12.03.1946
Neðri deild: 85. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (2951)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Einar Olgeirsson:

Ég sé nú, að umr. um þetta frv. eru e. t. v. að fara út fyrir það, sem tilefni gefst til. Vil ég þá fyrst geta þess í sambandi við þetta frv., að ég tel stj. farið hafa inn á mjög rétta leið viðvíkjandi bátaútveginum, án þess þó, að það baki ríkissjóði nein veruleg fjárútlát. En ég læt þess getið, að það er ekki einvörðungu þetta atriði, sem ég legg áherzlu á og tel nauðsynlegt. Ég bendi hér á aðra leið og tel rétt að vekja athygli stj. á því.

Undanfarið hefur svo háttað til, að jafnóðum og ný vinnsluaðferð hefur verið fundin upp af einhverjum, þá hafa allir framleiðendur farið að einbeita sér að þeirri aðferð til verkunar. Það er eðlilegt, að menn keppi hver við annan á þennan hátt. Við þekkjum þetta vel hjá sjálfum okkur. Má þar til nefna t. d. harðfiskinn, hraðfrysta fiskinn o. fl. Og nú sjáum við, hversu hagar til um niðursuðuna o. fl. En fyrir þjóðarheildina getur þetta verið hættulegt. Við verðum að athuga, að allt útlit er nú fyrir, að fiskframleiðslan muni aukast um helming á næstunni, og markaðirnir eru vafasamir og ótryggir fyrir fiskinn, bæði í Bretlandi og á meginlandi Evrópu. En þá verðum við bara að gæta þess að nota alla markaðsmöguleika, hvar sem er og í hvaða mynd sem er. Aðalatriðið er, að markaður fyrir allar okkar vörur sé fyrir hendi. Þannig er það, að betra verð fyrir eina vörutegund leiðir af sér lakara verð fyrir aðra. Án eftirlits mundu allir snúa sér að sem mestri framleiðslu þeirrar vöru, er hæst verð fæst fyrir, enda er það eðlilegt. En hins vegar yrði afleiðingin sú, að samtímis mundi vanta fisk til að svara eftirspurninni á öðrum fiskafurðum. M. ö. o., hér væri um offramleiðslu einnar vörutegundar að ræða, en kreppa mun skapast af því. En ríkið verður að jafna á milli og tryggja hag manna, með sérstökum ráðstöfunum, svo lengi sem hagkvæmt telst. Við gætum fyrst framleitt eins og einhver ákveðinn markaður þyldi, siðan tekið til við framleiðslu annarra vörutegunda fyrir þá markaði, er fyrir þær fengjust, og svo koll af kolli. Markaðsþörfin yrði athuguð fyrir hvers konar fisk og mannafla landsins einbeitt á ákveðin svið með sjónarmiði til heildarinnar. — Ég álít þess vegna, að um það, sem felst í þessum heimildum, ætti ríkisstj. að athuga, hvað framtíðina snertir, ekki aðeins hvort þetta gæti ekki orðið upphaf að því að skapa tryggingu fyrir öruggum grundvelli undir verðhækkun á vörum sjávarútvegsins, heldur líka til þess að koma á betra skipulagi um hagnýtingu markaða og skipulagi á framleiðslu okkar aðalútflutningsvöru. Og ég held, að þetta sé mikið atriði, sem leggja beri áherzlu á.

