29.03.1946
Neðri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er augljóst af ræðu hv. 2. þm. S.-M., sem hann flutti hér áðan, að hann skilur hvorki upp né niður í þeirri stefnu, sem mörkuð er með þessu frv. (Forsrh.: Jú, niður). Það getur verið, að hann skilji það, sem vísar niður. Það, sem hér er um að ræða, er spursmálið, hver eigi að stjórna fjárfestingunni í landinu. Hv. þm. var að reyna að sýna fram á, að það mætti ekki festa fé með öðru móti en því, að einstaklingarnir í landinu fengjust af frjálsum vilja til að kaupa skuldabréf og leggja fram fé í ákveðin fyrirtæki. Sannleikurinn er sá, að hér er um tvær stefnur að ræða. Svo framarlega sem farið er eftir stefnu þeirri, sem hv. 2. þm. S.-M. var að lýsa, þá mundi það af því leiða, að engin stjórn væri á atvinnulífi þjóðarinnar. Fjárfestingin mundi fara eftir vilja einstaklinganna, sem hafa mismunandi skoðanir .á málunum og hljóta því að gera þetta og hitt, sem þjóðinni er ekki heppilegt á viðkomandi augnabliki, eins og bezt sést á Því, hversu margir hafa ekki tekið upp þær framkvæmdir, sem nú er mest þörf á, og væru því ekki gerðar, ef hið opinbera hefði ekki tekið forustuna. Með þessu móti væri engin fjárfestingarpólitík, engin raunveruleg peningapólitík rekin í landinu. Hins vegar þar, sem stefna á að vera ráðandi, þar á hið opinbera, Alþ. og ríkisstj., að marka og ákveða fjárfestingarpólitíkina í landinu, með það fyrir augum að tryggja atvinnulífinu næg fjárráð. Ef reka á fjárfestingarpólitík með hagsmuni þjóðarinnar fyrir augum, ber þinginu að hafa yfirstjórn fjárhagslífsins í sínum höndum, en ekki láta ríkja algert stjórnleysi, þar sem framboð og eftirspurn ræður fjárfestingunni. Það er þess vegna eðlilegt, að hv. 2. þm. S.-M. þyki hér hættulega breytt, þegar hann allan tímann hugsar út frá peningapólitík 19. aldarinnar, en skilur ekki fjármálapólitík þá, sem rutt hefur sér til rúms í heiminum síðustu tvo áratugina, einkum eftir kreppuna 1930, þegar menn sáu, til hvers það hlaut að leiða að hafa þessi mál stjórnlaus eins og verið hafði fram að þeim tíma. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er fyrsta sporið, þar sem af Alþ. hálfu er reynt að stjórna því, á hvern hátt fjármunir þjóðarinnar eru festir. Og það kemur í ljós, hversu gersamlega hv. þm. er andstæður þessari stefnu, þar sem hann segir, að það sé að vísu erfitt að selja skuldabréf, en heldur því svo fram í sömu ræðunni, að ríkisstj. eigi að fara inn á þá braut að selja skuldabréf. Sem sagt, ríkisstj. á að bjóða út skuldabréf, sem ekki er hægt að selja. Afleiðingin af því er svo sú, að ekki er hægt að afla fjár til viðkomandi atvinnuvegar, vegna þess að þeir menn í landinu, sem eiga peninga, vilja ekki kaupa skuldabréfin. Einstaklingarnir, sem liggja með peningana og hafa mismunandi takmarkaðar hugmyndir um, hvað þjóðinni er fyrir beztu, og hugsa m. a. sem svo, að þetta eða hitt sé ekki nægilega öruggt, þótt það sé nauðsynlegt fyrir þjóðarheildina, þeir eiga að ákveða fjárfestingarpólitík þjóðarinnar, þeir eiga að ákveða, hvað atvinnulífi þjóðarinnar er fyrir beztu, stjórnin eða Alþ. eiga aftur á móti ekki að gera það. En svo þegar þetta stjórnleysi hefur leitt til öngþveitis og kreppu, eins og það óumflýjanlega gerir, þá á ríkið að hlaupa undir bagga og gera ráðstafanir, sem duga gegn þeirri vitleysu, sem þessir menn hafa gert. Þetta er pólitíkin, sem þessi hv. þm. vill í stað þess, að ríkið hafi fasta stjórn á atvinnulífi þjóðarinnar, fjárfestingunni og öllu saman. Þarna er um tvær stefnur að ræða, sem eru mjög ólíkar, annars vegar að láta framboð og eftirspurn ráða á fjármálamarkaðinum eða reka þjóðarbúskapinn eftir nokkurn veginn skapaðri áætlun, og það er sú stefna, sem á síðustu áratugum hefur rutt sér til rúms í ýmsum löndum og er nú verið að taka upp í fleiri.

