01.04.1946
Neðri deild: 99. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (2795)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Einar Olgeirsson [Frh.] :

Herra forseti. Ég var síðast kominn máli mínu þangað, að ég ræddi um mótbárur þær, sem bankastjórn Landsbankans færir fram gegn því, að bankinn láni til annarra lánsstofnana, og sýndi fram á, hvílíkur barnaskapur slíkt er. Landsbankanum er uppálagt með lögum að starfa sem seðlabanki, og það er skylda bankaráðs að leitast við að afstýra kreppum og hagsveiflum, sem annars eru eðlilegar. Það er í fyllsta máta ósvífið að koma með röksemdir gegn því, að Landsbankinn annist slíka lánastarfsemi, þar sem það er beinlínis skylda hans. Það virðist svo, að hv. þm. sumir hafi algerlega gleymt því, að þetta er þjóðbanki.

Ég held, að það sé full ástæða til þess, að þetta mál sé rannsakað nánar. Það hefur gerzt hér á þingi mál, sem er þess eðlis, að það verður að athuga það nánar. Hér hefur meiri hl. sjútvn. skilað áliti, og þeir nm., sem í honum eru, lýsa yfir því, að þeir hefðu helzt kosið að skila öðruvísi áliti, en þeir séu knúðir til þess að skila því, sem þeir hafi skilað, til samkomulags, eftir því sem hæstv. fjmrh. hefur upplýst utan þings.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að í stjórnarskránni er þingmönnum fyrirskipað að fara eftir sannfæringu sinni. Þessir hv. þm., sem eiga sæti í meiri hl. sjútvn., hafa lýst yfir, hver sannfæring þeirra er. Má ég þá spyrja: Hvaða vald er það hér á Íslandi, sem stjórnar því, að alþm. geta ekki farið eftir sannfæringu sinni? Hvernig stendur á því, að alþm. skuli leggja fram till. hér á Alþingi, þar sem meira að segja í nál. er tekið fram, að þeir hefðu kosið að skila öðruvísi nál. og kosið að halda fast við sannfæringu sína, en treysti sér ekki til þess? Ég held, að þetta sé mál, sem sé fyllilega þess vert, að Alþingi rannsaki það.

Það var hér, áður en hæstv. núverandi stjórn tók til starfa, þannig ástatt á Alþ., að mynduð var stjórn utan þings. Það var mynduð stjórn utan Alþ., og öfl utan Alþ. voru látin fara með ríkisstj., og Alþ. komst í niðurlægingarástand og gat ekki myndað stjórn í landinu og gat þar með ekki ráðið framkvæmdarvaldinu. Ég held, að meiri hluti þings hafi verið sammála um, að það hafi verið sérstaklega ánægjulegt fyrir Alþ., að það tókst að bjarga Alþ. úr því niðurlægingarástandi. Og ég held, að þegar við fáum upplýsingar um það nú, að það eru öfl utan þings, sem valda því, að þingmenn þora ekki að framfylgja sannfæringu sinni og skila áliti eins og þeir helzt hefðu kosið, heldur séu neyddir til þess af ástæðum, sem síðar hafa komið fram, að hverfa frá sannfæringu sinni og fara inn á aðra stefnu, þá sé fullkomin ástæða fyrir okkur að athuga, hvaða öfl það eru, sem ráða hér á Alþ. og knýja þm. til að fylgja öðru en sannfæringu sinni. Ég vil segja það, eftir að ég hef lesið álit meiri hl. sjútvn., að það sé ósæmileg meðferð á alþm., sem á sér hér stað, og ég held, að Alþ. þurfi að taka það til alvarlegrar athugunar, og ef Alþ. tekur það ekki til athugunar, þá þjóðin, hvernig á þessu stendur.

