08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

16. mál, fjárlög 1946

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég get verið fremur fáorður við þessa umr. — Ég vil leyfa mér að byrja á því að lýsa yfir, að ég tel mig hafa nokkra ástæðu til að vera óánægður með þá afgreiðslu, sem erindi míns héraðs hafa fengið hjá fjvn. Ég fæ ekki betur séð en að framlög til vega hafi yfirleitt mjög verið hækkuð, og sérstaklega á þetta við um ýmis byggðarlög, sem á Vestfjörðum eru og vissulega þurfa á auknu fé til vega að halda. En hið sama gildir ekki, þegar komið er að till, fjvn. varðandi Norður-Ísafjarðarsýslu. Þar er um nokkra lækkun til þjóðvegaframkvæmda að ræða frá því, sem var í fjárl. þessa árs. Ég hef þess vegna ásamt hv. 5. landsk. og 11. landsk. talið mig knúðan til að bera fram nú þegar tvær brtt. til þess að gera tilraun til að leiðrétta það misrétti, sem mér virðist koma fram í brtt. n.

Þær till., sem við flytjum varðandi vega- og brúamál eru tvær á þskj. 322. Er þar fyrst Súðavíkurvegur. Til þessa vegar vill n. leggja 35 þús. Hins vegar leggur n. til að veita á öðrum stað til þessa vegar 50 þús. kr. sem endurgreiðslu til vegarins vegna þess, sem fram yfir var unnið á síðasta sumri. Getur það að sjálfsögðu ekki talizt fjárveiting til vegarins í næstu fjárl., og það veit ég, að n. gerir sér ljóst, að fyrir það fé verður ekki unnið á næsta ári.

Ég tel óþarft að rifja upp þá sorgarsögu, sem þessi vegargerð á sér, en ég vil eingöngu leggja á það ríkari áherzlu en nokkru sinni fyrr, að nauðsyn ber til þess að fá aukna fjárveitingu til vegarins. Þessi vegur, sem liggur kringum Skutulsfjörð og Ísafjörð áleiðis til Súðavíkur, er kominn í Arnardal. Er það ekki nema helmingur leiðarinnar eða tæplega það. Nú er það svo, að Ísafjarðarkaupstaður hefur keypt verulegar lendur í Álftafirði og hyggst að hefjast þar handa um mikla ræktun og koma þannig á fót mikilli mjólkurframleiðslu og kúabúi, en meðan vegurinn er ekki kominn, verður að bjargast við báta. Það ber því afar brýn nauðsyn til fyrst og fremst fyrir Ísafjarðarkaupstað, að þessari vegagerð verði hraðað sem allra mest. Það er ekki fyrst og fremst að ræða um nauðsyn fámenns þorps og sveitar, Súðavíkur, heldur fyrst og fremst þörf eins stærsta kaupstaðar á Íslandi og stærsta bæjar á Vestfjörðum. Ég legg því og við flm. þessarar till. mjög ríka áherzlu á það, að þessi hækkun á framlagi til Súðavíkurvegar verði samþ. af Alþingi.

Önnur brtt. okkar, einnig á þskj. 322, er um það, að tekinn verði upp nýr liður til brúargerða. Það er um brú á Ósá í Norður-Ísafjarðarsýslu, 130 þús. Í till. fjvn. er lagt til, að 90 þús. kr. verði veittar til Bolungavíkurvegar. Þessi brú, sem við flytjum brtt. um, er á þeim vegi, og hvar sem hafizt verður handa um gerð þessa vegar frá Bolungavík, sem ég tel jafnvel líklegast, að verði frá Hnífsdal að innanverðu, þá er brýn nauðsyn til að fá á þessa brúaða. Á þessari á er gömul trébrú, sem nú er ófært um og hættuleg mönnum og skepnum. Umferð yfir ána er hins vegar allmikil, þar sem ferðalög milli Bolungavíkur og Ísafjarðar á landi eru alltíð. Sést það af því, að oft og einatt þurfa sjómenn á vertíð að flýja með báta sína vegna erfiðra hafnarskilyrða til Ísafjarðar og fara síðan fótgangandi heim til sín til Bolungavíkur. Ég legg þess vegna mikla áherzlu á og við flm. þessarar till., 5. og 11. landsk., að þessi fjárveiting verði samþ. af Alþingi. Mér er einnig kunnugt um það, að í till. vitamálastjóra til fjvn. var mælt með því, að tekin yrði upp fjárveiting til þessarar brúar, og verð ég að láta í ljós nokkra undrun mína yfir, að fjvn. skuli ekki hafa talið sér fært að taka þessa fjárveitingu upp í till. sínar.

