08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

16. mál, fjárlög 1946

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hafði ætlað að geyma að svara nokkru af því, sem kynni að verða rætt um fjárlagafrv., þangað til síðar, en af því að komið er nærri þingslitum og enginn þeirra, sem á mælendaskrá eru, er mættur, þykir mér rétt að nota tímann til svara.

Ég vil geta þess þegar í upphafi máls míns, að n. þótti rétt að láta það koma ljóst fram, hver héruð fengið hafa greiðslur fram yfir fjárveitingar í yfirstandandi fjárlögum. Viðvíkjandi vegum á Snæfellsnesi er það að segja, að notaðar hafa verið 90 þús. króna til Ólafsvíkurvegar og kr. 120 þús. til Stykkishólmsvegar. Þessari upphæð eigum við að bæta við það, sem er undir a-lið, og hefur Ólafsvíkurvegur þá fengið 120 þús. á þessu ári, en búið er að ljúka Stykkishólmsvegi. Nefndin hefur heyrt, að féð hafi verið lánað burt úr sýslunni, og er ekki um annað að gera en veita fé til að greiða þetta lán. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. Snæf. hafi ætlazt til, að veittar yrðu aðrar 120 þús. kr. til Stykkishólmsvegar, sem lokið er.

Það er ekki hægt að ætlazt til þess, að þingmenn hafi fjárveitingarvald bæði utan þings og innan. Það mundi stefna í ófæru.

Ég skal geta þess í sambandi við fjárveitingar til vegagerða, að á síðast liðnu sumri var unnið fyrir um 200 þús. kr. framhjá fjárlögum í Stykkishólmi. Þar var og haldið verkstjóra, sem búið var að lofa vestur í Barðastrandarsýslu og er talinn bezti verkstjóri á landinu. Þetta er gert á þeim sama tíma, sem ærnu fé er svipt af Barðastrandarsýslu, er fara átti til Kleifaheiðarvegar.

Ef hv. þm. Snæf. þykist fá of lítið fé í fjárl. til sýslu sinnar, þá er hægt að fara þessa leið, að fá svo og svo mikið fé framhjá fjárlögum, ef vill. — Þetta gildir um allar sams konar aths., sem fram kunna að koma frá öðrum þm. um fé, sem greitt er fram hjá fjárlögum.

Ekkert hefur verið tekið frá til kirkna á þessu ári, og get ég ekki sagt, hvernig fer um þær brtt., sem um þetta koma fram. En líklegt þykir mér, að hvorki ég sjálfur né n.í heild breyti afstöðu sinni.

Viðvíkjandi ummælum hv. 1. þm. Skagf. skal tekið fram, að svo virðist sem Sauðárkrókur fái fyllilega þann hluta, sem honum ber af því fé, sem til hafnargerða er lagt. Hitt skal athugað með þær skuldakröfur, sem hv. þm. telur, að Sauðárkrókur eigi á ríkissjóð vegna vangreiðslu til hafnarinnar. — Viðvíkjandi dýpkun hafnarinnar vil ég taka fram, að hæstv. samgmrh. hefur lýst yfir, að hann vilji ekki fara inn í dýpkunaraðgerðir, meðan ríkið á ekki gott dýpkunarskip.

Viðvíkjandi Hofsósi er það að segja, að þar er fylgt mjög tillögum vegamálastjóra. Ég verð að segja, að fyrir hafnir eins og þessa er enginn vandi að taka lán í stað þess að ganga mjög nærri ríkissjóði, þar sem hann er jafnilla stæður og hann er. Eins er með Akranes og fleiri staði.

Ég skal þá koma að því, sem hv. 11. landsk. minntist á í gær. Það var út úr jarðborunum. Skal ég fúslega viðurkenna, að réttmætt hefði verið að setja einhverja ákveðna upphæð til að mæta þessum útgjöldum. En þá hefði verið rétt. að gerð hefði verið grein fyrir því, hvað mikið er áfallið. Ég vona, að hv. 11. landsk. láti n. í té allar nauðsynlegar upplýsingar um þetta efni, og skal það þá athugað milli umr.

