga það mál fyrir 3. umr. og gera till. um, að það verði sett inn í fjárlfrv. — Þá þótti rétt að gera till. um að hækka framlag til gagnfræðaskóla Reykvíkinga, úr 25 þús. í 100 þús. Skóli þessi er rekinn mest af Reykjavíkurbæ, og ef hann væri rekinn af ríkinu á sama hátt, þá mundi þessi upphæð vera, miklu hærri, en að sjálfsögðu dregur að því, að hann verði tekinn undir sömu ákvæði og aðrir gagnfræðaskólar í landinu. Þá hefur verið, hækkaður byggingarstyrkur til húsmæðraskóla, í kaupstöðum úr 500 þús. í 700 þús. Skiptingin verður einnig gerð í samráði við fræðslumálastjóra. — Til byggingar húsmæðraskóla í sveitum fyrir 500 þús. kemur 600 þús. — Þá er tekinn upp 20 þús. kr. byggingarstyrkur til Árnýjar Filippusdóttur vegna þeirra framkvæmda, sem hún hefur gert upp á eigin spýtur við húsmæðraskólann í Hveragerði. — Ég tel svo ekki ástæðu til að fara út í smærri atriði, en vildi aðeins minnast hér á, að í 14. gr. frv. er lagt til, að niður verði felldur liður til Matthíasar Jónassonar vegna rannsókna á þroska íslenzkra skólabarna. N. lítur svo á, að fyrir þessu séu ekki lög og telur, að það þurfi. lagafyrirmæli um þetta atriði, en ef eigi að halda þessu áfram, gæti það heyrt undir barnavernd. En þetta hefur n. hugsað sér að taka upp nánar til athugunar fyrir 3. umr. og sjá, hvort hægt er að setja þetta undir eitthvert annað form.

Þá hefur verið lagt til, að lækkuð yrðu laun við Þjóðminjasafnið vegna sérstaks manns, sem þangað hefur verið tekinn, en horfinn er frá því nú, það er séra Jóns Auðuns, og hefur ekki þótt þörf á að bæta þangað aftur manni. Þá hefur Náttúrufræðifélagið verið lækkað í sömu upphæð og er í núgildandi fjárl., með því að það sýnir sig á reikningum frá félaginu, að það er ekki þörf á að hækka þennan styrk frá því, sem er, auk þess sem það kemur skýrt fram þar, að þeir menn, sem starfa að þessu, eru einnig starfsmenn ríkisins á öðrum sviðum og mjög hátt launaðir þar. — N. hefur ekki séð sér fært að mæla með því, að liðurinn til ætt- og mannfræðifélagsins væri samþ., heldur leggur til, að hann verði felldur niður.

Svo er hér einn liður á 15. gr., sem urðu mjög miklar umr. um í n., og sé ég ástæðu til að minnast á hann sérstaklega, vegna þess að hann var samþ. með veikum meiri hl. í n. Það er liðurinn til Jóns Dúasonar til þýðingar á ritum hans um Grænland á enska tungu. Ég hef geymt mér allan rétt til þess að mega gagnrýna þennan lið. Ég tel, að á meðan n. og Alþ. verða að skera niður margt, sem hún vildi láta standa, m. a. liðinn til Matthíasar Jónassonar og ýmislegt annað bæði til líknarstarfsemi og á öðrum sviðum, þá sé það ekki verjandi, að Alþ. samþ. svona lið eins og hér um ræðir, en það verður auðvitað á valdi Alþ., hvort það vill ganga inn á þetta, en ég mun greiða atkv. á móti þessum lið. — Sömu orð gæti ég haft um næsta lið, sem er ritstyrkur til Arnórs Sigurjónssonar, en hann hefur vitanlega góð laun hjá ríkinu, a. m. k. á yfirstandandi ári. — Hins vegar hefur n. orðið sammála um að leggja til, að 30 þús. kr. styrkur verði veittur til Björns Guðfinnssonar. Er það utanfararstyrkur til þess að hann geti leitað sér heilsubótar og unnið að því mikla verki, sem hann hefur verið að vinna að og hefur ekkert fengið fyrir enn þá. En hann hefur hugsað sér að geta dvalið utan 2 ár, en laun hans ganga til þess manns, sem hann hefur fengið til að kenna fyrir sig, til þess að geta unnið að þessu verki samfara því að ná heilsunni.