Hæstv. forsrh. lýsti yfir hér við síðustu umr. þessa máls, að Landsbankinn eða stjórn hans mundi sætta sig við frv. eins og meiri hl. hefur skilað því. Ég vil taka fram í því sambandi, að Alþingi Íslendinga þarf ekki að spyrja Landsbankann. Alþingi Íslendinga þarf ekki að spyrja Landsbankann, hvernig það eigi að haga lögunum. Það er Landsbankans að sætta sig við það, sem Alþ. gerir. Það er Alþ., sem hefur myndað Landsbankann, og það er Alþ., sem ræður honum. Það er því undarlegt að fá þær yfirlýsingar hér á Alþ., að stjórn Landsbankans muni sætta sig við eitthvert frv. svona og svona, en muni ekki sætta sig við það á annan veg. Það er ekki stjórn Landsbankans, sem er ríkisstj. hér á Íslandi, heldur stj., sem Alþ. hefur kosið. Hvorki ríkisstj.Alþ. þarf að spyrja stjórn Landsbankans að því, hvernig ráða skuli málum í þessu sambandi. Ég gat þess vegna um það áðan, að ef það ætti að fara slíku fram sem þessu og ef stjórn Landsbanka Íslands ætlar eins illa að átta sig á því áfram og hún virðist hafa gert nú, hvert hlutverk hennar er í landinu, þá liggur fyrir að aðgreina seðlabankann frá Landsbankanum, því að þá verður ekki komið fyrir tryggri og öruggri fjármálastjórn í landinu nema það sé gert. Ég hef þess vegna rætt nokkuð um þessa mótbáru, sem fram hefur komið, að Landsbankinn geti ekki sætt sig við, að það sé svo mikið fé tekið úr seðlabankanum og fært yfir á aðra lánsstofnun, og sýnt fram á, að það er ekkert annað en bábilja, ekkert annað en vitleysa, sem byggist á vanþekkingu á l. um Landsbanka Íslands og hlutverki seðlabankans, sem er þess valdandi, að svona löguð mótbára kemur fram.

Ég mun svo því næst koma að þeirri hlið, sem snýr að Landsbankanum alveg sérstaklega. Það liggur nú fyrir, að meiri hl. sjútvn. vill gera þá breyt. á þessu frv. að fela stjórn Landsbankans framkvæmd á því. Það hefur áður komið hérna fram, eins og hv. 6. landsk. skýrði frá, að stjórn Landsbankans var eini aðilinn í þessu landi, sem tók afstöðu á móti frv., þegar það kom fram, og hefur barizt á móti því síðan. Ég skal nú ræða nokkuð þær röksemdir, sem stjórn Landsbankans setur fram, og alla afstöðu hennar til þessa máls og þess máls, sem þetta er framkvæmd á.

