01.10.1945
Sameinað þing: 1. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Tilkynningar um fjarvistir

Aldursforseti (IngP):

Áður en gengið verður til fundarstarfa, skal ég leyfa mér að skýra frá, að forseta sameinaðs þings hafa borizt bréf frá þremur þingmönnum, og mun ég lesa þau.

Það er þá fyrst bréf frá Jakobi Möller, 3. þm. Reykv., og hljóðar það svo:

„Kaupmannahöfn, 12. sept. 1945.

Sökum fjarveru minnar úr landi get ég eigi gegnt þingstörfum fyrst um sinn, en óska, að varamaður verði kvaddur til þingsetu í minn stað.

Jakob Möller,

3. þm. Reykvíkinga.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Í öðru lagi er bréf frá Sigurði Bjarnasyni, þm. N.-Ísf., svo hljóðandi:

„London, 17. sept. 1945.

Herra forseti.

Ég leyfi mér hér með að tilkynna yður, að vegna þess að ég á enn ólokið nokkrum hluta erinda minna, mun ég ekki geta komið til þings fyrr en 15. október.

Jafnframt leyfi ég mér að æskja þess, að þér metið þessi forföll mín gilda ástæðu til fjarvistar frá þingstörfum fyrrgreint tímabil.

Allravirðingarfyllst.

Sigurður Bjarnason.“

Loks hefur 8. þm. Reykv. (SigfS) ritað á þessa leið :

„Reykjavík, 1. okt. 1945.

Einar Olgeirsson, 2. þm. Reykv., er farinn af landi burt í erindum fyrir ríkisstjórnina, og mun hans ekki von aftur næstu vikur. Fyrir hans hönd leyfi ég mér að tilkynna yður, herra forseti, með skírskotun til 144. gr. laga nr. 80 1942, um kosningar til Alþingis, að varamaður hans, Katrín Thoroddsen læknir, mun taka sæti hans á Alþingi, þar til hann kemur heim aftur.

Sigfús Sigurhjartarson,

varaformaður Sameiningarflokks alþýðu —

Sósíalistaflokksins.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“