08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

16. mál, fjárlög 1946

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara langt út í ræðu hv. síðasta ræðumanns, þm. A.-Húnv., en ég get lýst því yfir fyrir mína hönd sem nm., að ég er samþykkur þeirri aðferð, sem n. hafði í vegamálunum, og er ég þar alveg samþykkur hv. frsm. n., því að ef það á að vera svo, að einstök héruð eiga að geta fengið til sinna vegamála svo og svo mikið fram yfir það, sem veitt er í fjárl., þá er hætt við, að verið geti svo og svo mikil ásælni hjá ýmsum, því að allir vita, að þörfin er brýn, og ef það leyfist einum, þá er ekki hægt að banna það öðrum. Ég er því alveg samþykkur, að þessi aðferð sé höfð, sem n. notaði og fram kemur í hennar till. Það framlag, sem er hér t. d. til Austur-Húnavatnssýslu, er því ekki 85 þús., heldur 185 þús., og skeikaði því hjá hv. þm. A.-Húnv. um meira en helming, því að það fé, sem er undir b-lið, er til endurgreiðslu á því fé, sem eytt var á síðasta ári utan við fjárl., og það er ekki nema rétt og sjálfsagt, að það komi fram á næsta ári sem fjárveiting til viðkomandi héraðs. Ef það er ekki, hvað þýðir þá fyrir okkur í fjvn. að basla við að skipta því fé, sem fara á til vega, ef einstökum héruðum eða sýslum á að leyfast að taka ekkert mark á því, sem í fjárl. stendur, og fá svo hundruðum þúsunda skiptir á hverju fjárhagsári utan fjárl.? Ég er sannfærður um, að ef þessi regla væri tekin, þá mundu strax á næsta ári koma fram kröfur úr hverju einasta héraði um slík aukaframlög til vega- og brúargerða, því að þörfin er vissulega alls staðar brýn. Það hefur verið svo, — ég get borið um það úr mínu eigin kjördæmi, — að þótt boðið hafi verið að lána fé, sem ekki þyrfti að greiða fyrr en á næsta ári, þá hefur verið alveg bannað að vinna fram yfir, svo að nokkru nemi fram yfir þá fjárveitingu, sem í fjárl. hefur staðið, og álít ég, að vegamálastjóri hafi hagað sér þar alveg rétt og samkv. vilja Alþingis, en það á bara að ganga jafnt yfir alla. Þessi ásökun, sem kom aðallega frá tveimur hv. þm., þm. Snæf. og þm. A.-Húnv., er því ekki á rökum reist, og er ég þar alveg sammála hv. frsm.

En það er ýmislegt annað, sem hefur komið fram hjá hv. frsm., sem ég er ekki eins sammála honum um. Ég held, að hann hefði haft gott að því að taka ekki eins djúpt í árinni og hann gerði í gær í byrjun sinnar ræðu, þegar hann var að lýsa hinni ágætu stefnu hæstv. ríkisstj. í fjárlagaafgreiðslunni og hvað þar hefði verið gætilega farið af stað og hvað hún hefði fylgt gaumgæfilega þeirri nýsköpunarstefnu, sem nú er svo mikið talað um og hv. þm. er svo hrifinn af. Ég held, að hann hefði haft gott af að hlusta fyrst á hæstv. fjmrh., af því að hjá honum kvað við dálítið annan tón en hjá hv. frsm. Hann viðurkenndi fyllilega, að við værum komnir í hálfgerðar ógöngur með afgreiðslu fjárl., enda held ég, að hver þm. og hver maður innan þings og utan, sem athugar með gaumgæfni, álíti þessa skoðun rétta, að við séum komnir í ógöngur með afgreiðslu fjárl.

