08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

16. mál, fjárlög 1946

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Eins og kunnugt er, hefur verið ákveðið, að þessari umr. fjárlfrv. verði lokið með útvarpsumr., sem ég að sjálfsögðu mun taka þátt í að öllu forfallalausu, og fæ ég þá tækifæri til að gera aths., sem varða fjárlagaafgreiðsluna. Ég mun því að þessu sinni takmarka mál mitt mjög. Mér finnst, að mér sé skylt að þakka hv. fjvn. og þá sérstaklega form. hennar fyrir þá miklu vinnu, sem hún hefur lagt í afgreiðslu fjárlfrv. Störf hennar byrjuðu seinna en venja er til, en það hefur verið unnið af miklum dugnaði, og fjárlagaafgreiðslan hefur tekið ótrúlega stuttan tíma, sem stafar af því, hve mikla elju nefndarmenn hafa lagt í afgreiðslu málsins. Þó að fjvn. nú eins og jafnan fái nokkra gagnrýni fyrir afgreiðslu sína á málinu, og þá ekki sízt í sambandi við skiptingu vegafjárins, eins og kom fram hjá síðasta hv. þm., þá held ég, að sé sönnu nær, að n. hafi viljað gera það samvizkusamlega og reynt að skipta því þannig, að það kæmi sem réttlátlegast niður á hvert hérað. Hitt er annað mál, hvort þetta sjónarmið er rétt. Ég er þeirrar skoðunar, að við höfum á undanförnum árum og höfum enn tekið skakka stefnu í skiptingu vegafjárins. Ég lét í ljós þá skoðun mína við 1. umr. þessa máls, að við ættum að breyta til um það og gera það upp við okkur, hvaða vegum væri nauðsynlegt að bæta við og beita okkur að því að klára þá. Það er kunnugt, að vegagerð verður 6–7 sinnum dýrari með handafli en ef unnið er að henni með vélum. Þá er vitanlega tæplega verjandi að halda áfram þessum gömlu handverkfæravinnuaðferðum og eyða þannig því takmarkaða fé, sem við ráðum yfir, til þess að tefja fyrir því, að landið verði sæmilega vegað. Hitt er mannlegt, að hver þm. reyni að krækja í sem mest af fé fyrir sitt kjördæmi. En hins vegar verður þó þingið að líta meira á heildarhagsmuni en hvað hentar bezt hverjum einstökum þm.

Fjvn. hefur nú borið fram margar brtt. við fjárlagafrv. á þskj. 308. Það undrar mig út af fyrir sig ekki, þó að ýmsar brtt. komi fram við frumvarpið. Ég skal játa, að það er að sumu leyti ekki eins vel undirbúið og ég hefði óskað eftir. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá voru önnur mál mjög á döfinni um það leyti, sem fjárlagaundirbúningur fór fram, svo að hann varð í framkvæmd nokkurs konar hjáverkastarf hjá mér. Svo að það er ekki undarlegt, þó að ýmislegt þurfi leiðréttingar:

Ef þessar brtt. eru athugaðar, kemur fljótt í ljós, að það eru þrenns konar breyt., sem um er að ræða. Í fyrsta lagi hækkun á tekjuáætluninni, í öðru lagi kemur fram viðleitni til lækkunar á hinum eiginlegu rekstrarútgjöldum og í þriðja lagi till. til hækkunar til ýmissa opinberra framkvæmda. — Ég ætla ekki að rekja þessar brtt. lið fyrir lið og mun naumast drepa á þær. Ég vil þó víkja örlítið að tekju- og eignarskattinum að minnsta kosti. Fyrsta brtt. er við tekju- og eignarskattinn, þar sem lagt er til, að hann verði hækkaður um 3 millj. króna. Ég gat þess, þegar frv. var lagt fyrir Alþ., að ég hefði ekki treyst mér til að fara með tekju- og eignarskattinn hærra en upp í 26 millj. kr., með tilliti til þess, hve gersamlega síldveiðarnar brugðust s. l. sumar og ótta við, að sú tekjurýrnun, sem af því hlyti að leiða hjá mörgum skattgreiðendum, yrði til þess að tekju og eignarskatturinn lækkaði verulega frá því, sem hann hefur verið á undanförnum árum. Nú er hins vegar ljóst, m. a. vegna breyt. á launalögunum og vegna þess, að nægileg atvinna hefur verið í landinu, að þá muni fást lægri styrkur, verði nokkur aukning frá því, sem verið hefur, og væntanlega hækkar eignarskatturinn eitthvað frá því, sem hann hefur verið á þessu ári, eða a. m. k. hefur reynslan verið sú, að hann hefur hækkað frá ári til árs. Ég verð að segja að að athuguðu máli tel ég hér ekki óvarlega farið, og ég fyrir mitt leyti get fallizt á þá aukningu, sem hér er gerð á tekju- og eignarskattinum.