Hv. þm. talaði um, að þessi till., sem ríkisstj. flytur, sé vantraust á ríkisstj. Þetta er auðvitað fjarstæða. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur gert sér ljóst, hvað sé í ráði með fjárfestingu Íslendinga á þessu ári og næstu árum, hvaða upphæð komi til með að verða fest í okkar atvinnulífi. Ég get því miður ekki eins og komið er nefnt tölur með nokkurri nákvæmni snertandi þetta. En mig langar til að slá nokkrum tölum fram til þess að sýna, hve þessi fullyrðing um 100 millj. er gripin úr lausu lofti. Ef við göngum út frá því að verja á 5 árum miklu fé í okkar atvinnulíf yfir höfuð, bæði til að kaupa útlend tæki og til þess að leggja í fyrirtæki innanlands, þá gæti ég trúað, að það yrði aldrei undir 800 millj., ef til vill 1000 millj. kr., sem yrði 1/3 fest í kapítalvörum á líkum tíma. Hins vegar verðum við að gera okkur ljóst, þegar við ræðum þessa hluti, að við erum að ákveða, hvernig okkar fé skuli varið í þessu efni, hve miklu kapítali í ákveðinni grein og hve fljótt það yrði gert. Hv. 2. þm. S.-M. finnst það einhver ósköp, að ríkið skuli ætla að tryggja lán á 100 millj. kr., og finnst það bera vott um einstaka fjarstæðu að vilja leggja í fyrirtæki og festa þetta kapítal. Ef ég man rétt, þá var á seinasta ári byggt í Reykjavík einni fyrir 93 millj. kr. Það er almennt reiknað með því, að byggingar séu 1/3 af kapítali þjóðfélagsins á hverjum tíma. Ég get nú ekki séð, að einstaklingarnir séu sérstaklega óðfúsir að leggja fram fé sitt og festa það í kapítalvörum. Og hvað húsbyggingar snertir, þá er byggt eins mikið og hægt er að fá efni til. Hvað þessa fjárfestingu snerti þegar þessi hv. þm. var fjmrh. á Íslandi, þá var þetta kapítal t. d. 1934 22 millj., allur skipastólinn, en á sama tíma voru allar húseignir metnar á 150 millj. Nú vitum við það, hvað þörf okkar hefur verið mikil fyrir, að fé okkar færi í sjávarútveginn, þótt allir vilji láta byggja eins mikið og frekast er mögulegt. Það þótti hins vegar fyrir stríð gott fyrirtæki að byggja hús, en það þótti verra að kaupa báta, enda torsótt að fá leyfi til þess að koma upp slíkum lúxus. Það, sem við höfum lagt áherzlu á og samþ. með stofnun núv. ríkisstj., var, að sérstaklega mikið fé skyldi lagt í sjávarútveginn til þess að afla stórkostlegustu auðsöfnunartækja, sem völ er á, til að hagnýta auðlindir okkar. Um leið og Alþ. og ríkisstj. hafa ákveðið að gera þetta, þá hlýtur hún að framfylgja þessu með því að tryggja, að fé verði lagt í þessa hluti. Ef einstaklingar, — hv. þm. vill, að þeir séu látnir ráða, — vilja leggja fé í byggingar, þeir byggðu fyrir 93 millj. á einu ári í Reykjavík, — þá er útilokað, að tæki verði keypt fyrir þjóðina fyrr en þessir einstaklingar átta sig. Er ekki sjálfsagt fyrir þetta ríki, sem vill vinna fyrir sína þegna, að gera ráðstafanir til að afla fjár til þessara hluta heldur en að bíða eftir því, að vilji