Hvað við kemur aths. hv. 2. þm. N.-M. má segja hann hamingjusaman, þar sem hann hefur fengið 10 þús. kr., sem unnið hefur verið fyrir þar í sumar. Mér er sagt, að ágætur vinnumaður norður þar hafi lánað 5 þús. kr. til þess að hægt væri að ljúka veginum. Þetta mál væri leyst, ef lánið frá vinnumanninum væri látið standa til næsta árs. Þetta er prinsipmál, og yrði ómögulegt að stöðva þær kröfur, sem sköpuðust í vegamálunum, án þess að fylgja þessu prinsipi. Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að áður hefðu verið lagðar kr. 100.000.00 til Jökulsárhlíðarvegar, en nú kr. 60.000.00. Hér blandar hv. þm. saman, því að sama upphæð og áður er lögð til þessa vegar: Það er því hér um að ræða rökvillur að halda, að þessi greiðsla hafi verið felld niður. Ég hef áður skýrt frá átökunum um brúaframlögin. Það þarf svo háar upphæðir til brúaframkvæmda, að n. sá sér ekki fært að leggja til, að svo há framlög yrðu gerð. Hefði þurft fleiri milljónir, ef hefði átt að gera alla ánægða. Ég veit ekki, hvort ég hef staðið fastar fyrir en aðrir, en mér var engan veginn sársaukalaust að láta fella fyrir mér brúarframlag ár eftir ár, eins og gert hefur verið. Býst ég við, að svipað sé að segja um hv. 2 þm. N.-M. og aðra, sem reynt hafa það sama.

Það er rangt, sem hv. þm. sagði í gær, að engin framlög væru til héraða, sem ekki hafa læknisvitjanasjóði. Það fara 18 þús. kr. til héraða, sem hafa læknisvitjanasjóði, en 12 þús. til hinna, sem enga slíka sjóði hafa. — Hv. 2. þm. N.-M. sagðist vera ósammála því að veita jafnmikið fé til opinberra bygginga og gert væri, eins og t. d. til Þjóðminjasafnsins. Ég er þessu að nokkru leyti samþykkur og að nokkru leyti ósamþykkur. Það tekur bæði byggingarefni og vinnuafl frá öðrum byggingum. Þetta á sinn þátt í því að auka dýrtíðina, en hvaða þm. vilja falla frá kröfum sínum í þessu efni, t. d. um framlög til skólabygginga, þar sem hér er verið að bæta úr knýjandi þörf? En ríkisstj. verður að gera upp við sig, hvort hún vill halda þessu áfram eða hlaða undir dýrtíðina.

Margar stórar byggingar eru reistar á þessum tíma, t. d. íþróttakennaraskólinn á Laugarvatni, sem mun kosta á 2. millj. kr., því að mun dýrara er nú að byggja úti á landi en í Rvík. Þrengslin þar eru svo mikil, að það er kennt og sofið á klósettunum! Þörfin er svona sterk fyrir íþróttakennaraskóla, og nemendur eru svo margir, að þeir verða að sofa á klósettunum, — já, á klósettunum. Ef til vill er ekki alveg nauðsynlegt að byggja Þjóðminjasafn, en hv. þm. mega bara ekki gleyma því, að þetta var nú eina gjöfin til þjóðarinnar við lýðveldisstofnunina, og ef við getum ekki staðið við þetta, þá erum við ekki lengur færir um að heita sjálfstæð þjóð né eigum það skilið, og ég sé ekki, hvernig við ættum að svíkja þetta, þar sem Alþ. hefur lofað því.

Hv. þm. A.-Húnv. vék að mér fyrir það, hvað ég væri skefjalaus um að knýja fram fjárframlög til vega í Barðastrandarsýslu. Honum hlýtur að vera það ljóst, að þetta gat ekki verið hv. 9. landsk. þm., því að nú vill enginn kannast við Selvogsveginn, og þessi ummæli gátu því alls ekki átt við hann, því að enda þótt hann hafi slangrað inn á þing sem 9. landsk., þá er hann samt ekki þm. G.-K. og verður vonandi aldrei þm. þess kjördæmis. Ekki gat þetta átt við hv. 6. landsk. þm., þar eð hann er ekki heldur þm. neins kjördæmis. Ekki hv. þm. V.-Húnv., ekki hv. 4. landsk. Þá eru eftir hv. þm. N.-Þ., hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. Borgf. og ég. Hv. þm. Borgf. hefur fengið 135 þús. kr. til vega í Borgarfjarðarsýslu og 200 þús. kr. til vegarins fyrir Hafnarfjall. Hv. 1. þm. Rang. fékk 110 + 120 þús., kr. til vega þeirra, sem liggja gegnum hans sýslu og notaðir eru sem almannavegir. Hv. þm. N.-Þ. fékk 165 þús. kr. og hv. þm. V.-Húnv. 150 þús. kr. og hv. þm. A.-Húnv. 195 þús. kr. Hann ætti svo að bæta við helmingnum af því, sem veitt var til Vatnsskarðsvegar og Gönguskarðsvegar, sem samtals gerir 330 þús. kr.

