11.03.1946
Neðri deild: 84. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (2947)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi beina því til hæstv. forseta, hvort hæstv. atvmrh. gæti ekki verið viðstaddur. Ég kann illa við að halda áfram þessari umr. að honum fjarstöddum. Ég hygg, að hæstv. atvmrh. hafi haldið, að þetta mál mundi ekki komast að .til umr. á þessum fundi. — Ég sé nú, að hæstv. ráðh. kemur inn í salinn.

Ég skal nú ekki fara langt út í að ræða þá hlið þessa máls, sem veit að verðbólgunni, en get þó ekki látið hjá líða að fara um þá hlið málsins nokkrum orðum, út af því, að hæstv. atvmrh. sagði, að það væri misskilningur að álíta, að kaupgjaldið hefði úrslitaþýðingu um afkomu bátaútvegsins. Ég er hæstv. atvmrh. ekki samþykkur um þetta. Það er ekki vafi á því, að kaupgjaldið hefur úrslitaþýðingu um afkomu bátaútvegsins. Við könnumst við þessar staðhæfingar, sem hæstv. ráðh. bar fram um þetta. Það hefur verið sífellt sagt við bátaútvegsmenn, að það snerti þá svo lítið, þó að kaupgjaldið hækki. En þetta er blekking, vegna þess að kaupgjald og verðlag í landinu hafa úrslitaþýðingu fyrir smábátaútveginn, ekki síður en aðrar atvinnugreinar, enda hefur niðurstaðan orðið sú, að smábátaútvegurinn stendur ákaflega höllum fæti. Hann hefði getað staðið stórum betur að vígi, ef skynsamlega hefði verið á málum hans haldið. En smáútvegsmenn eiga nú t. d. litla sjóði. Því að þótt þeir séu nokkrir að krónutölu, þá eru þeir verðlitlir. En því neita ég ekki, að það hefur fleira áhrif á framleiðslukostnaðinn en kaupgjaldið, þ. á m. milliliðakostnaðurinn, sem hæstv. ráðh. minntist á. Hæstv. ráðh. sagði, að sá kostnaður væri þungur í skauti sjávarútvegsins, og skal ég ekki draga úr því, að þar sé um verulegan kostnað að ræða. En ég hlýt að undirstrika það, sem hv. þm. Borgf. sagði, að það situr heldur illa á hæstv. atvmrh. að skjóta sér á bak við þetta. Hann hefur setið í ráðherrasæti á annað ár og talaði digurbarkalega, þegar hann tók við völdum, ekki sízt um það, að sjávarútveginum skyldi ekki verða þjakað með verzlun og viðskiptum. En niðurstaðan er sú, að eftir rúmt ár frá valdatöku þessa hæstv. ráðh. rís hann upp hér á Alþ. og lýsir því með stórum orðum, hvílíkar búsifjar sjávarútvegurinn hafi haft einmitt af starfi milliliðanna í landinu. Rétt áður en þessi hæstv. ráðh. tók við ráðherrastörfum, birtist grein í blaði hans, Þjóðviljanum, þar sem þess var krafizt af þáv. ríkisstj., að hún gerði þá þegar ráðstafanir til þess að koma verzluninni með sjávarafurðir í hendur útvegsmönnum sjálfum. Og farið var þar háðulegum orðum um þáv. ríkisstj. að þessu leyti og mjög sterk orð höfð um þáv. ríkisstj. fyrir að hafa ekki notað sér heimild, sem hún hafði, til þess að taka olíugeyma eignarnámi. — Eftir nokkra daga frá þessu settist hæstv. núv. atvmrh. í það ráðherrasæti, og hefur hann stjórnað þessum málum þannig eins og hann lýsti hér í hv. þd. fyrir skömmu, og þess hefur ekki orðið vart, að hann hafi gert nokkra tilraun til þess að koma á nýjum stjórnarháttum í þessum málum. En ef hann hefði eitthvað gert í þessu, þá hefði hann víst ekki þagað yfir því, því að hann setur ekki ljós sitt undir mæliker í þeim skilningi. Og hæstv. atvmrh. sagði, að þessir erfiðleikar, sem sjávarútvegurinn á nú við að stríða, stöfuðu að miklu leyti af rangri braskpólitík, en það finnst mér mjög grunnfærnislega sagt. Það er að vísu satt, að það hefur haft mikil afgerandi áhrif á afkomu sjávarútvegsins, hvernig braskpólitík hefur verið rekin í sambandi við hann yfirleitt. En það er fjarstæða, að það sé vegna braskpólitikur fyrst og fremst, hvernig komið er fyrir smábátaútveginum. Og af því að hæstv. ráðh. ræddi þetta svo mjög, og það reyndar ekki að gefnu tilefni, þá vildi ég gjarnan spyrja hæstv. atvmrh. t. d. að því, hvaða ráðstafanir hann hafi látið gera til þess að tryggja félagi útvegsmanna innflutningsleyfi fyrir nauðsynjum útgerðarinnar. Mér er kunnugt um, að félag þeirra hefur átt mjög undir högg að sækja um þessi mál undanfarið, en mér er ekki , kunnugt um, að nein breyt. hafi átt sér stað í þeim efnum. Ég sé því ekki annað en í þessum efnum sé nú ekki síður ábótavant en var áður en þessi hæstv. atvmrh. tók sæti í ríkisstj., þannig að hann hafi engu fengið áorkað til bóta í þeim efnum. Ég játa, að þetta atriði, sem hæstv. atvmrh. gerði sérstaklega að umtalsefni, er stórt atriði fyrir bátaútveginn. En hitt er einnig stórt atriði, hvernig farið hefur um dýrtíðina í landinu og kaupgjaldið. Og það er náttúrlega verðbólgan, sem hefur átt drýgstan þátt í því að koma málefnum sjávarútvegsins í þá erfiðleika, sem þau nú eru í. Fyrir styrjöldina átti sjávarútvegurinn við allmikla erfiðleika að etja, en hafði samt góða afkomu, meðan verðbólgan hafði ekki vaxið.