þessara einstaklinga breytist? Ég held því, að með þessari fjárfestingarpólitík, sem hér er farið inn á, sé það að gerast, sem þjóðinni er mest þörf á, það er að leggja öruggan grundvöll undir atvinnulíf okkar og gerbreyta hlutföllunum á milli fjármagnsins á Íslandi og atvinnuveganna, sem það er sett í. 100 millj. kr., sem Landsbankanum er gert að skyldu að lána, eru ekki nema smáræði í samanburði við fjárfestingu þá, sem íslenzka þjóðin er að framkvæma á þessum 5 árum, kannske tíundi hluti, og ekki meira en það af því, sem Reykvíkingar leggja í húsbyggingar á einu ári.

Með þessari blindu trú sinni á alvizku peningamannanna í landinu er hv. þm. aðeins að gerast þeirra aftaníoss og slá því föstu, að þeir eigi að ráða fjárfestingarpólitík íslenzku þjóðarinnar. Ef þeir eru ekki ákveðnir í að kaupa skuldabréf, þá á ríkið að falla frá því t. d. að kaupa 30 togara. Þetta er sú gamla pólitík, sem alltaf hefur leitt til kreppna í atvinnulífinu með skömmu millibili, m. a. kreppna, sem skapast af því, að þessir peningamenn, sem hv. þm. hefur svo mikla trú á, missa trú á verðbréfum og þau bréf falla og hrun skapast, sem leiðir kreppu af sér.

Þá talaði hv. þm. um, að það þyrfti að gera einhver ósköp til þess að forðast verðbólgu, eins og verðbólga komi þessu máli við. Það á þessi hv. þm. a. m. k. eftir að sýna fram á. Fyrir nokkrum árum, e. t. v. þegar þessi hv. þm. var viðskmrh. og hafði með bankana að gera, voru fluttar inn í landið 60 millj. kr., sem Íslendingar áttu frosnar erlendis. Þessar 60 millj. voru borgaðar út til einstakra manna, sem áttu þetta fé. Þetta eru ráðstafanir til að skapa verðbólgu, þær geta ekki gert annað, vegna þess að þessum 60 millj. kr. er hent inn á peningamarkað Íslendinga án þess að taka verðmæti inn í landið, sem vega upp á móti þeim. Það er þetta, sem skapar verðbólguna, og hv. þm. átti ekki að tala eins mikið um verðbólguna og hann gerði, því að hann var einn aðalmaðurinn til að skapa hana. En er þetta nú það sama og að taka 90 millj. kr. og kaupa togara, sem kosta 90 millj. kr.? Skapar þetta verðbólgu? Nei. Það skapar enga verðbólgu, vegna þess að kaupgetan, sem þessar 90 millj. skapa, er notuð með það sama til að kaupa verðmæti inn í landið, en menn sitja ekki uppi með þær til að sprengja upp í fjór- og fimmfalt verð eignir hér innanlands. En þetta virðist hv. þm. ekki geta skilið. Hins vegar verða þau tæki, sem þannig eru keypt og flutt inn í landið, til þess að skapa varanleg verðmæti. Og ég held, að hv. þm. ætti ekki að vera að tala eins mikið og hann gerði áðan um það ástand, sem núverandi stjórnarstefna hefði skapað. Ég sé ekki betur en einmitt með núverandi stjórnarstefnu sé einmitt verið að reyna að ráða bót á þeirri vitleysu, sem hann skapaði meðan hann réð hér á landi, og þeirri verðbólgu, sem hann skapaði ásamt Landsbankaklíkunni, meðan hann hafði eitthvað yfir honum að segja.

