07.12.1945
Sameinað þing: 13. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

16. mál, fjárlög 1946

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. frsm. hóf ræðu sína á því að upplýsa, sem flestir vissu, að þetta væri hæsta fjárlagafrv., sem lagt hefði verið fyrir hið háa Alþ. Þetta er alveg rétt. Það er hæsta fjárlfrv., hvort heldur sem er miðað við krónutölu eða verðgildi krónunnar, þó að vísitöluhækkun sé dregin frá fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir, og svo miðað við fyrirstríðsfjárlagafrumvörp. Því að þá kemur það sama í ljós, að það er langsamlega hæsta fjárlagafrumvarpið, sem lagt hefur verið fyrir Alþ. Hv. síðasti ræðumaður, 4. landsk. þm., taldi nú, að því er mér skildist, að þetta stafaði af því, að nú væru stigin meiri spor fram á við, eins og hann orðaði það, en áður hefði verið gert. Ég get nú í raun og veru ekki séð það, að fjárlagafrv. beri þess nokkurn vott, því að þó að það sé að vísu veitt hærri peningaupphæð að krónutölu til verklegra framkvæmda og annarra framfara í landinu í þessu fjárlfrv. og í brtt. fjvn. en áður hefur verið gert, þá mun það þó vera hlutfallslega minna, miðað við fjárlagaupphæðina alla, en áður hefur verið gert, þ. á m. á síðasta ári. Þetta þykist ég hafa gengið úr skugga um við nokkra athugun á fjárlagafrv. og brtt. hv. fjvn. og samanburð á þessu við eldri fjárlög. Og ég hygg, að það fari ekki á milli mála. Annars ætla ég ekki að fara hér út í almennar umr. um fjárl. að þessu sinni, enda mundi það ekki þýða mikið.

Ég vil leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir það, að hún hefur flutt brtt. við fjárl. um verulegar fjárhæðir, sem viðkoma mínu kjördæmi. Ég nefni þar Ólafsfjarðarveg, sem hún ætlar 400 þús. kr., og fjárframlög til hafnargerða. Framlag til Öxnadalsheiðarvegar, sem hv. fjvn. mundi nú kannske telja fjárveitingu til míns kjördæmis, get ég ekki talið svo, því að bæði er vegurinn nokkurn veginn kominn á takmörk sýslnanna, Eyjafjarðarsýslu og Skagafjarðarsýslu, og svo er sá vegur í sjálfu sér engu fremur fyrir Eyfirðinga en aðra menn, sem um þann veg þurfa að fara. En þó að ég sé hv. fjvn. þakklátur fyrir þessar till., þá er þess ekki að dyljast, að mér virðist hún hafa haft það sjónarmið, að því er mitt kjördæmi snertir, að styðja aðallega framfaraviðleitni í sjávarþorpum og við sjóinn, en frekar ganga fram hjá umbótum í landbúnaðarsveitum Eyjafjarðar. Gæti ég í raun og veru sagt fleira um þetta. Ég veit ekki, hvort þetta er tilviljun eða sérstakar ástæður valda því. Við þm. Eyf. gerum þar af leiðandi enga brtt. að því er snertir framlög til sjávarþorpa og sjávarsveita við Eyjafjörð, því að þar finnst okkur sæmilega vel fyrir séð af n. Á hinn bóginn leyfum við okkur að flytja örfáar brtt. viðvíkjandi hækkun á framlögum til framkvæmda inni í héraðinu. Eru þessar brtt. okkar á þskj. 316, og byrja ég þá á 1. brtt. á því þskj. Þar förum við fram á lítils háttar hækkun til þriggja vega inni í Eyjafirði, að Hrísavegur verði hækkaður úr 10 þús. í 25 þús. kr., Hörgárdalsvegur úr 10 í 25 þús. kr. og Laugalandsvegur úr 20 þús., sem n. leggur til, í 50 þús. Ég held, að öllum megi það ljóst vera, að eins og kaupgjald er orðið í landinu og annar tilkostnaður, er 10 þús. kr. framlag til vegar ákaflega gagnslítið. Það er ákaflega lítið hægt að vinna nú á dögum fyrir 10 þús. kr. Okkur finnst því, að 25 þús. kr. verði eiginlega lágmark þess, sem hugsanlegt er að fara fram á í þessu efni.

Við förum fram á nokkru meiri hækkun til Laugalandsvegar, og það stafar af því, að það er nokkur hluti af Saurbæjarhreppi, sem nú á í hinum mestu vandræðum með það að fá mjólk flutta til mjólkursamlags Eyfirðinga, og munar ekki meiru en því, að ef 50 þús. kr. væru nú veittar með 10 þús., sem ég tel þennan veg eiga inni síðan í fyrra, þá mundi mega koma veginum yfir vegleysukafla til stórbóta fyrir allmarga bændur í þessum hreppi. Ég tel þennan veg eiga inni 10 þús. kr. frá í fyrra, vegna þess að eftir því sem ég bezt veit, þá var ekki varið neinu á þessu ári til nýbyggingar þessa vegar, þó að þá væri veitt til hans fé, heldur eingöngu til viðhalds.