Þá er það brtt. við vörumagnstollinn, að hann verði hækkaður úr 10 millj. kr. upp í 11 millj. króna. Það er rétt, sem form. fjvn. tók fram að vörumagnstollurinn mun á þessu ári verða kringum 12 millj. króna, og eru ekki líkur til annars en að mikið vörumagn verði flutt inn á næsta ári. Auk þess má geta þess, að allmikill hluti af vörumagnstollinum stafar frá innflutningi á munaðarvörum, eins og áfengi og tóbaki. Á þeim er mjög hár tollur, og vitanlega er ekkert komið fram, sem bendir til þess, að sá tekjustofn rýrni frá því, sem verið hefur. Yfirleitt álít ég, að hér sé ekki óeðlilega að farið, og ég sætti mig við það.

Þá er það hækkun á vörutollinum. Ég verð að segja, að þegar ég gekk frá áætluninni, þá var þessi liður sá liður, sem ég var í miklum vafa um, hvort ég hefði ekki farið of hátt með. Hafði ég það sjónarmið, þegar ég samdi áætlunina, að setja tekjurnar ekki hærri en ég taldi öruggt, að þær mundu reynast. Verðtollurinn verður að sönnu allmiklu hærri á þessu ári, en þess ber að gæta, að fragtlækkun hefur orðið allmikil. Enn fremur hefur komið fram, að hætta gæti verið á tvenns konar verði á ýmsum hátt tolluðum vörum.

