15.04.1946
Neðri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (2750)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. (Jón Pálmason) :

Ég kemst ekki hjá því að minnast ofurlítið á þessa brtt. nú, þótt ég hafi að vísu rætt um hana áður.

Hv. þm. V.-Húnv. heldur því fram, að þessi brtt. reki sig ekki á önnur ákvæði frv. Nú er það ljóst, að nýbýlastjórn hefur ekkert fé til umráða til þess að veita þessa styrki, og með þessum ákvæðum eru jafnframt numdar úr l. reglur um byggingarstyrki. Það, sem ég tel lakast við þetta ákvæði, er það, að það hlýtur að setja nýbýlastjórn í stöðugan vanda um það, hvenær ætti að nota slíka heimild og hvenær ekki, og ætla má, að einatt yrði úr því argaþras.

Ég ætla þess vegna, að bezt fari á, að samþ. frv. eins og það liggur nú fyrir, en halda ekki fast við þetta ákvæði svo stórgallað sem það er.