En svo kemur hneykslunarhellan: 410 þús. kr. til Barðastrandarsýslu, og ég mundi hafa roðnað, ef ég hefði ekki fengið þetta, því að ég get upplýst það, að hún hefur í þessu efni verið vanrækt, ekki á síðustu þingum einungis, heldur á öllum þingum, sem haldin hafa verið fram að þessu. Ég hef oft gert fyrirspurn um línurit yfir vegaframkvæmdir í hinum einstöku sýslum landsins, sem átti að vera komið fram fyrir löngu, en hefur ekki komið fram enn þá, til þess að ekki sæist, hvað þessi sýsla er langt á eftir öllum öðrum um þetta. Í Barðastrandarsýslu er enginn vegarspotti, sem lagður hefur verið sem vegur af því opinbera, heldur aðeins ruðningsvegir. Eini lagði vegurinn þar var gerður af héraðsmönnum sjálfum um síðustu aldamót. Ef þannig hefði verið ástatt með Austur-Húnavatnssýslu, er ég hræddur um, að eitthvað hefði heyrzt í hæstv. forseta. Árið 1943 barðist ég fyrir því, að byggðar yrðu 2 brýr í Austur-Barðastrandarsýslu, og voru þær loks byggðar í sumar. Á fundi í n. var lesið upp bréf frá vegamálastjóra, þar sem hann sagði, að það þyrfti 75 þús. kr. til þess að koma þessum brúm í vegasamband, en hann lagði ekki til, að þessi fjárhæð yrði veitt, heldur vildi hann, að veittar yrðu 300 þús. kr. til vegar að brú, sem byggja á eftir 3 ár. Eins og vænta mátti, blöskraði nm. þetta framferði alveg. Ég ákvað að láta þessar brýr standa þarna í nokkur ár sem hrópandi dæmi um, hvernig þessum málum er stjórnað.

Vegamálastjóri lagði til, að veittar yrðu 70 þús. kr. til Barðastrandarvegar, og byggðist sú till. hans á því, að skorið yrði af öllum öðrum vegum í sýslunni, þar á meðal Patreksfjarðarvegi, sem er eini möguleikinn til þess að hægt sé að vinna með vélum á Rauðasandi og til þess að hægt sé að skaffa Patreksfirðingum mjólk, og til hans þarf 50 þús. kr. Hv. þm. A.-Húnv. lagði til, að Bíldudalsvegur yrði felldur niður með 46 þús. kr. Þetta er þó þorp, sem hefur um 500 íbúa með nærsveitum, en til Ólafsfjarðarvegar eru lagðar 400 þús. kr. Ég taldi mér ekki fært að gera slíkt. Það er þó hægt að aka til Skagastrandar, en ekki er hægt að aka til neinna staða í Barðastrandarsýslu, nema í austursýslunni. Ég held, að Patreksfjörður hafi lyft Grettistaki með því að reisa heilmikla karfaverksmiðju á erfiðum árum, þegar örðugt var um gjaldeyri, — og á svo þessi bær ekki að hafa möguleika til þess að afla mjólkur fyrir börn sín? Það hefur ekki verið Alþ. til sóma, hvernig búið hefur verið að þessari sýslu. Og ég ber engan kinnroða fyrir því, að Barðastrandarsýsla fái nú 440 þús. kr., meðan Ólafsfjörður fær 400 þús. kr. og Oddsskarð 300 þús. kr. Ég get sagt hæstv. forseta það, að brú á Blöndu var ein af þeim, sem ég lagði til, að yrðu byggðar. En n. er ekki sammála um það, að Jökulsárbrú eigi að ganga fyrir öðrum brúm. — Ef bornar eru saman tillögur vegamálastjóra 1944 og nú, þá sést, að þar er ekki fullt samræmi á milli. Þetta mætti laga, ef benzínskatturinn yrði hækkaður upp í 20 aura, og mundu þá fást 2 millj. kr. til viðbótar, og með því mætti, enda þótt sumum héruðum kynni að verða íþyngt, bæta það upp síðar. En ég vil þá heldur verja fénu til þess að brúa einhverjar aðrar ár en Blöndu, því að á henni er þó ein brú fyrir, en sumar ár, sem nú eru óbrúaðar, þarf að vaða upp undir höku eða meira.