Ég minntist á það hér á dögunum, að mönnum blöskraði yfirleitt sú linka og það framkvæmdaleysi, sem ætti sér stað varðandi nýja samninga við önnur lönd um sölu sjávarafurða, og reyndar gildir þetta um fleira, sem ég fór ekki út í þá og skal ekki fara út í nú. Ég nefndi ekki mörg dæmi, en gat um nokkur atriði. Nú hefur hæstv. atvmrh. gert hér eftirtektarverða játningu á þingi, þar sem hann lýsir yfir því, að hann telji, að í þessum efnum hafi ekki verið gerðar nægilega röggsamlegar framkvæmdir. Það er út af fyrir sig nokkurs virði og sízt ástæða til að deila á hæstv. ráðh. fyrir það, að hann játar það, sem miður hefur farið. Hitt er ákaflega athyglisvert, að þessum málum skuli vera komið þannig, að hæstv. atvmrh. hlýtur að játa þetta. Og það ber vott um meira en lítið sleifarlag í þessu efni, því að hingað til hefur ekki verið hægt að telja það með kostum þessarar hæstv. ríkisstj. að játa það, að sér hafi nokkuð yfirsézt. Það dylst heldur engum, sem nokkuð hefur fylgzt með verzlunarmálefnum eða atvinnumálum, hvernig á þessum málum hefur verið haldið. — Nú þykist ég vita, að hæstv. atvmrh. þykist geta talað djarft um þetta, af því að þessi mál heyri ekki undir hann, því að það heyrir ekki undir hans starf að senda menn til annarra landa til samninga um þessi mál. En hann getur þó ekki skotið sér undan ábyrgð í þessum málum, því að þessi mál eru svo þýðingarmikil fyrir þau mál, sem heyra undir hans stjórnardeild, að það er óforsvaranlegt, að þetta gangi svo um mál, sem hann á að annast í ríkisstj., að ekki sé vakin athygli þjóðarinnar á því fyrr en nú að síðustu, eins og af tilviljun. Hér er um svo þýðingarmikil mál að ræða, að hæstv. atvmrh. átti að halda öðruvísi á þeim, auk þess sem hæstv. atvmrh. hefur mikla möguleika til að bæta úr því, sem aðrir ráðh. kynnu að vanrækja í þessu efni. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að hann geti sent út menn, jafnvel algerlega af sínu ráðuneyti, ef honum finnst hér óforsvaranlega illa á haldið. En það virðist hæstv. atvmrh. ekki hafa gert. Þessi játning hæstv. ráðh. um þetta eitt hið þýðingarmesta mál, sem stjórnin hefur með höndum, er þeim mun merkilegri þegar þess er gætt, að það var eitt af þeim málum, sem hæstv. ráðh. lagði mikla áherzlu á þegar hann tók við völdum og skrafaði mest um, að þessi ríkisstj. mundi líta á það sem eitt sitt aðalverkefni að ná hagkvæmum viðskiptasamningum við aðrar þjóðir, ekki sízt til þess að létta af mönnum áhyggjum viðkomandi sölu sjávarafurða. Og það var þá talað um það, að það yrði ekkert til sparað til þess að ná sem beztum árangri í þessu efni. Þetta er í miklu ósamræmi við það, sem uppvíst er orðið um skort hæstv. atvmrh. á framkvæmdum í þessum efnum.

