02.04.1946
Neðri deild: 100. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (2797)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Hæstv. forsrh. talaði um þetta mál almennt, í fyrradag ætla ég, að það hafi verið, — og mun ég því ekki fara mikið út í það að ræða málið almennt, heldur aðeins drepa á nokkrar aths., sem fram hafa komið hjá nokkrum þm. út af einstökum ákvæðum l. þessara.

Hv. frsm. minni hl. komst þannig að orði í framsöguræðu sinni, að aldrei hefði verið stigið djarfara spor með lánveitingar á Íslandi en með þessu frumvarpi. Ég ætla, að þetta sé réttmæli hjá honum, og er það að ýmsu leyti varhugavert spor, sem hér er stigið. Það er í fyrsta lagi óhætt að segja, að fyrir atbeina Alþ. hafi aldrei verið stofnað til eins stórkostlegra lánveitinga og hér eru til umr. Og í öðru lagi er að vissu leyti farið djarflegar í lánveitingar en tíðkazt hefur, þ. e. öllu hærri lánveitingar til einstakra fyrirtækja en tíðkazt hafa á Íslandi, og eru kannske djarfari ákvæði um það en þekkzt hefur yfirleitt um lánveitingar annars staðar. Og í þriðja lagi er svo tekin upp djarfleg stefna að því er vexti snertir, þar sem gert er ráð fyrir að binda vaxtafótinn í lengri tíma við hámarksvexti 2½%, og mun þetta líka vera einsdæmi í íslenzkri löggjöf. Hitt þarf ekki að benda á, hvað það er, sem veldur því, að svo djarft er teflt, sem raun ber vitni. Það, sem liggur til grundvallar fyrir því, er sú skoðun, sem meiri hl. Alþ. hefur hallazt að, að Íslendingum sé nú meiri þörf á því en nokkrum öðrum, að í fljótum svip verði aukinn skipastóll landsmanna og að reynt sé að búa þannig að þeim atvinnuvegi, sem hefur verið höfuðatvinnuvegur Íslendinga síðustu ár, sjávarútveginum, að hann geti þróazt á eðlilegan hátt og að sú þróun verði sem allra örust. Það er augljóst mál, að ef atvinnuvegir landsins geta ekki verið reknir af krafti og atorku á næstu árum, þá verður erfitt fyrir landið að standa undir þeim miklu kröfum um fjárframlög, sem nú eru gerðar af hálfu hins opinbera. Þegar Ísland varð fullvalda ríki á næstsíðasta ári, þá voru afleiðingarnar óhjákvæmilega þær, að ýmis útgjöld ríkissjóðs hlutu að aukast stórkostlega. Það kostaði Íslendinga mikið fé að taka utanríkisþjónustuna í sínar hendur. Íslendingar hafa einnig auðgazt á undanförnum árum, og afleiðingin hefur orðið sú, að kröfur á hendur ríkissjóði hafa aukizt, óeðlilega ört má kannske segja, og ég get ekki neitað því, að ég hef álitið, að þar hafi ekki gætt nægilegrar forsjálni, að kröfurnar hafi verið reknar meira af kappi en forsjá. En hins vegar verðum við að horfast í augu við þá staðreynd, að með þær kröfur verður ekki snúið aftur. Það verða, meðan Íslendingar hafa úr einhverju að spila, gerðar harðar kröfur. En skilyrðið fyrir því, að Íslendingar geti undir þeim staðið, er, að atvinnuvegirnir geti blómgazt. Þessi djarflega till. um lánveitingu til sjávarútvegsins og annarra fyrirtækja, sem standa í beinu sambandi við hann, verður því réttlætt með nauðsyn landsins til þess að efla og styrkja þessa miklu atvinnugrein. Aðferðin, sem notuð er, að leggja á seðlabankann skyldur til þess að leggja fram allmikið af því lánsfé, sem hér er ráðgert að veita í þennan atvinnuveg, með lágum vöxtum, réttlætist af þeirri bjartsýni, sem nú er ríkjandi, að skipastóllinn, svo framarlega sem hann verður efldur nú á næstunni, sé líklegur til að gefa þær tekjur á næstu árum, að allmiklu a. m. k. af lánsfénu verði aftur skilað á tiltölulega fáum árum. Það er augljóst mál, eftir því sem hingað til hefur verið litið á starfsemi seðlabankans, að þá væri lítt verjandi að binda svo mikið fé í þeirri lánveitingu, ef ekki væri trú á því, að atvinnuvegirnir mundu skila fénu tiltölulega fljótt aftur. Og á það má auðvitað benda, að þau ákvæði, sem ætlazt er til að verði lögfest með þessu frv., brjóta að ýmsu leyti í bága við þau ákvæði, sem eru í núgildandi bankalögum.

