14.03.1946
Neðri deild: 87. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (2954)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Eins og ég gat um í upphafi varðandi þetta mál, er hér ekki um útflutningsuppbætur að ræða á sama hátt og á sér stað um landbúnaðinn. En hins vegar tekur ríkið á sig ábyrgð á verði vegna hinnar miklu óvissu, er ríkir um verðlag. Ég vil ekki fullyrða, hvort ríkið muni þurfa að láta af hendi fé vegna þessarar ábyrgðar, en vitanlega er það til í dæminu. Hv. þm. Borgf. vildi jafna þessu algerlega við niðurgreiðslu landbúnaðarafurða og taldi, að með samþykkt þessa frv. hefði skapazt hið sama og við útflutning á landbúnaðarafurðum. En við verðum að taka það með í reikninginn, að niðurgreiðsla og uppbót á útflutning er tvennt ólíkt. Útflutningsuppbótin til bænda er greidd vegna óhagstæðs markaðar, þar sem beztu markaðslöndin voru lokuð á meðan stríð stóð. Hér er tekin ábyrgð á verði vegna óvissra sölumöguleika, en reynslan ein mun úr því skera, hvort til þessarar ábyrgðar þurfi að koma. Niðurgreiðslur eru allt annars eðlis og raunar óþarfi að ræða það mál hér. Sumir kalla þær neytendastyrk, aðrir styrk til bænda, en líklega hafa hvorugir rétt fyrir sér. Verðlag landbúnaðarafurða var ákveðið af hinni svo kölluðu sexmannanefnd, og eins og frá var gengið, var þetta talið sanngjarnt verð til bænda. Nú vita allir, að landbúnaður og sjávarútvegur hafa haft hag af þessu — mikið seldist hér innanlands, og er mér nær að halda, að það hafi verið mikill hagur fyrir bændur, að markaður fyrir vörur þeirra hefur vaxið hér innanlands. Ég vona, að bændur njóti þessa aukna markaðar í krafti niðurgreiðslnanna; hvort sem þær voru fremur til fyrir bændur eða neytendur, en þetta er talið heppilegt almennt séð. Ég vil ekki halda því fram, að þetta hafi verið sérstök góðgerðastarfsemi eða styrkur við bændur, en hins vegar er rétt, að frá sjómönnum hafa komið fram kröfur um þessar tryggingar, og þá hefur einmitt verið vísað til útflutningsuppbótanna sem fordæmis. Ég býst nú samt við, að málið hefði eins komið fram, þótt um ekkert fordæmi hefði verið að ræða. Það er nauðsynlegt að ganga út frá ákveðnu verði til þess að tryggja afkomu sjávarútvegsins.

Hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. S.-M. vildu halda því fram, að það ástand, sem nú ríkti í atvinnumálunum og að verzlunin drægi til sín allan blóma atvinnulífsins, væri að kenna aðgerðarleysi mínu. Mér er það fullljóst, að það hefur átt sér stað mjög óæskileg þróun í atvinnulífi okkar undanfarin ár. Fjármagnið, sem sjávarútvegurinn hefur skapað, hefur runnið til verzlunarinnar. Hún gefur örugga afkomu, en í sjávarútvegi má alltaf búast við skakkaföllum, og það leiðir til þess, að menn eru ófúsir að leggja fé í sjávarútveginn. Þetta á rót sína að rekja til þess, er gjaldeyrishöftin voru sett og ríkisvaldið tók allan gjaldeyrinn af sjávarútveginum, en lét hann í hendur þeirra manna, sem fást við verzlun. Það er því alls kostar óeðlilegt, að fjármagnið skuli renna frá sjávarútveginum, sem skapar hann, en til verzlunarstéttarinnar, sem stundar áhættulausa atvinnu. Á árunum fyrir stríð var barizt um það að kaupa vörur til útflutnings, til þess að menn gætu fengið að ráðstafa gjaldeyrinum, því að annars gátu þeir ekki fengið innflutt nema hafa gjaldeyri fyrir. En nú hefur vissulega óheppileg braut verið mörkuð. Fjármagnið dregst frá sjávarútveginum í hendur verzlunarstéttarinnar, og hún græðir. Það er hægt að draga mikið úr gróða hennar með verðlagseftirliti. Það miðast nú við prósentálagningu. Þess vegna ýtir það allajafnan ekki undir menn að gera hagstæð innkaup, og í sumum tilfellum að gera beinlínis slæm, ef góð söluskilyrði eru fyrir hendi. Nú er í undirbúningi að breyta þessu og afnema prósentálagninguna og hafa heldur ákveðna upphæð á ákveðið vörumagn, til þess að menn hafi ekki hagnað af því að gera óhagkvæm innkaup. En það er torvelt að hafa eftirlit með verðlaginu, sbr. heildsalamálaferlin. Verzlunarmenn hafa samið við hina erlendu aðila um rangar skrár á þeim vörum, sem þeir kaupa inn. Ég vil ekki neitt um það segja, hversu algengt þetta er, en þetta er samt staðreynd. Ég geri ráð fyrir, að erfitt sé að fyrirbyggja þannig svindl algerlega. Eina ráðið til að lagfæra þetta er að koma á fót landsverzlun. Um þetta hafa komið fram ákveðin tilmæli frá útvegsmönnum og sjómönnum. Þeir stunda hin áhættusömu störf og bera oft skarðan hlut frá borði, en þeir, sem taka við gjaldeyrinum, græða. Útvegsmenn vilja, að tekin verði upp landsverzlun. Á fundi, sem stjórn landssambands útvegsmanna hélt með ríkisstj., var bent á þetta. Það verður að kippa þessu í lag og afnema það, að verzlunin fleyti rjómann af. Sem sagt, hér eru djúpstæðar orsakir og ekki duga nema gagngerar breytingar. Nú hefur verið haldið áfram á sömu leið í öllum verulegum atriðum síðan gjaldeyrishöftin voru sett. — Nú má kannske segja, að bönkunum sé vorkunn, þótt þeir sinni verzluninni fremur en sjávarútveginum, þar sem það er miklu áhættuminna, því að alltaf getur komið fyrir fiskileysi, en verzlunin á vanalega allt á þurru. Það blandast því engum hugur um það, að þetta er óeðlileg þróun. — Nú skortir okkur tilfinnanlega viðskiptasambönd við aðrar þjóðir. Nú virðist þessi langa og óeðlilega þróun vera að koma okkur á kaldan klaka. Við verðum að hefjast handa og sporna við því, að verzlunin dragi til sín fjármagnið. Það er út í bláinn að halda, að hér sé um eitthvert stundarfyrirbrigði að ræða. Ég hef unnið að því innan ríkisstj., að málum þessum yrði komið í betra horf. Allur Sósfl. hefur bent á þetta ófremdarástand. En hv. þm. Borgf. veit vel, hvaða öfl það eru, sem vinna gegn slíkum breytingum.

Þá ætla ég að snúa mér lítillega að hv. 2. þm. S.-M.Hv. þm. lagði áherzlu á það, að kaupið í landinu hefði svo mikil áhrif á smábátaútveginn, án þess að hann færði nokkrar röksemdir fyrir því. Hins vegar verður því ekki neitað, að það hefur nokkur áhrif, sérstaklega í sambandi við þann fisk, sem settur er í hraðfrystihúsin, en sáralítil áhrif á útflutta fiskinn. Það er því ranglega of mikil áherzla lögð á þetta atriði af þeim mönnum, sem eru argir út í kaup verkafólksins, því að þetta er ekki sú björg fyrir smábátaútveginn, sem þeir vilja vera láta, þótt þeir noti það sem átyllu til þess að gera hark að kaupi verkafólks í landinu.