Þá hefur í þessum umr. mikið verið rætt um markaðsörðugleika okkar, sem er ekki nema eðlilegt, þegar verið er að ræða um ráðstafanir; sem ríkisstj. er að gera til þess að reyna að fá fram hærra verð á afurðum okkar en verið hefur áður og til þess að tryggja landsmönnum það. Ég held, að það sé nauðsynlegt, að við ræðum þó nokkuð okkar markaðsöflun og markaðsmöguleika. Því að það er engum efa bundið, að það hlýtur að koma meir til kasta Alþ. að fjalla um það atriði en verið hefur fram að þessu: Í raun og veru hafa markaðir okkar, sérstaklega síðustu árin fyrir þetta síðasta stríð, verið mjög takmarkaðir. Og ég held, að við verðum að venja okkur við, þegar við hugsum um markaði okkar, að hugsa um afurðir okkar sem heimsvöru og takmarka það ekki við tiltölulega fá lönd, eins og við höfum gert fram að þessu. Og ef við ætlum að hafa álíka stórhug í okkar markaðsöflun og við höfum haft gagnvart því að leggja grundvöll undir öflun nýrra atvinnutækja til handa sjávarútveginum og fiskiðnaði á Íslandi, þá verðum við að taka betur á en við höfum gert í því efni fram að þessu. Mættum við þá byrja á því að umskapa nokkuð hugmyndaheim okkar sjálfra um möguleikana í þessu sambandi. Við erum þannig landfræðilega í heim settir, að við höfum góða aðstöðu til að hagnýta okkur markaði bæði austan hafs og vestan. Og ef við framleiðum markaðsvöru úr öllum þeim fiski, sem við erum að skapa okkur möguleika til að veiða, þá held ég, að markaðir okkar gætu verið í flestum löndum Ameríku og Evrópu, og jafnvel nokkuð utan þeirra heimsálfa. Og það þýðir það, að það starf, sem við verðum að inna af hendi til öflunar markaða í þessum löndum, er geysilegt. Það þýðir, að við verðum að einbeita þeim kröftum, sem við höfum, til þess að afla markaða á þessum stöðum. Og það kostar venjulega allharða og langa baráttu að komast inn með vörur sínar í ný markaðslönd, ekki sízt ef við eigum í samkeppni og baráttu í því efni við frændþjóð okkar, Norðmenn. Það hafa nokkrum sinnum komið fram raddir um það utan þings, og nú síðast innan Alþ., að við þurfum að hafa samstarf við Norðmenn um okkar fiskmarkað. Það hafa að vísu verið gerðar tilraunir til þess áður fyrr, að fá menn til að athuga þetta, en það hefur mætt andúð hér á Alþ., sem hefur orðið til þess að kveða þá viðleitni niður. Ég held, að það hefði verið heppilegast fyrir báðar þessar frændþjóðir, Íslendinga og Norðmenn, að þær hefðu fyrir löngu tekið upp samstarf um hagnýtingu markaða fyrir fisk og síld, og ég álít, að það sé mjög heppilegt, að þær raddir komi fram hér á Alþ., sem undirstrika þörfina á þessu. Og ég vildi eindregið hvetja hæstv. ríkisstj. til þess að vinna að slíku samstarfi og reyna að koma því á sem allra fyrst. Meðan slíku samstarfi er ekki komið á, er gefið, að við megum ekki láta okkar eftir liggja um að reyna að komast inn á markaði, hvar sem er í heiminum. Það er nauðsynlegt, líka ef til samninga kæmi við Norðmenn, að vera sem víðast búnir að koma ár okkar fyrir borð, þannig að ef til samninga kæmi um þetta, yrðum það ekki við, sem yrðum að biðja um að fá að komast inn á markaði, sem þeir væru búnir að taka, heldur að við sem allra víðast stæðum sem jafnast að vígi og þeir. Og það er ekki aðeins um þorsk að ræða í þessu sambandi. Við Íslendingar verðum að gera okkur ljóst, að lífsafkoma þjóðar okkar