08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

16. mál, fjárlög 1946

Jón Pálmason:

Herra forseti. Mér þykir ástæða til þess að bæta fáeinum orðum við það, sem ég sagði hér við þessa umr. áður, vegna þeirra svara, sem féllu frá hv. fjvn. gagnvart þeim mjög nauðsynlegu og hógværu brtt., sem ég hef hér flutt við þessa umr. við fjárlagafrv.

Það hefur nú komið betur í ljós, sem mátti sjá á nál. hv. fjvn. strax, að framlögin til vega eru samkv. brtt. hv. fjvn. áætluð um 900 þús. kr. hærri en þau voru í síðustu fjárl. Og það hefði þess vegna mátt ætla, að það hefðu ekki verið lækkaðar fjárveitingar til neinna héraða. En það eru þó býsna margar sýslur, sem ekki sérstaklega eru í náð hjá hv. fjvn. og lækkaðar hafa verið fjárveitingar í til vega.

Hv. frsm. fjvn. tók því þunglega, að ég gat þess í minni ræðu, að það liti út fyrir, að það hefði verið hlynnt að héruðum, sem fjvnm. stæðu að, og hann vildi halda fram, að þetta gæti ekki átt við neinn nm. annan en hann, að minni meiningu. En því var alls ekki til að dreifa frá minni hendi, að ég ætti í þessu efni við hann einan, heldur eru það fleiri, sem þar eiga hlut að máli, eins og gefur að skilja. Og ég tek röksemdir hv. frsm. fjvn. ekki mjög alvarlega, þegar hann segir, að það geti ekki skeð, að þeir, sem eru uppbótarþm. úr einstökum héruðum, vilji gjarnan vinna fyrir þau héruð, sem þeir eru kosnir með atkv. úr. En það þýðir ekki að segja mér það. Ég þekki svo þingsögu undanfarinna ára. Ef svo væri sem hv. frsm. fjvn. sagði í þessu efni, kynni það þá að vera tilviljun ein, að framlög í Suður-Múlasýslu hækka um 150 þús. frá því, sem var í fyrra samþ. í fjárl. Og það hefur farið orð af því, að hv. frsm. fjvn. væri flestum ef ekki öllum mönnum duglegri til að halda vel á málefnum síns kjördæmis, og er það honum til heiðurs, enda hefur aldrei í það kjördæmi farið jafnmikið fé til vega eins og í þeim fjárl., sem nú eru í gildi, sem er 225 þús. kr. Það kynni kannske að vera tilviljun, að bætt hefur verið við það kjördæmi frá því, sem áður hefur verið í það veitt, einmitt síðan hv. núv. þm. Barð. kom á þing. Til Dalasýslu hafa framlög til vega lækkað um 40 þús. kr. frá því í fyrra og í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu um 100 þús. kr. Þetta kunna að vera aðfinnslur hjá mér og sérstaklega vel sé hlynnt að þessum héruðum: — Varðandi mitt kjördæmi sagði hv. frsm. fjvn., að í það væri veitt 195 þús. kr. til vega. En það eru ekki nema 85 þús. kr., sem þar er um að ræða, og þó er þar full nauðsyn fyrir hendi, nauðsyn, sem er áreiðanlega eins mikil og hvarvetna annars staðar þar, sem beðið er um fjárveitingu til vega. Það er að vísu rétt hjá hv. frsm. fjvn., að það er hægt um hásumarið að komast á bíl milli Blönduóss og Skagastrandar, en það er ekki heldur nema þá. Og þar er um að ræða eitt kauptún, Skagaströnd, sem er alveg innan þess ramma, sem hv. fjvn. og hæstv. samgmrh. mörkuðu með sinni stefnu að halda fram, að sérstaklega þyrfti að koma í gott vegasamband, vegna þess að þar er verið að vinna stórfelldar umbætur. Og þar er væntanleg mikil fólksfjölgun. Og ástandið er á þessum vegi þannig, að það eru ekki líkur til þess, að hægt sé að koma þangað sumum þeim vélum, sem þangað þurfa að flytjast, landleiðina, vegna þess að vegurinn er ekki fær svo stórum bifreiðum sem til þess þarf. Hér er um að ræða vélavinnuvegarstæði af heppilegustu gerð. Og það hefði nú á þessu hausti verið hægt að vinna þar með stórvirkasta tæki þeirrar tegundar, sem til er í landinu og vinnur á við fleiri hundruð menn. Og það er því undir slíkum kringumstæðum mjög mikill sparnaður að nota slík tæki, þar sem það á við, samanborið við að veita fé til vegagerða á þeim stöðum, þar sem ekki er hægt að koma að nema handverkfærum.