Hér er ekki ástæða til að fara að skýra þá nýju liði, til tónlistarskólans á Akureyri og einn lið, sem heyrir undir hina dökku bletti hjá fjvn., sem eru 50 þús. kr. styrkur til Guðjóns Samúelssonar í viðurkenningarskyni fyrir að uppgötva aðferð við múrhúðun. Ég tel litla sæmd að því fyrir Guðjón Samúelsson að biðja um þessa viðurkenningu og því minni sæmd fyrir Alþ. að veita hana á þennan hátt. Þetta er réttlætt með því, að Guðjón hafi tapað máli fyrir hæstarétti fyrir klaufaskap. Þess vegna á Alþ. að koma óg leiðrétta gerðir hæstaréttar. Ég hefði hins vegar talið rétt, að einhverju af þessari fjárhæð hefði verið varið til þess að gera sérstaka orðu fyrir hann, og mætti þá setja eitthvað af þessu silfurbergi í þá orðu. En þetta er eitt af þeim atriðum, sem farið hafa gegnum n. með mjög veikum meiri hl., og er þá Alþingis að gera út um það við atkvgr.

N. hefur lagt til, að tekinn verði upp nýr liður til umbóta á Þingvöllum, 80 þús. kr., einnig til Vesturheimsblaðanna Lögbergs og Heimskringlu til þess að halda uppi sambandi þjóðarbrotsins í Vesturheimi og Íslendinga hér austan hafs.

Þá er nýbýlastyrkur hækkaður um 60 þús. kr., og styrkur til tilraunastarfsemi í jarðrækt hækkaður um 25 þús. kr. fyrir Hafursá á Austurlandi, sem ákveðið er, að verði rekin sem tilraunastöð, og 115 þús. kr. byggingarstyrkur til jarðræktarstöðvar á Reykhólum. En samkv. l. frá síðasta þingi var ákveðið, að hefjast skyldi handa um slíkan rekstur þar nú þegar, svo að það er samkv. l. ekki hægt að komast hjá því að veita eitthvert fé til þessarar starfrækslu. — Byggingarstyrkur í sveitum er ætlazt til, að hækki úr 250 þús. kr. í 500 þús. Er mikil þörf á að byggja þar upp ekki síður en í kaupstöðum. Svo er lagt til, að tekinn sé upp styrkur til sand- og sjávargarðs í Vík í Mýrdal, 2/3 kostnaðar, allt að 20 þús. kr. — Síðan er settur inn í frv. nýr liður til vélasjóðs til verkfærakaupa, 500 þús. kr., líkt og á síðustu fjárl.

Þá er skóggræðsla. Þar er lagt til, að breytt verði til lækkunar, en er langmest til leiðréttingar. Liðurinn hefur verið tekinn upp og reiknaður út, af því að liðirnir hafa verið allir í frv. áður, vegna þess að það hefur ekki verið glögglega sundurliðað hjá skógræktarstjóra. Þá er felld niður hér ein upphæð 35 þús. kr. til kaupa á dráttarvélum fyrir skógræktina. Annað í þessum lið, sem niðurfært er, er ekkert annað en leiðrétting.

Þá hefur verið lagt til, að upp yrði tekinn nýr liður, til kolsýruverksmiðjunnar Sindra á Akureyri, 50 þús. kr. Þetta var einnig samþ. í n. með ágreiningi. Hins vegar vil ég segja það, að þó að ég greiði atkv. á móti þessari till., þá er það ekki vegna þess að ég telji ekki verjandi að gera það, því að þetta er mjög mikið fyrirtæki, en ég hefði hins vegar kosið, að fyrir hefðu legið betri gögn í málinu en lágu fyrir n. Þá hefði ég alveg sérstaklega óskað eftir, að þetta hefði verið gert í sambandi við háskólann og atvinnudeildina, því það má heita einkennilegt, þegar rekin er hér atvinnudeild háskólans með mörgum vísindamönnum á háum launum, þá skuli allt í einu koma upp einhvers staðar í landinu menn, sem eru færari um að fara inn á nýjar brautir en menn, sem lítið hafa annað að gera en að hugsa út þessi sérstöku mál. Það var minn fyrirvari í n., meira en að ég vildi ekki, að þetta yrði styrkt.