Þetta er nú það, sem ég vildi segja almennt um málið. Ég skal svo bæta við, viðvíkjandi því, sem fram hefur komið hjá hv. frsm. minni hl. og hv. 2. þm. Reykv., að þær breyt., sem meiri hl. sjútvn. hefur lagt til, að gerðar verði á frv., sem sé að færa lánastarfsemina frá fiskveiðasjóði til nýrrar deildar í Landsbankanum, stefni málinu í hættu. Ég held, að þetta sé fullkominn misskilningur hjá þessum hv. þm., og sannast að segja er ég næsta undrandi yfir því, að þm. á Alþ. tala um þjóðbankann eins og hann væri nokkurs konar óvinur ríkisins. Það hafa þeir því miður gert, og að mínu viti fullkomlega að ástæðulausu. Það er rétt að vísu, að Landsbankinn hefur bent á ýmis atriði í því frv., sem upphaflega var lagt fyrir um fiskveiðasjóð, sem hann hefur álitið orka tvímælis og talið of djarfleg, en við því er ekkert að segja. Það er æskilegt í alla staði, að málið sé athugað frá öllum hliðum, og ætti það að verða til þess, að löggjöfin yrði einmitt betur undirbúin.

Það hefur verið um það rætt hvað eftir annað af þessum hv. þm., að Landsbankinn hafi sýnt fjandskap þeim till., sem gerðar hafa verið af hálfu þings og stjórnar. En ég hef áður á það minnzt hér á Alþ. og þóttist færa þá full rök fyrir því, að þessi staðhæfing væri alveg úr lausu lofti gripin, og ég get enn bætt því við nú, að síðan umr. fóru fram um þetta á síðasta hausti, hef ég í ýmsum efnum þurft á aðstoð bankans að halda, og ég segi það sannast sagna, að ég hefði ekki getað óskað mér betri viðskipta og betri undirtektar undir þau mál, sem ríkisstj. hefur orðið að sækja til Landsbankans, en hún hefur fengið í hverju einasta máli.

