20.03.1946
Neðri deild: 91. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (2961)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Það er víst eins ástatt hér í d. nú eins og síðast þegar þetta mál var til umr., að þeir tveir hv. þm. og hæstv. ráðh., sem ég óskaði eftir, að væru viðstaddir umr., eru nú fjarverandi.

Í sambandi við það mál, sem nú er til umr. í þessari hv. d., hefur mjög verið drepið á viðskiptamál þjóðarinnar, en á þann hátt, að mjög villandi er, svo að slíku má ekki láta ósvarað. Hv. 2. þm. Reykv. talaði nokkuð um það misræmi, sem skapazt hefði, þannig að örfáir menn vinna nú að markaðsöflun fyrir útflutningsafurðir okkar, á móti þeim fjölda, sem vinnur að innflutningsverzluninni. Þetta misræmi taldi hv. þm. stafa af því, að innflutningsverzlunin hefði verið og sé einokun. Það er rétt, að þetta misræmi er fyrir hendi, að fáir menn vinna að útflutningsverzlun, og það er enn fremur rétt, að þetta misræmi er skaðlegt fyrir útflutningsverzlun landsins, þar eð lítil von er til þess, að örfáir menn vinni markaði, svo að, nokkru nemi, í mörgum löndum. En hv. þm. bregzt bogalistin, þegar hann heldur því fram, að þetta misræmi skapist af því, að innflutningsverzlunin hafi verið einokuð. Það er alls ekki hægt að segja, að svo hafi verið, þótt hún hafi ekki heldur verið eins frjáls og eðlilegt og hagkvæmast væri og kaupsýslustéttin sjálf hefði óskað. Ef hv. þm. vill halda fast við það að segja, að innflutningsverzlunin sé einokuð, þá verður hann t. d. að gefa einhverja skýringu á því, hvernig standi á fjölguninni í heildsalastéttinni, en fjölgun þessa hefur Þjóðviljinn einmitt talið svo gífurlega, að þjóðhættulegt megi teljast. Hvernig má það tvennt samrýmast í senn, að innflutningsverzlunin sé einokuð og innflytjendum fjölgi? Nei, innflutningsverzlunin er ekki einokun þrátt fyrir allar sameiginlegar tilhneigingar andstöðuflokka frjálsrar verzlunar til þess að einoka hana. Miklu fremur mætti segja, að útflutningsverzlunin hafi verið einokuð, öll utanríkisverzlun hefur um margra ára skeið gengið í gegnum samninganefnd utanríkisviðskipta og aðrar opinberar n., en aðrir aðilar tæplega fengið þar nærri að koma. Og að þessu leyti get ég verið hv. 2. þm. Reykv. sammála, að það koma of fáir menn nærri þessari verzlun. Og mundi það ekki vera þessi einokun á útflutningsverzlun landsmanna, sem veldur miklu um, að svo fáir vinna að henni? Ef útflutningsverzlunin væri gefin frjáls að öðru leyti en því, að lágmarksverð yrði á því, þannig að einstaklingarnir mundu vinna markaði, mundu nógu margir menn bjóðast til að afla markaða fyrir okkar afurðir. Ef fleiri menn eiga að vinna að öflun markaða fyrir okkur erlendis, þarf að fullnægja þeim skilyrðum, að útflutningsverzlunin sé frjáls og að þeir menn, sem að henni starfa, hafi einhverja hagnaðarvon. Ef útvegurinn er rekinn á heilbrigðum gruneivelli, og það verður að vera, ætti hann að vera vel fær um að greiða sjálfur kostnað þann, sem af útflutningsverzluninni hlýzt. Öfugstreymi væri það, ef innflutningsverzlunin ætti að greiða sölukostnað útvegsafurða, eins og tilgangurinn virðist vera hjá hv. 2. þm. Reykv.