Hv. þm. talaði um, að það væri furðulegt, að ég skyldi játa, að of litlar aðgerðir hefðu farið fram í markaðsleit fyrir íslenzkan sjávarútveg. Ég sé ekki ástæðu til annars en segja frá málinu eins og það liggur fyrir. Ég er þeirrar skoðunar, að of lítil áherzla hafi verið lögð á markaðsleit fyrir fiskafurðir okkar á meginlandi Evrópu, og maður getur ekki annað en hrokkið við í hvert skipti, sem maður heyrir fréttir af öðrum þjóðum, t. d. Norðmönnum, sem eru að reyna að finna markað fyrir sams konar vöru og við höfum upp á að bjóða, og árangri þeirra í þeim efnum. Hv. þm. sagði, að það þýddi ekki fyrir mig að þvo hendur mínar af þessu, af því að það væri á mínu valdi að leita markaða, og væri það alveg rétt, ef ástandið í þessum markaðslöndum væri ekki eins og það er nú. Ég hef gert tilraun til þess að leita að fiskmarkaði á meginlandinu og í þeim tilgangi sent menn bæði til Belgíu, Frakklands og fleiri landa, sem ég taldi nauðsynlegasta skrefið til skjótrar úrlausnar, og tókst að selja nokkra skipsfarma af ísuðum fiski til Belgíu og meginlandsins, en þessir menn komu báðir án þess að ljúka erindinu, því að í báðum löndunum voru svörin þau, að ekki væri hægt að semja um þessa einstöku vöru án þess að almennir viðskiptasamningar yrðu gerðir við þessar þjóðir um, hvaða vörum almennt við gætum skipzt á og í hvaða gjaldeyri þau vöruskipti færu fram o. s. frv. Við vitum, að gjaldeyrisástand þessara þjóða er þannig, að þeir standa uppi févana eftir styrjöldina og verða að fá lánsfé fyrir nauðsynjum sínum. Það er því nauðsynlegt fyrir þær, ef þær eiga að geta verzlað við aðrar þjóðir, að þær komist að almennum samningum um verzlunarfyrirkomulag. Hið sama kom á daginn í sendiför Péturs Benediktssonar og Einars Olgeirssonar til Póllands og Tékkóslóvakíu í vetur, að þar er þörf almennra viðskiptasamninga áður en von er til að koma á viðskiptum á milli landanna. Ég hef eftir beztu getu reynt að ýta undir, að þessir almennu viðskiptasamningar yrðu gerðir, og það er það, sem ég ásaka, að þeim hefur ekki verið hraðað meir en raun hefur orðið á. Ég álit líka, að þessi tregða og aðgerðaleysi í útvegun markaða á meginlandi Evrópu sé ekki aðeins trassaskap að kenna, heldur byggist þetta einnig á skoðanamun, því að það eru ýmis mjög áhrifamikil öfl meðal þeirra, sem annast útflutningsverzlun hér á landi, sem eru þeirrar skoðunar, að við eigum ekki að leggja áherzlu á meginlandsmarkað, heldur að binda sem mest samninga við Bretland og Ameríku. Þeir, sem þessa skoðun hafa, hafa að vísu dálitið til síns máls eins og sakir standa, vegna þess að meginlandsþjóðirnar eru nú lítt færar um að borga fyrir sínar nauðsynjar og viðskipti við þær miklum erfiðleikum bundin sökum slæmra gjaldeyrisástæðna og einnig vegna örðugra samgangna, bæði við löndin og þó sérstaklega innan lands. Þrátt fyrir þetta er enginn vafi á því, að á meginlandi Evrópu er beztur framtíðarmarkaður fyrir sjávarafurðir okkar Íslendinga, og þess vegna ber okkur að stuðla að því eftir fremsta megni að afla þessa markaðar nú. Íslenzkt síldarlýsi er nú það gull, sem við höfum yfir að ráða og allar þjóðir eru áfjáðar í. Nú þegar hafa verið gerðir samningar við Tékkóslóvakíu, og kemur bráðlega til þess, hvort ríkisstj. heimili útflutning á síldarlýsi til þess lands eða ekki. Samningarnir eru ekki skuldbindandi um þetta atriði, heldur er það undir því komið, hvort útflutningsleyfi fyrir þessari vörutegund verður veitt eða ekki. Mér er hins vegar kunnugt um, að þær skoðanir eru hér uppi, að við eigum ekki að selja lýsi til meginlandsins, heldur allt til Bretlands. Ég býst við, að á næstunni verði úr því skorið, hvort við eigum að taka þessi viðskipti upp við meginlandið eða ekki, en ástand þeirra þjóða er þannig, að ef við seljum þeim ekki lýsi, held ég, að þær muni neita sér um aðrar þær vörur, sem við höfum upp á að bjóða, vegna þess að fituskorturinn er þar svo yfirgnæfandi af öllu því, sem þessar þjóðir skortir. Ég vil vænta þess, að ég megi eiga vísan fullan stuðning hv. 2. þm. S.-M. og hans flokksbræðra með því, að allar tilraunir verði gerðar, sem mögulegt er, og engu tækifæri sleppt til þess að komið verði á þeim viðskiptum við meginlandið, sem ég tel möguleika fyrir, en bindum okkur ekki einhliða við Englendinga, eins og skoðanir hafa komið fram um. — Eins og ég hef áður tekið fram, er mikill áhugi fyrir íslenzku síldarlýsi í Tékkóslóvakíu, enn fremur í Póllandi, Sovétríkjunum og fleiri löndum, og er það því sú dýrmætasta vörutegund, sem við höfum fram að bjóða, eins og ástandið er nú á meginlandi Evrópu. Það er enginn vafi á því, að ef við gerum viðskiptasamninga við þær þjóðir, sem þar eru, er það skylda okkar að vinna að því sjálfir, jafnvel þótt þeir samningar séu ekki skuldbindandi um að selja ákveðið magn af hverri einstakri vöru fyrir ákveðið verð, heldur aðeins um gagnkvæm innflutnings- og útflutningsleyfi að ræða, — að sjá svo um, að þeir verði þannig uppfylltir, að þar komi fram þær vörutegundir, sem þessar þjóðir hafa mestan áhuga fyrir og ég hef áður á minnzt, svo að þær megi vel við una, því að annars yrðu slíkir samningar aðeins til þess að vekja gremju hjá þeim. Hv. 2. þm. S.-M. er sjálfsagt kunnugt um þann skoðanamun, sem á sér stað um þessi mál, þar eð hann á sæti í utanrmn., þar sem þetta hefur borið á góma, og vil ég vænta þess, að hann verði stuðningsmaður að því, að komið verði á viðskiptasamningum við meginlandið.

