08.03.1946
Neðri deild: 83. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (2942)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Mér þykir ástæða til þess að finna að því, hversu seint ráðh. leggur þetta mál fyrir hér á þingi. Þingið kom saman um mánaðamót janúar og febrúar, og hefði þá verið æskilegt, að málið væri lag,t fyrir án tafar strax, svo að þm. gæfist kostur á að kynna sér það og koma fram með brtt., en nú er orðið svo áliðið.

Ég vil undirstrika það, að þetta frv. er eitt hið stærsta mál, sem komið hefur fram í mörg ár. Þetta er í fyrsta skiptið í sögu landsins, sem ríkið greiðir uppbætur á aðalútflutningsvörur landsmanna. Í raun og veru er þetta algert skipbrot þeirrar stefnu, sem stjórnin hefur haldið uppi. Þessar ráðstafanir eru ekki gerðar vegna verðfalls, og ætti þetta að verða til þess að opna augu manna fyrir því, hve grundvöllurinn er tryggur, sem byggt er á. Það verður að snúa alveg við og taka upp nýja stefnu, eins og stjórnarandstæðingarnir hafa viljað, og gera ráðstafanir til að forðast algert öngþveiti og stöðvun á sjávarútveginum. Það, sem þurfti að gera, var að taka þessi mál föstum tökum og gera öflug samtök til að snúa við. En hitt er augljóst, að þegar stjórnin heldur áfram að berja höfðinu við stein, þá verður að reyna að láta þessa hluti koma sem jafnast niður, úr því sem komið er, því að það má ekki koma niður á einni stétt. — En ég skal ekki fara að ræða um dýrtíðina, þótt ég hafi haft þennan inngang, en víkja að einstökum atriðum frv.

Hæstv. ríkisstj. hlýtur að gera sér það ljóst, að þetta er aðeins byrjun. Með þessu getur ekki fengizt réttlæti eða jafnræði, það verður að hækka heimildina um ábyrgð á saltfiski. Það verður að hafa ábyrgðina svo víða, að enginn verði útundan, eða láta þá hafa einhvers konar forgangsrétt, sem erfiðast eiga með að losna við fiskinn. Og vil ég mælast til, að n. taki þetta til athugunar. Ég vil benda n. á, að það er þegar búið að segja a og spurning, hvort ekki verður líka að segja b og veita þeim einstaklingum ábyrgð, sem sjálfir flytja fisk sinn .á markað. Af þessu leiðir, að eitt verður að ganga yfir alla og einnig verður að verðbæta útfluttar landbúnaðarafurðir, svo að bændur fái það, sem þeim ber samkv. 6 manna nál.

Þá vil ég minnast á fisksöluna yfirleitt. Menn þykjast sjá sleifarlag á þessu. Í því sambandi hafa borizt fregnir um, að þröngt sé að verða um möguleika til löndunar í Bretlandi og hafi jafnvel gengið svo langt, að það hafi þurft að henda fiski. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvernig þessu er háttað og hvað verður um þetta, því að vonandi er aðalaflinn eftir. Þetta er stórt mál og fróðlegt að heyra, hvaða ráðstafanir ríkisstj. er að gera í þessu. Og einnig vildi ég spyrja ráðh., hvað miklar saltbirgðir eru í landinu. Ég veit ekki, hvernig þessu er háttað í heild, en ég veit um staði, þar sem litið er um saltbirgðir og jafnvel orðið að henda fiski sökum þess, að fiskflutningaskip voru ekki til staðar og ekkert salt. En með þessu verður ríkisstj. að hafa vakandi auga. Ég vil benda á það, að ég hef séð í blaði hæstv. ráðh. yfirlýsingu um, að ástandið í fisksölumálunum og fiskflutningunum væri óviðunandi. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort um eitthvað hafi verið að ræða, sem hann vildi gera í þessum efnum, en ekki fengið framkvæmt. Þetta hefur áður borið á góma hér, og sagði þá hæstv. ráðh., að ríkisstj. væri að reyna að gera ýmsar ráðstafanir, en þetta væri erfiðleikum bundið sökum takmarkana á löndun í Bretlandi. Og ef hæstv. ráðh. hefur viljað gera einhverjar ráðstafanir, en ekki getað, þá vil ég heyra, hverjar þær eru og hvers vegna hann hefur ekki komið fram með þær, hvað sem hver sagði.