Hv. þm. talar um, að það sé alveg dæmalaust hneyksli að fara að skylda bankann til þess að lána, og segir, að þetta komi aldrei fyrir hjá stríðsþjóðum einu sinni. Ég er alveg hissa á því, ef hv. þm. hefur aldrei heyrt talað um það, að erlendar ríkisstj. hafi getað tryggt sér lán, og meira að segja fyrirskipað þjóðbankanum að lána þeim, eftir því sem þær hafa þurft. Ég skal viðurkenna, að bankastjórar hafa verið mismunandi samningsliprir í þessu efni við sinar ríkisstj. Og fjöldi ríkisstj. hafa útskrifað lán hjá bönkum og lagt á hjá þeim nokkurs konar skyldulán, sem ríkisstj. hafa fengið fé út á samtímis því, sem þær hafa gefið út skuldabréf, ekki hvað sízt á stríðstímum, alveg eins og ríkisstj. á Íslandi gerir.

Þá segir hv. þm., að það sé heimskulegt að fara inn á þessa braut og skylda þjóðbankann til þess að gera þetta. Ég veit ekki, hvar stj. fjármála landsins á fremur að vera en á Alþ., eða heldur hv. þm., að hún sé hjá þjóðbanka Íslands? Það er Alþ. Íslendinga, sem ræður fjármálapólitík landsins og ákveður, hvort þjóðbankinn er til eða ekki, og ákveður honum reglugerð og ákveður honum skyldur á hverjum tíma. Ég skal gjarna upplýsa þennan hv. þm. um það hvernig það er í nágrannalöndum okkar. Það er t. d. þannig í Svíþjóð, að sænski þjóðbankinn sækir um það á hverju ári að fá undanþágu að hafa á hendi seðlaútgáfu, og um leið og bankastjórinn sækir um þetta, lætur hann fylgja skýrslur frá bankanum, þar sem hann lýsir sinni peningapólitík og hvers konar peningapólitík hann ætlar að reka. Þessi skýrsla er send þinginu, og þegar þessi skýrsla kemur til þingsins, er henni vísað til bankanefndar þess. Þessi n. athugar þessa skýrslu í samráði við ríkisstj., og síðan koma þessi n. og ríkisstj. sér saman um, hvaða pólitík bankinn skuli reka. Síðan er það þannig samþ. af þinginu, og þar með er ákveðin sú fjármálapólitík og peningapólitík, sem bankinn skuli reka. Það er vitanlegt, að einmitt með svo miklum afskiptum ríkisstj. og samstarfi þjóðbankans, t. d. mun skrifstofustjóri fjmrn. vera formaður sænska ríkisbankans, má efla þetta samstarf sem bezt. Þannig hefur sænska ríkisstj. haft það á undanförnum árum eða síðan 1931. Þá hefur hún reynt að reka sömu fjármálapólitík og peningapólitík bankans og stjórnað því, hvernig peningapólitík væri rekin í landinu. Og hvernig Svíum tókst að bjarga sér á árunum 1931–32, var mikið að þakka því, að ríkisstj. sænska lagði meðal annars þær skyldur á herðar þjóðbankans að leggja í framkvæmdir á þeim sviðum, sem einstaklingum þótti óráðlegt að leggja í. Það er þess vegna bókstaflega regla í öðrum löndum, að þjóðbankinn hagar sér eftir fyrirsögn þingsins hvað heildarfjármálapólitík snertir. Og þetta verður náttúrlega því frekar, sem þjóðin sem heild fær ástæðu til þess að stjórna sínu atvinnulífi og hafa alveg yfirráðin yfir þeim stofnunum, sem eiga að vera fyrir atvinnulífið.

