16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (2979)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Ég verð að lýsa undrun minni á meðferð þessa máls hér í hv. þd. Það er langt síðan því var vísað til fjhn., og hæstv. forseti hefur rekið á eftir málinu. Síðast í gær var því frestað, til þess að hv. fjhn. skyldi geta athugað það. En form. n. virðist ráðinn í því að hundsa þetta, þótt hér sé um að ræða eitt af stærri málum þingsins og fyrir liggi fjöldi brtt. Fer því fjarri, að vanþörf sé á, að málið sé athugað í n. Þetta mál er upphaflega lagt fyrir þ. á síðari hluta þess. Hæstv. ríkisstj. hafði þá gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir stöðvun vélbátaflotans, en þá verða þau tíðindi, að verðlag á fiski í Bretlandi lækkar. — Ég bíð með ræðu mína á meðan forseti lýkur samtali sínu. Ég hef enga bjöllu til að hringja. — Þegar þessi tíðindi gerast, hefur hæstv. ríkisstj. þótt bera nauðsyn til að mæta þessum erfiðleikum á einhvern hátt. Ég hafði gert mér í hugarlund, að þeir atburðir, sem gerðust um síðustu áramót, hefðu kennt hæstv. ríkisstj., að hún þyrfti að hverfa frá öllu bráðábirgðakáki og fara þá leið að reyna að lækka framleiðslukostnaðinn, en þessi von mín brást. En úr því að hæstv. ríkisstj. virðist ráðin í því að dragnast með þetta allt í sama farinu fram yfir kosningar, þá vil ég segja það, að henni ber skylda til að sjá svo um, að sumir þjóðfélagsþegnarnir séu ekki dæmdir úr leiknum, en þannig virðist hæstv. ríkisstj. ætla að fara með bændastéttina. Nú er spurningin: Hvað er hægt að gera til að halda þessu við? Hér er stungið upp á því, að ríkisstj. sé heimilað að taka á leigu skip og kaupa fisk til útflutnings, það er að segja, ríkissjóður hefur alla áhættu af rekstri skipanna. Nú hefur ekkert komið fram um það, hvort lækka má flutningskostnað á fiskinum, en hann er, eins og kunnugt er, óhæfilega hár. Enn þá gilda sömu launakjör og á meðan styrjaldarháskinn var mestur, auk þess sem ég hef fyrir satt, að mannfjöldi á skipunum sé óþarflega mikill. En það hefur ekki orðið vart við það, að hæstv. ríkisstj. hafi gert neitt í þessu máli eða orðið ágengt. Ég vil leyfa mér að beina fyrirspurnum til hæstv. atvmrh. um, hvað hæstv. ríkisstj. hafi aðhafzt og hvort hæstv. ríkisstj. treysti sér ekki til að koma fram einhverjum ráðstöfunum til bóta, því að þetta fer að verða alvarlegt mál, þegar farið er út á þessa braut. Ríkisstj. skipar fast verð á fiskinn og tekur á sig að greiða flutningskostnaðinn. Það hefur verið fullt alvörumál fyrir bátaútveginn, hvernig þessu er háttað, en ekki verður það auðveldara viðfangs, þegar svo er komið verðlagi á fiski erlendis, það breytist svo, að nauðsyn þykir bera til, að ríkissjóður komi þar á milli með ábyrgð frá sinni hendi. Þá er fullkomin ástæða til þess að leita að leiðum til að lækka þennan kostnað, því að í reyndinni getur þetta orðið svo, að ríkissjóður verði að borga verulegan hluta af þessum kostnaði. Ég er alveg sannfærður um það, þótt ég hafi ekki um það skýrslu í höndunum, að sá kostnaður er ekki neitt smáræði. Þótt kaupgjald sé hátt í landinu, er það þó ekki í neinu samræmi við það kaupgjald, sem greitt er í þessum flutningum. Ég sé engum ofsjónum, þótt sjómenn í siglingum til annarra landa hafi há laun, en það verður þó að vera nokkurt samræmi í þessu. Og það ástand, sem skapaðist vegna styrjaldarinnar, getur ekki staðið endalaust. Ég vildi beina fyrirspurn til hæstv. ráðh. út af þessu tilefni. Í 2. gr. er ríkisstj. gefin heimild til að taka á leigu skip frá og með miðjum apríl og fram í seinni hluta maí. Ég veit ekki, við hvað er miðað, en aðalvertíð er venjulega lokið fyrir miðjan maí. Þess ber þó að gæta, að talsverðar fiskveiðar eiga sér þó stað eftir þann tíma. Og það er auðséð, að þingið kemur ekki saman aftur fyrr en langt er liðið á þetta ár, og engar horfur á því, að stefnubreyting verði í þessu efni fyrr en langt er liðið á þetta ár. Þá er spurningin, hvað á að gera varðandi ísfiskflutningana frá bátaútveginum eftir miðjan maí. Því mundi verða svarað í þessu sambandi, að hægt væri að salta þennan afla. Það má til sanns vegar færa, það má salta nokkuð, en þó er mér ekki kunnugt um horfur á sölu á saltfiski. En það er nokkuð varhugavert að gera ráð fyrir því, að allur sá fiskur, sem kemur á land eftir þann tíma, verði annaðhvort að fara í salt eða hann verði að sæta því verði, sem hægt verður að fá á frjálsum markaði eftir miðjan maí, og sæta þeim flutningskostnaði, sem nú er. Ég vil beina því til hæstv. ráðh., hvort hann vilji ekki athuga þetta ákvæði gaumgæfilega, og geymi ég mér rétt til þess að flytja við þetta brtt. til 3. umr., ef mér þykir þá ástæða til þess. Það er náttúrlega, að þessar till. eru fyrst og fremst miðaðar við það að fleyta þessum málum fram yfir kosningar, og það er hugsað sem svo, að þá komi tímar og þá komi ráð, en það skipti mestu að ráðstafa þessu einhvern veginn fram að þeim tíma. En þá hefði mér þótt sanngjarn,t, að þetta næði fram á kjördag, þannig að fyrir þessu yrði séð þangað til menn hefðu stungið seðlunum niður í kassann. Það væri í fullu samræmi við alla meðferð málsins. Áskil ég mér rétt til að flytja varðandi þetta brtt. síðar, ef þannig horfir við. En ef samþ. væri brtt. um það, að ríkisstj. hefði þessa heimild nokkuð fram á sumarið, þá gæti hún gripið til hennar, ef til þyrfti að taka og þörf væri á því. Og það mundi þá sýna sig, að menn hugsa um að halda uppi bátaútveginum áfram, þangað til aðrar ráðstafanir yrðu gerðar.