byggist, ég vil segja frekar á síldveiðum en þorskveiðum. Það er mitt álit, að síldveiðin sé mesta auðsuppsprettan, sem við höfum. Það er meira og meira að sýna sig við rannsóknir, að einmitt þar sem þorskmergðin hér við land að öllum líkindum er það takmörkuð, að hún þoli ekki meiri veiði en það, sem framleitt var af þorski hér fyrir stríð, af Íslendingum, Englendingum og Þjóðverjum, þá er það svo með síldina, að hún þolir svo að segja ótakmarkaða veiði. Reynslan hefur enn fremur sýnt, að við höfum á tveggja mánaða tíma jafnmikil uppgrip af síld, að því er magnið snertir, eins og við höfum af þorski allt árið. Og síldin er, hvað næringargildi snertir, talin margfalt dýrmætari en þorskurinn. — Ég held því, að við getum litið svo á okkar þorskveiðar, að viðkomandi þeirri atvinnugrein stöndum við þannig að vígi, að við höfum jafna aðstöðu í þeirri grein við aðra, sem að sjávarútvegi vinna, en með síldveiðunum, þegar vel gengur, gerum við okkur að efnaðri þjóð og sköpum okkur betri lífsafkomu en við sem fiskimannaþjóð annars mundum hafa. Nú upp á síðkastið höfum við einbeitt okkur meir og meir að því að bræða síldina. Og það hefur gengið svo langt, að síðustu árin hefur verið saltað minna af síld en var fyrir 1914 í beztu árum. Nú hefur hins vegar komið í ljós, að einmitt sjálf síldarsöltunin er e. t. v. verðmætasta hagnýtingin á síldinni — og ég tala nú ekki um, þegar niðurlagning síldar bætist við, sem er verðmætasta vinnsla á síldinni, sem við gætum haft í okkar landi. Og markaður fyrir síld, hefur sýnt sig að vera sérstaklega góður. Ég held þess vegna, að þegar við tölum um markaðsöflun okkar og markaðsmöguleika, megum við ekki einblína um of á hraðfrysta fiskinn, heldur taka með öflun markaða einnig fyrir síldina og ekki sízt saltsíldina og niðurlögðu síldina, sem alltaf er að vinnast sívaxandi markaður fyrir, sérstaklega í Bandaríkjunum. Það má gera ráð fyrir því, að í ár verði, ef vel gengur, framleiddar 300–400 þús. tunnur saltsíldar og 30 þús. tonn af hraðfrystum fiski. — Það er þess vegna rétt, þegar við planleggjum herferð okkar til markaðsöflunar, að taka tillit til allra þessara atriða. — Nú er það svo, að Evrópa hefur fram að þessu síðasta stríði verið okkar aðalmarkaðssvæði, og ég fyrir mitt leyti held, að hún verði það einnig framvegis. En það þýðir ekki það, að við eigum fyrir það að vanrækja þá markaðsmöguleika, sem við höfum t. d. í Ameríku, bæði fyrir niðurlagða síld og einnig fyrir nokkuð af saltaðri síld og fyrir hraðfrystan fisk og e. t. v. fyrir þurrkaðan og hertan fisk. En það er nú svo, að svo að segja í öllum löndum Evrópu höfum við skilyrði til markaða fyrir vörur okkar. Við höfum okkar gamla saltfiskmarkað, þegar við förum að reyna við hann aftur. Og ekki er ástæða til þess að selja ekki saltfiskinn, meðan fólkið vill borða hann. Við höfum markaðsmöguleika í Mið- og Austur-Evrópu, sem tvímælalaust geta orðið að nokkru leyti undirstaða undir stórfelldari framleiðslu í síldariðnaði hjá okkur en við höfum haft nokkurn tíma fyrr. Það hefur sýnt sig á undanförnum 10–15 árum, að við höfum bókstaflega slegið Englendinga út í sambandi við matjessíldina. Hin ágæta enska matjessíld hafði rutt sér til rúms. En á hverju ári, sem leið, sýndi það sig, að markaðsmöguleikar fyrir okkar matjessíld í nýjum og nýjum löndum voru að skapast. Og