08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

16. mál, fjárlög 1946

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég stend ekki upp til þess að mæla með nokkurri brtt. af minni hálfu, enda er það svo, að enn sem komið er stend ég ekki að neinni sérstakri brtt. við fjárl., en mun taka til athugunar á síðara stigi, að hve miklu leyti ég kynni að standa með öðrum eða bera fram. brtt. við fjárl. En það voru örfá atriði í sambandi við brtt. fjvn., sem ég vildi minnast á, og þá sérstaklega þau atriði, þótt smá kunni að virðast, sem snerta bæði 14. og 15. gr. fjárl.

Mér virðist einhver meiri hl. í n. hafi gengið nokkuð langt til að seilast í niðurskurð á ýmsum liðum, sem smáir eru og telja megi til menningarmála. Vil ég þá fyrst og fremst leyfa mér að benda hér á 83. brtt. n., við 14. gr. fjárl., þar sem lagt er til, að niður verði felldur styrkur að upphæð 10 þús. kr. til menningarsjóðs Blaðamannafélagsins. Um leið hjó ég eftir því í ræðu hv. frsm. fjvn., að hún minntist á það, að vel gæti komið til mála að hækka verulega póstgjöld á blöðum, en ég mun kannske aðeins víkja að því síðar. En út af þessum lið vil ég segja, að hvert land þykist þá bezt á vegi statt, sem hefur á að skipa nýtum og myndarlegum hópi blaðamanna, sem allra færustum blaðamönnum, sem rækja þær skyldur, sem nauðsynlegt er í þjóðfélaginu og skrifa af viti og þekkingu og ég vil segja góðgirni um leið um almenn málefni. Ég held, að Blaðamannafélagið eða samtök blaðamanna hafi frekar þroskazt á allra síðustu tímum og eiga vafalaust eftir að þroskast mjög enn, og hafi verið þörf fyrir þennan styrk á árinu 1945 til menningarsjóðs Blaðamannafélagsins, þá er þörf á honum enn þá og ég fyrir mitt leyti get ekki séð nein sérstök rök, sem mæli með því, að Blaðamannafélagið eða menningarsjóður þeirra sé sviptur þessum tekjum, enda mun hæstv. stj. hafa lagt svo til, að hann yrði áfram í fjárl.

En ég drap á það áðan, að hv. frsm. fjvn. minntist á það í sambandi við rekstur póstsins, að vel gæti komið til mála að hækka burðargjöld blaða, því að þau hefðu hækkað tiltölulega lítið. Nú skal ég ekki mæla gegn því, að reynt verði að koma því skipulagi á póstmálin, að þau ekki aðeins standi undir sér, heldur geti haft fé til nauðsynlegrar aukningar, en ég ætla þó, að eins og högum er háttað hér á landi, sé sanngjarnt og eðlilegt, að ekki séu mjög hátt sett burðargjöld á blöðum, sem send eru út um land. Og einmitt vegna þess strjálbýlis, sem hér er, að aðeins 130 þús. hræður búa í landi, sem er 100 þús. ferkm. að stærð, þá er hér meiri þörf en víðast annars staðar, að greitt sé fyrir samgöngum og ekki hvað sízt að koma menningu og fræðslu út um byggðir landsins. Það má segja, að ekki sé í allri blaðamennsku og blöðum að finna mikla menningu og fræðslu, en hitt er þó víst, að það verður ekki út skafið, að í íslenzkum blöðum, þótt gölluð séu, og íslenzkum tímaritum er að finna margan þann fróðleik og upplýsingar, sem landsmenn mega ekki og geta ekki án verið. Og því aðeins geta landsmenn t. d. myndað sér rökstuddar og greinagóðar niðurstöður út af málefnum, sem eru til umr., að þeir eigi þess kost að sjá þau rædd og útskýrð, og þá ekki sízt í blöðum og tímaritum. — Ég vil aðeins skjóta þessu fram í sambandi við þau orð, sem hv. frsm. fjvn. lét falla um þetta atriði.

Þá er það 85. brtt. fjvn., sem líka er við 14. gr. fjárl. Það er um niðurfellingu á styrk Matthíasar Jónassonar. Ég tók að vísu eftir því, að hv. frsm. n. hefur a. m. k. gert sér grein fyrir og væntanlega n., að vel gæti komið til greina, að styrkur til þessa uppeldisfræðings væri þá á einhverjum öðrum lið fjárl. eða á einhverju öðru formi í fjárl. Ég þekki Matthías Jónasson uppeldisfræðing persónulega, og ég veit af þeim, sem gerla mega vita, að hann er einn af lærðustu uppeldisfræðingum Íslands. Ég vil þess vegna skjóta því fram til frsm. fjvn., hvort hann á síðara stigi vildi gera grein fyrir því, hvað hann og n. hefur í huga með þennan uppeldisfræðing. Vel má vera, eins og hv. frsm. tók fram, að honum yrði komið fyrir með annarri fjárveitingu, og hef ég ekkert út á það að setja, ef ekki væri skorinn niður styrkur til þessa manns, og ætla ég, að því fé væri vel varið, að fá þannig starfskrafta þessa góða uppeldisfræðings.