Hér hafa komið fram ýmsar till. í sambandi við saltfiskinn. Ég held, að þótt frv. sé orðað eins og það er, þá sé ekki um annað að ræða en ábyrgjast allan saltfisk, sem saltaður er árið 1946. Hitt er svo annað mál, hvort þetta ætti að ná til alls saltfisks hlutfallslega eftir verði, en um það er vitanlega ókunnugt enn þá, hvað það þýddi í framkvæmdinni og hvort það gæfi það verð, sem útveginum væri nokkur lausn í. Það væri hins vegar vel athugandi, hvort ekki ætti að útvíkka heimildina til annarra tegunda saltfisks en til 1. flokks stórfisks, eins og ætlazt er til í frv., en væri rétt að breyta þessu þannig, ef það gæti orðið að liði.

Það var gerð hér fyrirspurn um saltbirgðir í landinu. Eins og ég hef lýst áður yfir, voru saltbirgðirnar 8000 tonn í byrjun vertíðarinnar, og er búið að nota af því ca. 2000 tonn, en nú þessa dagana hefur farið fram afskipun á 1000 tonnum í Keflavík og á Akranesi. Auk þess er erlendis búið að festa kaup á 4500 tonnum af salti, sem mun verða komið til landsins innan 2–3 vikna. Verður af þessu séð, að engin hætta er á því, að salt muni skorta á vertíðinni. Ég hef látið rannsaka, hve mikið er búið að salta nú þegar, og hefur komið í ljós, að búið er að salta 1925 tonn, að því er Fiskifélaginu hefur verið tilkynnt. Gæti ég þó trúað, að þetta magn væri eitthvað meira, eða losaði 2000 tonn.

Þá hefur borizt tilboð í 3000 tonn af 1. flokks stórfiski fyrir kr. 1.70 pr. kg, þannig að búast má við, að a. m. k. það magn verði hægt að flytja út án þess að til þess kæmi, að grípa þurfi til þeirrar ábyrgðarheimildar, sem í l. felst. — Ég ætla, að erfiðleikar verði á því að fá íslenzk skip til þess að annast ísfiskútflutninginn, ef verðfall verður á þeim markaði, og mun ég óska eftir að ræða það nánar við þá n., sem fær málið til meðferðar, um að setja inn í frv. heimild til ríkisstj. um að hlaupa í skarðið, til þess að halda uppi nauðsynlegum útflutningi á ísfiski, ef þannig skyldi fara, að einstaklingar gæfust upp við það, þegar líður á vertíðina. Hef ég því útbúið brtt., sem ég með leyfi hæstv. forseta vil leyfa mér að lesa upp. Er brtt. á þann veg, að á eftir 2. gr. frv. komi ný gr., er verði 3. gr., svo hljóðandi (greinatalan breytist samkv. því) :