Ekki verður svo um þetta mál talað, að ekki sé minnzt á hina að mörgu leyti furðulegu ræðu hæstv. atvmrh. og viss ummæli hans í garð innflytjendastéttarinnar í heild, bæði nú og oft áður. Því að vissulega verður að telja það furðulegt, að maður, sem talinn er jafnmenntaður og greindur og gegnir einu helzta trúnaðarstarfi þjóðarinnar, skuli opinbera fyrir umbjóðendum sínum, hvað þessir góðu eiginleikar, menntun og gáfur, hafa lítið að segja, þegar ofstækið er annars vegar, því að eins og kunnugt er, hafa margir af forráðamönnum Sósfl. fyllzt blindu ofstæki í garð þessarar stéttar. Rök ráðh. fyrir því, að heildsalarnir séu sníkjudýr á þjóðarlíkamanum, eins og hefur staðið í Þjóðviljanum, voru aðallega þau, að verzlun gæfi örugga atvinnu og væri áhættulaus atvinnuvegur. Þetta virðist ráðh. leggja áherzlu á, að innflutningsverzlunin væri áhættulaus atvinnuvegur. Margt mætti um þetta segja. Nú er það algild regla, að verzlun er ekki örugg þegar um frjálst framboð er að ræða, því að þá geta kaupendur valið úr, og þá veltur allt á því, hvað hagkvæmt innflytjendur kaupa inn. Og heldur ráðh., að verzlun sé í raun og veru öruggur atvinnuvegur, þegar til lengdar lætur, ef aðrir og þ. á m. helztu atvinnuvegir þjóðarinnar bera sig ekki? Ef verzlun er öruggari atvinnuvegur en áður, nú sem stendur, þegar dýrtíðin er að byrja að hafa hinar geigvænlegustu afleiðingar á útvegsframleiðslu okkar, stafar það af því, að kaupmátturinn innanlands stendur í stað meðan kaupmáttur okkar erlendis minnkar, og það er meinið, að þróunin gengur í þá átt. En lækning á þessu ástandi fæst ekki með því að taka fjármagn af innflutningsverzluninni og láta það ganga til útvegsins. Þó að það yrði gert, mundi það duga skammt. Lækning á þessu fæst ekki fyrr en dýrtíðin er lækkuð, þannig að útvegurinn geti borið sig sjálfstætt. Við Íslendingar ættum að vera búnir að fá nóg af styrkjapólitíkinni. Í þessu sambandi vildi atvmrh. halda því fram, að ágóði heildsalanna, sem stafaði af of hárri álagningu, væri orsök dýrtíðarinnar. Atvmrh. veit það e. t. v. ekki, að innflytjendur eru eina stéttin, sem háðir hafa verið opinberu eftirliti síðan 1938, meðan flestar aðrar stéttir hafa sjálfar ráðið kaupi sínu. Enn fremur er það staðreynd, að það, sem mest veldur um hækkun dýrtíðarinnar, er hin mikla hækkun, sem orðið hefur m. a. á landbúnaðarafurðum. Samt sem áður telur atvmrh., að gróði kaupmannanna sé höfuðorsök dýrtíðarinnar og yfirleitt höfuðorsök allrar bölvunar með þjóð vorri. Á þessum falsrökum vill svo atvmrh. afnema alla frjálsa kaupsýslu á Íslandi og koma á landsverzlun, hreinni einokunarverzlun. En hvernig stendur annars á því, að atvmrh. gleymdi að taka með í röksemdir sínar máli sínu til stuðnings þá reynslu, sem þegar er fengin af slíku verzlunarfyrirkomulagi hér í okkar landi? Á heimsstyrjaldarárunum fyrri var landsverzlun hér á Íslandi. Reynslan varð sú, að þegar hún hætti störfum, hafði hún stórtapað, þó að hún væri auðvitað skattfrjáls alla tíð. Væri æskilegt, ef hæstv. atvmrh. vildi athuga, hve illa tókst til með þessa tilraun, áður en hann gerir í alvöru tilraun til þess að einoka á ný verzlun á Íslandi. Á árunum fyrir stríð var ríkiseinkasala með margt, svo sem bifreiðaeinkasala og raftækjasala. Álagning þá var helmingi hærri en heildsala nú í þessum greinum. En þrátt fyrir algert skattfrelsi var hagnaðurinn ekki meiri en svo, að hann fór nær allur í rekstrarkostnað, tekjur og gjöld stóðust að mestu leyti á og heldur ekki talað um, að neinn skattur væri borgaður til hins opinbera af þeim verzlunarrekstri. Reynslan er ólygnust, segir máltækið, og hefur hún sýnt, að heildsalar eða innflytjendur hafa rekið verzlun með hagnaði, þótt þeir leggi helmingi minna á og borgi háa skatta, þar sem aftur á móti einkasölurnar voru skattfrjálsar. Reynslan hefur sýnt, að frjáls verzlun gerir hvort tveggja, að vera betri tekjulind fyrir ríkið og bjóða almenningi betri kjör en einkasölum hefur nokkurn tíma tekizt að gera.