Það kom fram í umr. utan dagskrár á þingi hér fyrir nokkrum dögum, að menn óttuðust það, að svo gæti farið, að skortur yrði á vefnaðarvöru á næsta ári, og það var ekki laust við, að stj. hlyti ámæli fyrir að hafa leyft útflutning á lítt seljanlegri vefnaðarvöru. Nú skal það upplýst í þessu sambandi, að með næstu ferð „Drottningarinnar“ mun fara þó nokkuð af vefnaðarvöru til Danmerkur, vörur, sem eru að miklu leyti óseljanlegar. Nokkuð af þeim er úr ísl. ull og nokkuð af þeim úr erlendum efnum og líka nokkuð af vörum, sem athugun hefur farið fram á og taldar eru lítt seljanlegar eða með öllu óseljanlegar í landinu, eins og stendur. Get ég því ekki séð, að það sé nokkur hagsýni í því að láta vörurnar liggja hér og verða ónýtar eða gagnslitlar, þegar hægt er að fá viðunandi verð fyrir þær. Fólk er hér ekki svo illa statt með fatnað, og í öllu falli höfum við nóga ull í landinu, svo að ég kem ekki auga á yfirvofandi hættu í þessu efni. Þetta er nú útúrdúr, en hvað sem því líður, hvort sem hætta er á því að eitthvað tefjist með innflutning á vefnaðarvöru á næsta ári eða ekki, þá get ég ekki neitað því, að mér þykir teflt á tæpasta vaðið með að hækka verðtollinn úr 33 millj. kr. í 35 millj. Hann var áætlaður á síðasta ári 28 millj. kr., og var ekki laust við, að hann sætti nokkurri gagnrýni fyrir það, hve hátt hann var áætlaður. Þessi hækkun á yfirstandandi fjárl. frá því, sem þá var, verður því 7 millj. kr. Ég vil ekki beinlínis setja mig á móti þessari hækkun, en hins vegar tel ég, að þar sé fremur en annars staðar teflt á tæpt vað í áætluninni. Stimpilgjald á að hækka um 500 þús. kr., og hef ég ekkert við það að athuga og ekki heldur neitt að athuga við hækkun á veitingaskatti. Og það er ekki ástæða til að setja sig á móti hækkunum, á meðan tekjur landsmanna á yfirstandandi ári geta ekki bent til þess, að hæpið sé, að þær tekjur, sem áætlaðar eru, komi inn í ríkissjóðinn. — Loks er hækkun á tekjuáætlun Tóbakseinkasölunnar um rúma millj. kr. Hún hækkar úr 9 millj. kr. brúttó í 10 millj. og 249 þús. kr. Ég býst ekki við, að teflt sé á tæpt vað með þetta. Þó veit ég ekki, hvort fjvn. hefur tekið til greina, að sala verzlunarinnar á þessu ári er sennilega að nokkru leyti óeðlileg. Eins og kunnugt er, var mikið sent af gjafapökkum til Danmerkur, og býst ég við, að í þeim pökkum hafi hlutfallslega ekki verið meira af annarri vöru en tóbaki. Enginn efar, að þessi útflutningur á tóbaki, sem heldur áfram enn þá, átti sinn þátt í tekjum tóbaksverzlunarinnar á síðasta ári en það er ekki líklegt, að sá útflutningur haldi áfram næsta ár, því að Danmörk fer að fá tóbak frá tóbaksframleiðendum. Þetta er nú um tekjuáætlunina að segja. Sætti ég mig við hækkunina, sem gerð hefur verið, þrátt fyrir það, að ég telji hvað verðtollinn snertir, að teflt sé á tæpasta vaðið. Hins vegar er mér það fullljóst, að tekjuáætlunin í ár er ekki eins og ég hafði gert ráð fyrir á síðasta ári. Ég þóttist þá, þrátt fyrir gagnrýni, öruggur um, að hún mundi standast, áætlunin, og meira en það, ef ekki kæmi neitt óvænt fyrir, og reynslan hefur sýnt, að það var rétt. Við sjáum skammt fram í tímann, og við vitum ekki, hvað komandi ár færir okkur, en ég vil þó segja eins og er, að mér þykir ólíklegt, að þessi fjárhagsáætlun skili eins miklum afgangi og síðasta ár hefur gert.

Þá skal vikið fáeinum orðum að þeim till., sem fram hafa komið af hálfu fjvn. og miða að því að lækka rekstrarútgjöld ríkisins. Það er augljóst mál og góðra gjalda vert af n. að gera tilraun í þessa átt, og játa ég fúslega, að það getur að vissu leyti verið styrkur fyrir stj., að vilji fjárveitingarvaldsins komi skýrt fram í þessu efni. Það gefur stj. vissan móralskan stuðning að hafa fjárveitingarvaldið á bak við sig. Í þessu sambandi þykir mér rétt að minnast á ummæli hv. 1. þm. Rang. (HelgJ) þess efnis, að ríkisstj. hafi ekkert gert til að draga úr rekstrarútgjöldunum. Þetta er ekki alls kostar rétt, að ekkert hafi verið að gert í því efni. Hún hefur þó haft viðleitni til að fækka mönnum við eina stofnun verulega og er að gera ráðstafanir til að fækka starfsfólki við fleiri stofnanir, en það er ekki komið í framkvæmd enn. Hins vegar er mér það ljóst, að ekki er gert nærri eins mikið að því og þyrfti að gera. Það eru margar ástæður til þess að svo er, og hef ég nokkuð vikið að þeim áður hér á Alþ. Það er nú vitanlega fyrst og fremst sú sívaxandi þensla, sem hefur orðið á öllu kerfinu, sem óhjákvæmilega leiðir af sér aukin störf og aukið fólkshald. Hjá þessu verður ekki komizt. Reynslan hefur jafnan verið sú, þegar til þess hefur komið, að tekjur og útgjöld ríkisins hafa vaxið og umsetningin orðið meiri hjá ríkinu, þá hefur leitt af því aukið starfsmannahald. Ríkið sætir að þessu leyti sömu kjörum og einstaklingur. Á sama hátt er það, ef einstaklingur eykur umsetningu sína, þá er ekki hægt að komast hjá að auka fólkshald hjá honum. Það er svo annað atriði, sem hlýtur að vinna á móti því, að hægt verði að spara rekstrarkostnaðinn, þar sem er húsnæðið, sem ríkið býr nú við. Í óviðunandi húsnæði er ekki hægt að koma við þeirri hagsýni, sem annars væri hægt að viðhafa við rekstur ríkisstofnana. Þær eru fyrst og fremst tættar út um allan bæ., og í öðru lagi, þar sem nokkuð af þeim er saman komið, eins og í Arnarhvoli, er deildaskipunin þannig, að ekki er hægt að koma við neinni hagsýni við reksturinn. Það er augljóst mál, að það er ákaflega óhentug tilhögun, að hvert ráðuneyti hafi skrifstofu sér með 2 eða 3 vélritunarstúlkum. Það væri miklu meiri hagsýni í því að hafa eina stóra vélritunarstofu fyrir allar þessar stofnanir. Ef það væri gert, væri hægt að hafa nóg verkefni fyrir starfsfólkið að staðaldri, í stað þess, þegar þetta er eins og nú er, þá hefur það stundum ekkert að gera, en stundum allt of mikið. Á sama hátt er það óhagkvæm tilhögun að hafa gjaldkera fyrir hverja ríkisstofnun. Ef hægt væri að sameina skrifstofurnar í einni hagkvæmri byggingu, þá væri vitanlega hægt að hafa sama gjaldkera fyrir margar eða flestar stofnanir ríkisins. Fleira mætti telja til af þessu tagi, en þessum umbótum er með öllu ókleift að koma í framkvæmd, fyrr en ríkið hefur komið sér upp viðunandi skrifstofuplássi.

