08.04.1946
Neðri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (2845)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Einar Olgeirsson:

Það er út af því, sem kom fram hér áðan. — Ég hafði haft dálítið með að gera byggingu hinnar nýju síldarverksmiðju á Skagaströnd. Mér var þá mjög ljóst, að stjórn S.R. var mjög ótrúgjörn á, að þessi verksmiðja kæmist upp fyrir komandi vertíð. Ég er því mjög á móti að fela stjórn S.R. að byggja þessa niðursuðuverksmiðju. Síldarverksmiðjan á Skagaströnd, sem nú er verið að byggja, er fyrirtæki, sem mikið liggur við að koma upp sem allra fyrst. En hún hefði líklega aldrei komizt upp, ef stjórn S.R. hefði verið falið að sjá um þessar framkvæmdir. Stjórn S.R. hefur svo mikið að gera, að ekki er á bætandi. Hún hefur milli 40–50 millj. lítra af lýsi, sem hún þarf að selja, en þar að auki þarf hún að sjá um sölu á síldarmjöli.

Hingað til höfum við beðið stórtjón af því, að hér hefur ekki verið komið upp stórvirkum niðurlagningartækjum. Og ég skil satt að segja ekki afstöðu stjórnar síldarverksmiðjanna, að hún skuli vilja fresta þessum framkvæmdum. Ég álít, að stjórn síldarverksmiðjanna hafi næg verkefni, m. a. að koma upp eigin verksmiðjum, þótt þetta sé öðrum falið.