23.04.1946
Efri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (2861)

104. mál, atvinna við siglingar

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég skal ekki lengja umr. frekar. En ég get ekki stillt mig um að segja nokkur orð út af því, sem hv. þm. Barð. sagði áðan, að í afstöðu minni gætti nokkurs misskilnings um málið í heild. Það má náttúrlega vel vera, að ég skilji það ekki allt til fullnustu, en ég hef þó reynt að setja mig inn í það eins og efni stóðu til. Og mér var fullkomlega ljóst, að ef frv. yrði samþ. og viðmiðunartala ha. aukin, er það ekki á valdi ráðuneytisins að ákveða, hverjir fái réttindin út yfir það, að þeir, sem hafa þessi réttindi áður, sem frv. gerir ráð fyrir, þeirra réttindi aukast eins og frv. gerir ráð fyrir. Og þar kemur ekki til neins frá ráðuneytinu að segja neitt til um það, með eða móti, um það segja l. alveg ákveðið. En ég sagði um þetta, að ég væri ekki það vel að mér í málinu, að ég teldi, að ég gæti fellt um það neinn úrslitadóm. En hér hafa aftur margir menn komið að, sem margir hverjir, að ég ætla, hafa nokkurt vit á, og það hefði átt að fá þeirra umsögn. (GJ: Þeir eru allir á móti frv.) Sumir á móti og sumir með. Frv. er flutt að beiðni vélstjórafélags Akraness og Vestmannaeyja. Þessi vélstjórafélög standa að flutningi málsins, svo að það er ekki hægt að segja, að stéttin sé einróma á móti því.

Nú kann að vera, að örfárra þeirra manna, sem hér er verið að hækka í sessi, gæti meira en hinna og meira en rétt er. En þessi félög tilheyra stéttinni, og þeirra orð eiga líka að heyrast í málinu.

Ég held a. m. k. að það hafi ekki verið tómur misskilningur á málinu hjá mér, þó að ég vilji ekki slá föstu á þessu stigi málsins, hvora leiðina beri að fara. Mér finnst, að báðar geti komið til athugunar, sem þarna eru nefndar, en þó þannig, að ef fróðum mönnum í þessum efnum virðist, að þessar viðmiðunartölur séu of háar, vil ég beygja mig fyrir þeim úrskurði. Og þar sem Farmanna- og fiskimannasambandið hefur boðizt til þess að senda sína fulltrúa til n. (GJ: Þeir hafa mælt á móti þessu.) Hafa þeir talað við n.? (GJ: Já og verið á móti frv.) Þá er ég fús til þess að taka þeirra álit til greina.

Þá mun ég fús til að taka til greina heimildina um aukið nám í þessu bóklega og vona, að þeir möguleikar aukist mjög við betri aðstöðu í hinum nýja sjómannaskóla.

Hv. þm. Barð. gerði ráð fyrir því, að menn mundu hætta að fara í skóla. Það held ég, að komi ekki til mála, að menn mundu hætta að fara í skóla, þó að þetta frv. yrði samþ., því að flestir, sem ætla sér að stunda þetta starf, reyna að afla sér þeirrar þekkingar, sem nauðsynleg er og mögulegt er að fá, til þess að verða sem hæfastir í starfinu. Þannig er nú einu sinni okkar hugur Íslendinga yfirleitt, og hefur það komið allra greinilegast fram í iðnaðinum, þar sem gervimenn hafa verið teknir í allar greinar iðnaðarins, en aldrei í sögunni hafa fleiri iðnnemar farið út til þess að fullkomna sig í iðnstarfinu en á þessum árum, þar sem iðnnematalan hefur upp undir það ferfaldazt á þessu tímabili. (GJ: Gervimenn fá ekki réttindi þarna.) Það dregur að mínu áliti ekki úr því, að menn reyni að afla sér þeirrar fyllstu þekkingar, sem hægt er að fá í faginu, því að það segir sig sjálft, að þegar að því kemur, að jöfnuð verður eftirspurn, og framboð, verða Þeir valdir, sem mesta þekkingu hafa, en hinir verða í landi, sem minna kunna.