Með öðru þakklæti, sem ég vildi tjá hv. fjvn., eru þakkir fyrir að hafa tekið upp framlag til, brúar á Hofsá í Svarfaðardal. Það hefur í mörg ár verið ákaflega bagalegt fyrir Inn-Svarfaðardal og Skíðadal, að þessi á hefur ekki verið brúuð. Við höfum þing eftir þing farið fram á fjárveitingu til hennar. En við þm. Eyf. höfum farið fram á það, að tekin verði upp fjárveiting til annarrar brúar í Eyjafirði jafnframt, en það er Torfufellsá í Inn-Eyjafirði, 40 þús. kr. Í raun og veru stendur ákaflega svipað á um hana og Hofsárbrúna, að þessi á, Torfufellsá, hindrar samgöngur, og þá einkum mjólkurflutninga þeirra, sem búa innan við hana. Það eru að vísu færri menn en þeir, sem búa innan við Hofsá í Svarfaðardal. Af þessum till., ef menn vildu gera einhvern mun á, þá verð ég að leggja langsamlega mesta áherzlu á Laugalandsveginn, að fjárveiting til hans geti orðið þetta, í minnsta lagi 50 þús. kr., af þeim ástæðum, sem ég hef hér fram fært.

Þá förum við þm. Eyf. ekki fram á frekari fjárveitingar úr ríkissjóði fram yfir það, sem n. stingur upp á, en við flytjum tvær brtt. við heimildagr. fjárl., 22. gr. Sú fyrri er um að heimila stj. að greiða úr ríkissjóði sama styrk til skólabyggingar í Ólafsfirði og Ólafsfjarðarhreppi hefði borið. Ástæðan til þess, að við förum fram á þetta, er sú, að við teljum, að Ólafsfjarðarkaupstaður, sem nú er orðinn, eigi þetta fé inni að nokkru leyti hjá ríkissjóði. Fyrir stríð var það álit fræðslumálastjóra og samkomulag milli hans og skólan. Ólafsfjarðar, að brýn nauðsyn væri að byggja þarna barnaskóla að nýju, því að skólinn, sem þar er, fullnægir ekki á nokkurn hátt þörfinni fyrir skóla á staðnum. Nú vita menn það, að Ólafsfjörður varð kaupstaður af nokkuð sérstakri ástæðu og fyrr en orðið hefði, ef engar slíkar ástæður hefðu verið fyrir hendi. Á hinn bóginn er á það að líta, að viðurkennd var þörfin fyrir nýjan barnaskóla í Ólafsfirði, þótt ekki yrði af framkvæmdum í því efni vegna stríðsins, en nauðsynin var viðurkennd, löngu áður en Ólafsfjarðarkauptún varð sérstakur kaupstaður. Mér finnst því það ekki geta verið rétt, að ríkissjóður skorist undan því að taka þátt í byggingu barnaskólans þarna, á sama hátt og Ólafsfjörður hefði enn þá verið hreppur, og ríkið eigi ekki að nota sér það í þessu efni, að svona hefur viljað til, að þetta kauptún, sem tilheyrði sveit, varð kaupstaður af sérstökum ástæðum, og það var líka af sérstökum ástæðum, að ekki var búið að byggja nýjan barnaskóla með tilheyrandi framlagi úr ríkissjóði. Það kann að vera, að þessi till. okkar sé þýðingarlaus, jafnvel þó að samþ. yrði, ef öll þau frv. um skólabyggingar, sem nú liggja fyrir Alþingi eða eru í undirbúningi, nái fram að ganga, því að ef ég man rétt, — ég hef ekki þessi frv. fyrir framan mig, — þá er kaupstöðum ætlaður styrkur til barnaskólabygginga, en þessi frv. eru nú ekki orðin að l., og maður veit ekki, hvort þau verða samþ. eða ekki, og verður því að byggja að sjálfsögðu á því ástandi, sem nú er, en ekki einhverju hugsanlegu ástandi, sem kynni að koma. En ef það yrði nú lögtekið, að kaupstöðum bæri svipaður réttur til styrks úr ríkissjóði og sveitunum, þá sé ég ekki, að samþykkt þessarar till. geti a. m. k. neinu spillt, því að hún ákveður það þá aðeins, sem síðar verður ákveðið í l., og leggur þá engar sérstakar byrðar á ríkissjóð. Það mun vera eitt fordæmi fyrir þessu, þegar svipað hefur staðið á, eða hreppur varð kaupstaður, þá mun eitt fordæmi vera fyrir því, að þeim kaupstað hefur verið veittur styrkur til barnaskólabyggingar eins og hann hefði áfram verið hreppur.

Í öðru lagi förum við fram á þá breyt. við þessa heimildagr. fjárl., að ríkisstj. ábyrgist 160 þús. kr. lán fyrir Ólafsfjarðarhrepp til fiskimjöls- og niðursuðuverksmiðju. Hér er nú mikið talað um nýsköpun, og meiri hl. fjvn. og meiri hl. Alþingis gerir þetta orð að eins konar prógramm orði fyrir sig, þó að nýsköpun hafi átt sér stað í landinu alllengi. Það er ekki hægi að neita því, að það er nýsköpun að koma upp slíku mannvirki sem hér er um að ræða, og ætti það því að mæta velvilja frá meiri hl. Alþingis og, meiri hl. fjvn., eins og nú er háttað. Ég þarf nú ekki að útskýra þetta mál, að þegar kauptún eða kaupstaður er eins afskekktur og á við jafnlitlar samgöngur að búa og Ólafsfjörður, þá er öllum auðskilið, að verksmiðjur eins og þessar eru skilyrði fyrir, að hægt sé að nota sér þann afla, sem til fellur. Ég hygg líka, að bréf um þetta efni hafi legið fyrir fjvn. og henni sé málið nokkuð kunnugt, og þykist ég því ekki þurfa að skýra það nánar, enda er sannleikurinn sá, eins og oft vill verða við fjárlagaumr., að hér er nú ekki svo ýkjamargt þingmanna til að láta sannfærast, þó að ég hefði um þetta fleiri sannfærandi orð.