Áður en ég skilst við þessi brúamál, vil ég ítreka það, sem ég áður sagði, að ég og við, sem teljum okkur umboðsmenn fyrir Norður-Ísafjarðarsýslu hér á Alþ., teljum, að þetta veglausa hérað hafi mjög orðið afskipt í till. n., og væntum þess eindregið, að leiðrétting fáist hér á.

Ég vil svo leyfa mér að fara nokkrum orðum um þriðju brtt., sem ég á á þskj. 322. Hún er flutt jafnframt af öðrum þm. Vestfjarða og fer fram á, að ríkisstj. verði heimilað að verja allt að 500 þús. kr. til byggingar varðskips, er hafi með höndum landhelgisgæzlu og björgunarstörf fyrir Vestfjörðum. Ég vil aðeins leyfa mér að minna á það, að björgunarskútumál Vestfjarða er orðið alvarlegt mál og Vestfirðingum mjög vel kunnugt, þó að það hafi ekki borið mikið á, góma. Það er mál allra manna á Vestfjörðum, að það sé eitt mesta nauðsynjamál þeirra byggðarlaga. Sjósókn hefur jafnan verið og mun jafnan verða einn meginatvinnuvegur Vestfirðinga, Öryggi fólksins er þess vegna mjög undir því komið, að eftirlits- og björgunarstarf sé rækt sómasamlega á þeim miðum, sem vestfirzki bátaflotinn sækir. Nú er það svo, að í fjárl. þessa árs var tekin upp fjárveiting, 500 þús. kr., til byggingar á nýjum varðskipum. Ég tel mig hafa nokkra vissu um það, að hæstv. dómsmrh., sem þessum málum er, eins og að líkum lætur, mjög velviljaður, enda fulltrúi eins af kjördæmum Vestfjarða, hafi á síðasta sumri látið falla ummæli, sem skilin voru sem vilyrði í þá átt, að þetta fé yrði notað til að byggja varðskip, sem annaðist björgunar- og eftirlitsstörf fyrir Vestfjörðum, og þetta mál var komið á allmikinn rekspöl í sumar. Slysavarnasveitin fyrir vestan gerði samþykkt, þar sem því var heitið, að Slysavarnasveit Vestfjarða legði fram um 200 þús. kr. til smíði björgunarskips, þegar vissum skilyrðum hefði verið fullnægt. Björgunarsveit Vestfjarða var sem sagt reiðubúin að leggja fram sjóði sína til þessarar samvinnu við ríkissjóð, svo að hægt væri að hefjast handa um smíði björgunarskips fyrir Vestfirði. Ég vil gjarnan, áður en ég held lengra, drepa á, að það mun hafa verið gert uppkast að samningi milli ríkisstj. annars vegar og Slysavarnasveitar Vestfjarða og Slysavarnafélags Íslands hins vegar um framkvæmd þessara mála, þannig að málið var komið á mjög góðan rekspöl. Það leit jafnvel út fyrir, að hafizt yrði handa um byggingu skips, án þess að endanleg ákvörðun hefði verið um það tekin. En svo gerist það, sem hv. þm. er kunnugt, að hæstv. ríkisstj. festir fyrir milligöngu forstjóra Skipaútgerðar ríkisins kaup á þremur bátum, sem menn gerðu sér von um, að nota mætti til björgunarstarfa og jafnframt landhelgisgæzlu meðfram ströndum landsins. Var það ofarlega í hugum margra og m. a. hæstv. dómsmrh., að eitt þessara skipa yrði notað sem björgunarskúta við Vestfirði. Síðan þessi skip