Um mjólkurstöðvarmálið vildi ég segja það, að n. hefur enga andúð á mjólkurstöð, en málið er bara alveg óundirbúið, og það er ekki hægt fyrir n. að leggja fram fé í fyrirtæki, sem er algerlega óundirbúið.

Ég held þá, að ég hafi svarað hæstv. forseta. Viðvíkjandi hv. 1. þm. Eyf. vildi ég segja það, að hjá honum kom það bezt í ljós, hversu erfitt er fyrir n. að gera hv. þm. til hæfis. Það er furðulegt, að þessi hv. þm. skyldi yfirleitt leyfa sér að standa hér upp, eftir að óhemju upphæðir hafa verið veittar til hans sýslu. Eyjafjarðarsýsla er sú sýsla, sem bezt er veguð, og í Svarfaðardal er t. d. vegur upp með Svarfaðardalsá annars vegar, en niður með henni hins vegar. En á meðan eru fjölmargir aðrir staðir, sem alls ekkert vegasamband hafa. Ég held, að hv. 1. þm. Eyf. hafi unnið til þess, að n. endurskoði sinn gang og lækki eitthvað af fjárveitingum til Eyjafjarðarsýslu. Sama er um Ólafsfjörð. Þegar þar þurfti að byggja höfn, vildi hv. þm., að Ólafsfjörður fengi bæjarréttindi. En nú á hann að verða þorp aftur, af því að reisa þarf barnaskóla! Ég held, að hv. þm. ætti bara að fá sér hjólbörur og aka Ólafsfirði milli þorps og kaupstaða eftir hentugleikum.

Ég er fús til þess að taka til athugunar till. hv. 4. landsk. Ég er þó á móti auknu framlagi til Alþýðusambandsins og enn fremur til skógræktarinnar. Þau þyrftu auðvitað lagfæringar við, því að þetta ætti að færast yfir á 20. gr. Þegar það væri gert, fær hún fullkomlega eins mikið og áður. Kostur skógræktarinnar hefur ekki verið þrengdur, þótt ekki væri veitt fé til kaupa á nýju skóglendi. Ég átti tal um þetta við skógræktarstjóra á milli funda, og hann var ánægður með þetta, nema að felldur skyldi vera niður liðurinn um kaup á skóglendi. Hv. 4. landsk. taldi, að hækka mætti suma tekjuliðina um samtals 5,5 millj. kr., og get ég viðurkennt, að e. t. v. mætti hækka ýmsa þeirra, en tel þó óvarlegt að gera mikið að því. En hæstv. fjmrh. getur auðvitað gert það sjálfur á skrifstofu sinni, ef hann er ánægður með að taka við fjárl. með halla, og mun verða tekið tillit til þess í n.

Þá vil ég að síðustu gera athugasemdir við ræðu hv. 1. þm. Rang. Hann sagði, að þótt miklu fé væri varið til framkvæmda, gengju þær ekki betur en áður. Þetta er öfugmæli. Ég vil halda því fram, að Ölfusárbrúin hefði ekki verið byggð með sama hraða 1938 og nú hefur verið gert, og þetta er vegna miklu betri tækni, sem eykur svo mjög afköstin. Enda sýna kröfurnar það, að menn sjá meiri möguleika til að láta framkvæma, og sömuleiðis að framkvæmdirnar ganga hraðar en áður. Þessi sami hv. þm., 1. þm. Rang., segir, að fjvn. hafi ekki getað lagað launagreiðslur ríkisins. Ég vil svara því, að fjvn. hefur ekkert framkvæmdavald, hún getur aðeins gert tillögur. Fjvn. var líka ljóst, að þessi till. varð ekki framkvæmd nema með samvinnu við ríkisstj. og starfsmenn stofnananna. Hitt er annað atriði, að hv. 1. þm. Rang. á sinn þátt í því ástandi, sem ríkir í þessum málum, — því var komið á í valdatíð Framsfl., og verður erfitt að uppræta það. Já, það verður sannarlega erfitt fyrir ríkisstj. að pilla út allt það illgresi, sem stjórn Framsfl. gróðursetti. Ég vil spyrja þann hv. þm., hver réð millj. í varðbátana ? Hver réð millj. í Súðina? Þó að arfinn sé mikill, skal ekki standa á mér við að reyna að uppræta hann.