Stjórn Landsbanka Íslands eru þeir aðilar, sem af þjóðinni hefur sérstaklega verið falið að hugsa um fjármál og atvinnumál Íslands. Þeir eiga að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir kreppur og ýmsar aðrar afleiðingar, sem annars leiðir af þeim viðskiptalögmálum, sem hjá okkur ríkja. Maður skyldi þess vegna hugsa, að þeir, sem Landsbankanum stjórna, legðu sig eftir því framast allra landsmanna að reyna að hugsa um, hvað gera skuli í fjármálum þjóðarinnar og hvernig treysta skuli atvinnulíf þjóðarinnar. Maður skyldi halda, að þeir, sem þessum banka stjórna, sýndu þess vegna í verki, að þeir væru færari en þm. almennt um að segja þjóðinni á hverjum tíma, hvernig væri heppilegast fyrir hana að verja fjármunum sínum og hvaða ráðstafanir henni væri ráðlegast að gera í sínu atvinnulífi. Stjórn Landsbankans hefur lengst af þurft að stjórna landi, sem hefur verið fátækt og þurft að sækja lán erlendis til þeirra framkvæmda, sem hér hefur átt að gera. Nú hefur þjóðin komizt í þá aðstöðu fyrir nokkrum árum að eignast mikið fé erlendis. Maður skyldi halda, að það væri engum nær en stjórn Landsbanka Íslands að hugsa nú um það, á hvern hátt landsmenn gætu bezt komið fyrir og bezt notað sína fjármuni, hvernig mundi vera bezt fyrir þjóðina sem heild, að þessir fjármunir yrðu notaðir þjóðinni til blessunar. Hefur stjórn Landsbanka Íslands hugsað um þetta? Hefur stjórn Landsbanka Íslands komið fram með till. um það, hvernig þessum auði þjóðarinnar skyldi varið? Eins og Alþingi veit, hefur engin hugmynd komið fram frá Landsbanka Íslands um það að hagnýta þessa peninga, sem þarna eru til, fyrir þjóðina. Í stjórn Landsbanka Íslands sitja menn, sem eru alveg blindir á, hvaða möguleikar væru fyrir þjóðina að hagnýta þetta fé, menn, sem ekki sjá nokkra möguleika fyrir að selja afurðir landsins eftir að styrjöldin hættir, menn, sem reyna að fella það, að settir séu fjármunir landsins í ný atvinnutæki til að framleiða meira eftir stríðið en gert var meðan á stríðinu stóð. Það hafa engar hugmyndir komið fram frá þessum mönnum, sem hefðu átt að vera fjármálaspekingar Íslands, „excellence“ sem hefðu bezt þekkingu á, hvernig komið yrði fyrir þeim fjármunum, sem íslenzka þjóðin nú á. En frá stjórn Landsbanka Íslands hafa engar hugmyndir komið um, hvernig stjórna skuli atvinnulífi Íslendinga eftir stríðið. Ég veit ekki, hvernig þeir menn hugsa, sem stjórna þessum banka. En hér frá Alþ. hafa komið hugmyndirnar um það, hvernig stjórna skuli fjármálunum. Héðan frá Alþ. hafa komið samtök um, hvernig fjármálastefnan skuli vera. Héðan hefur verið ákveðið, hvernig inneignir landsins skuli notaðar, og hér á þingi hefur verið mynduð ríkisstj. til að framkvæma þessa hluti. Landsbanki Íslands hefur svikizt um að gera þá skyldu, sem þjóðin gat heimtað af honum að gera, að hugsa um þessi mál og koma fram með góðar till. Það er Alþingi Íslendinga, sem hefur tekið ómakið af Landsbankanum og unnið það verk, sem Landsbankastjórnin átti að vinna. Frá Alþ. hafa hugmyndirnar komið, hvernig þjóðin skuli ráða fram úr þeim vandamálum, sem þeir menn, sem ráða Landsbankanum, virtust ekki hafa hugmynd um. Það er héðan, sem ráðin hafa verið gerð, hvernig fénu skuli varið til að tryggja öllum atvinnu, á sama tíma og stjórn Landsbankans virtist ekki sjá fram á annað en hrun, atvinnuleysi og öngþveiti. Þegar svo Alþ. kemur með sínar hugmyndir og kemur fram með ríkisstj., sem losar stjórn Landsbankans við að koma með þessar hugmyndir, hvað gerir þá stjórn Landsbankans? Hvernig hagar hún sér þá, þegar þessar hugmyndir koma fram ? Ég skal geta þess sérstaklega, að Alþingi skóp sérstaka stofnun til að vinna úr þessum hugmyndum, nýbyggingarráð, og nýbyggingarráð samdi m. a. það frv., sem hér liggur fyrir nú. Það var síðan sent út til stjórnar bankans o. fl. Ég skal nú rekja nokkuð þá afstöðu, sem bankinn tók gagnvart þeim hugmyndum, sem þar koma fram. Gagnvart sjálfri hugmyndinni um nýsköpun atvinnulífsins, um að leggja mjög mikið af fé þjóðarinnar í ný fiskiskip, tók bankinn þá afstöðu í því fyrsta bréfi, sem hann skrifaði nýbyggingarráði út af þessari till. um fiskveiðasjóð, að það væri óhjákvæmilegt, að bankarnir og fiskveiðasjóður yrðu fyrir stórtöpum. Það var það fyrsta, sem bankinn sá í þessu öllu saman. Þá er tekið fram: „Framkvæmdirnar mega ekki vera það hraðar, að margir fiskiskipaeigendur komist af þeirri sök í greiðsluþrot og lánsstofnanir landsins verði fyrir stórtöpum. Þá skal einnig á það bent í þessu sambandi, að varhugavert getur verið að framkvæma í einu slíkar stórbreytingar á fiskiskipaflotanum. sem ráðgerðar eru í frumvarpi nýbyggingarráðs.“ Allt, sem fram kemur af hálfu bankastjórnarinnar viðvíkjandi eflingu fiskiskipaflota Íslendinga eftir að togaraflotanum sérstaklega hefur sífellt hrakað, meðan bankastjórnin hafði málin í höndum sér, er hræðsla, hræðsla við, að breytingar nýbyggingarráðs séu svo stórkostlegar, að við þeim væri ekkert að gera.