þetta er ekki undarlegt, þegar maður aðgætir, hvílíkt næringargildi okkar síld hefur, og að það er erfitt fyrir nokkra aðra þjóð en okkar að framleiða þessa vöru í eins stórum stíl, svo að hún sé neitt nándar nærri eins góð og hún er frá okkur. Ég held þess vegna, að við þurfum að hraða okkur með markaðsöflun fyrir okkar síld miklu meir en gert hefur verið fram að þessu. Og ég vil mjög eindregið hvetja hæstv. ríkisstj. til þess að leggja fram meira fé og meiri orku en gert hefur verið fram að þessu, til þess að afla þeirra markaða. Ég hef dálítið kynnzt þessu sjálfur í sambandi við þá för, sem ég tók þátt í, eftir beiðni hæstv. ríkisstj., til Póllands og Tékkóslóvakíu. Og ég held, að það sé alveg rétt að taka það fram hér, að ég held, að markaðsmöguleikarnir, sem eru í báðum þessum löndum fyrir okkar vörur, hafa alls ekki verið hagnýttir til fulls enn þá. Nú hefur verið gerður samningur við Tékkóslóvakíu, og það tekst vonandi áður en langt líður að hagnýta markaðsmöguleika þá til fulls, sem þar hafa skapazt fyrir vörur okkar. Og viðkomandi Póllandi er vitanlegt, að möguleikar eru á því að fá, markað þar fyrir a. m. k. 50 þús. tunnur síldar, og mikill áhugi var þar fyrir hraðfrystum fiski og ísfiski. Ég vonast því til þess, að hæstv. ríkisstj. takist sem allra fyrst að hagnýta markaðsmöguleika þá, sem þar eru fyrir vörur okkar. Það er slæmt, að það skuli ekki hafa verið gert fram að þessu. — Það er leitt, að hæstv. utanrrh. er hér ekki viðstaddur á fundi. Hann er nú veikur. En mjög æskilegt hefði verið að geta fengið upplýsingar frá honum um þetta, því að ég trúi ekki öðru en að þetta mál sé í fullum gangi hjá hæstv. ríkisstj. — Og ég er í engum efa um það, að líka í Sovétríkjunum, sem enn þá hafa ekki verið gerðir neinir samningar við, og áður en langt um liður einnig á gömlu þýzku landsvæðunum verði líka möguleikar fyrir okkur á því að selja okkar afurðir.

Það er tvennt, sem ég álít, að hæstv. Alþ. þurfi að láta alveg sérstaklega koma í ljós um það, sem það ætlast til af hæstv. ríkisstj. í þessum málum. Í fyrsta lagi, að Alþ. telji ekki eftir, að varið verði fé til markaðsöflunar eins miklu og ríkisstj. þykir við þurfa; Ég hef orðið þess var, sérstaklega frá hinum fremstu mönnum Framsfl., að það hafi þótt vera of miklu fé eytt til íslenzku utanríkisþjónustunnar. Og ég gæti trúað því, að hjá ríkisstj. væri mikil tilhneiging til að spara í þessu efni. En ég læt í ljós sem mína skoðun, að við eigum að eyða meira fé til utanríkisþjónustunnar. Við eigum meira undir útlendum mörkuðum en nokkur önnur þjóð í veröldinni, og það þarf því engan að undra, þó að við verðum að verja miklu fé til markaðsöflunar erlendis. Það er dýrt starf að afla nýrra markaða, og það sýnir ekki árangur undir eins. Það kemur ekki strax verzlunarsamningur upp úr hverri för, sem farin er í því skyni að afla markaða, slíkar farir skapa okkur möguleika smátt og smátt til markaða. Ég held, að hæstv. ríkisstj., hver sem hún er, eigi ekki að skera við neglur sér það fé, sem varið er til markaðsöflunar erlendis, og að það stefni algerlega í ranga átt, þegar raddir koma fram, um það frá fulltrúum hér á hæstv. Alþ., að Íslendingar verji of miklu fé til sinnar utanríkisþjónustu, og ég held, að það sé okkar sök alþm. að hafa ekki hvatt ríkisstj. til að verja meira fé til þessa.