Það er um það rætt af hálfu þessara hv. þm., af því að Landsbankinn hefur látið í ljós efasemdir um réttmæti ýmissa ákvæða, að þá sé vafasamt að setja honum í sjálfsvald, að hve miklu leyti lánsheimild þessarar löggjafar verði notuð. Þeir draga í efa, hv. þm., að Landsbankinn muni nokkurn tíma lána nema kannske lítinn hluta af því, sem löggjöfin heimilar. Mér er ekki vel ljóst, á hverju hv. þm. byggja þessa skoðun sína. Það er tvennt, sem þarna kemur til greina. Í fyrsta lagi, að yfirstjórn Landsbankans, sem er falin bankaráði, sem kosið er af Alþingi, er þannig skipuð, að í bankaráði eiga sæti, að því er ég bezt veit, fjórir góðir stuðningsmenn núverandi ríkisstj. og þar með einn flokksbróðir þessara þm., og jafnvel annar þm. sjálfur á sæti í bankaráðinu sem varamaður. Venjan er sú, að í nýjum stefnumálum sem þessum er það bankaráð, sem markar starfssviðið, og ræður í höfuðdráttum, hvernig á þessu er haldið. Ég skil ekki, hvaða ástæður þessir þm. hafa til þess að væna bankaráð Landsbankans um, að það hafi tilhneigingu til þess að eyðileggja þá löggjöf, sem hér er í ráði að setja. Ég hef a. m. k. enga ástæðu til að ætla, að bankastjórn hafi nokkra tilhneigingu til þess að reyna að draga úr lánveitingum fremur en hver önnur sjóðsstjórn mundi gert hafa. Hér kemur og annað sjónarmið til greina. Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum lánveitingunum, og bankastjórnin er því ekki að lána á áhættu bankans sjálfs, heldur á áhættu ríkissjóðs. Og hvaða ástæðu hún geti haft til þess, þegar ríkissjóður ber alla áhættuna, að snúast gegn þingi og stjórn í þessu máli, fæ ég ekki séð. Ég sé ekki, hvaða skynsamleg ástæða geti verið til þess að væna bankastjórnina um það. Hitt vil ég svo benda „a; sem hefur verið bent á áður, að það væri í hæsta máta óeðlileg aðferð að taka af þjóðbanka landsins eigi alllítinn hluta af stofnfé hans og fela það annarri lánsstofnun til útlána. Þetta væri fyrst og fremst ég vil segja alveg óskiljanleg aðferð gagnvart þeirri stofnun, sem ríkið sjálfa, löggjafarvald og landsstjórn á hverjum tíma hljóta að styðjast við í fjármálum þjóðarinnar. Það mættu a. m. k. liggja fyrir meir en litlar ávirðingar af hálfu stjórnar þeirrar stofnunar, sem þannig væri með farið, og ég held, að megi fullyrða það, að ef sú aðferð hefði verið viðhöfð, væri hún algert einsdæmi fyrr og síðar.

Vitanlega er það hreinasta fjarstæða, sem slegið hefur verið fram í ræðum og blöðum, að Landsbankinn hafi á nokkurn hátt kúgað Alþ. eða ríkisstj. í þessu máli. Að sú leið hefur verið valin, sem væntanlega verður farin í þessu máli, stafar af því, að meiri hl. Alþ. hefur ekki talið æskilegt að velja þá leið, sem lagt er til í því frv., sem kom fram í nýbyggingarráði upphaflega. En fyrir utan það, hvað þessi aðferð væri með öllu óeðlileg gagnvart Landsbankanum, að svipta hann miklum hluta af fé hans, má á það benda, að frá praktísku sjónarmiði væri þetta mjög óhagkvæmt. Landsbankinn er svo stór stofnun, að hann getur mjög vel séð um þetta, án þess að það kosti nokkra teljandi peninga. Ég skal ekki segja, hvort hann þyrfti að bæta við sig einum starfsmanni. En ef aftur á móti ætti að setja upp lánsstofnun fyrir þessa lánastarfsemi, mundi það ekki verða gert öðruvísi en með ærnum kostnaði.

