03.04.1946
Neðri deild: 101. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (2817)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Sigurður Kristjánsson:

Eins og hv. frsm. og hv. 2. þm. S.-M. hafa skýrt frá, hefur þetta mál verið til umr. í n. síðan hún flutti það. Ég hef fátt um málið annað að segja en það, að ég tel heppilegt, að ríkið hafi forgöngu um þessa verksmiðjubyggingu og það yrði tryggt, að ekki væri send vara á erlendan markað, sem spillt gæti fyrir sölunni í framtíðinni.

Allir nm. voru sammála um að ákveða um stjórn verksmiðjunnar í l. Hitt hygg ég að ekki sé stórt atriði, hvor leiðin, sem bent hefur verið á, verður farin. Ég ætla, að báðar mundu gefast vel. En mér þótti ástæða til að geta þess, að forstjóri síldarverksmiðjanna og tveir menn úr verksmiðjustjórninni hafa talað við mig á milli umræðna og tjáð mér, að þeir álitu athugunum ekki komið nógu langt varðandi niðursuðuna til þess að rétt væri að senda vöruna á erlendan markað. En það kvað hafa komið í ljós, að sú vara, sem framleidd var síðastliðið sumar, tók ekki vel geymslu, þótt hún reyndist vel í fyrstu.

Mér þótti rétt að láta þetta koma fram nú strax, til að undirstrika það, að þessar byrjunartilraunir mega ekki koma óorði á þessa framleiðslu sakir fljótræðis.