Út af 17. gr. viðvíkjandi tryggingarstofnuninni, þá er þar lagt til, að farið sé niður í 150 þús. kr. úr 232.500 kr., og er það til samræmis við launalögin. Launalistarnir sýna, að þar eru menn á miklu hærri launum en launal. gera ráð fyrir, og n. taldi rétt að færa þá niður í sama launakerfi og l. sjálf gera ráð fyrir. — Þá er lagt til, að samband íslenzkra berklasjúklinga fái 200 þús. kr. byggingarstyrk og auk þess 30525 kr. rekstrarstyrk vegna læknislauna, þ. e. laun yfirlæknisins. Þetta hef ég rætt við viðkomandi ráðh., sem báðir hafa fallizt á, að þetta væri nauðsynlegt, og er raunverulega spursmál, hvort þetta er annað en tilfærsla frá einum vasa í annan, því að allt bendir til þess, að sú starfsemi, sem hér er rekin, verði til þess að fækka sjúklingum á berklahælunum og til þess að minnka kostnað ríkisins á þeim stöðum.

Þá er lagt til, að barnaverndarráð lækki úr 33500 kr. í 20000 kr., og stafar það af því, að þær upplýsingar, sem fengizt hafa um það, eru ófullnægjandi, og er ekki séð, að það hafi gert annað en skipta þessum launum milli þeirra manna, sem sitja á háum launum annars staðar. Ef n. hefði fengið fullkomnar upplýsingar, getur verið, að hún hefði ekki lagt þetta til, en þetta verður athugað nánar til 3. umr. Síðan er lagt til, að styrkur til Stórstúku Íslands sé hækkaður upp í 200 þús. kr. Það þykir ef til vill einkennilegt, að þetta sé gert, en í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að á meðan það er staðreynd, að ríkissjóður hefur milli 30–40 millj. kr. í tekjur af vínverzluninni í landinu og bakar með því stórkostlegt böl á íslenzkum heimilum, er ekki óeðlilegt að verja nokkurri upphæð til að stöðva það böl, og það varð ráðandi hjá n., að hún taldi rétt að verða við þeirri beiðni stórstúkunnar að hækka þessa upphæð nokkuð. En á sama tíma falla niður öll önnur gjöld til bindindisstarfsemi, þannig að stórstúkan verðu.r að sjá fyrir því að greiða fé til áfengisráðunautarins og eins til bindindisstarfseminnar, svo og til bindindisstarfsemi í skólum, 15 þús. kr., sem fram er tekið í nál. — Kvenfélagasamband Íslands er gert ráð fyrir, að hækki um 25 þús. kr. og Hallveigarstaðir um 50 þús., og er það af þeim ástæðum, sem ég gat um áðan í sambandi við íþróttahús kvennaskólans.

