23.04.1946
Efri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (2859)

104. mál, atvinna við siglingar

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason) :

Ég átti ekki kost á því að vera við fyrri hl. þessarar umr. Það er nú búið að ræða allmikið um þetta mál af minni hl. sjútvn. og einnig af hæstv. samgmrh. Og þó að hæstv. samgmrh. hafi allmikið rætt málið, þykir mér rétt að rekja sögu málsins hér á þingi.

Upphaflega var þetta frv. flutt af tveimur hv. þm., þm. Vestm. og þm. Borgf. Og þá fór frv. fram á að gera þá breyt. á þessum l., að hækka vélaaflið, sem réttindamenn megi fara með, um 100 hö., og þá aðeins miðað við mótora. Og það er viðurkennt, að langmestu vandræðin eru einmitt við meðferð mótorbátanna, sem liggur fyrst og fremst í þeirri geysimiklu fjölgun bátaflotans, og þó öllu meira í stækkun vélanna. Því að það er öllum ljóst, að þær vélar, sem nú eru teknar nýjar í eldri báta, eru allar stærri en þær, sem áður voru notaðar í þeim. Og það virðist ekki vera neitt undarlegt, þó að það leiði til vandræða fyrst í stað, þegar fiskiflotinn er aukinn a. m. k. yfir 100 skip, og mest af þeim eru mótorskip, og hvað snertir fagmenn til þess að fara með vélar í þessum skipum, þar sem vitanlegt er, að ekki hefur verið hægt fram að þessu að fleyta þeim fleytum, sem til hafa verið, nema með því að veita undanþágur. Og ég hygg, að nú muni vera 30–40 menn, sem vinna þannig með undanþágu.

Hv. flm. þessa frv. álitu, að réttara væri að færa upp hámarksafl vélanna til þess að veita mönnum réttindi til þess að fara með þær án frekari lærdóms. Og þó að ég sé ekki fagmaður, verð ég að telja það einna álitlegustu leiðina, því að ég hef fyrir því nokkra reynslu og ég legg ákaflega mikið upp úr því, að með sem búnir eru að fara með minni vélar, en þó nokkuð svipaðar, fái frekar réttindi til þess að fara með stærri vélar, og ég álít, að sá maður, sem hefur farið með vél í allt að fjögur ár, sé miklu færari til starfsins en t. d. maður, sem hefur aðeins verið á mótornámskeiði. Og því er það, að ég tel þá leiðina að hækka hámark vélakraftsins betri en undanþáguleiðina. Og þegar maður lítur á þetta mál, eru á því tvær hliðar, önnur snýr að fagmönnum, en hin að útvegsmönnum. Ég tel það miklu betra fyrir útvegsmann að eiga þess kost að halda sínum vélamanni, sem hann hefur haft undanfarin ár. Að vísu á hann nú að fara með aflstærri vél, en útgerðarmaðurinn hefur reynslu fyrir því, að maðurinn hefur reynzt vel í starfinu. Og það er nokkuð harðleikið fyrir útgerðarmann, sem hefur haft góðan vélstjóra undanfarið, að verða að láta hann fara, en fá svo einhvern undanþágumann til þess að fara með sína vél, en það á hann á hættu, vegna þess að það á ekki að spyrja útvegsmenn, hverjum eigi að veita undanþágu, heldur er það skipaskoðun ríkisins, þ. e. a. s., ef farið væri eftir till. minni hl. n.

Það þarf ekki að eyða mörgum orðum um það, hvaða vandræði eru hér á ferð, því hefur hæstv. samgmrh. lýst svo greinilega, að ekki þarf um að bæta. Hæstv. ráðh. taldi leiðirnar þrjár, sem um væri að velja, en játaði, að ein væri útilokuð, sem væri aukin fræðsla, sem ekki bætti ástandið eins og það er nú. Þá eru hinar tvær, önnur er sú, sem frv. fer fram á, að auka réttindi vélgæzlumanna og vélstjóra, þannig að hestaflafjöldi vélanna er hækkaður, sem þeir vélstjórar fá að fara með. Ég tel þá leið öruggari, sem er byggð á því, að mennirnir hafi undir flestum eða öllum kringumstæðum verulega æfingu.

Hins vegar ef farin er sú leið að auka heimild ríkisstj., sem sumir telja, að einnig sé til, til þess að veita undanþágu til þess að fara með þessar vélar, en ég tel þá leið miklu varasamari, af því að það er engin trygging fyrir því, að þeir, sem undanþáguna fá, hafi jafnmikla reynslu eins og þó er gert hér að skilyrði til réttindaaukningar. Ég held því, að eina leiðin, sem fær er í þessu sé að fara þessa leið, að hækka hestaflafjöldann, og hún sé alveg áhættulaus.