Ég skal svo minnast á eitt atriði enn. Ég á brtt., sem flutt er við brtt. frá hv. þm. Borgf. viðvíkjandi saltfiskkaupunum. Hv. þm. Borgf. flutti brtt. á þá lund, að ríkisstj. væri heimilt að kaupa þann saltfisk, sem saltaður væri til útflutnings áaímabilinu 1. jan.–31. maí. Ég flutti þá brtt., að þessi heimild næði til 1. okt. og enn fremur, að ríkisstj. væri heimilt að kaupa og ábyrgjast fullsaltaðan stórfisk og aðrar fisktegundir með hliðstæðu verði og kr. 1.70 kg fyrir stórfiskinn. Það mætti segja, að það væri nægilegt að tiltaka þessar 7 þús. smálestir, eins og ríkisstj. hefur gert. En ég hef ekki getað aflað mér upplýsinga um, hvort það er fullnægjandi, og mér finnst eðlilegast að hafa ekkert hámark á þessu. En auk þess vildi ég benda á, að það er ekki fullnægjandi að miða þetta við stórfisk. Það verður einnig að mínum dómi að tryggja verðið fyrir annan fisk, því að talsvert af öðrum fiski veiðist á ýmsum stöðum. Og það þýðir ekki að horfa fram hjá því, að það er stór þáttur í tekjum manna að afla og selja fisk, sem ekki er stórfiskur. Þetta er atriði, sem þarf að koma greinilega fram. — Hv. þm. Borgf. ætlar að taka till. sína til baka. Ég tek því til baka till. mína á þskj. 539, því að hún er orðuð við till. hv. þm. Borgf., en í staðinn flyt ég skrifl. brtt. við 2. gr. frv., og hljóðar hún svo, með leyfi hæstv. forseta : „Ríkisstjórninni er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að kaupa til útflutnings eða ábyrgjast fyrir bátaútveginn sölu á því fiskmagni, sem saltað er til útflutnings á tímabilinu frá 1. jan. til 31. okt. 1946, fyrir það verð, að kr. 1,70 fáist fyrir hvert kílógramm af fullsöltuðum og fullstöðnum stórfiski I. flokks og tilsvarandi verð fyrir annan fisk að dómi ríkisstjórnarinnar.“ Mun ég afhenda hæstv. forseta till. — Það hefur komið fram till. frá hv. þm. V.-Húnv. um það, að ríkisstj. borgaði útflutningsuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir og miðaði við verð 6 manna n. Ég álít till. ákaflega sanngjarna einmitt í þessu sambandi. Það er viðurkennt, að bátarnir mega ekki við því, eins og ástatt er, að verðið fari niður fyrir þetta fasta verð. Þar er markið sett með frv. Ég geri ráð fyrir því, að ef þetta fasta verð næst ekki, komi hallinn á ríkissjóð, og hef ég áður lýst afstöðu minni til þess. Og mér finnst ómögulegt að viðurkenna annað en hið sama verði að ganga yfir báða aðalatvinnuvegi landsins í þessu sambandi, sjávarútveg og landbúnað, og mér finnst það sanngjarnt, að þegar landbúnaðurinn á í hlut, þá sé miðað við það verðlag, sem 6 manna n. kom sér saman um á sínum tíma. Við annað er ekki hægt að miða. Og það hefur ekki verið dregið í efa, að þetta samkomulag hafi verið hóflegt og skynsamlegt. Ég vil því vænta hins bezta fyrir brtt. hv. þm. V.-Húnv. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. sættist á að fylgja því, að þetta frv. geri ráðstafanir til að koma í veg fyrir það, að afurðir bátaútvegsins fari niður fyrir tiltekið mark, sem hæstv. ríkisstj. hefur sett, og komi um leið í veg fyrir það, að afurðir landbúnaðarins fari niður fyrir það mark, sem 6 manna n. tiltók. Þessar ráðstafanir gætu staðið báðar hlið við hlið, þangað til samkomulag yrði um það að breyta um stefnu, svo að hægt væri að hverfa út af þessari braut hvað snertir báða þessa höfuðatvinnuvegi.