Þá hefur n. lagt til, að liðurinn til framleiðslubóta og atvinnuaukningar falli niður. Það er dálítið skemmtilegt að kynna sér, til hvers þetta fé hefur verið notað. Á yfirstandandi ári, þegar farið er að hefja þetta, þá er þessu skipt niður þannig úti um landið, að ekki lítið af þessu fé er notað sem trillubátastyrkur, eins og það sé orðið aðaláhugamál þeirra manna að geta styrkt trillubátana í landinu. N. hefur ekki getað fallizt á þetta sjónarmið og hefur því lagt til, að liðurinn falli niður. — Viðvíkjandi alþjóðastarfsemi skv. 26. lið 17. gr., þá hefur n. lagt til, að sá liður falli niður. Hún telur ekki ástæðu til að hafa þetta í 2 liðum í frv. N. hefur hins vegar rætt um að taka upp sérstaka heimild til ríkisstj. til þess að greiða af tekjum og ágóða af setuliðseignum allt að þeirri upphæð, sem óskað er eftir. Samkv. bréfi frá ráðuneytinu 30. okt. er lagt til, að greiddar verði 4,550.000 kr. af því framlagi. Eru þá eftir 900 þús. kr. Auk þess hefur komið fram ósk um það, að 1% af þjóðartekjunum yrði greitt á þessu ári í þessu skyni, og stj. hafði samþ. þetta, en upphæðin yrði þá ákveðin síðar af Alþ. Í tilefni af þessu hefur fjvn. í samráði við fjmrh. útbúið heimild til þess, að það verði leyft að greiða þessa upphæð af þeim ágóða, sem verður af sölu setuliðseigna, en óskar eftir, áður en gengið væri frá þessu, að fá eitthvert yfirlit yfir, hvernig þetta mál stendur nú, til þess að geta séð, hvort nægilegt fé er fyrir hendi eða hvort þarf að taka sérstaka upphæð í fjárl. til þess.

Við 18. gr. eru þær breyt., sem heyra undir lið I., í heilu lagi. Þó er það sundurliðað, til þess að menn geti áttað sig á til samanburðar, hvað þessir menn hafa í eftirlaun. Í lið II. eru gerðar nokkrar breyt. frá frv., sérstaklega eru þó tvær breyt., sem ég vildi minnast á. Annað er Guðmundur Sveinbjörnsson. Í frv. er ætlazt til, að hann hafi 10180 kr., en n. leggur til, að það verði fært niður í 5026 kr. Stafar það af því, að hún hefur fengið upplýsingar um, að hann hafi aðrar tekjur, eins og sést undir lið I., þar hefur hann 1820 kr. í grunnlaun. Með þessu er hann því kominn upp í full embættislaun, þegar reiknað er með lífeyrissjóðnum. Þetta allt hefur verið gert í samráði við fulltrúa ríkisstj., sem hefur gefið þessar upplýsingar. — Annað er viðvíkjandi Sigurði Nordal; hann stendur í 18. gr. með ákveðna upphæð samkv. samningi. En þessi samningur er gerður á þeim tíma, þegar hann var fenginn frá Osló. Hann hafði þá 2 þús., en er nú kominn upp í 3245 kr. Nú hefur Sigurður Nordal verið leystur frá embætti með fullum launum, og þar af leiðandi þarf ekki lengur að uppfylla þann samning, að hann skuli fá aukagreiðslu fyrir að kenna við háskólann, auk þess munu laun hans hafa verið hækkuð, eins og hjá hverjum öðrum prófessor við háskólann, og er hann þá kominn miklu hærra en eðlilegt er með sín laun. N. leggur því til, að þessi liður falli niður. Þá hefur n. tekið upp lið til Ágústs H. Bjarnasonar, 2500 kr. Auk þess hefur hann verið tekinn inn á lið I., og verður það rætt til 3. umr. Þessum lið hefur hann haldið með 75% af launum sínum, eins og hann hefði látið af störfum, en n. hefur ekki getað fallizt á, að honum yrði veitt lausn með fullum launum. Hún telur það ekki rétta stefnu að taka hvern mann inn á fulla launagreiðslu, þó að hann hverfi frá störfum. Það getur komið til mála, ef menn eru heilsulausir, en getur ekki verið aðalregla, ef menn hverfa frá störfum fyrir aldurs sakir, að þeir hafi full eftirlaun og lífeyrissjóð, þegar þeir eru líka efnaðir menn. Í sambandi við þetta vildi ég minnast á, að n. hafði hugsað sér að endurskoða sín atkvæði viðvíkjandi Árna Pálssyni og vita, hvort fyrir því séu l. eða hvað hafi gerzt í því máli milli stj. og Árna, því að fjvn. hefur hugsað sér að færa hann til samræmis við aðra embættismenn, séu ekki um það neinir sérstakir samningar.

