08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

16. mál, fjárlög 1946

Haraldur Guðmundsson:

Ég hef hlustað með talsverðri athygli á tvær ræður hjá hv. form. fjvn. Ég mun ekki gera þær sérstaklega að umræðuefni, þó að ekki beri að neita því, að mörg gullkorn hafa fallið, sem vel væru þess verð að ræða þau. Ég hef kvatt mér hljóðs vegna brtt. á bls. 13 nr. 108 á þskj. 308, viðvíkjandi lækkun á kostnaðartillagi vegna alþýðutrygginganna í 17. gr. úr 232500 kr. niður í 150000 kr. Um þetta segir í greinargerð á þskj. 309: „Nefndin leggur til, að nokkrar breytingar séu gerðar á þessari grein, að færður verði niður kostnaðarliður við tryggingar í samræmi við launalögin“. Ég veit ekki vel, hvernig ber að líta á þetta, hvort það er spaug eða misskilningur, en alvara getur það ekki verið. Laun við þessa stofnun eru ekki undir launalögum, en skiptast í flokka. Um þetta atriði má deila, en þessi till. er fjarri allri skynsemi. Hv. form. fjvn. sagði líka, að ekki væri neinn vandi að laga fjárlögin, bara skera niður útgjöldin. Ég er alveg sammála, ef víða eru lík vinnubrögð og í þessari till. — Ég vil með leyfi forseta sýna fram á fjarstæðuna í þessari till. Samkvæmt fjárl. eru laun við tryggingarstofnunina áætluð 453 þús. kr., þar með talin laun tryggingaráðs o. fl. Laun starfsmanna eru 405 þús. kr. Yfir þetta hefur hv. fjvn. fengið lista. Nú er till. hv. fjvn. þess efnis, að þessi laun verði lækkuð niður í 330 þús. kr. til samræmingar. Ég verð að segja, að ég hef oft vitað einkennilegar niðurstöður, en þó aldrei slíka reginvillu, að laun, sem eru 405 þús. kr., eigi að lækka í 330 þús. kr. og það aðeins til samræmingar, eins og greinilega er tekið fram í grg. hv. form. fjvn. Þetta eru mér algerlega óskiljanleg vinnubrögð. — Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. En ef afgreiðsla er víða svipuð þessu, horfir ekki vænlega þrátt fyrir langa ræðu hv. form. fjvn.