08.03.1946
Neðri deild: 83. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (2941)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Hér liggur fyrir frv. frá meiri hl. fjhn., um heimild fyrir ríkisstj. til ráðstafana vegna útflutnings á afurðum bátaútvegsins. Eins og kunnugt er, var viðhorfið í vertíðarbyrjun þannig, að mikil óvissa var um sölu sjávarafurða og vitað, að verðið þyrfti að hækka, til þess að útvegurinn gæti borið sig. Ríkisstj. sá sér fært að hækka fiskinn til fiskkaupmanna, en ekki til hraðfrystihúsanna, sú hækkun var 15%. En eins og segir í 1. gr. frv. var verðhækkun á nýjum þorski og ýsu til bátaútvegsins ákveðin með auglýsingu 5. jan. 1946. Vegna þessarar hækkunar fer frv. fram á, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast hraðfrystihúsunum allt að 5 aura á innvegið kg miðað við slægðan fisk með haus, en 7 aura, ef fiskurinn er hausaður. Ábyrgð þessi kemur til greina að fullu, ef söluverð á hraðfrystum fiski og ýsuflökum reynist jafnt eða lægra en söluverð 1945. Reynist söluverðið hærra en 1945, verður að sjálfsögðu metið, að hvað miklu ley,ti ábyrgð ríkissjóðs kemur til greina.

Í 2. gr. frv. er farið fram á heimild fyrir ríkisstj. f. h. ríkissjóðs að kaupa til útflutnings eða ábyrgjast sölu á allt að 5000 tonnum af saltfiski fyrir bátaútveginn, er miðist við kr. 1.70 hvert kg af fullsöltuðum þorski fyrsta flokks. Það var fyrirsjáanlegt í vertíðarbyrjun, að óhjákvæmilegt væri að salta. Það voru ýmsir erfiðleikar á að fá skip leigð til fiskflutninga, og hins vegar, þótt það hefði tekizt, gat ríkisstj. ekki fengið löndunarleyfi fyrir slík leiguskip í Englandi. Var nú leitað til útvegsmanna og þeir spurðir, hvaða verð yrði að vera á saltfiski, svo að sú verkun gæti borið sig. Fyrst fékkst það svar, að ekki væri hugsanlegt að salta fyrir minna en kr. 1.75 pr. kg, en síðar féllust útvegsmenn þó á, að 1.70 pr. kg væri nægilegt. Nú er farið fram á heimild fyrir ríkisstj. að ábyrgjast sölu á allt að 5000 tonnum fyrir þetta verð, kr. 1.70 pr. kg. Það hefur ekki verið gert ráð fyrir meiri söltun, því að erfitt er að fá fólk, einkum lítið um menn, sem kunna þau handbrögð, sem þarf við þá verkunaraðferð. — Í fyrrakvöld var búið að salta 1600 tonn, það bendir á, að enn sé nægilegt að gera ráð fyrir 5000 tonna söltun. Hins vegar hafa útvegsmenn farið fram á, að þessi takmörk væru ekki sett og heimildin yrði ótakmörkuð. Þetta er vegna þess, að þeir búast við aðalörðugleikunum á ísfisksölunni í apríl, en eins og útlitið er nú, eru aflahorfur góðar.

Um verð á saltfiski er ekki vissa fyrir nema kr. 1.54 pr. kg. — Ríkisstj. hefur lagt til, að þessi 5000 tonn verði þau fyrstu, sem söltuð verði, svo að þeir, sem þetta salta, geti gengið út frá þessu ákveðna verði. Eru þessar ráðstafanir gerðar vegna vetrarvertíðarinnar. En það er ekki gott að fullyrða um það, hvað verði hægt að selja af saltfiski, en vitað er, að þörfin fyrir fisk er mjög mikil í Evrópu. En geymsluhús eru víða skemmd og lömuð og geta því ekki tekið við niðursuðufiski eða hraðfrystum, og því aðallega um saltfisk að ræða, en þessi lönd eru lítt fær um að greiða þær vörur, sem þau þurfa, og er að sjálfsögðu athugandi, að íslenzka ríkið aðstoði þau við kaupin, t. d. með greiðslufresti. Hér er svo eitt atriði, sem n. þarf að athuga betur, en það er um þá menn, sem salta fisk, en veiða ekki, og væri rétt að setja ákvæði um það, að þeir hafi borgað hið tiltekna verð til fiskimannanna, áður en ríkisábyrgðin kemur fram, og ætti að setja það sem skilyrði.

Í sambandi við framkvæmd 1. gr. frv. geta orðið flóknir útreikningar, hvenær ábyrgðin kæmi til greina, og þyrfti því e. t. v. að setja einhvers konar dómnefnd til þess að skera úr. En ég býst þó við, að þetta sé ekki svo stórt atriði, að þörf sé á að setja það í frv., því að samkv. 3. gr. er hægt að setja nánari fyrirmæli.