14.12.1945
Neðri deild: 53. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (2771)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Ég skal ekki tala hér langt mál um þetta frv., en vil vísa til þeirra umr., sem urðu um frv. um nýbyggingarráð, en þá ræddi ég þetta mál nokkuð.

Ég vil þó aðeins víkja nokkrum orðum að útgerðarlánunum. Þykir mér þá rétt að rifja upp, hvernig þetta fyrirkomulag hefur verið. Fiskveiðasjóður hefur lánað með 4% vöxtum út á fyrsta veðrétt. Síðan hefur styrktar- og lánasjóður fiskiskipa lánað 25% við engum vöxtum. Þannig hafa þessi lán verið í tvennu lagi, með lægri vöxtum á hluta af láninu. Nú er gert ráð fyrir, að þetta verði í einu lagi styrkur og bankalán. Bezta nýmælið í þessu frv. virðist mér, að nú koma togarar hér undir og fá sömu hlunnindi.

Ég geri ráð fyrir, að eins og komið er, sé skynsamlegt að ná svipuðu marki og gert er ráð fyrir með þessu frv. Vextir af þessum lánum verða allmiklu lægri en af öðrum lánum.

Nú er sú hætta fyrir hendi, að menn kjósi fremur að leggja sitt eigið fé í annað, en taki topplán úr fiskveiðasjóði. Þetta er óheppilegt.

Það væri heppilegra, að menn legðu fram eigið fé eftir getu, enda óeðlilegt að lána mönnum með fullar hendur fjár með þessum hlunnindavöxtum. Ég sé, að þessu atriði hefur verið gefinn nokkur gaumur, en ég tel rétt að benda á í þessu sambandi, að n. þyrfti að athuga, hvað gera á við nýbyggingarsjóðstillögin. Á að lána togaraeigendum með þessum kjörum fyrr en nýbyggingarsjóðsféð er upp notað eða á að lána í hvaða tilfelli sem er?

Þá vil ég benda á eitt atriði, og það er varðandi byggingu verbúða. Væri full þörf á, að fiskveiðasjóður lánaði til að koma þeim upp. Verbúðir yfirleitt eru ekki mannabústaðir, en þetta er einn þáttur úr útgerðinni, sem nauðsynlegt er að taka með.

Um ákvæðið til bráðabirgða, varðandi hvernig verja skal fiskveiðásjóðsgjaldinu, vil ég segja það, að ég kann ekki við, að sá háttur sé upp tekinn að taka gjaldstofna frá hinu og þessu í ákveðnum tilgangi til. bráðabirgða. Auðvitað er slík bygging, sem hér um ræðir, nauðsynleg, en mér þykir einsætt að taka slíka fjárveitingu á fjárlög, en annaðhvort fella fiskveiðasjóðsgjaldið niður eða láta það renna til sjóðsins.

Við sjáum, að verði þetta frv. samþ., hvílir gífurleg áhætta á fiskveiðasjóði. Það má vera, að þetta heppnist, en áhættan er mikil og sjóðurinn þarf á öllu sínu að halda. Þetta er að vísu ekkert stórmál, en ég kann illa við slíka kreppuráðstöfun sem þessa og þætti æskilegra, að þessu yrði breytt.