Ríkisstj. er heimilt að taka á leigu íslenzk fiskflutningaskip og annast útflutning á ísuðum fiski fyrir bátaútveginn fyrir reikning ríkissjóðs. Á sama tíma er ríkisstj. heimilt að leigja erlend skip að svo miklu leyti, sem löndunarréttur í erlendum höfnum leyfir.

Ef nauðsyn krefur og samningar um leigu takast ekki, er ríkisstj. heimilt að saka íslenzk skip, sem unnið hafa í fiskflutningum undanfarið og hagkvæm eru til þeirra flutninga, leigunámi, til þess að taka þau til fiskflutninga fyrir bátaútveginn.“

Væri þetta þá varaákvæði, ef menn fengjust ekki til að leigja skip sín til þessara flutninga. Ég vil geta þess, að fyrir tilmæli mín hefur fiskimálanefnd rannsakað möguleika á því, að flytja út fisk með þeim vöruflutningaskipum, sem hafa verið að flytja vörur hingað til landsins, og hefur ekki tekizt að fá þau ensku skip, sem hingað koma, til þess að flytja út fisk, en hins vegar hafa náðst samningar við norskt skip, sem hingað kemur, um þetta atriði og er flutningsgjaldið 6 sterlingspund fyrir tonnið, er telst tiltölulega hagkvæmt. Enn fremur er von á öðrum skipum með þetta fyrir augum, sem sennilega fást með sömu kjörum. Er nú búið að fá löndunarleyfi fyrir 2 skipum, en sérstakt löndunarleyfi verður að fá fyrir hvert einstakt skip.

Hv. þm. S.-M. bar fram fyrirspurn um það til mín, hvað gert hefði verið til þess að koma á samvinnu við aðrar þjóðir í þessum málum. Eins og hv. þm. er kunnugt um, er búið að segja upp norsku samningunum og í sambandi við þá uppsögn var ætlunin, að viðræður færu fram milli norsku og íslenzku ríkisstj. um hugsanlegt samstarf milli þjóðanna. Það var svo komið, að búizt var við, að n. mundi koma hingað, en það hefur enn farizt fyrir af ástæðum, sem mér er ókunnugt um, en þó er búizt við, að Norðmenn sendi menn hingað í þessum tilgangi, en hvað af því kemur, gea ég ekkert sagt um. Gert er ráð fyrir, að Norðmenn muni sækja fast að fá hér svipuð réttindi og þeir höfðu samkv. samningunum frá 1939, sem ég býst við, að Íslendingar muni ekki telja heppilegt að láta þeim í té, sérstaklega með tilliti til þess, að þrálátar kröfur hafa verið uppi um það frá öðrum þjóðum, t. d. Svíum, að þeir fái að njóta hér sömu forréttinda og Norðmenn hafa gert, og mundi það því koma okkur í vanda gagnvart öðrum þjóðum, ef slíkir samningar væru gerðir við eina þjóð og áður giltu gagnvart Norðmönnum. Ég álít, að okkur beri að stefna að því að fá viðurkenningu á því, að okkar landhelgi og raunar fiskimiðin kringum Ísland séu það svæði, sem við höfum forréttindi til að fiska á, og þess vegna megum við ekki slaka til við neina þjóð í þessum efnum. — Sú nauðsyn, sem talin var vera fyrir því að gera þennan samning við Norðmenn, þ. e. sú nauðsyn, að þeir keyptu af okkur saltkjöt, virðist nú ekki vera fyrir hendi og svo líka hitt, að á síðustu árum hefur mestallt kjöt farið til matar landsmanna sjálfra og má búast við því, ef atvinnuafkoma og lífskjör landsmanna verða með svipuðum hætti og undanfarið, að kjötframleiðslan muni ekki gera meira en að fullnægja landsmönnum sjálfum.