14.12.1945
Neðri deild: 53. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (2773)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Pétur Ottesen:

Ég vil undirstrika það, að mér þykir ekki rétt að fella niður tekjustofn, sem fiskveiðasjóður hefur haft og var hið upphaflega stofnfé hans. Ég sé, að í frv. er gert ráð fyrir, að þessi tekjustofn renni til annars um 3 ára skeið, en falli síðan niður. Ég vildi beina því til hv. n., hvort ekki væri rétt að endurskoða þetta ákvæði með tilliti til þess, að fiskveiðasjóður mun þurfa á öllu sínu að halda.

Þá langar mig að ræða ofurlítið viðvíkjandi 7. gr. frv. Hv. frsm. sagði, að upphaflega hefði verið svo ráð fyrir gert, að sjóðurinn lánaði ¾ kostnaðarverðs út á skip og 2/3 út á önnur tæki. Í þessu sambandi vil ég gera fyrirspurn til hv. frsm., hvort þetta gildi ekki einnig fyrir bæjar- eða sveitarfélög, sem ráðast í framkvæmdir. Mér finnst eðlilegast, að þetta gildi bæði fyrir einstaklinga og félagsleg samtök. Þá gæti það líka verið hugsanlegt, þar sem þessar framkvæmdir eru gerðar af vanefnum, að menn og félög fari að leita stuðnings bæjar- og sveitarfélaga, og væri það síður en svo heppilegt, því að á bak við þau er ekki svo sterku fjárhagur.

Þá var hér annað atriði, sem ég vildi benda hv. n. á, en þó ekki snertandi ákvæði frv., en er nauðsynlegt við aukningu og endurnýjun skipaflotans. Í 11. gr. frv, stendur: „Skylt er lántakendum að hafa hinar veðsettu eignir svo hátt vátryggðar, að vel nægi fyrir áhvílandi lánum; og tekur veðréttur fiskveiðasjóðs jafnan einnig til vátryggingarfjárins.“ Þetta er sjálfsagt gagnvart fiskveiðasjóði, en miðað við hið háa verð, þá er þetta þungur baggi fyrir þá, er skipin eiga. Vil ég því beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm. n., hvað hefur verið gert til þess að draga úr hinum mikla vátryggingarkostnaði.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni, en vil endurtaka það, að nauðsynlegt er að hraða afgreiðslu þessa máls.