08.04.1946
Neðri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Í forföllum hv. þm. V.-Ísf. hef ég tekið sæti í sjútvn. og vil ég gera grein fyrir minni afstöðu.

Það má vel vera, að nú sé völ á sérfræðingum, sem hafa meiri þekkingu á síldarniðursuðuverksmiðju en stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. En stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hefur haft forgöngu um þetta mál og hún gerði samning við dr. Jakob Sigurðsson meðan hann var í Ameríku, um það, að hann kynnti sér þar niðursuðu á síld. Jakob var í þessu skyni á fullum launum hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Eftir heimkomuna átti hann svo að vera í þjónustu Síldarverksmiðja ríkisins og koma upp niðursuðuverksmiðju. Tilraunir um niðursuðu síldar hafa verið gerðar, en samkvæmt upplýsingum form. Síldarverksmiðja ríkisins ber nauðsyn til að halda þeim áfram a. m. k. eina síldarvertíð enn, vegna þess, að eftir að varan hefur geymzt í nokkra mánuði, er hún óseljanleg á erlendum markaði. Eitthvað hefur verið að. Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins kom því þá til leiðar, að umræddur fiskifræðingur kynnti sér þessi mál í Ameríku. Í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins eru áhugamenn, sem hafa starfað að þessum málum í mörg ár. Þaðan komu fyrstu till. um að setja á stofn síldarniðursuðuverksmiðju. En til þess að koma henni á fót, þarf sérþekkingu og góða stjórn, og stjórn S.R. hyggst ná því á þann hátt, sem þegar hefur verið skýrt frá. Ég treysti stjórn S.R. til að sjá þessu máli borgið til framkvæmda, þegar fullljóst er orðið, hvernig framkvæmdum á að haga. — Stjórn S.R. hefur vana menn í sinni þjónustu, sem eru færari en flestir aðrir til að dæma um ýmislegt í sambandi við téða niðursuðuverksmiðju. Til byggingar fyrstu síldarbræðsluverksmiðjunnar var fenginn erlendur sérfræðingur, og sá um verkið sérstök byggingarnefnd. Næstu verksmiðju S.R. hafði stjórn síldarverksmiðjanna ekkert með að gera. Eftir athugun á þeirri verksmiðju komu í ljós svo miklir gallar, að almannamál var, að órétt hefði verið að taka bygginguna úr höndum stjórnar síldarverksmiðjanna. Til eru skýrslur um þetta og eru þær ófagrar.

Í þær tvær nýju síldarverksmiðjur, sem nú er verið að byggja, eru tekin öll nýtízku tæki. Það hefur stjórn síldarverksmiðjanna undirbúið. Áætlað er að setja upp aflstöð með gufuþrýstikatli og ýmislegt fleira til nýjunga. Er þetta eignað stjórn nýbyggingarráðs. Ég tel rétt að láta það koma fram hér, að þetta var undirbúið af fyrrv. forstjóra, Jóni Gunnarssyni, og er rétt að upplýsa, að þegar verið er að eigna nýbyggingarstjórn þessar framkvæmdir, þá er það úr lausu lofti gripið. — Ég vona, að þetta fari allt vel, og ég skal ekki vera með hrakspár í þessu.

Ég tel, að stjórn síldarverksmiðjanna hefði vel getað aflað sér þekkingar og sérfræðinga í þessu máli, og tel því óhyggilegt að setja á stofn nýbyggingarstjórn til að sjá um þetta. Það er dálítið einkennandi, að valinn hefur verið maður í þessa byggingarnefnd, sem stóð fyrir axarsköftunum við byggingu síldarverksmiðju á Siglufirði árið 1937.