17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (2992)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég heyri, að hv. 2. þm. S.-M. óskar eftir, að einhver úr stj. gefi yfirlýsingu um, hvort skilningur hans sé réttur að því er varðar verðið, kr. 1.70 hvert kg, og hitt, að það nái ekki aðeins til I. flokks stórfisks, heldur og til annarra fisktegunda. Sá skilningur hans er réttur, að hér falli annar saltfiskur undir lögin. — Skilningur hv. þm. er því hárréttur. Ég vil taka það fram um leið, úr því að ég fór á annað borð að taka til máls, að þetta hefur frá öndverðu verið rætt af okkur ráðh., og eru till. stj. hér fram komnar. Allar brtt. ráðh. eru till. stj. Ég hef haft það hlutverk að semja fyrir hönd stj. við eigendur hraðfrystihúsanna, og hafa þeir aðhyllzt þá skipun málanna, sem hér er ráðgert, að höfð verði. Aðalatriðið er, að ríkisstj. leitar heimildar Alþ. til þess að taka ábyrgð á, að eigendur fisksins fái hann greiddan, þótt seldur sé erlendis gegn gjaldfresti. Gegn þessu gengu frystihúseigendur inn á, að skattur yrði lagður á fiskinn. Næmi hann 2½ eyri, og væri þá miðað við, að meðalverðið skyldi vera kr. 1.10 pr. enskt pund.

Ég rek málið ekki að öðru leyti. Læt ég þess að endingu getið, að ríkisstj. stendur einhuga að öllum aðgerðum í málinu, bæði till. hæstv. atvmrh. og annarra.