27.03.1946
Neðri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. sjútvn., hv. þm. Vestm., hefur nú gert grein fyrir, hefur n. ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Var ég eini nefndarmaðurinn, sem vildi ekki standa að því að flytja þær brtt., sem hv. meiri hl. n. flytur og komu til n. fyrir nokkrum dögum frá hæstv. fjmrh. Sá ágreiningur, sem ég hef um þetta mál, er í stuttu máli sá, að ég get ekki fallizt á, að eðlilegt sé eða rétt að fela Landsbanka Íslands framkvæmdir þeirrar lánveitingastofnunar, sem frv. felur í sér. Mín skoðun er sú, að það hafi verið eðlilega frá þessu gengið í frv. eins og það var upphaflega lagt fram á Alþ., þannig að sá eini stofnlánasjóður útvegsins, sem fyrir var, fiskveiðasjóður Íslands, hefði haft þessi mál áfram með höndum, að hann væri efldur, en ekki settur á stofn nýr sjóður við hliðina á þessum stofnlánasjóði útvegsins, og að það sé því fremur óeðlilegt að fela þjóðbankanum framkvæmd þessara mála, þar sem hann var einasti aðilinn, sem tók mjög illa þeim till., sem frv. felur í sér, þannig að það leyndi sér ekki, að hann vildi ekki stuðla að framgangi þess meginmáls, sem frv. fjallaði upphaflega um. Mín skoðun í n. byggist fyrst og fremst á þessu atriði

Hv. frsm. meiri hl. hefur gert nokkra grein fyrir því, hvernig á því stendur, að meiri hl. hefur nú fallizt á að fela öðrum aðila framkvæmd máls þessa, þrátt fyrir það að allir nm. höfðu áður lýst sig fylgjandi því, að fiskveiðasjóður Íslands hefði hana með höndum. Mér skilst, að skýring hans sé í stuttu máli á þá leið, að hv. meiri hl. hafi ekki talið aðra leið fyrir hendi, úr því sem nú var komið, til þess að koma meginefni frv. í framkvæmd heldur en þá að beygja sig og verða við kröfum Landsbankans um það, að hann fengi framkvæmd málsins. Hins vegar hef ég ekki getað orðið var við það, að hv. meiri hl. færði fram neinar sérstakar ástæður, sem rökstyddu það, að málinu væri betur borgið í framkvæmdinni með því að taka þessa hliðarleið að stofna nýjan sjóð til stofnlána við sjávarútveginn við hliðina á þeim 40 ára gamla sjóði, sem er starfandi.

Frv. um fiskveiðasjóð var samið í upphafi af nýbyggingarráði, en því hafði verið falin forganga af hæstv. ríkisstj. um það mikla verkefni að vinna að nýsköpun atvinnuveganna og þá alveg sérstaklega sjávarútvegsins, sem er okkar aðalatvinnuvegur. Það hlaut að fara svo, að nýbyggingarráð mundi ekki vinna lengi að þessum störfum án þess að verða þess áskynja, að óhjákvæmilegt væri að breyta um lánapólitík í sambandi við atvinnuvegi landsmanna, ef reynast ætti kleift að koma fram þeim stórfelldu umbótum á því sviði, sem hæstv. ríkisstj. hafði lýst yfir í stefnuskrá sinni, og því var það, að nýbyggingarráð sneri sér að því að gera till. í frumvarpsformi um það, hvernig ætti að mæta stofnlánaþörf útvegsins og hvernig þeim stofnlánum yrði bezt fyrir komið. Það fór svo, að þrátt fyrir það að í nýbyggingarráði sitja menn úr öllum stjórnmálafl. landsins, þá gat það orðið sammála um þetta atriði, sem frv. felur í sér, sem sé þá leið að sameina í fiskveiðasjóði öli stofnlán til sjávarútvegsins og efla þann sjóð stórkostlega, þannig að hann gæti fengið a. m. k. 100 millj. kr. til útlána og honum gert kleift að lækka vexti af stofnlánum allverulega frá því, sem áður hafði verið. Þessar till. nýbyggingarráðs voru á sínum tíma bornar undir alla þá aðila, sem sérstaklega snertu þessi mál, og það má segja, að þessar till. hlutu einróma samþykki og meðmæli allra hlutaðeigandi. Útgerðarmenn og útgerðarmannasamtök og sjómannasamtök mæltu einnig með þeirri leið, sem nýbyggingarráð benti á. Ég minnist og þess í þessu sambandi, að Landssamband ísl. útvegsmanna hefur gert samþykktir til hæstv. ríkisstj. um að lögfesta þessar till., einnig hafa Farmanna- og fiskimannafélag Íslands, fiskiþingið, Fiskifélag Íslands og fjöldamörg sveitarfélög sent samþykktir sínar um þessi