Þm. segir, að ég tali um góða afkomu atvinnuveganna. Ég vil gjarnan ræða þetta nánar. Hvernig hefur þessi hv., þm. litið á uppbæturnar? Er hann farinn að líta á þær sem styrk? Ef þm. vill hugsa aftur í tímann, kemst hann að raun um, að uppbæturnar sköpuðust fyrst við 5 millj. frá Bretum vegna markaðstapa. Ef hv. þm. vill athuga, hvað gert var við þetta fé, kemst hann að raun um, að 9% runnu til bænda, en lítið eitt til fiskimjölsiðnaðarins. Það eina, sem hækkaði verulega, var fiskurinn, en það var ekki sérstaklega af því, að fiskurinn hefði hækkað úti, heldur af því að nú þurfti ekki lengur að flytja í verksmiðju eða til iðnaðar. Þess vegna fengu framleiðendur meira. Þetta orsakaði aftur á móti ósamræmi á vöruverði hér. Þegar Bretar sáu, að Íslendingar töpuðu á að geta ekki flutt landbúnaðarvöru til meginlandsins, bættu þeir fyrst í stað þessi markaðstöp, en síðar, þegar augljóst var, hversu mikið þjóð vor græddi á fisksölunni, fannst þeim ekki ástæða til að halda þessum bótum áfram, en töldu Íslendinga sjálfa geta miðlað þeim gróða. Framsóknarmenn halda því fram, að það hafi verið svik við þjóðina að halda ekki niðri vísitölunni 1940 til 1941. En hefur hv. 1. þm. Rang. gert sér ljóst, hvernig viðhorfið breyttist? Bandaríkin keyptu upp allt vinnuafl í landinu. Það var þýðingarlaust fyrir valdhafana að segja: Við fyrirbjóðum þetta. — Þjóðin hefði neitað slíku. Auk þess sem við hefðum með því fyrirbyggt alþýðunni 30 millj. kr., sem hafa orðið henni mjög miklar kjarabætur. Hefði hv. 1. þm. Rang. viljað svipta alþýðuna þeim kjarabótum, sem þessar 30 millj. kr. hafa veitt henni? Ég hefði ekki viljað það. Þetta eru aðalorskir dýrtíðarinnar. Nú, segja þessir flokksbræður í Framsfl.: Það á bara að færa niður dýrtíðina, — enda þótt enginn grundvöllur sé fyrir slíku. En segjum, að hægt væri að lækka vísitöluna niður í 150 stig, þá mundi það raska öllu jafnvægi. Við þurfum ekki annað dæmi en mann, sem nú nýverið hefði keypt hús, sem hann hefði orðið að taka lán fyrir. Hvar væri hann staddur? Sannleikurinn er, að dýrtíðin hefur ekki verið böl, en það er þörf á að stöðva hana, og um það á baráttan að standa, en lækkun er ekki möguleg eins og nú stendur, því að röskun á vísitölu hefur sömu áhrif og röskun á gengi. Hv. 1. þm. Rang. veit vel, að bændur væru ekki búnir að borga kreppulán sín, ef ekki hefði verið dýrtíð.

Hv. 1. þm. Rang. benti á, að 1938 hefði 40% af ríkistekjunum verið veitt á 13. og 16. gr. fjárl., en nú aðeins 30%. Það er eins og hv. þm. viti ekki, að aðrar greinar séu til í fjár:. Veit þm. ekki, að stórkostleg hækkun hefur orðið á mörgum öðrum greinum, t. d. utanríkisþjónustu, fjárveitingum til sjúkrahúsa og læknisbústaða o. fl.? Mér finnst einmitt það glæsilegasta nú, að atvinnuvegirnir skuli geta staðið undir þessu og blómgazt, þrátt fyrir að af þeim séu teknar stórar upphæðir til alls konar framkvæmda. Þetta hefði aldrei verið hægt í tíð Framsfl., því að hann sér aldrei annað en trillubáta, enda var það eins og að stinga hníf í hjartað á 1. þm. Rang., þegar afnuminn var styrkur til trillubátaútgerðar.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða sérstaklega um styrk til Jóns Dúasonar. Sú till. byggist hvorki á sanngirni né viti, og um slíkt hirði ég ekki að deila.