17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (2988)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Skúli Guðmundsson:

Ég á hér brtt. við frv., sem lýst var við 2. umr., og bjóst ég við, að hún gæti legið fyrir prentuð, en svo er ekki, því að málið var tekið strax fyrir aftur með afbrigðum. Ég vænti, að þm. sé ljóst, um hvað brtt. mín fjallar, en vil þó lýsa henni nánar. Hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkissjóður greiðir verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir á tímabilinu 15. sept. 1945 til 15. sept. 1946, eftir því sem með þarf, til þess að framleiðendur fái það verð fyrir þær, sem reiknað er með í landbúnaðarvísitölu 1945. Ef vörur, sem framleiddar eru á framangreindu tímabili, eru eigi fluttar út á því ári, enda þótt þær séu tilbúnar til útflutnings, skulu þær verðbættar, þegar út eru fluttar, eins og gert mundi hafa verið á því ári, er þær voru framleiddar. Verðuppbæturnar greiðist útflytjendum um leið og kaupendur borga vörurnar.

Hagstofan skal árlega reikna út landbúnaðarvísitölu, samkvæmt reglum landbúnaðarvísitölunefndar frá 1943.“

Hér er um að ræða eins árs framleiðslu af gærum og ull. Enn hefur lítið verið flutt út af kjöti frá 1945, en þó munu hafa verið fluttar út um 200 smálestir og verður jafnvel meira. Mér sýnist, að það geti ekki verið um stóra upphæð að ræða, sem þetta kostar ríkissjóð. En það er ljóst, að þær kvaðir, sem ríkissjóður tekur á sig með frv. eins og það nú er, geta kostað hann stórfé, og því er með öllu ótækt, að landbúnaðinum verði neitað um þessa aðstoð, samtímis sem sjávarútveginum er veitt slík aðstoð.