En svo er eitt mál, sem kemur til greina, nú eins og sakir standa, þegar við ræðum um okkar markaðsöflun á þessu ári, og það er spursmálið um lánsfrest. Við vitum, hvernig ástandið er í Evrópu eins og nú stendur. Flutningakerfi Evrópu hefur að mjög verulegu leyti eyðilagzt hér og hvar. Það er til fjöldi verksmiðja í Evrópu, sem gætu framleitt með fullum krafti, ef hægt væri að flytja til þeirra hráefni og frá þeim vörur. En framleiðsla þeirra strandar að verulegu leyti á því, að flutningakerfið er ekki í lagi. Evrópa hungrar nú að vísu sem stendur, og hún virðist vera fátæk, þegar maður heyrir sögur um skort þar víða. En þetta er ekki nema stundar fyrirbrigði, því að Evrópa er enn þá sterkasti hluti jarðar, vegna þess stórfellda iðnaðar, sem þar er saman safnaður, og vegna þess mannfjölda, sem þar er, og þeirrar fagkunnáttu, sem hann býr yfir. Þær 400 millj. manna, sem eiga heima á þessum litla skaga, sem Evrópa er, veita okkur að líkindum beztu markaði heimsins, þar sem þær búa í svo miklu þéttbýli, en við hins vegar framleiðum matvæli. Evrópuþjóðirnar, sem nú virðast vera fátækar og nú skortir möguleika til þess að flytja að sér og frá vörur, koma til með að rífa sig upp á tveim til þrem árum, þannig að Evrópulöndin verði tiltölulega rík lönd og þá að ýmsu leyti öruggari markaðslönd en þau voru fyrir styrjöldina. Við höfum hvað eftir annað rekið okkur á það ástand fyrir síðustu styrjöld, að lönd, sem voru rík, þannig að þau áttu mikil vinnutæki, voru ekki góð markaðslönd, vegna þess að þar voru svo margir atvinnulausir og gátu ekki keypt af okkur matvæli. En það kemur ekki til greina neitt atvinnuleysi í Evrópu á næstu árum, því að Evrópa kemur til með að þurfa á að halda vinnuafli hvers manns á a. m. k. næstu 5–10 árum við uppbyggingu atvinnuveganna og annars. Og fyrir markaðsöflun okkar Íslendinga er kaupgeta fjöldans eitt aðalatriðið. — Ég held þess vegna, að fyrir okkur sé það eitt höfuðatriðið að komast nú þegar í viðskiptasamband við sem allra flest af þessum löndum. Við höfum kvartað yfir því á undanförnum árum og áratugum, að okkur hafi ekki gefizt tækifæri til að láta fólk í þessum löndum prófa okkar vörur, vegna tollmúra og annars slíks. Nú eru þessir tollmúrar brotnir niður, og nú geta því þessi lönd tekið við matvælum frá okkur án nokkurra tollmúra, ef við getum komið vörunum til þeirra hvað greiðsluskilmála snertir. Ég held þess vegna, að lánsfrestur til svo eða svo margra landa í Evrópu væri sú nauðsynlegasta og skynsamlegasta pólitík, sem við gætum rekið, þar sem við á annað borð álítum nauðsynlegt að komast inn í þessi lönd með vörur okkar. Það mundi undirbyggja örugg viðskiptasambönd við þessi lönd. Hins vegar hefur orðið vart nokkurrar andúðar hér heima viðvíkjandi slíkri pólitík, og ég held, að það sé rétt, að fram komi rödd hér á Alþ. til þess að hvetja ríkisstj. til að fara þessa leið að komast að verzlunarsamböndum í löndum, sem við höfum trú á, að innan tiltölulega skamms tíma muni vinna sig upp. Við mundum vinna tvennt með því. Annars vegar að bæta úr brýnni nauðsyn fyrir vörurnar og hins vegar að, geta tryggt yfirleitt hærra verð fyrir okkar afurðir en ella, því að þau lönd, sem mest þurfa á vörum okkar að halda nú, eiga erfitt með að greiða þær nú þegar, en munu koma til með að verða tryggir viðskiptavinir síðar meir. Og ég tel rétt, að ríkisstj. undirbúi sem bezt markaði fyrir ekki aðeins fisk, heldur einnig síld í löndum Evrópu, svo sem Hollandi, Frakklandi, Belgíu, Þýzkalandi, Tékkóslóvakíu, Júgóslavíu, Rúmeníu og víðar. Það er vafalaust hægt að undirbúa nú markað fyrir síld og fiskafurðir í þessum löndum, ef unnið er nægilega að því. Og við megum ekki láta þau tækifæri, sem við höfum nú til öflunar markaða í Evrópu, ganga okkur úr greipum. Það væri stórhættulegt fyrir okkar framtíð að einangra okkur þannig með tilliti til markaðsmöguleika. Það er slæmt, að við skulum ekki hafa verzlunarsamninga nema við tvö eða þrjú lönd á meginlandi Evrópu, þar sem við helzt þyrftum að hafa viðskiptasamninga við tíu þjóðir a. m. k.