Eitt höfuðatriðið, sem komið var fram með af hálfu nýbyggingarráðs og er höfuðatriði þessara l., var að tryggja lága vexti til handa útveginum. Ég sýndi fram á í fyrri hluta ræðu minnar, hvernig bæjarútgerðin í Hafnarfirði tapaði fyrir stríð á 9 árum nákvæmlega jafnmikilli upphæð og vextirnir voru, þannig að hún hefur borgað 7–8% vexti af sínum lánum í bönkunum og tapið hefur orðið nákvæmlega sama og þessir vextir. Bankinn svarar, þegar nýbyggingarráð lagði til, að vextirnir yrðu 2½%, með eftirfarandi : „Vextir þeir, sem Landsbankanum eru ætlaðir af skyldulánum til fiskveiðasjóðs, eru allt of lágir, og hlýtur það, þegar til lengdar lætur, að valda lægri vöxtum af sparifé í vörzlu bankans.“ Þetta segir bankinn, um leið og bankinn lánar útlendingum fyrir næstum enga vexti, eða 1%, en finnst allt of mikið, að íslendingum sé lánað fyrir 2½%.

Þá tekur bankinn enn fremur fram í bréfi, sem hann skrifar nýbyggingarráði eftir að hann er búinn að fá þá yfirlýsingu af. hálfu nýbyggingarráðs, að það séu ekki 300 millj., heldur 100 millj., sem seðladeildin eigi að lána fiskveiðasjóði:

„En það skal um leið tekið fram, að afstaða vor til frumvarpanna í heild er óbreytt eftir sem áður, þar sem vér lítum svo á, að sum helztu ákvæði þeirra brjóti í bága við meginreglur heilbrigðrar fjármálastefnu, og að þau þar af leiðandi gætu haft hættulegar afleiðingar fyrir þjóðarbúskapinn, ef þau yrðu að lögum.“

Við sjáum greinilega af þessari afstöðu, að bankinn álítur þær till., sem hér koma fram, hættulegar fyrir þjóðarbúskapinn og að þær brjóti í bága við meginreglur heilbrigðrar fjármálastefnu. Það er ekki hægt að segja ákveðnar af hálfu bankans, að þetta frv. sé óalandi, óferjandi og óhugsandi að framkvæma það og hættulegt, ef það yrði framkvæmt. Þetta er skoðun bankans, og hann lætur hana í ljós afdráttarlaust og skorinort með sæmilega kurteisum orðum í þessu bréfi. Þá segir seinna í sama bréfi: „Mikið skortir þó á, að með þessari breytingu verði komizt hjá hinum óheppilegu afleiðingum af því, að frumvarpið um fiskveiðasjóð gerir enn ráð fyrir sömu óeðlilega lágu vöxtunum af útlánum sínum, 2½%.“

Það er að vísu ánægjulegt máske að sjá, að það er á einum stað í þessu bréfi bankans gert ráð fyrir, að hann ráði ekki einn öllu saman, og ég ætla að lesa þann kafla. Þar segir svo :

„Varðandi það, sem segir í 2. lið greinargerðar nýbyggingarráðs, viljum vér taka fram, að nauðsynlegt er, að góð samvinna sé milli ríkisvaldsins og þjóðbankans, en stjórn Landsbankans telur, að vegna stöðu sinnar eigi hún að hafa mikið að segja við allar ráðagerðir um, hvaða stefnu beri að taka í peningamálum landsins, þó að það sé að sjálfsögðu Alþingi, sem hefur þar síðasta orðið.“

Það virðist samt eftir það, sem gerzt hefur í sjútvn., að bankinn líti svo á, að hann eigi að hafa síðasta orðið um, hvað ákveðið er á Alþ., þegar bankinn beygir meiri hl. n. svo, að hann leggur til það, sem hann hefði ekki kosið að leggja til, eins og þeir taka fram í sínu nál. Þeir hefðu kosið að framfylgja l. um fiskveiðasjóð, en þeir segjast vera knúðir af öðrum orsökum til að breyta frá þeirri sannfæringu og leggja til, að Landsbankinn fengi þetta.

Hjá stjórn Landsbankans gætir sama misskilningsins, að það er ekki verið að rýra aðstöðu seðlabankans, heldur verið að láta hann uppfylla skyldur sínar, og þar hefur Alþingi síðasta orðið, eins og bankinn fyllilega viðurkennir.