mál. Það kom svo fljótlega fram, að stjórnmálafl. allir virtust einnig vera fylgjandi þessum till., ekki aðeins þeir menn, sem eiga sæti í nýbyggingarráði frá flokkunum, heldur tóku flokkarnir beinlínis undir þetta. Ég minnist þess, að Farmannasamband Íslands sendi menn af þingi sínu til þess að hafa tal af form. flokkanna og leita upplýsinga um afstöðu þeirra til þessa frv., og lýstu þeir yfir, að þeir mundu mæla með framgangi þess. Þegar svo frv. er lagt hér fram eftir allt of langan drátt á því, þá fer að verða vart við, að það er dragbítur í þessu máli. Þá er farið að fitja upp á ýmsum allmiklum og víðtækum breyt. á frv., og það leyndi sér ekki, að það var Landsbanki Íslands, sem hafði mælt mjög gegn meginefni þess, sem beitti sér fyrir þessu, og ýmsir af þeim mönnum, sem höfðu lýst sig fylgjandi frv. nýbyggingarráðs fóru nú að láta í sér heyra, að óhjákvæmilegt væri að verða að einhverju leyti við kröfum Landsbankans eða a. m. k. þægja honum í einhverju, og niðurstaðan hefur orðið sú, að hv. meiri hl. sjútvn. hefur orðið ásáttur um, að nauðsynlegt sé að fá Landsbankanum málið til framkvæmdar, sem er einmitt sá eini aðili, sem hefur barizt gegn samþ. frv. og talið það beinlínis þjóðhættulegt. Eins og ég sagði í upphafi, álít ég óeðlilegt, að Landsbankinn hafi framkvæmd þessa máls með höndum og að stofnuð sé við hann sérstök stofnlánadeild við hliðina á stofnlánasjóði útvegsins, sem starfað hefur um 40 ára skeið, en auk þess vil ég undirstrika það, að ég álít málinu beinlínis stefnt í mikla hættu, þegar þeim aðila er falin framkvæmd málsins, sem hefur greinilega sýnt, að hann er andvígur meginefni frv. Ég veit, að öllum hv. þm. er það ljóst, að þetta frv. er þannig uppbyggt, að það hlýtur óhjákvæmilega að velta mjög mikið á framkvæmd þess, að hve miklu gagni það kann að koma, t. d. þau ákvæði frv., sem ýmsir hafa talið mikilvæg varðandi stofnlán til nýrra framleiðslutækja, að reiknað er með því, að þau verði hærri en þau hafa verið hingað til. Hins vegar eru þessi ákvæði í frv. á engan hátt skuldbindandi fyrir þá, sem hafa framkvæmdina með höndum. Í frv. er t. d. ekkert sagt um það, að til nýrra fiskiskipa skuli lána 2/3 af kostnaðarverði þeirra eða ¾, ef um opinberan aðila er að ræða eins og bæjarfélag, en aðeins talað um, að heimilt sé að lána upp að þessu marki. Ég get ekki varizt þeirri hugsun, að Landsbankinn telji of langt gengið í útlánum í of mörgum tilfellum og að hann muni draga úr þessum lánum og framkvæmi kannske lögin þannig, að allt of margir verði frá að hverfa og geti ekki notað sér ákvæði þeirra, með því að þeim er gert að skyldu að leggja fram meira fé en þeir hafi getu til. Ég býst við, að þeir, sem leggja kapp á, að Landsbankinn fái að hafa framkvæmd þessa máls með höndum, muni ef til vill segja, að þessi hætta hefði eins verið fyrir hendi, þótt stjórn fiskveiðasjóðs eða stjórn Útvegsbanka Íslands hefði haft hana með höndum. Í þessu sambandi vil ég benda á, að í fiskveiðasjóðsfrv., eins og það liggur fyrir og er komið frá nýbyggingarráði, er kveðið svo á, að auk bankastjórnar þeirrar, sem mundi stjórna fiskveiðasjóði, skyldi einnig sett á laggirnar sérstök stj. yfir fiskveiðasjóði, sem skyldi skipuð á þá lund, að í henni ætti sæti einn útgerðarmaður, tilnefndur af útgerðarmannasamtökum landsins, annar starfandi sjómaður; tilnefndur af sjómannasamtökum í landinu, eða þeir tveir aðilar, sem þessi mál snerta sérstaklega, þannig að þeim var gefinn kostur á því að fylgjast betur með framkvæmd þessara mála og hafa áhrif á þau en nú þykir fært, þegar þetta vald er flutt yfir til Landsbankans. Við afgreiðslu þessa máls í n. minntist ég sérstaklega á þetta atriði og hvort það mundi geta fengizt í gegn, að samsvarandi yfirstjórn yrði sett á fót yfir þessa stofnlánadeild við Landsbankann eins og ætlunin var að setja yfir fiskveiðasjóð, en slíkt var talið óframkvæmanlegt atriði.