Undanfarið hafa margir stjórnmálaleiðtogar látið skína í svipaðar skoðanir og hæstv. atvmrh. Það er eins og þessir menn skilji ekki nauðsynina á því starfi, sem íslenzka verzlunarstéttin innir af hendi. Það er talað um nauðsyn þess, að framleiðslan sé aukin til sjávar og sveita, og í þeim tilgangi sé hlúð sem bezt að sjávarútveginum og landbúnaðinum, og það er alveg rétt. En við megum ekki gleyma því, að engu síður er nauðsyn á, að verzlunarstéttinni sé kleift að útvega sem bezta og ódýrasta vöru. Hún er í rauninni framleiðendastétt, útvegar vörur frá framleiðslustöðunum í hverju landi og flytur þær á sölustað. Þeir menn, sem ófrægt hafa íslenzku verzlunarstéttina, skyldu einnig minnast þess starfs, sem hún hefur unnið í þágu alþjóðar. Þess ber að minnast, að íslenzkir menn tóku verzlunina úr höndum útlendinga á skömmum tíma, eftir að þeim hafði verið veitt aðstaða og tækifæri til þess. Í heimsstyrjöldinni fyrri var verzlunarstéttin ung að árum, en vann mikið gagn. Heildsalarnir íslenzku og þeir, sem þá störfuðu fyrir vestan haf, höfðu þá þau sambönd, að þeir gerðu oft þau beztu tilboð, sem menn áttu kost á. Þeir menn, sem tala með lítilsvirðingu um íslenzku verzlunarstéttina, ættu að minnast þess, sem ég hér hef tekið fram, að verzlunarstéttin er eina stétt þessa lands, sem stöðugt er háð eftirliti um kjör sín af hálfu löggjafarvaldsins frá 1938. Og þrátt fyrir þau ekki of góðu kjör, sem íslenzku verzlunarstéttinni hafa verið búin á stríðsárunum, hefur hún getað birgt íslenzku þjóðina upp með 6–8 mánaða birgðum síðustu 6 stríðsár, meðan þjóðir allt í kringum okkur urðu og verða að svelta hálfu og heilu hungri. Þetta er staðreynd, sem við heyrum um daglega. Þetta starf íslenzku verzlunarstéttarinnar, að sjá þjóðinni fyrir nægum matvælum, er henni svo þakkað með því að kalla hana sníkjudýr á þjóðarlíkamanum. Þrátt fyrir það að löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið í þessu landi hefur ekki gert verzlunarstéttinni léttara fyrir í því erfiða starfi, þá hefur verzlunarstéttin ekki möglað. Hún skilur það, að á styrjaldartímum þarf að beita óvenjulegum ráðstöfunum, en verzlunarstéttin krefst þess, að þær ráðstafanir séu sanngjarnar og hafi við rök að styðjast. Verzlunarstéttin biðst ekki undan réttmætri gagnrýni, en hún telur sig ekki eiga skilið þær ofsóknir, sem henni eru sýndar. Íslenzk verzlunarstétt krefst ekki heldur forréttinda, en hún krefst þess, að hún njóti jafnréttis á við aðrar stéttir þjóðfélagsins. Og ef þeim ofsóknum verður haldið áfram, sem hafnar hafa verið á íslenzka verzlunarstétt, þá er það ekki nema réttlætiskrafa, að gengið sé úr skugga um það með opinberri rannsókn, hvað þjóðfélagsstéttirnar hafa borið úr býtum á undanförnum árum. Mun þá koma í ljós, hvort verzlunarstéttin hefur grætt fé umfram það, sem eðlilegt má teljast. (PZ: Þeir fela það náttúrlega). Ég veit nú ekki til, að hv. 2. þm. N.-M. hafi aðgang nema að stærstu heildsölu landsins, Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, og þykir mér það því koma úr hörðustu átt, ef þessi hv. þm. áræðir að bregða heildsölum um, að þeir feli fjármuni sína.

Ég læt að svo komnu útrætt um þetta. Mér fannst ég hafa fulla ástæðu til þessara ummæla, og það þótt fyrr hefði verið.