Hv. þm. Barð. lét í ljós þá skoðun á nefndarfundum, að hækkun sú, sem felst í 1.–10. gr. frv., mundi frá faglegu sjónarmiði ekki vera neitt vanskileg, og hann gerði ráð fyrir, að það kæmi ævinlega til þess að gilda upp á móti hestaflafjölguninni. En aftur var hv. þm. miklu tortryggnari gagnvart 11.–18. gr. frv., að báðum meðtöldum, en það er viðkomandi vélgæzlumönnum, sem hafa bara nám frá námskeiði Fiskifélags Íslands, eða menn, sem hafa nám frá Vélstjóraskóla Íslands, auðvitað minna nám en áskilið hefur verið í l. hingað til. En nú stendur svo á, að mikill skortur er á mótoristum til þess að fara með vélar yfir 150 hö., og við þessa þörf er miðað í upphafi, þegar frv. var samið og flutt á þingi.

Ég verð að líta svo á, að ef hin leiðin yrði farin, að veita ráðh. heimild til þess að veita undanþágu í þessum efnum, þá kemur sú hætta, að við verðum að búa við þetta ástand, þangað til hægt er að fullnægja l. um fullkomið nám. En ef ráðh. vill — sem mér skildist á honum í ræðu, sem hann flutti hér áðan, — nota þá heimild, sem felst í 26. gr. frv. eins og það er nú, til þess að koma á að vísu nokkuð stuttum námskeiðum annaðhvort við vélstjóraskólann eða þá öllu heldur hjá Fiskifélagi Íslands, þá skilst mér, að það megi ákaflega mikið og fljótt bæta úr til bráðabirgða, þannig að menn eigi kost á, um leið og þeir fara með vélar í bátum, að fara á þessi námskeið. En ef undanþágan er veitt, er ég hræddur um, að þetta verði alls ekki notað. Og ég legg ákaflega mikið upp úr því, að þessi heimild 26. gr. verði notuð til hlítar. Ég veit, að Fiskifélag Íslandi mun fyllilega vilja ljá sitt liðsinni, að slíkt væri hægt að framkvæma. Hins vegar verður náttúrlega að skeika að sköpuðu, hver niðurstaðan verðúr um meðferð málsins. Báðar þessar leiðir eru ekki fullnægjandi, og ég er fyllilega sammála frsm. minni hl. um það, að það verður að bæta kennslumöguleikana í vélfræði, bæði hvað snertir mótorvélar og gufuvélar, og hvor leiðin, sem verður tekin nú í afgreiðslu þessa máls, verður aldrei nema til bráðabirgða, en ég tel, að sú leið, sem frv. gerir ráð fyrir, sé affærasælust. Og ég tel, að hún valdi ekki neinni röskun, sem hætta geti stafað af.

Ég skal fúslega játa, að hvað snertir gufuvélar, hef ég hvorki reynslu né þekkingu, en mér hefur skilizt á hv. frsm. minni hl., að hann teldi þar ekki mikla hættu á ferðum. En þó að ég hafi ekki faglega þekkingu í meðferð mótorvéla, þá hef ég nokkra reynslu, bæði eigin reynslu og annarra, og við höfum orðið að notast mest við þá þekkingu, sem fengizt hefur með praksís, og ég legg ákaflega mikið upp úr henni. Og við höfum átt, sem betur fer, prýðilega menn í þessu starfi, þó að þeir hafi ekki átt kost á að fá nægilega fræðslu, eins og æskilegt hefði verið.

Hvað snertir einn þátt till. hv. frsm. minni hl., þá er ég honum sammála um það, að nú strax þyrfti að gera ráðstafanir til þess að endurskoða þessi l., og er það ekki óeðlilegt, því að við höfum hingað til búið við svo ófullnægjandi kennslu í meðferð véla. Og nú hefur riðið yfir okkur hin mikla vélaöld, ekki aðeins hvað snertir skip, heldur líka í landinu, og eitt af því, sem torveldar nú mjög að fá hæfa menn á fiskiflotann til þess að gæta vélanna, er hin geysilega öra aukning vélstjóra í landi. Á hverjum stað fer á land fjöldi manna, sem hafa reynzt prýðilega á flotanum, til vélgæzlu í landi.

Ég vildi mælast til þess, að hæstv. ráðh. gæfi enn frekari yfirlýsingu um það, hvort hann muni ekki gera sitt ýtrasta til þess að nota heimildina, sem honum er gefin í 26. gr. frv., ef það verður samþ. Og í annan stað, þó að það verði ekki samþ. á Alþ., að hann hlutaðist til um, að skipuð yrði n. til þess að endurskoða l. um atvinnu við siglingar, og þá sérstaklega að því er snertir vélgæzlu. Því að, sem betur fer, horfir nú miklu betur með skipstjórana.

Ég læt svo útrætt um þetta mál. Það fer nú eins og fyrri daginn, hv. þm. þurfa ekki að hlusta mikið á umr., það eru fáir, sem hlusta nú á þær. Ég læt alveg skeika að sköpuðu, hvernig um þetta mál fer, atkv. verða að skera úr. Allir viðurkenna, að ástandið er slæmt og að úr því verður að bæta með bráðabirgðaráðstöfunum, sem allir viðurkenna, að eru ófullnægjandi.