Hv. frsm. minni hl. lagði á það mikla áherzlu, að gert hefði verið ráð fyrir því í upphafl. frv., að 3 manna n. hefði átt að hafa yfirumsjón með lánveitingunum, og sagði, að það hefði verið trygging fyrir því, að farið hefði verið að óskum þings og stjórnar um lánveitingarnar. Ég fyrir mitt leyti get ekki séð, hvaða trygging er fyrir því, að þingkosin nefnd fyrir fiskveiðasjóð hefði farið að óskum þings og stjórnar um lánveitingarnar frekar en þingkosið bankaráð Landsbankans. Ég held, að ríkisstj. og löggjafarvaldið hljóti að hafa svipaða aðstöðu til þess að hafa áhrif á báðar þessar stofnanir, og ef ástæða er til að ætla, að bankaráð Landsbankans sjái sig út til þess að draga úr lánveitingunum, þá held ég, að það gæti einnig komið fyrir með nefndina, því að hvorugt getur komið fyrir nema þannig, að bendingar komi um það frá hærri stöðum, þ. e. annaðhvort frá þinginu eða ríkisstjórninni. Ég held því, að það geti ekki orkað tvímælis, að það hafi verið réttara ráðið að fela Landsbankanum sjálfum að annast þessa lánastarfsemi en að fela það annarri stofnun. Ég held, að hvernig sem á þetta er litið, hvort heldur frá sjónarmiði bankans, ríkisins eða þeirra, sem viðskiptanna njóta, þá verði þetta hagkvæmasta fyrirkomulagið. — Mér þykir rétt í þessu sambandi að drepa á eitt atriði, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem ég því miður ekki heyrði alla, því að ég var á ráðherrafundi nokkuð af þeim tíma, sem hann hélt ræðu sína í gær. Hann hélt því fram, — og ég verð að játa, að sú skoðun kom mér á óvart, — að bankanum væri sett sjálfsvald um það, hvaða vexti seðladeildin tæki. Mér datt í hug sá möguleiki, að mér hefði sézt yfir ákvæði í frv., sem hægt væri að draga þessa ályktun af, og hef ég því athugað frv. vel síðan. En ég get ekki betur séð en þessi skilningur sé á engum rökum reistur. Í 10. gr. frv. á þskj. 315 er svo fyrir mælt, að vextir af lánum skuli ákveðnir af ráðh., en þó ekki vera hærri en 2,5%. Með þessum ákvæðum í 10. gr. eru sett takmörk upp á við fyrir þeim vöxtum, sem seðladeildin gæti tekið af stofnlánadeildinni. Vextir geta aldrei farið yfir 2,5%. Hitt er svo augljóst, að ef þessi lánsstofnun kemur til framkvæmda á þann hátt, sem fyrirskipað er, geta vextir aldrei komizt upp í þetta. Fyrst og fremst er þess að gæta, að þó að kostnaður Landsbankans við þessa deild verði ekki mikill, þá kemur einhver frádráttur. En í öðru lagi er ekki hægt að hugsa sér, að þetta komi til framkvæmda á þann veg, sem nú er hugað, heldur verði að gefa út vaxtabréf, hversu mikið fer eftir því, hvað mikið af skylduinnlögum kemur í stofnlánadeildina, hvað mikið er notað af nýbyggingarsjóðunum og hvað kann að verða lagt inn sem vaxtalaust fé í stofnlánadeildina. En það er augljóst, að stofnlánadeildin þarf ekki að gefa mikið út af vaxtabréfum til þess, að veruleg skerðing verði á þessum 2,5% hámarksvöxtum, sem hugsanlegir væru, því að það er ekki einn stafur um það í frv., að ríkissjóður eigi að bera vaxtahalla af þessu, og stofnlánadeildin er skyldug til að lána út með 2.5% vöxtum. Það hlýtur því að fara svo, að eftir því sem meira er gefið út af vaxtabréfum, því lægri verða þeir vextir, sem seðladeildin getur tekið af stofnlánadeildinni, og hugsanlegur væri sá möguleiki, að seðladeildin fengi enga vexti, ef þyrfti t. d. að gefa út svo og svo mikið af vaxtabréfum með 4% vöxtum. Það er því augljóst, að ekki þarf að gefa mikið út af bréfum til þess að sá hugsanlegi hæsti vaxtakvóti lækkaði allmikið úr 2.5%. Ég held því, að hv. þm. þurfi ekki að bera neinar áhyggjur út af því, að seðladeildin auðgist mjög af þessum viðskiptum. Það er nokkurn veginn augljóst, að það hlýtur að fara svo, að seðladeildin fái a. m. k. ekki hærri vexti en hún hefur haft af ávöxtun fjár erlendis. En eins og kunnugt er, eru það mjög lágir vextir, sem þar eru greiddir. Hitt er svo ríkisvaldinu fullkomlega heimilt, að kveða svo á, að jafnvel engir vextir skyldu greiddir af þessu fé, þingið hefur fullt vald til þess. Hitt er svo annað, hvort eðlilegt er að skylda bankann til þess að lána allmikið af starfsfé sínu án vaxta, og það er alveg rétt, sem fram hefur komið, að það, að þessi lági vaxtakvóti sé ákveðinn, hlýtur að hafa áhrif á innlánsvexti í bönkum.