Það er ekki ætlun mín að ræða einstakar till. n., sem miða að því að lækka rekstrarútgjöldin. Það er ekki ólíklegt, að sumar þeirra miði raunverulega til sparnaðar, en ég verð þó að játa, að ég er hræddur um, að margar þeirra séu þess eðlis, að þær leiði ekki til annars en sjálfsblekkingar og til þess, að þær greinar fjárl., sem þær fjalla um, fari fram úr áætlun meira en ella mundi.

Það hefur verið á það bent, að framkvæmd launalaganna hafi ekki verið í því lagi sem æskilegt hefði verið. Það er sjálfsagt alveg rétt. Það eru margar endurbætur, sem þarf að gera enn þá á framkvæmd þeirra. Ég held, að það sé ekki rétt að kasta mjög þungum steini að fjmrn., þó að ekki sé búið að koma framkvæmd l. í fullt lag enn þá. Það eru aðeins röskir 8 mánuðir síðan þau komu til framkvæmda, og það tekur sinn tíma að skipa mönnum niður í launaflokka. Það var ekki búið fyrr en eftir 2–3 mánuði, því að, eins og gefur að skilja, þurfti fyrst að fá till. frá stofnunum og ráðuneytum um það allt, svo að það eru ekki nema 4–5 mánuðir, síðan l. raunverulega komu til framkvæmda, þó að þau gengju í gildi 1. apríl. Það mun taka meiri tíma að bæta úr öllum ágöllum, sem fram koma, þegar þau í fyrsta skipti koma til framkvæmda. Og það er augljóst mál, að fjmrn. hefur ekki aðstöðu til þess að snúa sér af fullum krafti að koma þessum málum í rétt horf, fyrr en að liðnu þessu ári, þegar það hefur komið í ljós eftir árið, hvernig sú tilhögun hefur verið við hinar ýmsu stofnanir. Ráðuneytið hefur ekki yfir þeim mannskap að ráða til að vera með nefið niðri í öllum þeim ríkisstofnunum, sem þar koma til greina, en þá fyrst, þegar reynsla er fengin, ætti ráðuneytið að hafa aðstöðu til þess að gera þær lagfæringar, sem þarf við þessi mál. En þrátt fyrir það að ég óttast, að þessar brtt. beri ekki þann árangur sem æskilegt væri, að þær gerðu, því að enginn efar, að nauðsyn sé á að bæta rekstrarfyrirkomulagið á ríkisbúinu, þá amast ég ekki við þeim, og þótt þær kannske verði ekki til mikils fjárhagslegs ávinnings, þá verða þær nokkurs konar þál. fyrir stj., gefa stj. aukna hvatningu til að vinna að því, sem hún vill gera, að bæta rekstrarfyrirkomulagið.

