02.04.1946
Neðri deild: 100. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (2798)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Einar Olgeirsson:

Hæstv. fjmrh. hefur komið nokkuð inn á það, sem ég sagði í gær. Hann sagði, að það væri óeðlilegt að taka fjárráðin yfir þessum lánum úr höndum aðalbanka landsins og láta það til annarrar stofnunar og þetta væri einsdæmi. Mér er þessi röksemdafærsla óskiljanleg. Seðlabankinn hér hefur tvenns konar hlutverk. Í fyrsta lagi að veita seðla út í atvinnulífið, og er til þess ætlazt, að hann veiti peninga til annarra peningastofnana. Með því að stjórna þannig fjármálum landsins á hann að koma í veg fyrir hagsveiflur. Í síðara lagi er honum svo ætlað að stunda venjuleg fjármálaviðskipti. Þessum tveimur hlutverkum mega menn svo ekki rugla saman.

Ég segi það, að ef menn taka svona nærri sér að taka af stofnun þessari fjárráð, sem ekki koma seðlabankanum neitt við, þá verður óhjákvæmilegt að hafa seðlabankann alveg sérstaka stofnun.

Það hefur komið fram í skrifum og ummælum um þetta mál, að menn átta sig ekki á því, að taka megi peninga frá seðlabankanum til þess að disponera fé út í atvinnulífið. Þetta er starf seðlabankans, að lána öðrum peningastofnunum fé. Ef það er orðið svo mikið tilfinningamál fyrir bankastjóra seðlabankans, sem jafnframt eru bankastjórar fyrir annarri bankastarfsemi, að lána fé út úr stofnuninni, þá verður, virðist mér, bara að sameina alla bankastarfsemi undir þennan eina banka. Samkvæmt þessu ætti t. d. ekki að lána fé til Ræktunarsjóðs Íslands, sem nú heyrir undir Búnaðarbankann, heldur leggja hann undir Landsbankann og kalla Stofnlánadeild landbúnaðarins. Ég held, að þessi röksemdafærsla geti ekki staðizt. Ég held, að þetta sé hjákátlegt, að vegna þess að stofnunin er nú í augnablikinu undir annarri stjórn, þá þurfi að setja á stofn aðra, svo að þær verði tvær, Stofnlánadeildin og Fiskveiðasjóður. Það verður að öðrum kosti að fara að stjórna Landsbankanum eftir öðrum reglum. Það verður óhjákvæmilegt að gera seðlabankann að sérstakri stofnun, óháðri Landsbankanum sem venjulegri bankastofnun.

Hæstv. ráðh. segir, að hér sé ekki um neina kúgun að ræða frá bankans hálfu, heldur sé þingvilji fyrir þessari breytingu. En þar eð atkvgr. hefur enn ekki farið fram, er í raun og veru ekki hægt að segja um það.

Í nál. meiri hl. sjútvn. segir svo, með leyfi hæstv. forseta : „Nm. hefðu yfirleitt kosið, að till. nýbyggingarráðs hefðu náð fram að ganga (sbr: þó fyrirvara EystJ um skyldulánin). En þar sem eigi var kostur á að fá samkomulag um það, hefur meiri hluta n. þótt nauðsyn bera til að fallast á hina breyttu tilhögun o. s. frv. . ....“ Hér er það sagt, að nm. hefðu kosið að fara eftir till. nýbyggingarráðs. Það er því ekki rétt, að meiri hl. hafi talið þetta æskilegt. Hitt er svo allt annað mál, hvað hægt er að teygja meiri hl. Alþ.

Þá hlýtur hæstv. ráðh. að vera um það kunnugt, að Landsbankinn hefur í hálft ár staðið gegn till. nýbyggingarráðs, og sjálfur hefur hann vafalaust átt einhvern þátt í því að teygja hv. þm. undir þennan vilja bankans. Hæstv. ráðh. segir, að það sé ekki rétt, að Landsbankinn hafi verið á móti málinu, og spyr, hvers vegna menn séu hræddir við, að hann mundi ekki framkvæma það á æskilegasta hátt. Hann vill láta líta svo út, sem bankaráð ráði í rauninni mestu. En mín reynsla er sú, að það séu bankastjórarnir, sem raunverulega ráði útlánastarfseminni, því að bankaráð kemur saman aðeins tvisvar í mánuði og venjulega á mjög stutta fundi og varpar svo venjulega áhyggjum sínum yfir á hina reyndu bankastjóra.

Ég lýsti því í gær, hvers vegna ég vantreysti núverandi stjórn bankans. Ég hef hér bréf, sem bankastjórn Landsbankans skrifaði nýbyggingarráði á sínum tíma, og vil ég leyfa mér að lesa kafla úr því : „Það skal um leið fram tekið, að afstaða vor til frumvarpanna í heild er óbreytt eftir sem áður, þar sem vér lítum svo á, að sum helztu atriði þeirra brjóti í bága við meginreglur heilbrigðrar fjármálastefnu og að þau þar af leiðandi gætu haft hættulegar afleiðingar fyrir þjóðarbúskapinn, ef þau yrðu að lögum.“ Nú hafa að vísu komið aðrir menn í bankaráð og nýr maður orðinn bankastjóri, en hann hefur líka lýst yfir því, að kaup á 30 nýjum togurum og 150 vélbátum væri hreinasta glapræði.