komu hingað, þá hefur það orðið, þó án þess að ég vilji fara að ræða það atriði sérstaklega, að þessi skip eru af öllum skynbærum mönnum talin óhæf til björgunarstarfa. Sérstaklega á ég við, að á Ísafirði hafa menn sannfærzt mjög rækilega um það, þegar það skip kom þangað vestur, sem menn höfðu hugsað sér, að notað yrði til þessa starfs þar. Ég hef átt tal við ýmsa af forráðamönnum Slysavarnafélagsins fyrir vestan og þeir hafa tjáð mér, að þeir álitu, að ekki kæmi til mála, að skipið verði notað í þessu tilfelli. Við erum þá komnir að því, að málið er komið í sama farveg og það var í síðasta sumar, áður en hin nýju skip voru keypt. Við höfum ekkert skip til að gegna þessu starfi, og það verður að byggja nýtt skip í þessum tilgangi. Ég hef þess vegna og við aðrir þm. Vestfjarða, sem að þessari till. stöndum, hv. 5. landsk., hv. þm. V.-Ísf. og hv. 11. landsk., talið rétt að flytja þá till., sem getur að líta á þskj. 322, XXIV, þar sem ríkisstj. er heimilað að verja allt að 500 þús. kr. til byggingar varðskips, er. hafi með höndum landhelgisgæzlu og björgunarstörf fyrir Vestfjörðum. Ég tel mig sérstaklega og við hv. flm. eiga traust og hald hjá hæstv. dómsmrh. varðandi samþykkt og góðar viðtökur á þessari till. okkar, og án þess að ég vilji nokkuð segja um, hvernig kann að verða niðurstaða á athugun, sem fer fram á hinum nýju bátum, þá hefur mér komið til hugar, að ef ekki verður hægt að nota þau skip, að þær 500 þús. kr., sem veittar eru í fjárl. þessa árs til varðbátakaupa, renni aftur inn í ríkissjóð, og þá er fyrir hendi fé til að standast þau útgjöld, sem brtt. okkar, sú sem ég hef lýst, fer fram á. — Ég skal svo ekki fjölyrða öllu meira um þessa brtt. Ég undirstrika það, að bátaútveginum og öryggismálum Vestfjarða er brýn nauðsyn á því, að þetta mál verði ekki óleyst lengur, og ég fullyrði, að það fjármagn, sem slysavarnasveit Vestfjarða hefur safnað, er það mikið, að mér finnst það nokkuð athugavert fyrir ríkissjóð að slá til lengdar hendinni á móti því, og ég tel enn fremur, að af slíkri fórnfýsi og dugnaði hafi verið unnið að framgangi þessa máls af hálfu vestfirzkra sjómanna og aðstandenda þeirra, að naumast sé við hlítandi fyrir þingið að mæta þeirri viðleitni í framtíðinni með því að þverneita um alla aðstoð og láta málið dragast á langinn öllu lengur en þegar er orðið. Það er óþarft að láta það fólk, sem hefur haft forustu um þessi mál og á öryggi sitt komið undir þeim, verða fyrir frekari vonbrigðum í þessum málum en komið er. Ég leyfi mér þess vegna að vænta þess, að Alþingi taki þessari brtt. vel og að hæstv. ríkisstj. verði veitt sú heimild, sem till. fer fram á, og sérstaklega beini ég því svo til hæstv. dómsmrh., sem mun vera hinn áhugasamasti um þessi mál, að hafa forustu um það, að heimildin verði hagnýtt.