Eftir að Landsbankinn hefur hvað eftir annað lagt mjög eindregið móti málinu, leggur hann á móti því, að frv. séu lögð fyrir Alþingi. Það þarf því ekki frekar vitnanna við en stjórn Landsbankans lætur í té í sínu bréfi, hvað algerlega andstæð hún er þeirri stefnu, sem farið er inn á með frv. um fiskveiðasjóð, og við þurfum ekki heldur að fara í neinar grafgötur um það, að stjórn Landsbankans er andvíg þessu vegna þess, að hún er andvíg sjálfri nýsköpunarstefnu ríkisstj., og nú er þetta frv., sem hér liggur fyrir um fiskveiðasjóð, eitt aðalatriðið í framkvæmd ríkisstjórnarstefnunnar, þ. e. að tryggja framkvæmdina á því, að þessi lán verði virkilega veitt. Og nú vil ég spyrja: Dettur nokkrum manni í hug, sem hefur kynnt sér afstöðu stjórnar Landsbankans gagnvart þessu frv. og gagnvart öðrum meginatriðum í stefnu hæstv. ríkisstj., gagnvart stækkun flotans, sem þar er gert ráð fyrir, og gagnvart hinum lágu vöxtum, — dettur nokkrum manni það í hug, að með því að leggja framkvæmd málsins í hendur Landsbanka Íslands, þá verði þetta mál framkvæmt? Ég sé ekki betur en að með því að taka þá ákvörðun að ætla stjórn Landsbanka Íslands að framkvæma þetta mál, sé beinlínis verið að stefna að því að hindra framkvæmd þess. Ég vil lýsa því yfir, að eftir þær yfirlýsingar, sem fram hafa komið frá stjórn Landsbanka Íslands meðan þetta frv. var í undirbúningi síðasta ár, þá geti enginn maður með heilbrigðri skynsemi borið traust til bankastjórnarinnar að framkvæma þetta mál.

Síðan þetta frv. kom fram á Alþingi hafa orðið breyt. á stjórn Landsbankans, og það mætti kannske ætla, að við þær breyt., sem þá hefðu orðið, hefði verið hægt að búast við, að Landsbankinn mundi taka eitthvað betur á framkvæmd þessa frv. Það hafa orðið þær breyt., að þar hefur komið nýr bankastjóri, Jón Árnason, og sá maður hefur áður látið nokkuð í ljós, hvaða stefnu hann vildi láta framfylgja í atvinnumálum Íslands. Í grein, sem Jón Árnason, núverandi bankastjóri Landsbanka Íslands, skrifar í október 1944, um það leyti sem verið var að mynda núverandi ríkisstj., þá kemur hann fram með þá till., að við Íslendingar leggjum 400 millj. kr., sem við ættum erlendis, á vexti, þar sem við gætum lánað það út. Hann segir í grein í Samvinnunni 7. okt. 1944, með leyfi hæstv. forseta : „Þá gætum við greitt allar ríkisskuldir landsins og átt eftir um 400 millj. króna, sem við gætum lánað erlendis. Með mjög hóflegum vöxtum ættu þessir peningar að gefa okkur í árlegan arð um 12 millj. króna. Það er álitleg fjárhæð, og hvílir sú skylda á bönkum landsins að ráðstafa þessu fé í trygg útlán erlendis.“

Stefna þessa nýja bankastjóra er því að ráðstafa þessum innistæðum í lán erlendis í staðinn fyrir að nota það fé, sem landsmenn eiga erlendis, til að kaupa ný tæki, svo að landsmenn geti framleitt meira og flutt út og fengið meira fé handa á milli, en hann leggur til, að 400 millj. kr. verði lánaðar erlendis, sem muni gefa 12 millj. á ári.