Þegar hv. 2. þm. S.-M. talar um útgjöld hjá ríkisstj., þá talar hann eins og álfur út úr hól. Það er svo fjarri því, að hjá ríkisstj. komi til greina sú minnimáttarkennd, sem hv. 2. þm. S.-M. er svo oft að tala um, og upphaflega voru þessar till., sem í frv. felast, til þess, að Alþ. væri húsbóndi á sínu heimili og stjórn fjármálapólitíkurinnar í landinu og eftirlit og landsbankavaldið væri ekki látið hafa það stjórnleysi, sem það hefur haft í fjármálapólitík landsins. Hér er því aðeins um að ræða að ráða bót á þeirri stjórn og því eftirliti, sem ekki hefur verið gott undanfarið. Og ríkisstj. gerði líka í sínum upprunalega samningi ráð fyrir því, að það væri líka hægt að grípa til þess með harkalegri meðulum en hér er gert ráð fyrir að stjórna fjármálapólitík landsins, því að það var beinlínis gert ráð fyrir því, að ríkisstj. gæti útskrifað skuldalán hjá einstaklingum eftir efnum og ástæðum, og þá sér hver maður, þegar gert er ráð fyrir slíkum möguleikum, að það er alveg augljóst, að ríkisstj. grípur fyrr til þjóðbankans eða annarra banka en að skylda menn til þess að lána svo og svo mikið fé af eignum sínum. Það er svo fjarri því, að hér sé eitthvað, sem beri vott um minnimáttarkennd eða uppgjöf, heldur er hér verið að taka upp aðferðir, sem tíðkast í öðrum löndum, og hefur þar þótt sjálfsagt, að þing og stj. réði þar yfir bankapólitík viðkomandi lands. Og í staðinn fyrir að það sé heimskulegt að fara inn á þessa braut, eins og hv. 2. þm. S.-M. sagði, en hann talaði eins og reyndur bankamaður, þá hefur það tíðkazt, að þing erlendis hafa lagt mikla áherzlu á það, að peningapólitík væri hagað þannig, að þau gætu skyldað banka til þess að lána peninga í vissu augnamiði.

Þá kom þessi hv. þm. inn á stefnuna um vaxtakjörin til handa útvegsmönnum, og hann ræddi mikið um það. Að vísu væri gott, að útgerðin hefði lága vexti, þó vildi hann halda annarri leið heldur fram hér, og sagði hann, að í raun og veru mundi þetta þýða það, að sparisjóðsvextir yrðu lægri en ella. Ég sé ekki, að sparisjóðsvextir verði minni en ekki neitt, eins og þeir eru nú. Það má kannske láta þá vera það með því, að menn borgi með innistæðum. Ég býst ekki við, að það þætti gott hér á landi, þó að það tíðkist mikið erlendis. Hv. þm. vildi láta ríkið borga vaxtamismuninn, þó að einhverjir sérstakir sjóðir lánuðu út til útvegsmanna, megi bankinn reikna sér hærri vexti af því fé og ríkið borgi mismuninn. Og hv. þm. sagði, að fyrir útvegsmenn væri það ekki aðalatriðið, hvernig þessara fjármuna væri aflað. Er það þá ekkert atriði, að útvegurinn borgi vaxtamismuninn, því að það er vitað, að meginféð, sem ríkið á og tekur, er einmitt tekið frá sjávarútveginum? Og ef ríkið á að borga mismuninn á þessum vöxtum, þá þýðir það aðeins að taka meira frá sjávarútveginum til þess að borga þann vaxtamismun, og þá er það fyrir sjávarútveginn að taka úr einum vasa og láta í annan. Mér skilst, að sjávarútveginum geti ekki verið sama um það, á hvern hátt þetta fé er tekið, heldur sé það stórt atriði. Ég er hræddur um, að hv. 2. þm. S.-M. hugsi nokkuð skammt í þessu efni. Það er alveg gefið, að fyrir sjávarútveginn væri það dálítið hart að verða með útgjöldum sjávarafurða að borga vaxtamismuninn eða þá hitt, hvoru munar, að sparisjóðsvextir væru nokkru lægri og gróði bankanna nokkru minni.

