08.03.1946
Neðri deild: 83. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (2944)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Pétur Ottesen:

Þetta frv., sem hér er til umr., mun fram borið til þess að leysa þau vandræði, sem sjávarútvegurinn virðist nú kominn í, ef ekkert er að gert. Er það eðlileg afleiðing af því atvinnuástandi, sem við höfum búið við undanfarið og orsakar það, að framleiðsla vor er ekki meir en svo samkeppnisfær á erlendum markaði. En verð það, sem við getum fengið fyrir fiskinn erlendis, samsvarar ekki því, sem við þurfum að fá, til þess að atvinnuvegirnir geti borið sig. Mun láta nærri, að sá munur, sem er á framleiðslukostnaði okkar og því verði, sem við getum fengið, sé um 16 aurar á kg.

Ég hlýt fyrir mitt leyti að viðurkenna, að þótt ég hefði talið aðra leið heppilegri, þá tel ég, að ekki verði hjá þeirri ráðstöfun komizt, sem hér er gert ráð fyrir. Það, sem ég hef helzt við þetta frv. að athuga, er það, að mér þykir of skammt gengið, a. m. k. ef ekki breytist til batnaðar um afgreiðslu í höfnum erlendis, en mikil hætta er á, að fiskurinn skemmist vegna þeirra tafa, sem verða á löndun, eftir að skipin eru komin út. Ég hygg, að eina leiðin sé að tryggja útvegsmönnum viðhlítandi verð fyrir saltfisk. Ég mun því á síðara stigi málsins bera fram brtt. þess efnis, að útvegsmönnum verði tryggt vetrarverð fyrir saltfisk til maíloka. Það kann að vera, að nýir markaðir opnist fyrir þá vöru, t. d. í Ameríku, og þótt eitthvað verði að breyta til með pökkun, þá er ekkert við því að segja, ef viðunandi verð fæst.

Það hefur verið á það minnzt í þessum umræðum, að sams konar ráðstafanir yrði að gera gagnvart útflutningsverði landbúnaðarvara. Það leiðir af sjálfu sér, að ef landbúnaðurinn er í svipaðri aðstöðu, þá er sanngjarnt, að hann njóti svipaðs stuðnings frá því opinbera. Þessir atvinnuvegir eru hvor að sínu leyti undirstöður undir þjóðarbúskapnum og því eðlilegt, að þeir séu jafnréttháir. — Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að landbúnaðurinn hefði rutt brautina að því er varðaði slíkan stuðning. Þetta er að vísu rétt, en þess ber þó að gæta, að sá stuðningur var ekki eingöngu veittur vegna landbúnaðarins, heldur kom þar ekki síður, til greina viðgangur sjávarútvegsins, þar sem ætla má, að hann hefði stöðvazt, ef ekki hefði verið horfið að því ráði. Þess vegna hefur þetta bundið hvað annað, þar sem niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum hafa verið gerðar vegna nauðsynjar þjóðfélagsins í heild, til þess að geta haldið uppi utanríkisverzluninni, því að án hennar hefðum við ekki getað staðizt. (Atvmrh.: Ég átti við útflutningsuppbæturnar, en ekki niðurgreiðslurnar.) Útflutningsuppbæturnar eru þar einn liður, af því að landbúnaðurinn gat ekki selt nema nokkurn hluta framleiðslu sinnar á innlendum markaði. Og til þess að landbúnaðurinn gæti sinnt sínu hlutverki um að fæða, þjóðina, varð hann að fá slíkar útflutningsuppbætur, til þess að hægt væri að halda fólkinu við þessi framleiðslustörf. Þess vegna grípur þetta svo hvað inn í annað, niðurgreiðslurnar og útflutningsuppbæturnar á landbúnaðarafurðum, að þar ekki hægt upp á milli að gera.