Síðan, eftir að hæstv. ríkisstj. hefur verið mynduð í október 1945, þremur mánuðum áður en hann verður bankastjóri og eftir að rúmt ár er liðið frá því, að nýsköpunarstefnan hefur verið ákveðin sem grundvöllur núverandi ríkisstj., þá ritar hann grein í Samvinnuna, sem heitir: Gæta ber fengins fjár. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta : „Þar að auki er það vitanlega hrein flónska, svo að ekki sé meira sagt, ef það er alvara stjórnarvaldanna, að kaupa 150 mótorbáta og 30 nýja togara í einu, þó að einhver bið kunni að verða á, að þessi tæki verði tilbúin.“ Stefna bankastjórans er þarna mjög greinileg, sem sé, að það sé hrein flónska að kaupa 150 nýja mótorbáta og 30 nýja togara. Ríkisstj. er búin að kaupa 30 nýja togara og 150 mótorbáta. Það er búið að framkvæma þetta verk. Landsbankastjórinn lýsir yfir, að það sé hrein flónska, og svo á að setja þennan mann til þess að hafa vald yfir því, hvort útgerðarmenn þessa lands og bátaeigendur þessa lands fá lán út á þessa 30 togara og 150 mótorbáta. Hann er búinn að lýsa yfir, að það sé flónska og vitleysa að verja fjármunum landsins til þess að kaupa atvinnutæki erlendis fyrir þá. Hann vill lána féð erlendis, en hitt er flónska að kaupa 30 nýja togara og 150 nýja báta, og það veit hver einasti maður, að bankastjóri Landsbanka Íslands er ekki vanur að gera það sem bankastjóri, sem hann álítur hreina flónsku. Það er engin skylda, ef frv. verður afgr. svona, að lána 2/3 eða ¾ af kostnaði, það er aðeins heimild og þess vegna hægt fyrir bankastjórnina að neita að lána.

Það hefur verið gengið út frá, að lán til kaupa á þessum atvinnutækjum væru viss. Það er því að bregðast útvegsmönnum, sjómönnum og þeim bæjarfélögum, sem ákveðið hafa kaup á tækjum þessum, ef settur verður fóturinn fyrir þessar lánveitingar. Öll bæjarfélög og sjómannafélög hafa staðið með frv., og yfirlýsingar liggja fyrir frá stjórnmálaflokkunum í landinu um, að þeir séu fylgjandi frv. Það liggur því ósvinnu næst að ætla að fela höfuðóvini þessa máls framkvæmd þess. Það hefur líka komið ljóst fram, að stjórn Landsbankans hefur með ofríki beygt meiri hl. sjútvn. til að skemma frv. alveg á móti vilja nm., eftir því sem þeir hafa áður lýst. — Ég leyfi mér þess vegna að spyrja: Hvað er unnið við að losna við utanþingsstjórn, ef þm. er eftir sem áður stjórnað af utanþingsmönnum?

Ég hef fært hér rök fyrir því, að það er algerlega óviðunandi að afgreiða þetta mál þannig að fela stjórn Landsbankans, fjandsamlegustu klíku móti nýsköpuninni, að hafa framkvæmd þessara mála. Það er líka óskiljanlegt og óviðunandi, að þm. gefi yfirlýsingu um vilja á þingskjali, en verði svo vegna utan að komandi áhrifa að breyta móti vilja sínum, og væri fróðlegt að fá skýringu á slíkri framkomu.

Mér finnst undarlegt, hvað fáir þm. taka þátt í umræðum um þetta stórmál eða að minnsta kosti fylgjast með umræðum. Það virðist þó eðlilegra en að þeir láti utanþingsmenn segja sér fyrir verkum, Stjórn Landsbankans hefur lýst því yfir, að hún teldi vextina of lága eins og þeir eru ákveðnir í frv. nýbyggingarráðs. Með því að fela þessari stjórn framkvæmd málsins getur hún hækkað vextina, þegar henni sýnist, frá seðlabankanum. Afleiðingin er, að ríkissjóður verður að greiða mismuninn á þeim vöxtum, sem stjórn Landsbankans ákveður, og þeim, sem frv. ákveður. Þetta þýðir, að Landsbankastjórninni er gefið óbeint vald til þess að skattleggja ríkissjóð. Mér virðist, að þm. þurfi að gera sér vel ljóst, hvað slíkt þýðir. (Fjmrh.: Á hverju byggir þm. þetta álit?) Ég byggi það á því, að stjórn Landsbankans ræður vöxtum seðlabankans, en seðlabankinn lánar síðan stofnlánadeildinni, en ríkið er í ábyrgð og stofnlánadeildin hefur ekkert ákvörðunarvald. Ríkið hlýtur því að verða að borga þegar tap er.

Það eru ýmis fleiri atriði þessa máls, sem ég hefði gjarna viljað ræða, en ég ætla ekki að gera það nú. Nýbyggingarráð hefur samið þetta frv., og það er í fullkomnu samræmi við þá stefnu, sem ríkisstj. hefur samþ. Við viljum því fá tryggingu fyrir, að framkvæmdin verði örugg, en þá tryggingu fáum við ekki með því að fela Landsbankastjórninni framkvæmdina.

Ég læt þetta svo útrætt í bili, en er reiðubúinn að ræða þetta frekar síðar.