Þá hefur verið nokkuð um það rætt, af frsm. minni hl. a. m. k., að brtt. liggi fyrir um það á þskj. 626 að takmarka nokkuð þau fyrirtæki, sem heimilt væri að lána fé til. Ég álít, að þessi takmörkun orki tvímælis. Hv. frsm. minni hl. benti á, að ástæðulaust væri að lána fé til dráttarbrauta, af því að samkv. gildandi hafnarl. væri kostur á að fá styrk eða lán úr ríkissjóði til þess að gera dráttarbrautir. Þó að þetta sé rétt, að möguleikar standi til þessa, þá get ég ekki komið auga á, hvaða skynsemi er í því að spyrna á móti því, að það opinbera leggi fram eitthvað fé til þess að koma upp slíkum fyrirtækjum.

Það er í öðru orðinu verið að tala um það, og það réttilega, að æskilegt væri, að meira af einkafjármagninu kæmi inn í atvinnureksturinn. En þessar till. hv. þm. sýnast smámiða að því að sporna á móti því, að svo verði. Það er alveg öfugt við það, sem hv. 2. þm. S.-M. lagði mikla áherzlu á, að það ætti að reyna að fá einkafjármagnið inn í atvinnureksturinn, og ég er honum sammála um það. Ég skal í því sambandi geta þess, að ég álít, að enn þá sé ekki séð fyrir endann á því, hvað mikið einkafjármagn fari í atvinnureksturinn. Það hefur verið beðið eftir því, hvernig þessu máli reiddi af, og ég ætla það ekki of mikla bjartsýni að búast við því, ef vel tekst um lausn þessa máls, að þá muni meira af einkafjármagninu koma inn í atvinnutækin en nú er, og ég álít rétt að gera það, sem hægt er, til þess að svo megi verða. Ef á annað borð á að stefna að því, að atvinnureksturinn verði áfram í höndum einstaklinga, þá ber einkafjármagninu skylda til þess að draga sig ekki í hlé nú, þegar þjóðfélaginu ríður hvað mest á, að það sé notað. Ég álít því, að þessar till. séu sízt til bóta, og ég vildi fyrir mitt leyti mæla gegn því, að þær verði samþ. Og það mætti kannske impra á því, að ástæða gæti verið til að hafa ákvæðin víðtækari en nú er í till. meiri hl.

Ég sé ekki, að skynsamleg ástæða sé til þess að útiloka lánveitingar til flutningaskipa. Íslendingar hljóta að verða að keppa að því að annast sína flutningaþörf sjálfir. Og þó að það verði að játast, eins og nú standa sakir, að hjá okkur er miklu meiri tilkostnaður við flutningaskip en hjá nágrannaþjóðunum, þá hlýtur þetta áður en langt um líður að breytast í það horf, að íslenzk flutningaskip geti orðið samkeppnisfær við flutningaskip annarra þjóða, og ég veit ekki, að hverju Íslendingar ættu fremur að keppa en að verða sjálfum sér nógir á þessu sviði. En ég get ekki séð, að mikil hætta stafi af þessu. Það er kunnugt, að Eimskipafélagið, sem er stærsti aðilinn í þessum efnum, hefur þegar gert ráðstafanir til þess að afla sér nokkurra skipa, og ég geri ekki ráð fyrir, að það mundi nota sér þessa heimild, a. m. k. ekki í stórum stíl, þótt til væri. Það hefur safnað það miklum sjóðum, að ég ætla, að það geti byggt meiri hlutann af þeim skipastól, sem það hefur ráðgert að koma upp á næstu árum, án verulegrar lántöku. Eimskipafélagið kæmi því ekki til greina, a. m. k. er ekki líklegt, að á næstu árum kæmu til greina mjög stórar fjárhæðir í þessum efnum. Hitt er ekki eðlilegt, að fyrirtæki, sem vildu ráðast í