En um hvað er spursmálið, þegar verið er að tala um vexti af lánum til sjávarútvegsins, sem sjávarútvegurinn eigi að borga? Við erum að tala um, hvort hann getur komizt niður á heilbrigðari grundvöll en hann var á fyrir stríð, og hvort við getum stutt hann og hvernig. Hvað tapaði sjávarútvegurinn miklu á Íslandi fyrir stríð? Hann borgaði vexti 7–8%. Maður við eitt útgerðarfyrirtæki landsins, bæjarútgerð Hafnarfjarðar, hefur nákvæman reikning yfir 9 ár, og það voru tveir liðir í rekstrarreikningnum, sem stóðust á, annars vegar vextir og hins vegar tap á útgerðinni. Með því að verða að borgá 7–8% vexti, tapaði útgerðin nákvæmlega því, sem vöxtunum nam. Og með öðrum orðum, með gömlu tækjunum og þeim erfiðu mörkuðum eins og voru fyrir stríð, þá er tapið ekki meira á sjávarútveginum en vextirnir, sem viðkomandi útgerð verður að borga. Það þýðir það, að ef við getum skapað útgerðinni heilbrigðari grundvöll, þá aukast möguleikarnir fyrir hagsæld þjóðarinnar, og það er einmitt hægt með útgerðinni að gera það og nota til þess þau auðæði, sem við nú höfum yfir að ráða. Ég fæ hins vegar ekki betur séð en að stefna hv. 2. þm. S.-M. sé í þessum fjármálum að láta undan einokunarstefnu peningamannanna og skilningi þeirra eða skilningsleysi á þörf þjóðarinnar til þess að ráða, hvernig farið er með fjármagn þjóðarinnar á hverju ári, og því skilningsleysi á þörf þjóðarinnar eins og því, hvernig fé er eytt hjá okkur og hvernig vextirnir eru og þess háttar, því að ég get ekki tekið tillit til þess, að ríkið eigi að borga vaxtamismun og taka þá síðan af þeim, sem það lánar. En þetta er alveg sama stefna og alltaf kemur fram í sambandi við nýsköpunina.

Röksemdir hv. þm. og flokksbræðra hans eru þær, að það sé ekki rétta leiðin að afla fjár á þennan hátt til atvinnuveganna, heldur eigi að bíða eftir, að einstaklingar vilji kaupa svo og svo mikið af skuldabréfum. Þessi rök má ræða, en á móti þessum rökum koma svo þau rök, að þjóðin þarf að fá fé sem fyrst, einmitt af því að skipastóllinn þarf að koma sem allra fyrst til landsins, svo að hægt verði sem fyrst að koma honum í fullan gang til þess að afla meira fjár. Og ég álít, að það sé eitthvert mesta stórvirkið á atvinnusviðinu, sem ríkisstj. hefur nokkurn tíma gert á Íslandi, að festa kaup á þeim 30 togurum, sem búið er að festa kaup á, og það sé það mesta happ, sem nokkurn tíma hefur átt sér stað í íslenzkri fjármálapólitík, og þá sérstaklega með tilliti til þess, að þessir togarar geta byrjað að koma upp til landsins í lok þessa árs og geta allir komið á næsta ári, sem eftir eru, og það þýðir, meðan mestu markaðsmöguleikarnir eru í Evrópu, og miklir möguleikar á því að láta þá borga sig.

