07.12.1945
Sameinað þing: 13. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

16. mál, fjárlög 1946

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki við þessa umr. fara út í að ræða fjárlfrv. almennt. Ég ætla aðeins að víkja með fáum orðum að brtt., sem ég hef leyft mér að flytja varðandi mitt hérað, á þskj. 316. Brtt. mín snertir 13. gr. um úthlutun vegafjár. Ég vil segja það, að ég bar fram ósk við fjvn. um, að til vegaframkvæmda í mínu héraði yrði varið 260 þús. kr., og er það í samræmi við þær brtt., sem ég flyt. Fjvn. hefur fært þetta niður í 85 þús. kr., og er ég í efa um, að hv. n. hafi nokkurs staðar skorið niður till. vegamálastjóra annars staðar en þarna. Hv. n. ber því við, að því er virðist, að það var veitt nokkurt fé til vegarins milli Blönduóss og Skagastrandar umfram fjárl. yfirstandandi árs af samgmrh. og samkv. till. vegamálastjóra, til þess að halda áfram þessum vegi. Það ætti að vera hv. fjvn. kunnugt, að verið er að vinna að framkvæmdum í Skagastrandarkauptúni fyrir millj. kr. Og það virðist vera allundarlegt ráðslag, ef bíða á eftir því í tugi ára að koma á viðunandi vegasambandi milli þessara kauptúna, sem hér um ræðir. Ég fer fram á 100 þús. kr. aukningu á fjárframlagi til þessa vegar, og sú till. verður að koma undir atkv. við þessa umr. eða 3. umr.

Hin brtt. undir sama lið fjallar um fjárframl. til Svínvetningabrautar, sem bundin er við brúargerð á Blöndu. En áætlað er, að hún kosti 200 þús. kr. Ég fer ekki fram á nema helming þessarar upphæðar, og ef hún fæst, þarf það ekki að tefja fyrir þeim framkvæmdum, sem þarna eru fyrirhugaðar, brúargerðinni. Ég hef ekki farið fram á fjárframlög til annarra vega í mínu héraði, þótt mikil nauðsyn sé til þess. En ég er þeirrar skoðunar, að það beri, eftir því sem við verður komið, að haga vegaframkvæmdum þannig, að unnið sé á sem allra fæstum stöðum samtímis í sama héraði. Slíkar framkvæmdir mundu spara mikið fé og gera auðveldara að nota afkastamiklar vinnuvélar, Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um þessar till. fleiri orðum.

Þá er það brtt. frá mér varðandi brú á Blöndu, og er ég svo vægur í kröfum, að ég fer ekki fram á meira en það, að þessi nauðsynlega brú verði lögð ekki síðar en á árinu 1947. Þessi brú er áætlað, að kosti 400 þús. kr. eða jafnvel meira. Fer ég fram á 200 þús. Þannig er háttað í fyrsta lagi, að til stendur að reisa mjólkurvinnslubú á Blönduósi. Og fyrir það mál skiptir það miklu, að komið sé á þeirri samgöngubót, sem hér um ræðir. Það skiptir miklu máli fyrir þá bíla, sem annast eiga mjólkurflutningana, að þurfa ekki að fara tvöfalda leið, en geta farið hringinn. En það er meira um að ræða en þetta. Það er víst, að þjóðleiðin norður færi inn á þessa leið fyrr eða síðar. Auk þess munar miklu á vegalengd, og einnig er víst, að þessi leið er fær að vetrinum, þótt Langidalurinn loki samgönguleiðinni til Skagafjarðar. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Atkv. verða að skera úr um það, hvort menn vilja ganga inn á að samþ. fjárframlag þetta eða ekki. En ég vil ítreka það og leggja á það áherzlu, að þessi brúargerð og vegarlagning, sem í sambandi við hana stendur, er í öruggu sambandi við stofnun mjólkurbús í héraði mínu, sem ákveðið hefur verið að reisa vegna þess, hve illa er komið þar vegna afleiðinga af fjárpestum þeim, sem fluttar hafa verið inn í landið og gert milljóna tjón í sýslunni einni. Ég vil vekja athygli á því, hvað vegina snertir, að þessar óskir mínar eru lægri en þær mundu hafa verið, ef ég hefði ekki verið búinn að sjá þá úthlutun, sem fjvn, hefur úthlutað öðrum héruðum í þessu landi. Einkum snertir þetta þó sum héruð, sem hv. fjvnm. eru úr. Ég undanskil þó í þessu efni V.-Húnavatnssýslu, sem mér stendur þarna næst.

Þriðja brtt. kemur undir liðinn um mjólkurbú og smjörsamlög. Legg ég til, að fyrir 30 þús. komi 180 þús. kr. og þær 150 þús., sem þar um ræðir, verði ætlaðar til mjólkurbús á Blönduósi. Ég sendi hv. fjvn. bréf um þetta efni og áætlun um þær framkvæmdir, sem þarna er um að ræða, og hljóðaði hún upp á 580 þús. kr. Síðari upplýsingar frá þeim ráðunautum, sem að þessu vinna, telja, að kostnaðurinn muni aldrei geta orðið minni en 600 þús. kr. Og þess vegna er miðað við þá upphæð, að ríkið leggi fram ¼ kostnaðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til, þar sem mjög fáir hv. þm. eru viðstaddir, að fara um þetta fleiri orðum, en vona, að þegar til atkvgr. kemur, verði litið með fullri sanngirni á þau nauðsynjamál, sem hér um ræðir.