08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

16. mál, fjárlög 1946

Ingvar Pálmason:

Ég er hér flm. að tveimur smábrtt. ásamt hv. 2. þm. S.-M. Ég tel rétt að fara nokkrum orðum um þessar till., þó að heldur sé nú þunnskipað, en hv. form. fjvn. (GJ) er mættur, og það ætti að vera nægilegt. — Þessar brtt. eru undir IV. lið á þskj. 316, við 13. gr. A. III., um styrk til brúargerða. Fyrri till. er um styrk til brúargerða á Geitdalsá og Múlaá í Skriðdal, 150 þús. kr. Það hefur verið nokkur ár í undirbúningi að brúa Grímsá í Skriðdal. Grímsá er með mestu manndrápsvötnum á landinu. Á undanförnum 100 árum hafa farizt þar 19 manns. Ég man sjálfur eftir fjórum. Af þeim voru tvær ungar stúlkur. Lengd Grímsár frá Lagarfljóti inn fyrir byggð í Geitdal er um 30–40 km. Þessi á sker þarna í sundur eina blómlegustu sveit Suður-Múlasýslu, Skriðdalinn. Allir skilja, hversu erfitt er að fara hreppinn á enda til þess að komast yfir þær tvær ár, sem mynda Grímsá. Nú hefur verið rannsakað til hlítar af vegaverkfræðingi, að bezt er að brúa Geitdalsá og Múlaá hjá Þingmúla, því að Grímsá er allmiklu breiðari, auk þess sem hentugra er að hafa brýr á báðum ánum fyrir samgöngur innan sveitar. Ef Grímsá væri brúuð t. d. hjá Arnhólsstöðum, þá er tungan, sem Þingmúli stendur á, jafnilla stödd eftir sem áður. Vonir manna austur frá eru miklar um það, að þessar ár verði brúaðar sem fyrst. Ég vildi því vinsamlegast beina því til fjvn. og þá einkum formanns hennar að taka þessa till. til athugunar. Ég tel ekki þörf á fleiri orðum. Það er öllum ljóst, að þörfin er mikil, og vonast ég því til, að fjvn. taki málið til vinsamlegrar athugunar.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um hina brtt. Það er alltaf haldið í áttina með að láta bílfæra vegi ná saman á Suðausturlandi, og nú er bílfært frá Djúpavogi að ............ og Lónsheiði er að sumri til fær bílum og gæti verið vel fær með litlum tilkostnaði, en það, sem tefur, að hægt sé að nota bíla t. d. í Álftafirði, eru árnar. Fyrst er Fossá í Álftafirði. Hún sker í sundur sveitina, svo að þeir, sem búa sunnan árinnar, geta ekki notað bíla og verða því að reiða á klökkum eftir það. Sama er að segja að sunnan verðu. Þegar kemur í Lónið, er það Jökulsá, sem hindrar, að þar sé hægt að nota bíla. Nú sé ég, að fjvn. hefur tekið upp á fjárl. framlag til Lónsár, og vænti að Fossá verði tekin líka. Ég tel alveg sjálfsagt, hvern árangur sem það ber, að þm. S.-M. og þm. A.-Sk. vinni að þessu nauðsynjamáli, og þess vegna flytjum við þessa brtt. Ef um tvennt væri að ræða, væri mér kærara að fá brýr á Geitdalsá og Múlaá heldur en þessa, þó að æskilegast væri að fá þær allar, en skiljanlega er ekki hægt að framkvæma allt í einu. Ég get skilið, að fjvn. vill ekki eyða fram úr hófi í brúargerðir, en þess ber að gæta, að stöðvun á brúargerð nú á stríðsárunum hefur verið meiri en nokkurn tíma á vegagerðinni. Ég vona því, að fjvn. taki þessar brtt. vinsamlega til athugunar.

Úr því að ég stóð upp, vil ég minnast á einn lið, ekki til aðfinnslu, því að ég er ekki viss um, að mér hefði gengið betur. Í brtt. 44, 13. lið segir svo „Til brúa, sem áður hafa verið í fjárlögum 250 þús. og í 14. lið. Ýmsar smábrýr 200 þús.“ Ég vil minnast á, að áður hefur staðið í fjárl. fé til brúargerðar á Norðurá, en enn þá er ekki hafið það verk. Ég er ekki viss um, að sú fjárveiting nægi. En ég vil leyfa mér að spyrja, hvort ekki megi vænta fjárveitingar til brúargerðar á Norðfjarðará af þessum liðum. Eins og menn vita, hefur verið unnið að vegagerð á Oddsskarði. Ég hygg, að þar hafi verið unnið fyrir fullar 300 þús. kr. Ég fór um þetta svæði, þegar ég kom til þings í haust, og virtist mér mjög sæmilegur árangur, einkum þegar tillit er tekið til þess, að stór jarðýta, sem nota átti þarna, bilaði, og nota varð litla jarðýtu í staðinn. Nú hefur fjvn. lagt góða upphæð til þessa vegar, eða 300 þús. kr., og ætlunin, að honum verði lokið á næstu 2 árum. Ég set þetta í samband við brú á Norðfjarðará vegna þess að vegastæði er þarna gott. ........ Það er gert ráð fyrir, að hún hafi í sveitinni verkefni í tvö ár. Nú geri ég ráð fyrir, að íbúar Norðfjarðarhrepps mundu fúslega bíða með það, sem þeir eiga eftir óunnið með þessari skurðgröfu, ef svo bæri undir, að ríkissjóður þyrfti á henni að halda við vegagerð. En til þess að skurðgrafan geti komið að notum við vegarlagningu þarna eystra, þarf brú á Norðfjarðará að vera komin. Ég hef sett þetta í samband hvað við annað, af því að það er nauðsynlegt að gera sér ljóst, að brúin og vegurinn standa ekki aðeins í sambandi hvað við annað af því, að brúin þarf að koma, þegar vegurinn er kominn, heldur þarf hún að koma áður en vegurinn er lagður, af því að með því sparast mikið fé. Þess vegna er mér ákaflega annt um að geta fengið fram skilning hv. fjvn. á því, hvort það er ekki meiningin, að brúin á Norðfjarðará eigi að njóta fjárveitingar undir stafl. A. III., 14. tölul. í brtt. fjvn. við 13. gr. Ég vænti þess, að hv. form. og frsm. fjvn. gefi mér við þóknanlegt tækifæri svör við þessu.

Ég get þá látið máli mínu lokið um brtt. við fjárl. og um fjárl. yfirleitt. Ég mun með atkv. mínu sýna afstöðu mína til einstakra brtt., en sé enga ástæðu til að gera það með orðum. En ég skal þó segja það, að þrátt fyrir allt tel ég, að brtt. hv. fjvn. séu flestallar til mikilla bóta. Og mér sýnist, að yfirleitt beri brtt. vott um það, að hv. fjvn. hafi viljað reyna að gera það bezta úr fjárl., sem henni fannst hún geta orkað, undir þeim kringumstæðum, sem eru.