Þá er það 92. brtt., við 15. gr. fjárl., þar sem lagt er til, að niður sé felldur styrkur til íslenzkra stúdenta í Kaupmannahöfn til útgáfu tímarits. Ég varð dálítið undrandi, því að almenningur hefur fylgzt með starfsemi Íslendinga í Danmörku einmitt á stríðsárunum, og ég hef orðið þess var, hve mikill menningarauki hefur verið að þeirri starfsemi. Þessir menn hafa í innilokuðu landi gefið út tímarit og haldið uppi fræðslu til að halda saman Íslendingum og halda tengslum við þá, sem heima búa. Þessir Íslendingar, sem búa í Kaupmannahöfn, hafa líka á að skipa sérstaklega góðum starfskröftum, eins og t. d. prófessor Jóni Helgasyni, sem er einn af þekktustu rithöfundum, sem uppi eru íslenzkum og einhver allra þekktasti fræðimaður á Norðurlöndum. Ég vil þess vegna vænta þess, að þingheimur geti fallizt á, að þessi brtt. meiri hl. fjvn. sé ekki þess eðlis, að hún ætti að öðlast samþykki.

Í óbeinu sambandi við þetta er lagt til í næsta lið, að 5 þús. kr., styrkur, sem Norræna félagið á Íslandi hefur fengið, verði felldur niður. Alþ. Íslendinga samþ. með shlj. atkv. í marz 1944 að lýsa yfir þeirri skoðun Alþ., að aukið menningarsamband milli Íslands og hinna Norðurlandaþjóðanna væri nauðsynlegt og vinna bæri að því. Ég held, að þessi shlj. yfirlýsing Alþ. væri talin nokkuð undarleg, ef ætti rétt á eftir að draga úr fjárveitingu til eins þess félagsskapar, sem hefur með höndum að auka norræn kynni og norrænt samstarf ekki síður í menningarmálefnum en öðrum. Nú þegar stríðinu er lokið, þá er það meining norrænu félaganna allra á Norðurlöndum að taka upp og það þegar á næstunni gömlu samböndin, sem tíðkuðust fyrir stríð, með ferðalögum, mótum o. s. frv. Nú þegar er svo komið, að hafinn er undirbúningur í Norræna félaginu að samstarfi um menningarsamband við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Má t. d. nefna, að áformað er að koma upp sýningu á sænskum listiðnaði, sem sýndur var í Svíþjóð og hefur vakið mikla athygli, enda er viðurkennt, að Svíar eru lengst á veg komnir allra Norðurlanda að því er snertir listir og iðnað. Er meiningin, að þessi sýning verði haldin hér á landi í apríl í vor. Ég teldi þess vegna mjög illa farið, ef Alþingi Íslendinga, eftir að það hefur lýst yfir einróma vilja sínum til aukinnar norrænnar samvinnu, til aukins menningarsamstarfs milli Norðurlandaþjóðanna, að það sýndi þann vilja sinn í verki með því að skera niður lágan styrk til eins félags, sem hefur einatt með höndum þetta hlutverk. Og ég ætla, að það yrði litið svo á, að það væri kannske lítil alvara í yfirlýsingu Alþingis, ef framkvæmdin yrði á þennan veg. Ég vil þess vegna eindregið vænta þess, að bæði íslenzka stúdentafélagið í Höfn og Norræna félagið á Íslandi fái áfram að halda þeim lága styrk, sem þau hafa í fjárl. á Alþingi. Ég er viss um, að þessum styrk er vel varið og íslenzkir stúdentar í Danmörku gera sitt til þess að halda uppi hróðri íslenzkrar menningar á Norðurlöndum og halda eðlilegu sambandi milli hins stóra hóps íslenzkra stúdenta í Danmörku og heimalandsins. Og ég er líka viss um, að Norræna félagið mun gera sitt til þess að fylgja eftir einróma yfirlýsingu Alþ. og stuðla að aukinni samvinnu Norðurlandaþjóðanna í menningarmálum og öðrum slíkum málum.

Ég vil aðeins minna á það atriði og skjóta því til hæstv. Alþ., að það skuli vel hugsa sig um, áður en það ákveður að verða við till. fjvn. Þetta eru að vísu lágar upphæðir, en þær setja þó sitt mark á stefnu Alþ. í menningarmálum og samskiptum Íslendinga í menningarmálum við hin Norðurlöndin.