Áður en ég sezt vildi ég víkja með nokkrum orðum að þessum málum almennt. Fyrir stríð var sú stefna uppi hjá mörgum þjóðum að styrkja fiskveiðarnar og reyna að framleiða sem ódýrastan fisk, t. d. Norðmenn o. fl. Samkeppnin reyndist okkur hættuleg, og enginn vill lifa það upp aftur. Það er því alveg sjálfsagt, að þær þjóðir, sem er þetta hagsmunamál, geri það hreinlega upp við sig, hvort þær ætla að láta sama öngþveitið skapast og fyrir stríð. Þetta þolir enga bið, og vil ég spyrja ráðh., hvað hefur verið gert í þessu eða hvort ekki eigi að gera ráðstafanir til að ræða þetta við Norðmenn. Öllum er tamt að líta á oss sem smáa, en á þessu sviði erum við stórir og ættum að hafa frumkvæðið að því að koma þessum málum í sem bezt horf. Öllum blöskrar, hvernig haldið er á þessum málum, og mönnum finnst allt of lítil áherzla á þau lögð. Það er fjöldi manna erlendis til að sinna ýmsum málum. En það er áberandi, að til þess að sinna þessum málum eru ekki af hendi ríkisstj. nema tveir menn. Pétri Benediktssyni og ráðunaut með honum er ætluð öll Evrópa, nema England. Hann var fyrst sendur til þeirra landa, þar sem minnstar líkur voru fyrir sölu, eins og nú er, en síðan átti hann að fara til þeirra landa, þar sem helzt væru líkur til, að markaður fengist Ég vil í þessu sambandi benda á Bretland. Mér þykir einkennilegt, að ekkert er vitað um, hvernig er ástatt um sölu á frystum fiski, því að brezka stjórnin hefur ekki viljað taka á móti samningamönnum í þessu skyni. Það er fjöldi atriða, sem eru svo þýðingarmikil, að leggja hefði þurft á þau miklu meira kapp en gert hefur verið. Það hefði t. d. þurft að gera ráðstafanir í sambandi við lendingu ísfisksins. Mér er að vísu um það kunnugt, að sendiherrarnir gera það, sem þeir geta, en við verðum að hafa fleiri menn. Það hefur verið lögð of lítil áherzla á að sækja fram í fisksölumálunum, og virðist það vera hið eina svið, þar sem stjórnin reynir að spara. Nú er um það talað, að Norðmenn hafi nýlega gert viðskiptasamninga við Sviss. En þar hefur enginn verið fyrir Íslands hönd. Ef verður úr aukningu skipastólsins, hefur fróður maður sagt mér, að fiskmagnið muni aukast geysilega, svo að óhugsandi sé að selja allan fiskinn frystan og ísaðan. Nú er svo komið, að fiskþurrkun úti við er úr sögunni vegna eftirvinnu o. fl., því að það yrði svo háð veðráttu. Þá er spurning, hvað gera á. Það verður þá helzt fyrir að þurrka inni, ýmist með rafmagni eða jarðhita. Ég vildi nú beina því til hæstv. ráðh., að einhverjir færu að koma af stað þurrkunarstöðvum. Og ég teldi einhverju af fé sjávarútvegsins ekki illa varið í þessu skyni. Mér finnst þetta svo stórt mál, að ég hef verið að hugsa um að gera það að sérstöku þingmáli, en þess ætti þó ekki að þurfa. Raunverulega ætti fiskimálanefnd að hafa yfirsýn yfir svona hluti. Það er síður en svo, að ég sé á móti niðursuðuverksmiðjum á sjávarafurðum, en þó að það sé mikilvægt, megum við ekki gleyma því, að nú er talsvert útlit fyrir, að saltfiskmarkaður opnist á ný á næstunni.

Ég læt svo máli mínu lokið. En mér fannst rétt, að þessar bendingar kæmu fram í þessu máli.