Hæstv. ráðh. hefur vafalaust þá reynslu sem fyrrverandi bankastjóri, að hann lánar ekki út á fyrirtæki, sem hann telur hreinustu flónsku. Og með tilliti til þessa finnst mér, að hann geti ekki láð mér, þó að ég telji ekki þessa menn þá heppilegustu til að stjórna útlánum til svona fyrirtækja, sem þeir álíta glapræði. Þegar Landsbankinn hefur í 6 mánuði barizt gegn frv. og hrópar síðan: Látið mig bara fá framkvæmd þess í hendur, þá finnst mér ekkert undarlegt, þó að ég sé dálítið skeptískur á framkvæmdir í höndum hans.

Hæstv. ráðh. kom svo inn á vextina, er ég minntist á í gær. Það getur verið, að hjá öðrum hvorum okkar sé þar um misskilning að ræða. Ég hafði skilið ábyrgð ríkissjóðs gagnvart bankanum svo, að það þýddi, að ríkissjóður tæki ábyrgð á rekstri stofnlánadeildarinnar í heild, og að hér væri um að ræða öll lán, sem fiskveiðasjóður fengi. En það má vera, að þetta sé ekki rétt skilið hjá mér og ábyrgðin nái ekki til rekstrarins. Ef það er rétt, að skuldbinding ríkissjóðs gildi líka hvað snertir reksturinn, þá verður þetta rétt með því, að Landsbankinn hafi rétt til þess að lána Stofnlánadeildinni með þeim vöxtum, sem honum þóknast, því að ríkissjóður borgar þá mismuninn. Hins vegar verður þetta rangt hjá mér, ef ríkissjóður tekur ekki ábyrgð á skakkaföllum. (Fjmrh.: Má ég benda á, að í 2. málsgr. 4. gr. er ekkert vaxtaákvæði, þar sem talað er um, hve seðladeildinni sé skylt að lána mikla upphæð til fiskveiðasjóðsins?) Síðasta ákvæðið í þessari gr. er nú um það, að ríkisstjórnin ábyrgist allar skuldbindingar fiskveiðasjóðs gagnvart seðladeild Landsbankans. Annars þætti mér vænt um, ef hæstv. fjmrh. leiðrétti mig um þetta atriði og skýrði frá því, hvernig hann skilur það, því að það er nauðsynlegt, að það sé alveg ljóst, með hvaða kjörum seðlabankinn láni þetta fé. Það er gert ráð fyrir, að munurinn á þessum 1½% vöxtum, sem bankinn lánar sjóðnum með, og 2½%, sem lánað er með út úr honum, verði í rauninni sá gróði, sem þarf til þess að standast kostnað, sem leiða mundi af skakkaföllum.

Þá vildi ég rétt koma inn á það atriði frv., er hæstv. ráðh. gerði að umræðuefni, hvað mikið skyldi lána til hinna ýmsu fyrirtækja. Það er alveg gefið, að þessar 100 millj. kr. ganga upp á fáum mánuðum. Ef gera á ráð fyrir að lána mikið fé út á fyrirtæki utan fiskveiðiflotans sjálfs, þá nægir þetta fé aðeins skammt. Og það er alveg bráðnauðsynlegt, þegar ríkið er að taka svona miklar ákvarðanir, lána út svona mikið fé, að þá verði þessu hagað á sem allra praktískastan hátt. Við getum tekið dæmi : Hér í Reykjavík kæmu t. d. tvær dráttarbrautir til með að sækja um lán, 3-3½ millj. hvor, og mundi til samans gera um 6–7 millj. kr. Þetta mundi samsvara því útlenda fé, sem þeir þyrftu annars að fá. Þetta mundi taka 6–7 millj. kr. úr sjóðnum frá bátakaupunum. Ef þessi félög réðu sjálf, þá yrðu hér tvær mjög svipaðar dráttarbrautir. Hins vegar hefur ríkissjóður fengið samþ. heimild til þess að veita Reykjavík lán til þess að koma upp dráttarbraut. Og það hefur enga sérstaka þýðingu í þessu sambandi, hvort fyrirtækið er bærinn eða einhver annar aðili. Aðalatriðið er, að það heppilegasta væri, að þetta væri aðeins eitt fyrirtæki. Ef fyrirtækið væri aðeins eitt, væri ekki ausið fé til óþarfa, sem leiddi af, ef fleiri væru.

Ég vil taka þetta fram vegna þess, að við ætlum okkur hér að fara að stjórna útlánastarfsemi gegnum ríkið, og þá munum við sjá það oft og reka okkur á það, að óhjákvæmilegt er, að þetta sé allt sem bezt organiserað. Við höfum ekki efni á því í okkar litla þjóðfélagi, að reisa tvö fyrirtæki, þar sem eitt nægði, enda mundi það koma á daginn, ef þessar dráttarbrautir yrðu tvær, að þær mundu keppa hvor við aðra, þar til að önnur færi á hausinn, og þá mundi það sterkara kaupa hitt upp.

Þessu vildi ég bara skjóta fram, vegna þess að þetta er dæmi, sem fer að endurtaka sig í fjöldamörgum tilfellum. En hitt vildi ég minna á, að þessi upphæð, 100 millj. kr., er ekki miklu meira en fiskveiðasjóðsframlagið, og því er ekki ástæða til þess að vera hræddur við kaup á þessum skipum. Aðalatriðið í þessu efni fyrir mér er það, að þetta stórmál verði tryggt í framkvæmd. En ég hef ekki trú á, að það sé tryggt í framkvæmd með því að fela stjórn Landsbankans að framkvæma það, einmitt vegna þess, hve hatramlega bankastjórar Landsbankans hafa barizt á móti nýsköpuninni, og vegna þess, hve það hefur komið greinilega í ljós, að þeir eru andvígir þessu máli. Þess vegna er ég andvígur því, að brtt. meiri hl. sjútvn. verði samþ.