24.04.1946
Efri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (2938)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Ingvar Pálmason:

Ég hef leyft mér, í framhaldi af því, sem ég gat um í gær við 2. umr., að bera fram brtt. Hún er aðeins um það, að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins skuli annast stjórn verksmiðjunnar, en nánar skuli ákveðið um reksturinn í reglugerð. Það er alveg það sama og er í frv. nú að undanteknu því, að í frv. er ætlazt til, að skipuð verði sérstök n. til að annast stjórn verksmiðjunnar, en hins vegar er ráðgert í frv. að ákveða með reglugerð um rekstur verksmiðjunnar. Ég gat þess í gær, að ég teldi, að af sparnaðarástæðum og enda hagkvæmnisástæðum líka væri rétt að fela stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, a. m. k. fyrst um sinn, stjórn þessarar verksmiðju. Þetta er svipaður rekstur að því leyti, að unnið er úr sama hráefni. Auk þess eru líkur fyrir því, að rekstur þessarar verksmiðju byggist mjög á Síldarverksmiðjum ríkisins. Þá er það einnig það, að ég hygg, að byggingarnar gætu orðið hagkvæmari, ef þær væru sameinaðar byggingum Síldarverksmiðja ríkisins. Sams konar brtt. og þessi lá fyrir Nd. og var felld með litlum atkvæðamun, og ég tel rétt, að þessi hv. d. eigi einnig kost á því að greiða atkv. um þessa brtt., því að ég álít, að það geti skipt allmiklu máli, að sem gætilegast sé af stað farið í byrjun. Eftir því, sem upplýst er við meðferð málsins í d., virðist það geta komið til mála, að það þurfi að kaupa dýrar lóðir undir þessar byggingar, ef þær eru ekki í sambandi við Síldarverksmiðjur ríkisins. Mundi ekki koma til slíks, er verksmiðjan væri í sambandi við Síldarverksmiðjur ríkisins.

Þetta mál er svo ljóst, að ekki er ástæða til að mæla fyrir því frekar, enda er hér ekki um annað að ræða en það að reyna að færa til betri vegar, ef takast mætti.