Þá vil ég loks víkja að því, sem hæstv. ráðh. sagði viðvíkjandi því, hve miklar ábyrgðir skyldi taka t. d. á saltfiski, að það mætti sennilega slá því föstu, að þeir, sem lakasta aðstöðu hafa, njóti allrar þeirrar ábyrgðar, ef hún yrði aukin að marki frá því, sem til er tekið, vegna þess að allir mundu stunda að einhverju leyti saltfiskframleiðslu yfir vetrarmánuðina. — Þetta er ekki réttur skilningur hjá hæstv. ráðh. Það verður að gera aðrar og frekari ráðstafanir til þess að hækka kvótann nokkuð, til þess að hægt sé að veita öllum hliðstæða aðstoð í þessum efnum. Þó að hæstv. ráðh. hækkaði saltfiskkvótann, gæti svo farið, að hann yrði búinn í apríl. En í sumum verstöðvum byrjar ekki vertíð fyrr en að vorinu og sums staðar fæst aðalfiskmagnið að sumrinu o. s. frv. Mér finnst því, að ekki sé hægt annað en hafa miklu ýtarlegri ákvæði um þetta heldur en í frv. felst og þá, að ríkisstj. sé gefin heimild til að taka á móti saltfiskframleiðslunni fram á næsta haust.

Ég hélt, að menn mundu geyma sér að koma með brtt. við þetta frv. þangað til við 2. umr. En nú hafa komið fram brtt. frá hv. þm. Borgf., þar sem gert er ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að kaupa til útflutnings eða ábyrgjast fyrir bátaútveginn sölu á því fiskmagni, sem saltað er til útflutnings til 31. maí. Ég hef komið brtt. til skjalavörzlunnar, um að þessari brtt. hv. þm. Borgf. verði breytt á þann veg, að í staðinn fyrir „31. maí“ komi: 1. okt., og enn fremur, að henni verði breytt þannig, að aftan við till. bætist ákvæði um, að enn fremur verði ríkisstj. veitt heimild til þess að ábyrgjast tilsvarandi verð fyrir smærri þorsk en í brtt. getur, en ekki aðeins fyrir stórfisk. Það er náttúrlega ekki annað að gera en að dansa til enda dýrtíðardansinn, eftir að út í hann er komið. Og meðan ekki er snúið algerlega við á þeirri braut, þá er það hlutverk okkar að reyna að láta ekki verða misskipt því, sem veitt er af fjármunum þjóðarinnar — í allar mögulegar áttir til þess að hamla á móti afleiðingum dýrtíðarinnar.

Ég hef ekki lagt fram brtt. varðandi landbúnaðarafurðir, sem ég þó minntist á fyrr við þessa umr., en mun gera það, ef n. eða nokkur hluti n. tekur ekki það atriði upp. En ég geri ráð fyrir, að þetta frv. hljóti að fá meðferð í fjhn. Og þó að þetta frv. sé flutt af meiri hl. n., vildi ég mælast til þess, að því verði vísað formlega til n.

Ég skal svo að lokum taka fram, að ég saknaði þess, að hæstv. ráðh. ræddi ekkert þá hlið þessa fisksölumáls, sem lýtur að samvinnu við aðrar fiskveiðiþjóðir. Það getur verið, að hæstv. atvmrh. hafi sérstakar ástæður til þess að ræða ekki það atriði þessa dagana opinberlega. En ég saknaði þess, að hann lýsti ekkert stefnu ríkisstj. í því atriði, hvort hún er að leita slíkrar samvinnu, og þá eftir hvaða leiðum hún ætlar að gera það. En ég minntist á þetta dálítið í ræðu minni um daginn, og þá held ég, að ég hafi spurt hæstv. atvmrh. um það, hvað í þeim efnum hefði verið gert. Okkur er öllum ljóst, hvað getur beðið okkar, ef illa tekst til um viðreisn Evrópu, þannig að þar verði skortur á næstu árum, en hins vegar eykst fiskframleiðsla hjá þeim þjóðum, sem hana hafa stundað. Þá yrði mjög erfitt framundan fyrir okkur. Og mér sýnist full ástæða til þess, að það sé tekið alvarlega til athugunar, hvernig hægt er að koma í veg fyrir það, að fiskverðið verði hrakið svo mikið niður eins og var fyrir samkeppnina um fiskmarkaðinn fyrir síðustu styrjöld, — og eins, hvort ekki væri hægt að fá samkomulag um það, að þjóðirnar færu ekki inn á þá braut að styrkja fiskframleiðsluna heima fyrir úr ríkissjóði, til þess að hægt væri að undirbjóða fiskinn sem markaðsvöru. Um þetta þurfum við að nota alla okkar lagni, til þess að geta komið í veg fyrir, að þetta eigi sér stað. Þetta vildi ég undirstrika, og mér þætti gott, ef hæstv. atvmrh. teldi sér fært að gefa einhverjar stefnuyfirlýsingar um þetta. Vilji hann þetta ekki, af einhverjum ástæðum, nær það ekki lengra að sinni. En ég sé sérstaka ástæðu til að minnast á þetta, vegna þess að mér finnst, að svo slælega hafi verið rekin tryppin varðandi samninga nú á næstu mánuðum um fisksöluna, og virðist ástæða til að draga þá ályktun af því, að ekki sé nægilega sinnt ýmsum enn þá stærri verkefnum.