Þrjár tegundir af brtt. n. miða að því að auka til muna fjárframlög til verklegra framkvæmda. Það er nú sannast að segja næsta furðulegt að heyra sumar af þeim ásökunum á hendur stj., að hún vilji draga úr verklegum framkvæmdum, eins og það mátti skilja á ræðu hv. 1. þm. Rang.

Það er ekki annað en illvilji í stj. garð og allra landsmanna, sem þessu veldur, þegar sagt er, að hún bæri ekki fram till. um frekari verklegar framkvæmdir en raun er á. Ég skal nú ekki fara mikið út í að ræða þetta mál, en vil þó aðeins benda á, að þetta mál er e. t. v. ekki eins einfalt og hv. 1. þm. Rang. vill vera láta. Það þarf sem sé fleira en fé til þess að koma á mjög örum verklegum framkvæmdum í landinu. Það þarf líka vinnu, en ef vinnuaflið er dregið svo frá framleiðslunni, að hún bíði við það hnekki, þá verður erfitt að standa undir þeim verklegu framkvæmdum, sem till. eru gerðar um og þörf er fyrir á næstu árum. Það er enginn vandi í landi, þar sem flest er ógert, að benda á, hvað þyrfti að gera. Það geta miklu óvitrari menn gert en hv. 1. þm. Rang. Hitt er svo vafasamt, að rétt sé að verja fé úr ríkissjóði svo úr hófi fram til verklegra framkvæmda, að hætta geti stafað af því, að vinnuaflið dragist svo frá framleiðslunni, að hún bíði við það hnekki. Án þess að ég ætli að fara lengra út í þetta mál, þori ég að staðhæfa, að till., sem fram eru bornar í frv. stj. um framlög til verklegra framkvæmda, þola fullkomlega samanburð við það, sem nokkru sinni hefur verið veitt áður. Og ef hv. 1. þm. Rang. hefði, þrátt fyrir mikil og góð störf í fjvn., gert sér ljóst, hvað ráðgert er að verja miklu fé til verklegra framkvæmda á næsta ári, þá held ég næstum, að hann hefði ekki talað um þetta eins og hann gerði. Og ég verð að segja það aftur, að þrátt fyrir það, að erfitt sé að standa á móti háværum kröfum, sem fram eru bornar um aukin fjárframlög til skóla, vega, brúa, sjúkrahúsa og til margs annars, sem mikil þörf er á að gera í landinu, þá efast ég um, að fjvn. hafi ekki verið of undanlátssöm í þessu efni. Ég minntist áðan á framlög til vega, og ég benti á það, þegar fjárlfrv. var lagt fyrir Alþ., að þrátt fyrir það, að framlag til nýrra vega lækkaði nokkuð frá því, sem verið hefur á yfirstandandi ári, þá var þó ekki tilætlunin sú, að afköstin minnkuðu, heldur þvert á móti, með því að auka vélavinnu, þar sem ráðgert er að ætla 800 þús. kr. til kaupa á nýjum vélum á þessu ári. Mundu afköstin þannig, þrátt fyrir lækkað framlag, verða meiri en nokkru sinni áður. Ég get ekki annað en endurtekið það, þótt ég sé búinn að segja það áður, að það er varla hægt að horfa á það, að verið sé enn þá að fleygja út fé til þess að gera vegaspotta með skóflu og haka og hestvögnum, þegar maður er búinn ár eftir ár að horfa á vinnubrögð, sem gefa margföld afköst á við þetta. Svona óhagsýni hlýtur að hefna sín. Og þótt mér sé fullkomlega ljós þörfin, sem hvert einasta hérað á landinu hefur fyrir aukna vegi, og þótt mér sé mjög vel ljóst, hve freistandi það er fyrir menn að bæta við vegarspottann heim til sín, þá er það samt sem áður skammsýni að vilja ekki heldur bíða í eitt til tvö eða þrjú ár með að fá veginn og fá hann þá þannig, að hann komi að fullum notum og þá aðeins fyrir örlítinn hluta af því verði, sem hann mundi annars hafa kostað. Ég veit ekki heldur í sannleika sagt, hvort fjvn. hefur gert sér ljóst, hvort vinnuaflið í landinu leyfi það, að allar þessar opinberu framkvæmdir séu gerðar í viðbót við þær framkvæmdir, sem vitað er, að einstaklingar munu standa að á næsta ári. Það hefur mér vitanlega engin athugun farið fram á þessu, en þess væri vissulega þörf, að nákvæm athugun færi fram á því, a. m. k. áður en stj. er skylduð til að verja jafngífurlegu fé til framkvæmda og gert er ráð fyrir. Mér telst svo til, að hækkunartill. n. til opinberra framkvæmda nemi rúmum 8 millj. kr. Það er augljóst mál, að svo framarlega sem ekki verða samþ. á þessu þingi ný skattalög, sem gefa allmiklar tekjur, þá verður fjárlagafrv. afgr. með sennilega einhverjum tekjuhalla og með miklum greiðsluhalla. Það er sjálfsagt venjulegt að gera þetta, af því að séð er fyrir endann á því, að afkoma þessa árs verður góð, — ég vona, að ég taki ekki of fullan munninn, þótt ég segi: mjög góð. Það verður því að segja, — ég skal játa það, að ég notaði í fjármálaræðu minni á s. l. hausti þessa sömu röksemdafærslu, — að það ár, sem þá var að enda, mundi gefa tekjuafgang, og kom það í ljós, að ég var bjartsýnni en ég mátti vera, og getur verið, að ég sé nú eitthvað bjartsýnni en ég ætti að vera, en ég held, að ég sé ekki svo bjartsýnn, að ekki sé öruggt, að talsverður tekjuafgangur verði á þessu ári.

