23.04.1946
Efri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2038 í B-deild Alþingistíðinda. (2862)

104. mál, atvinna við siglingar

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason) :

Ég skal ekki tefja umr. Það eru tvö atriði í ræðu hv. þm. Barð., sem ég vildi athuga dálítið. Annað það, að ef þetta frv. yrði að l., mundu vélgæzlumenn hætta að fara í skóla. Ráðherra hefur svarað þessu, og er ég þar honum sammála. Hitt er það, að hv. þm. Barð. taldi, að með þessu frv. væri stefnt að því að stofna í hættu bæði fjármunum og lífi manna. Ég verð að segja, að ég get ekki séð, að slíkt gæti átt sér stað, hvor leiðin sem farin yrði. Mér finnst, að ef það gæti átt við um frv., gæti það ekki síður átt við um undanþáguna. En ég vildi mótmæla þessu á þeim grundvelli, að ég held, að þeir mannskaðar og skipskaðar, sem hér hafa orðið, hafi sjaldnast, ef þá nokkurn tíma, orðið af völdum þess, að ekki hafi verið fyllilega faglærðir menn um borð. Og ég veit fyrir víst, að það er hægt að sanna þetta.