Vegna þeirrar gagnrýni, sem hér hefur komið fram við þessar umr., er vert að athuga það, hvort við höfum ekki gert okkur seka um að hafa rekið ranga pólitík í okkar verzlun: Ég hygg, að við höfum gert okkur seka um ekki aðeins ranglátar, heldur og mjög óheppilegar aðfarir á þessu sviði, sem eiga rót sína að rekja til þess tímabils, þegar hv. 2. þm. S.-M. var einn aðalráðamaður hér á landi, frá þeim tíma, er Framsfl. stjórnaði, þegar fyrir tólf árum að innflutningshöftin hófust hér. Síðustu 12–13 árin hefur innflutningsverzlunin hér á landi verið einokuð á þann hátt, að ákveðnum firmum hefur svo að segja einum saman verið úthlutað innflutningsleyfum, og þeim firmum hefur svo með löglegri álagningu verið tryggður hagnaður af þessari verzlun, og hefur það verið allgóður ágóðahlutur. Það hefur verið tekin upp sú pólitík undanfarin 12–13 ár, að svo og svo stórri stétt hefur verið seld innflutningsverzlunin á leigu. En þetta hefur eðlilega orðið til þess, að innflutningsverzlunin hefur verið mjög öruggur atvinnuvegur, sem á hverju ári hefur gefið ákveðinn hagnað af sér, og hefur því verið eftirsótt að komast í þennan atvinnuveg. Þarna hefur verið eins konar óasi í íslenzku atvinnulífi, sem hefur verið á grænni grein og skilað öruggum gróða, meðan sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn hafa borið sig illa og þeir, sem við þá atvinnuvegi hafa verið, hafa tapað. Þetta er ófært ástand, ef menn hugsa sér að stefna að því að setja fjármagn þjóðarinnar helzt í framleiðsluatvinnuvegina. Í kapitalistísku þjóðfélagi er ekki hægt að tempra þetta á annan hátt en með því, að ágóðamöguleikar í hverri atvinnugrein séu í hlutfalli við þá þörf, sem þjóðin álítur að sé fyrir, fjármagn í þeirri grein. Þjóðin verður að búa betur að þeim, sem vilja leggja fjármagn í útflutningsverzlun, heldur en þeim, sem stunda innflutningsverzlun. En við höfum rekið aðra pólitík í þeim málum hingað til. Innflutningsverzlunin hefur verið örugg, óbeinlínis fyrir aðgerðir hins opinbera, en útflutningsverzlunin hefur verið svo áhættusöm, að engir hafa viljað leggja fjármagn í hana. Ég álít, að með þessu frv. sé stigið spor í áttina, að ríkið skapi meira öryggi fyrir þá, sem vilja leggja fjármagn í útflutningsverzlun, en engum getur blandazt hugur um, að það sé miklu réttari pólitík en sú, er Framsókn rak, að gera innflutningsverzlunina örugga, en fæla menn frá því að reyna að koma íslenzku afurðunum í verð á erlendum markaði. Það er nauðsynlegt, að ríkið hlaupi undir baggann með að gera útflutningsverzlun okkar öruggari á friðartímum en hún var áður, og með því álít ég snúið á braut, sem skapar heilbrigðari þróun. Með þessari stefnubreytingu standa vonir til, að við fengjum einhverja af okkar duglegu verzlunarmönnum til að afla markaða og ryðja útflutningnum braut.

Ég hef farið nokkuð út fyrir hið gefna tilefni, en það er vegna þess að ég held, að það væri mjög heppilegt, að það kæmi greinilega í ljós, ef vilji þingsins er sá, að meira væri gert og meira fé varið af hálfu ríkisstj. til að afla nýrra markaða.