Þá var hv. þm, að tala um það, að það væri undarlega hugsað hjá þessum mönnum, sem stæðu að þessu frv., að hafa ekki athugað, að erlendar innistæður eyddust. Fyrst er þá rétt að taka fram, að hér í þessu frv. á að taka 100 millj. kr., þær eru til erlendis. En svo ber enn þess að gæta, að t. d. 30 togarar, sem keyptir eru fyrir 90 millj. kr. erlendis, skapa erlendan gjaldeyri, og ég geri ráð fyrir, að þeir skapi ekki minni erlendan gjaldeyri en 90–120 millj. kr. á einu ári. Ég held, að verði lítið eftir af meinloku hv. þm., ef hún væri krufin til mergjar. Hann virðist haldinn af þeirri sömu hugmynd og lærifeður hans að eyða engu af þessu fé, heldur geyma það.

Þá ætla ég örlítið að koma inn á það, sem snertir þetta frv., og þá ekki aðeins röksemdir hv. 2. þm. S.-M. Því hefur verið haldið fram, að það væri firra, að Landsbankinn ætti að lána fé út til annarra lánsstofnana, það væri eitthvað, sem væri óviðeigandi. Hv. 2. þm. S.-M. var t. d. að tala um það. Ég hef orðið var við þessi rök, sem komu frá formanni sjútvn., að það sé ekki von, að Landsbankinn sætti sig við það, að frv. verði samþ. eins og sjútvn. vill og það sé svo óviðeigandi fyrir Landsbankann að lána fé sitt út til annarra lánsstofnana. Ég hef nú aldrei heyrt annað eins. Ég veit ekki, til hvers Landsbankinn er, ef hann er ekki til þess að lána út til annarra lánsstofnana. Ég veit ekki, hvernig þeir menn eru annars gerðir, sem koma með aðrar eins firrur og þær, að seðlabankinn láni ekki öðrum lánsstofnunum. Seðlabankinn er einmitt til þess að láta fé af hendi til annarra banka. Það er ekki meiningin, að seðlabankinn láni fé sjálfur, heldur er það hlutverk hans að lána fé til annarra lánsstofnana, sem ríkið hefur, hvort sem þær heita sparisjóðsdeild, veðdeild eða Búnaðarbanki, og það er lánað út úr seðlabankanum jafnt fyrir því, og menn verða að gera sér grein fyrir því, að það má ekki rugla þessu saman. En það er alveg eins og börn séu að tala, þegar hv. 2. þm. S.-M. og hans skoðanabræður hans eru að ræða þetta mál.

Ríkið er í ábyrgð fyrir þessum banka, og ríkið hefur talið heppilegt að hafa seðlabankann undir stjórn Landsbankans, og ríkið ábyrgist allar skuldbindingar vegna þessa 100 millj. kr. láns til handa fiskveiðasjóði gagnvart seðladeild Landsbankans. Ég veit ekki, hvað hv. þm. finnst eðlilegt. En það er æði barnalegt að heyra þetta frá mönnum, sem eru kosnir til að fara með stjórn fjármála landsins. Ég vildi mæla með því, að tímabært væri að koma upp sjálfstæðum seðlabanka. Það ætti þá ekki að vera hætta á því að fá svona rök sett fram. Þessi rök ná engri átt, enda óhugsandi fyrir þingið að taka tillit til þeirra. Þetta eru ekki heldur rök, sem koma frá stjórn sparisjóðsdeildar Landsbankans, heldur frá sérstakri klíku í þjóðfélaginu. (Forseti: Á hv. þm. mikið eftir af ræðu sinni?) Ég á dálítið eftir enn. Skal umr. nú frestað? (Forseti: Alveg eins og hv. þm. óskar). Þar sem ég á nokkuð enn eftir ósagt og venjulegur fundartími er þrotinn og ég orðinn dálítið þreyttur, vildi ég eins fá umr. frestað nú þegar. [ Frh.]