08.03.1946
Neðri deild: 83. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (2943)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Hv. 2. þm. S. M. sagði, að þetta frv. væri einhver greinilegasti vottur þess, hvernig komið væri hér út á hálan ís vegna verðlagsmálanna, án þess að nokkurt verðfall hefði þó orðið enn þá. Þetta er auðvitað ekki að öllu leyti rétt, því að nokkur verðlækkun hefur orðið á ísfiski. En annars má minna á það, að ekki hafa orðið miklar breyt. á vísitölunni í tíð núv. ríkisstj. En í sambandi við fisksöluna koma svo margar aðrar hindranir til greina. Aðallega eru það löndunarörðugleikar, því að fiskurinn selst yfirleitt á hámarksverði þegar hann hefur verið landaður. En það vantar bara mannskap við löndunina, og virðist það því aðalvandamálið eins og er. Þetta hefur haft þær afleiðingar, að ekki hefur verið hægt að hækka fiskverðið til fiskflutningaskipanna, eins og í fyrra. Höfuðástæðan til þessara ráðstafana er óvissa sú, sem fram er komin síðan stríðinu lauk, því að meðan það stóð, seldum við allan okkar fisk til eins lands og var um þá sölu samið á einu bretti og þurftum við svo engar frekari áhyggjur að hafa út af því. En nú, þegar fiskimenn í Bretlandi eru komnir heim af herskipunum, breytist þetta, og við vissum, að af þessu mundu fljótt hljótast örðugleikar, þegar brezkir fiskimenn tækju aftur til starfa, og meginlandið er þannig útleikið, að erfitt er að koma þangað fiskinum og óhægt um greiðslur eins og stendur.

Ég er þeirrar skoðunar, að ríkisstj. hafi ekki gert nærri nóg í því að finna nýja markaði á meginlandinu. En mörgum hættir til að líta of mikið á þetta eina land, Bretland, og leggja því ekki eins mikla áherzlu á markaðsleit annars staðar. En á það má benda, að það var ekki fyrr en stríðið skall á, að farið var að flytja bátafiskinn út ísaðan. Við höfðum fyrir stríð allmikla markaði í Mið-Evrópu og mátti búast við, að þeir opnuðust aftur í stríðslok. En ég er sammála hv. þm. um það, að það er alls ekki nóg að hafa tvo menn í markaðsleit á öllu meginlandinu. Þegar þeir Einar Olgeirsson og Pétur Benediktsson voru í Póllandi, sögðu þeir, að Pólverjar væru reiðubúnir til þess að kaupa 1500 tonn á mánuði af ísfiski fyrir svipað verð og fengizt hefur í enskum höfnum. En það er ekki hægt að semja svoleiðis um einstakar vörur, heldur verður að gera alhliða verzlunarsamninga. Þeir, sem helzt hafa fengizt við útflutningsverzlun hér, hafa of einhliða trú á enska markaðinum. En Norðmenn hafa t. d. með oddi og egg verið úti um að gera verzlunarsamninga við Evrópulöndin og tryggja þá markaði í framtíðinni. Brezki markaðurinn er auðvitað einn stærsti og bezti markaðurinn, en hann er takmarkaður af því, að Bretar sjálfir eru mikil fiskveiðaþjóð. Við höfum flutt ensku þjóðinni allan okkar fisk í stríðinu og flutt hann þangað á eigin skipum og beðið við það hlutfallslega eins mikið manntjón og þeir í styrjöldinni. Við teljum okkur því hafa nokkurn siðferðislegan rétt af ensku stjórninni að fá þarna markað. Annars virðist þetta aðallega vera vinnuaflsekla, sem orsakar, hve illa hefur gengið með markað í Englandi núna í vetur.

Hv. þm. sagði, að fyrir áramót hefði þurft að taka öll verðlagsmálin hér til gagngerðrar endurskoðunar, en ég tel, að það mundi ekki hafa borið mikinn árangur fyrir bátaútveginn, þó að t. d. kaup hefði lækkað. Það eru aðrar ráðstafanir, sem nær liggja. Hér er þannig ástatt, að allir atvinnuvegir landsins byggja meira og minna á sjávarútveginum, og það slæma ástand hefur skapazt, að verzlunin blómgast á þeim erlenda gjaldeyri, sem sjávarútvegurinn leggur til, og liggur það allt til gjaldeyrishamlanna fyrir stríð og þeirrar óheppilegu bankapólitíkur að leggja fyrst og fremst fé í verzlunina. Óeðlileg þensla í verzluninni á Íslandi er aðalorsökin til erfiðleika sjávarútvegsins.

Hv. þm. talaði um það, að gera þyrfti ráðstafanir til endurreisnar saltfiskframleiðslunni. Mér mun óhætt að slá því föstu, að þær ráðstafanir, sem nú hafa verið gerðar til þess að salta fisk, geti talizt hafa mikla þýðingu fyrir landið í heild. Ég tel rétt að hækka þessa heimild, er um ræðir í frv., upp úr 5000 tonnum, og yfirleitt ekki rétt að binda sig við ákveðna tölu. Ég teldi rétt að takmarka þetta ekki við ákveðið magn, heldur láta það ná yfir allan saltfisk. Þegar vertíð byrjar, verður að vera hægt að tryggja það, að mögulegt sé að flytja á land fisk okkar, því að við vitum, að þörfin fyrir fisk á meginlandi Evrópu er gífurleg. Við verðum að stefna að því að hafa fiskinn í geymanlegu ástandi. Og ég tel, að þessar ráðstafanir verði að gera vegna hinna óvissu markaðsleita sjávarafurða, sem vitað var um frá upphafi. — Ég sé ekki ástæðu til að tala um landbúnaðinn í þessu sambandi. Það eru ákaflega miklir örðugleikar á að flytja út ísfisk, og skip, sem íslenzkir útvegsmenn töldu, að gætu séð um fiskflutningana, hafa ekki reynzt fær um það. Ég tel hæpið, að það opinbera sé að leigja skip til annars en fiskflutninga, en þátt þessi skip fáist, þá er það ekki nægilegt og ekki hefur tekizt að fá erlend skip, þótt reynt hafi verið. Þó hefði verið hægt að fá færeysk skip, en þær deilur, sem urðu út af leigusamningunum í fyrra, urðu til þess, að útvegsmenn eru á móti því að leigja færeysk skip, enda eru þau yfirleitt gangtreg og léleg. Því var haldið fram í vetur, að við hefðum nægan skipakost, en þótt svo sé yfir vertíðina, má búast við, að mörg skip skerist úr leik, þegar sumarverð gengur í gildi, og þá verður ríkisstj. að skerast í leikinn og tryggja það, að hægt verði að flytja fiskinn. Vitanlega fylgir þessu nokkur áhætta, en ég geri ráð fyrir, að eigendur skipanna láti þau af hendi af fúsum vilja, ef þeir þora ekki að reka þau sjálfir. Í þessu sambandi vil ég upplýsa það, að nú munu vera til um 8000 tonn af salti í landinu, og vonir standa til, að hægt verði að fá meira salt síðar. Mér þykir ekki ósennilegt, að Íslendingar keppi að því á næstu árum að flytja út fullverkaðan fisk, og ég tel sjálfsagt, að ríkisvaldið geri allt, sem unnt er, til að styðja að því að gera fiskafurðirnar að markaðshæfri vöru. Ég lít svo á, að rétt sé að tryggja, að nóg salt sé til í landinu, og hvetja menn ,til þess að salta. Slíkt getur orðið nauðsynlegur þáttur í framleiðslu okkar þegar flotinn stækkar.