Hv. frsm. fjvn. (GJ) hreyfði því, að rétt muni vera að hækka benzínskattinn nokkuð með tilliti til hinnar miklu fjárhæðar, sem ætluð er í vegagerðir. Ég fyrir mitt leyti mundi vel geta fallizt á, að svo væri gert. Benzínskatturinn er 9 aurar á hvert kg., nákvæmlega óbreyttur eins og hann var fyrir stríð. Þegar tekið er tillit til þeirra verðlagsbreytinga, sem orðið hafa í landinu, má segja, að hann sé nú ekki nema 1/3 hluti af því, sem hann var fyrir ófrið. Ef tekið er tillit til gjaldgetu landsmanna, þá verða hlutföllin enn lægri. Það mætti meira en þrefalda hann, ef hann ætti að vera sambærilegur. Ég tel, að hér væri í raun og veru ekki um skatthækkun að ræða frá því, sem var fyrir ófrið. Þetta væri ekkert annað en að færa tiltekinn tekjustofn til samræmis við það, sem hann var fyrir stríð. En að öðru leyti skal ég láta í ljós, að ég mun ófús að beita nýjum skattaálögum á næsta ári. Ég held, að ég geti sagt það með fullri vissu, að ég geri það ekki. Það verður þá að skeika að sköpuðu með það. Hins vegar er mér ljóst, ef ekki verða lagðir á nýir skattar, þá er ekki verjandi að afgr. fjárl. öðruvísi en að láta stj. fá lántökuheimild, til þess að taka lán fyrir a. m. k. einhverjum hluta af þeim miklu verklegu framkvæmdum, sem ráðgerðar eru á næsta ári. Ég vil segja eins og hagur ríkissjóðs er nú, þá skuldar hann lítið, og þegar tekið er tillit til verðlagsins í landinu, þá eru eftirstöðvar skulda hverfandi borið saman við það, sem var fyrir sex árum. Og þegar tekið er tillit til, hve miklu fé hefur verið varið til verklegra framkvæmda hin síðari árin, þá álít ég það ekki glæfralega fjármálastefnu, þótt stj. fengi nú heimild til lántöku, en sú heimild yrði ekki notuð, nema reynslan sýndi, að þess væri þörf. Þetta vænti ég, að hv. fjvn. athugi nánar á milli umr., svo að það væri þá hægt við 3. umr. að láta stj. fá vitneskju um það.