Ég er tortrygginn um, hvernig og hvað verður um málið í höndum Landsbankans. — Eins og frsm. meiri hl. kom hér inn á í ræðu sinni, er augljóst, að fiskveiðasjóðsfrv. er eitt stærsta mál Alþingis nú og er mjög afdrifaríkt fyrir atvinnulíf landsmanna. Ég efast ekki um, að afgreiðslu þessa máls er beðið með meiri eftirvæntingu en í sambandi við flest önnur mál. Margar framkvæmdir standa nú yfir í landinu og nýsköpun í atvinnulífinu. Í flestum þorpum og kaupstöðum landsins er nú verið að kaupa skip og reisa hús og aðrar byggingar, en geta manna, a. m. k. úti á landi, er takmörkuð, og veltur því á, að þeir geti fengið umrædd lán eða ¾ af kostnaðarverði með þeim vöxtum, sem lofað hefur verið. En eins og ég segi, þá þýðir ekki að loka augunum fyrir því, að Landsbankinn hefur barizt gegn þessu, og ekki getur öðruvísi en illa farið, þegar yfirlýstum fjandmanni málsins er falið að sjá um framkvæmdir. Það er ekki aðeins það, að bankinn yrði gerður óstarfhæfur, heldur væri þjóðarbúskap okkar stofnað í voða.

Þótt ég vilji halda mér við upphaflega stefnu frv. frá nýbyggingarráði, þá hef ég fallizt á nokkrar brtt., þótt ég fallist ekki á þá meginbreyt. að fela Landsbankanum framkvæmdir. Ég tel 3. gr. stórgallaða, það þarf að taka fram, hvaða framkvæmdir eiga að ganga fyrir. Í 3. gr. frv. er svo ráð fyrir gert, að úr þessum sjóði megi lána fé til bygginga á dráttarbrautum. En mín skoðun er sú, að undanskilja verði dráttarbrautir, því að Alþ. hefur með hinum almennu hafnarlögum gert öllum höfnum á landinu kleift að byggja dráttarbrautir, auk þess geta þær fengið ríkisábyrgð. Ég álít, að Alþ. sé þegar búið að gera þessu því skil, að vel megi við una. — Ég álít það ekki rétt að gefa þeim einstaklingum, sem ætla að byggja dráttarbrautir, tækifæri til að vaða í þennan sjóð með lán, sem hefur yfir takmörkuðu fé að ráða, það takmarkar möguleika fyrir aðra að fá lán úr sjóðnum. Ég veit um tvo aðila í Rvík., sem hafa í hyggju að byggja ekki eina, heldur fleiri dráttarbrautir, sem áætlað er að kosti um 10 millj. kr. Ef frv. yrði samþ. óbreytt, þá gætu þessir aðilar tekið álitlega upphæð úr sjóðnum. En viljum við, að fé sjóðsins verði skert um 7–10 millj. kr. til handa þessum aðilum, og frystihúsum og skipakaupum annarra landsmanna yrði þar með bægt frá? Mín skoðun er sú, að hægt sé eftir venjulegum hafnarlögum að framkvæma .... (Forseti: Ég vil beina því til hv. ræðumanns, að þegar er komið yfir venjulegan fundartíma, og vil ég beina þeirri fyrirspurn til hv. þm., hvort hann hafi í hyggju að segja miklu meira. En ef hann hefur það í hyggju, þá vil ég mælast til, að hann fresti ræðu sinni.) Ég hafði að vísu hugsað mér að segja ýmislegt meira, en mun fallast á að fresta ræðu minni. [Frh.]