08.03.1946
Neðri deild: 83. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (2945)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Með auglýsingu samninganefndar utanríkisviðskipta frá 5. jan. 1946, sem vitnað er í í 1. gr. þessa frv., var lágmarksverð á fiski, hvort heldur er til útflutnings eða til frystihúsanna eða annarrar notkunar, ákveðið eins og segir í þeirri auglýsingu. Nú er ætlunin með þessu frv., sem hér liggur fyrir, að skilyrði fyrir því, að þær uppbætur séu greiddar eða sú ábyrgð tekin, sem um ræðir í 1. og 2. gr. frv., séu þau, að greitt sé það tilskilda lágmarksverð, sem samningan. utanríkisviðskipta ákveður á hverjum tíma. — Hæstv. atvmrh. gat um, að ekki mundi vera rétt að setja ákvæði um þetta í frv., hvað saltfiskinum við kemur. En ég hygg, að það ætti að vera nægilegt að bæta aftan við 3. gr., en 3. gr. er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Atvinnumálaráðherra getur sett fyrirmæli um allt, er lýtur að framkvæmd þeirra ráðstafana, er um getur í 1. og 2. gr.“ Ég hygg, að nægilegt væri að bæta aftan við þessa gr.: „Þar á meðal um þau sönnunargögn, er hann telur þurfa fyrir því, að hlutasjómönnum og útgerðarmönnum, er selja fisk sinn öðrum, hafi verið greitt hið tilskilda lágmarksverð, sem ákveðið er af samninganefnd utanríkisviðskipta á hverjum tíma.“ — Ég hygg, að nauðsynlegt sé að setja um þetta ákvæði, vegna þess, að ef fiskútflutningurinn stöðvast og mikið framboð verður á fiski til söltunar eða annarra nota í landinu, þá er nokkur hætta á því, að fiskverðið verði lækkað til fiskimanna og útvegsmanna. En það er alveg nauðsynlegt, að ríkisstj. setji undir þann leka þegar frá byrjun. Ég vil þess vegna leyfa mér að flytja hér við þetta frv. brtt. í þá átt, sem ég hér lýsti. Óska ég eftir, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þessari brtt., svo að hún megi koma hér til umr. og afgreiðslu á sínum tíma.

Ég vildi svo taka undir það, sem fram hefur komið frá hæstv. atvmrh. og einnig hv. þm. Borgf. um það, að nauðsynlegt sé að auka saltfiskmagnið verulega frá því, sem ákveðið er í frv. En í því sambandi verð ég þó að benda á, að ef ekki eru til nema 8 þús. smálestir af salti í landinu, eins og ég tók eftir, að hæstv. atvmrh. segði, þá ber mjög brýna nauðsyn til þess að hefjast þegar handa um að fá meira salt innflutt til landsins, og það því fremur sem sýnilegt er, að einhver breyt. verður á hámarksverði á ísfiski í Bretlandi nú um næstu mánaðamót. Sú breyt. var boðuð á s. l. ári. Og ef hún kemur til framkvæmda nú um mánaðamótin, má búast við því, að það þurfi að auka söltun að miklum mun. Og þá er vissulega nauðsyn á því, að gerðar séu alveg sérstakar ráðstafanir til þess að afla meira salts til landsins, því að það, sem til er af salti í landinu, mun ekki nægja í nema 9 þús. smálestir af fiski. (LJós: Það er nokkuð freklega saltað). Það er venjuleg söltun. (PO: Það verður að salta mikið, þegar fram á kemur). Reynslan er sú, að 1 kg af salti mun þurfa í 1 kg af fiski.

Ég skal ekki fara út í að ræða þetta mál vítt og breitt eins og aðrir hv. þdm. hafa gert hér. Það má sjálfsagt lýsa ýmsum ástæðum fyrir því, að þetta frv. er fram komið. En eftir atvikum má ríkisstj. sjálfsagt sætta sig vel við það, hve góðar undirtektir þetta frv. hefur fengið, einnig hjá stjórnarandstæðingum.