Það, sem mér þykir einna gífurlegast í till hv. fjvn. er það, að hún leggur til, að í eitt hérað verði varið næstum því einni milljón, og er þar um 405 þús. kr. hækkun að ræða, en næsta hérað, Suður-Þingeyjarsýsla, er lækkað um 105 þús. kr. frá því í fyrra. Þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að ræða um, þar verður atkvgr. að skera úr, ef n. vill ekki ganga inn á það, sem mér virtist skína hálft um hálft í hjá hv. frsm., að taka eitthvað aftur af þessum till. sínum til 3. umr. og endurskoða sína afstöðu.

Varðandi hafnir og lendingarbætur skal ég ekki mikið út í fara, ég hef geymt mér til 3. umr. að flytja brtt. þar um. En hvað vegina snertir og varðandi það, sem hv. frsm. sagði um framlag til Svínvetningabrautar, sem ég fór fram á 100 þús. kr. í, sem er helmingur framlags þess, sem þarf í veginn samkv. till. vegamálastjóra, þá þótti mér það mjög leiðinlegt hjá hv. frsm., að hann kastaði ómaklega hnútum til vegamálastjóra. Það er engin ástæða til að vera með slík ummæli, þó að hv. þm. geti greint á við hann um einstök atriði, því að ég held, að hann fullnægi sinni embættisskyldu eins vel, ef ekki betur en flestir þeir embættismenn, sem við höfum undir að sækja hér á þingi, og að hann hafi verið hér með einhverja hlutdrægni varðandi fjárveitingu til Blöndubrúar, sem fyrirhuguð er, því mótmæli ég alveg, því að þar er um að ræða alveg fullkomna þörf, — þörf, sem ekki verður þöguð í hel, hvorki af fjvn. né öðrum: Hv. frsm. segir, að hægt sé að komast yfir Blöndu eins og er, og það er satt, það er ein brú á henni niður við ósa, en það er svo um flest okkar stórvötn, að á þeim eru tvær brýr og sums staðar verið að biðja um þá þriðju, eins og á Hvítá í Borgarfirði. Á Skjálfandafljóti eru einnig tvær brýr, og þar er verið að biðja um þá þriðju. Milli hinnar fyrirhuguðu brúar á Blöndu og þeirrar, sem nú er, eru milli 30 og 40 km. Það skiptir ákaflega miklu máli, að þessi brú komi, sérstaklega með tilliti til þeirra fyrirhuguðu breyt., sem nú eru á atvinnurekstri héraðsins snertandi mjólkurframleiðslu.

Varðandi það, sem hann sagði um till. mína varðandi mjólkurbú á Blönduósi, þá er það að segja, að ekki er víst, að hægt verði að byrja þar að byggja, ef ekki er tryggt, að fjárveiting fáist, því að það þarf meira en þessa lögboðnu fjárveitingu, og þó að ekki sé till. um það á þessu þskj., þá mun verða flutt um það till. við 3. umr., því að það þarf áreiðanlega lán og ábyrgðarheimild til þess, að þetta fyrirtæki geti komizt upp í tæka tíð.

Ég skal svo láta máli mínu lokið, en vil aðeins vænta, að þetta verði tekið til athugunar síðar, þar sem ég læt þessar till. allar, sem ég hef leyft mér að flytja, koma undir atkv. við þessa umr. eða þá næstu.