Hér hefur verið tekin upp till. um, að Guðrúnu Indriðadóttur leikkonu verði greiddar 1300 kr. og er ekki þörf að ræða það atriði. Hv. alþm., þekkja, hvernig hún í miklum fjárhagslegum erfiðleikum barðist meira fyrir listinni en að hafa að borða á þeim tíma, og n. telur sjálfsagt, að Alþ. láti þennan styrk til hennar engu síður en til Friðfinns Guðjónssonar leikara.

Þá hefur n. einnig gert till. um það, að framlag til viðbótarhúsnæðis við ríkisspítalana hækki úr 1 millj. í 1200000 kr. Í sambandi við þetta vil ég benda á, að ég hef átt tal við hæstv. dómsmrh. um það, að nauðsynlegt væri að bæta við þetta 1 millj. kr. vegna byggingar á Kleppi og byggingar við fæðingardeildina og fávitahæli. Þetta mun verða til athugunar fyrir 3. umr., en þessar 200 þús. kr., sem hér er lagt til að bæta við, er ætlazt til, að fari til þess að byggja við Kristneshælið. Þá hefur n. lagt til, að upphæðin til menntaskólabyggingar í Reykjavík lækki um helming, í 500 þús. kr., en annað eins fari til menntaskólans á Akureyri.

N. leggur til, að till. um kaup á skóglendi falli niður, vegna þess að hún sér ekki, að ástæða sé til þess fyrir ríkið að bæta við sig nýjum skóglendum, meðan það hefur ekki ráð á að láta girða það skóglendi, sem það þegar á.

Þá leggur n. til, að XIV. liður 20 gr., um kaup á jörðinni Hesti í Borgarfirði, orðist svo:

Til bygginga á prestsetrum. Ég þarf ekki að fara í 22. gr. Í henni er ekkert nýtt nema um kaup á húsum og lóðarréttindum Jóns Björnssonar og Jóhanns Tryggvasonar á Þórshöfn. Meiri hl. álítur nauðsynlegt að kaupa þessar eignir vegna væntanlegrar landshafnar á Þórshöfn. Minni hl. lítur svo á, að þetta sé ekki nauðsynlegt. Sjálfur er ég á móti þessum lið.

Þá vildi ég minnast á mæðiveikina með nokkrum orðum. N. hefur ekki lagt til, að upphæðinni til mæðiveikinefndar verði breytt, þrátt fyrir sterkar kröfur frá forstjóranum um hækkun. Þetta atriði liggur á valdi hæstv. landbrh. Til vörzlu eru áætlaðar 600 þús. kr., en ekkert liggur fyrir um, hvernig þessu fé er varið eða hverjir taka það. Þetta mæðiveikismál er mikill baggi á ríkissjóði, en virðist lítið gagn af ráðstöfunum í þessu efni í aðra hönd. Væri gott, ef hæstv. landbrh. léti fara fram rannsókn á því, hvað hægt er að gera í þessu máli. N. sá sér ekki fært að gera nokkrar breyt., þar sem allar nauðsynlegar upplýsingar skortir.

Það urðu stjórnarsinnum mikil vonbrigði, þegar stjórnarandstæðingar í fjvn. kröfðust sérstöðu um undirskrift nál. Hafði þó orðið fullt samkomulag í n. um flestar till. og meiri hl. fylgjandi þeim öllum. Það er um að ræða margar og stórar hugsunarvillur hjá þeim, og er útilokað, að nokkur rök fyrir málinu geti komizt að eða staðizt stundinni lengur. Þeirra starf gengur út á að ráðast á hæstv. ríkisstj. Annars þykist ég vita, að stjórnarandstæðingar í fjvn. séu með þessu að hlýðnast fyrirskipunum frá formönnum þeirra í flokknum. Ég held, að þetta sé komið frá mönnum, sem ekki hafa eins góðan huga á góðu samstarfi og þeir, sem í nefndinni hafa starfað.