það að afla sér flutningaskipa, t. d. frystiflutningaskipa, olíuskipa og jafnvel almennra vöruflutningaskipa, væru útilokuð frá þessum hagkvæmu lánskjörum. Það getur aftur á móti komið til greina að flokka fyrirtækin, eins og gert er ráð fyrir í till. minni hl., að viss fyrirtæki hafi ekki rétt til lánveitinga nema því aðeins, að öllum fyrirtækjum, sem meira þætti um vert að kæmust á laggirnar, væri fullnægt áður. Ég vil í þessu sambandi aðeins drepa á það, sem fram kom hjá hv. 2. þm. S.-M., að það er ekki sennileg staðhæfing hjá honum, að vaxandi ótrú á verðgildi peninganna sé þess valdandi, að menn vilji ekki kaupa atvinnutækin nú. Ef svo væri í rauninni, að menn treystu ekki á verðgildi peninganna og þætti einsýnt, að íslenzka krónan mundi falla, þá sýnist liggja í augum uppi, að þeir ættu að nota tækifærið til þess að ná í atvinnutækin. Og ef svo færi, sem ég vil ekki spá, að gjaldeyrir landsins félli, virðist liggja í augum uppi, að minni hætta sé á, að atvinnutækin falli líka í verði. Sé það því rétt hjá hv. þm., að það muni ganga treglega að fá einkafjármagnið inn í atvinnureksturinn, þá ætti það að mínu viti frekar að benda til þess, að menn hafi trú á gildi peninganna, menn séu óhræddir við að eiga peninga eða verðbréf, af því að þeir treysti því, að þeir muni ekki falla í verði.

Annað atriði, sem kom fram í ræðu hv. þm. S.-M., vildi ég drepa á. Hann hélt því fram, að sú stefna, sem farið er inn á í þessu frv., yrði aldrei réttlætt með því, að seðladeild Landsbankans ætti nú miklar innistæður, og hann hélt því fram, að það væri ekki hægt að gera hvort tveggja, að lána peningana út og nota þá til þess að kaupa atvinnutæki inn í landið. Ég skil ekki vel, hvernig hv. þm. hefur fengið þetta inn í höfuðið svona, af því að mér sýnist það liggja í augum uppi, að það, sem ætlazt er til að hér verði gert, sé það að lána út á erlendar innistæður til þess að kaupa atvinnutæki inn í landið, þetta samrýmist því ákaflega vel út af fyrir sig. En hitt vildi ég benda honum á um leið, að þessi stefna er ekki óeðlileg, og sú skoðun, sem kom fram hjá honum og maður hefur heyrt víða, að hér sé verið að eyða erlendum innistæðum að óþörfu, hún er ákaflega fjarri öllu lagi. Sannleikurinn er sá, að einasti möguleikinn til þess, að við getum haldið okkar erlendu innistæðum, er sá, að við getum aukið okkar framleiðslu og vöruflutninga úr landinu. Ef við ætlum að halda áfram að reyna að fullnægja þeim miklu kröfum um innflutning, sem eðlilegur er eftir 15–16 ára svelt, þá verðum við að auka útflutninginn stórkostlega, og hann getum við því aðeins aukið, að við fáum ný atvinnutæki til landsins. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að frá því sjónarmiði séð, hvernig við getum haldið okkar gjaldeyrisjöfnuði í framtíðinni, þá sé hér rétt ráðið, jafnvel þó að við gerðum ráð fyrir einhverri verðfellingu. Hv. 2. þm. S.