Ég ætlaði svo að lokum að minnast á eitt atriði, sem dregið hefur verið inn í þessar umr., og það er það, sem farið hefur á milli hv. 2. þm. S.-M. og hæstv. atvmrh. í sambandi við það, sem þeir hafa rætt hér almennt um verðbólguna og dýrtíðarráðstafanir í þessu landi. Hæstv. ráðh. vildi færa það mjög á reikning verzlunarinnar, að sjávarútvegsmenn og aðrir hefðu beðið hér og biðu skarðan hlut, þ. e. a. s., að þeir, sem verzlun stunda, hafi dregið til sín óeðlilega mikinn hluta af því verði, sem okkur hefur fallið í skaut af framleiðslunni, bæði til sjávar og sveita. Þetta hefur nú mjög verið rætt, oft og löngum, en þó einna mest meðan verkfallið hér í Rvík stóð í vetur. Og það, sem hann sagði hér nú um þetta, var mjög í samræmi við það, sem þar hefur verið haldið fram, að heildsalarnir, eins og þeir hafa verið nefndir, — sem eru verzlunarstéttin, — hafi dregið til sín óeðlilega mikið af tekjum þjóðarbúsins á undanförnum árum. Ég vil engan veginn mæla gegn því, að svo hafi getað verið. Síður en svo. En ég vil bara segja þetta: Hvernig stendur á því, að heildsölunum eða verzlunarstéttinni hefur haldizt uppi að gera þetta? Nú höfum við búið hér við verðlagseftirlit og verðlagsákvörðun hjá verzlunum af hendi þess opinbera, hjá heildsölum og öðrum, sem verzlun reka, þannig að þeim hefur ekki verið leyft að leggja á vörurnar nema ákveðið hundraðshlutfall, sem hefur verið mismunandi eftir því, hvort um hefur verið að ræða heildsöluverzlun eða smásöluverzlun. Hvernig stendur á því, að ríkisstj., sem velur menn til þessara starfa, að sjá um þetta verðlagseftirlit, fyrr og síðar, — og þar á meðal einnig þessi hæstv. ríkisstj., sem nú hefur setið nokkuð á annað ár að völdum, — hefur liðið þessum mönnum, sem hún hefur valið til verðlagseftirlitsins, að gera hlut verzlanana svo ríflegan eins og hæstv. atvmrh. lýsir hér, eða að fara svo óeðlilega ofan í vasa allra landsmanna, að verzlunarstéttin hafi mokað og hrúgað upp fé á sama tíma og þeir, sem að atvinnurekstrinum standa, hafa búið við svo skarðan hlut, að ríkisstj. verður að grípa, til ráðstafana með ýmsum hætti, til þess að fyrirbyggja, að þessi eða hinn atvinnuvegur sigli alveg í strand? Hvernig stendur á því, að hæstv. núv. ríkisstj.; sem byggð er upp af þremur stjórnmálaflokkum og er fjölmennari en nokkur önnur ríkisstj. hefur verið í þessu landi, velur þá menn til þessara verðlagseftirlitsstarfa, sem þannig rækja þetta umboð? Og ef mistekizt hefur þetta starf hjá þessum mönnum, hvernig stendur þá á því, að hæstv. ríkisstj. lætur þessa sömu menn sitja við stjórnvölinn í þessum efnum, með þeim afleiðingum, að heildsalarnir moki stórgróða upp í sína skreppu, þegar aðrir þegnar þjóðfélagsins bíða skarðan hlut? Mér finnst þetta tvennt alveg ósamrýmanlegt, tal hæstv. ráðh. um þetta við þessar umr. og það, sem ég hef, nú drepið á og spurt um, þ. e. sú vandlæting, sem fram kom hjá hæstv. atvmrh., og hitt, að hann gerir engar ráðstafanir, svo að vitað sé, til þess að fólkið verði verndað fyrir þessari féflettingu með því, að hér sé bót á ráðin. Ég hef að vísu heyrt talað um það úrræði að láta ríkið reka alla utanríkisverzlunina. En viðkomandi þeirri hlið málsins að gera góð og hagkvæm innkaup, þá er það vitað, að í því efni eru einstaklingar a. m. k. jafnsnjallir og þeir menn, sem farið hafa með slíkt umboð fyrir ríkið. Þannig að í því efni ætti ekki að vera ágreiningur. Í hinu liggur svo mismunurinn sjálfsagt, að með ríkisinnkaupum yrði hægt að komast hjá þessum geysilega milliliðagróða, sem hæstv. ráðh. talaði um. — En meðan við búum við verðlagseftirlit, sem ríkisstj. skipar menn til að annast, ætti þjóðin að geta treyst því, að álagningarmöguleikum á vörur sé mjög í hóf stillt.

Ég hef nú nokkuð rætt þetta .atriði, af því að aðrir hv. þm. hafa gefið tilefni til þess, með því að fara út á víðari grundvöll en málið, sem fyrir liggur, gefur beinlínis tilefni til. En þetta frv. er bein afleiðing af því dýrtíðarástandi, sem nú er hjá okkur. Og vitanlega er þessi 5 aura trygging til þeirra sem standa að hraðfrystingu á fiski lítil, enda eingöngu miðuð við þá verðhækkun til fiskimanna, sem orðið hefur nú í vertíðarbyrjun. Að öðru leyti svífur þessi atvinnuvegur — eins og nú standa sakir — alveg í lausu lofti, meðan ekki tekst að ryðja vörunni braut á markaði utan Englands, þar sem við höfum selt þessa vöru nú á undanförnum stríðsárum. Og ekki einasta það er nauðsynlegt að ryðja þessari vöru braut, heldur að það verð, sem við fáum fyrir hana á þessum nýju mörkuðum, svari til kostnaðarins við framleiðslu hennar innanlands. Gangi það ekki, en samt sem áður verði að selja vöruna, þá mun reka að því, að gera verður sérstakar ráðstafanir til þess að forðast fjárhagslegt hrun hjá þeim, sem kaupa fisk til hraðfrystingar. Vonandi rætist nú betur úr þessu en á horfist, og segi ég það þá með sérstöku tilliti til þess, að hraðfrysti fiskurinn er góð vara, sem ætti að standa jafnfætis annarri hliðstæðri vöru, sem berst á markaðinn, t. d. frá Norðmönnum og annars staðar að. En það, sem vitanlega gerir erfiðleikana fyrir okkur, er ekki aðeins samkeppnin við Norðmenn, heldur hitt, að framleiðslukostnaður hjá okkur er svo miklu hærri en annars staðar á Norðurlöndum, og þar með hjá þeim, sem við verðum að keppa við um sölu á þessum afurðum. Og það náttúrlega gerir aðstöðu okkar ákaflega erfiða í þessu efni og leiðir m. a. til þess, að það þarf að gera ráðstafanir sem þessar, er frv. þetta hljóðar um, hér innanlands, svo að hægt verði að fleyta atvinnurekstrinum áfram, þó að ekki sé nema í bili.