-M. hefur í brtt. sinni á þskj. 627 lagt til, að sá vaxtahalli, sem kann að verða á þessum lánveitingum, verði lagður í ríkissjóð, að ríkissjóður greiði þann vaxtamismun, sem verður á útlánum stofnlánadeildarinnar og þeim lántökum, sem hún verður að standa undir. En ég verð að játa það, að ég sé ekki, hver rök eru fyrir þessu, a. m. k. ekki að svo vöxnu máli. Það kann að verða örlítill halli á þessum lánveitingum, og ég get ekki séð, hvaða nauðsyn knýr til þess að leggja þau útgjöld á ríkissjóð. Yfirleitt er erfitt að skilja þarna á milli ríkisins og bankans, því að það eru stofnanir, sem eru svo nátengdar hvor annarri, að það skiptir ekki miklu máli, jafnvel þó að vaxtahalli yrði hjá bankanum, þótt bankinn taki þetta á sig í nokkur ár. En við verðum að gæta þess að ofbjóða ekki bankanum, þannig að hann geti ekki staðið undir sínum skuldbindingum. Hann verður að geta vaxið með eðlilegum hætti, þannig að hann geti fullnægt sínum mikilvægu verkefnum í þjóðfélaginu. En ég held, að erfitt sé að færa rök fyrir því, að með þessum ákvæðum frv. sé honum bundinn svo þungur baggi, að hætta sé á því, að hann geti ekki þróazt á eðlilegan hátt.

Þá er eitt atriði, sem ég vildi minnast á, það er viðvíkjandi nýbyggingarsjóðnum. Á þskj. 631 er lagt til, að lán megi ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar virðingar- eða kostnaðarverði eignar að frádreginni eign lántakanda í nýbyggingarsjóði, hafi lántakandi gert ráðstafanir, o. s. frv. Út af fyrir sig er ekki mikið við þessa till. að athuga, og því skipti í rauninni ekki neinu máli, þó að hún yrði samþ. En ég held, að till. sé óþörf eins og búið er að breyta frv. Ég skil ekki þá fjármálavizku, að nokkur maður fari að taka lán og borga 2,5% vexti og láta svo aftur nýbyggingarsjóð sinn inn í stofnlánadeildina og fá enga vexti af honum. Þetta er næstum óhugsandi, að menn gerðu. Ef einhver vildi gera þetta, mætti hann stofnlánadeildarinnar vegna gera það, því að hallinn hlyti að lenda á honum sjálfum.

Ég vildi svo að endingu minnast á það, að þessi að ýmsu leyti djarflega till. hefur verið réttlætt með því, að menn hefðu trú á, að allmikill hluti af því fé, sem ætlazt er til, að seðladeildin leggi fram, skili sér fljótlega aftur. En til þess að svo geti orðið, er augljóst, að annaðhvort verður að gera breyt. á núgildandi skattalöggjöf eða á reglunum um afskriftir af atvinnutækjum. Þetta mál hefur verið rætt innan ríkisstj., og hygg ég óhætt að segja, að innan skamms tíma komi fram hér á Alþ. frv um að auka afskriftir af öllum atvinnutækjum, sem komin eru upp í tiltekin árabil. En vitanlega á það að vera skilyrði fyrir þeim afskriftum, að allt andvirði þeirra verði notað til þess að greiða af lántökum. Nú er það að vísu svo, að heimild til afskrifta út af fyrir sig er ekki nægileg. Það verður líka að vera hagnaður á rekstrinum. En öll þessi viðleitni byggist á þeirri trú, að ástandið í heiminum sé þannig, að reikna megi með því sem líklegu, að atvinnutækin muni aðallega og einvörðungu starfa að framleiðslustörfum og þá fyrst og fremst á sjávarafurðum og þau geti á næstu árum skilað sæmilegum hagnaði, ef skynsamlega er að unnið. Hvort þessi von rætist eða ekki, þýðir ekki að vera með staðhæfingar um. Hitt verða menn að gera sér ljóst, að á þessu veltur, hvort sú viðleitni, sem hér er verið að gera til endurreisnar íslenzku atvinnulífi, blessast eða ekki.