Hæstv. fjmrh. gat um vilja til sparnaðar. Hann byrjaði að tala um, að það væri hvergi gerð nein tilraun í þá átt, og ég held, að arfinn sé alltaf að vaxa. Ég held, að hann hafi aldrei vaxið eins ört og nú á síðasta ári. Og þegar maður lítur á frv., þá er það svo hjá hinum einstöku stofnunum, að svo að segja alls staðar hefur nú á þessu síðasta ári mannfjölgunin gengið fram úr hófi, því að svo að segja í hverri stofnun er bætt 3–4 mönnum við það, sem áður var. Það er svar hæstv. stj. við þeirri ályktun, sem Alþ. samþykkti í fyrra um að reyna að draga úr útgjöldunum.

Hann var mikið að tala um það, hv. frsm., sem er rétt, að fjvn. hafi ekki vald til að skipa hæstv. stj. að spara. Ég veit, að n. sem slík hefur ekki nema ábendingarrétt. En Alþingi getur gert sparnaðartill., ef það vill, og þá býst ég við, að hæstv. stj. verði að fylgja því, ef hún vill kallast þingleg stj. En eins og ég gat um áðan, þá liggur fyrir slík ályktun, svo að vilji þingsins er fyrir hendi.

Hv. frsm. var að tala um, að minn flokkur hefði verið eyðslusamur. Ég man, — og það muna kannske fleiri, — hvað átti að koma í staðinn, hvaða undur áttu að ske, ef flokkur hv. frsm. næði völdum hér á landi. Nú er það orðið, að vísu með hjálp miður heppilegra ráðamanna, ég skal ekki um það segja. En ég held, að öll þau loforð, sem þá voru gefin, — það átti að lækka skatta, því lofað að lækka tolla, því var lofað að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, en ég hef ekki séð í þeim fjárl., sem síðan hafa verið afgr. frá hendi þessarar ríkisstj., að það hafi verið gert. Ég held, að allt hafi farið í sömu áttina, gott að fá bendingar frá hv. fjvn. um ýmsa þá hluti, sem hægt væri að vera án og drægi úr útgjöldum. Jú, en ég veit ekki betur en að fyrir liggi fullkominn vilji Alþingis í þessu efni með þeirri þál., sem samþ. var í fyrra frá fjvn. Þess vegna hefur hæstv. ríkisstj. þar að sjálfsögðu alveg fulla heimild frá þinginu að reyna að skera niður, ef hægt væri, af rekstrarútgjöldum ríkisins. En það brá svo einkennilega við, að það eitt, sem báðir þeir hæstv. ráðh., sem tóku til máls í dag, höfðu að setja út á n. og störf hennar, voru þær lækkunartill., sem hún benti á. Það kann vel að vera, að n. hafi ekki fundið þá réttu leið til sparnaðar og hefði kannske mátt benda á annað, sem hæstv. stj. hefði fallizt betur á eða þótt réttmætara, en þó kom það ekki fram hjá þessum hæstv. ráðh., og það kann vel að verða svo, að það reynist nokkuð örðugt að fá niðurskurð á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs eins og nú er komið.

Hv. frsm. veittist mjög að mér í ræðu sinni í dag og þeim flokki, sem ég tilheyri. Hann benti á það með miklum krafti, að það þyrfti að uppræta ýmislegt af þeim arfa, sem við hefðum gróðursett á ýmsum stöðum hér hjá ríkinu. Ég veit ekki betur en sá flokkur, sem hann fylgir, sé búinn að eiga þátt í ríkisstj. í allmörg ár, búinn að hafa á hendi fjárlagastjórn í ein 4–5 ár. Ég hef ekki rekið mig á það, og ég vil gjarnan, að hv. þm. komi með eitthvert dæmi til að sýna fram á, hvað sú stj. hafi gert til sparnaðar á rekstri ríkissjóðs. Ég held, að fyrri fjárl. og það frv., sem við erum að ræða um nú, beri þess gleggst vitni, að það hafi allt saman verið á leið til hækkunar. Hvar sem litið er, á skatta, tolla eða rekstrarútgjöld ríkisins, alltaf er sama sagan, alls staðar er hækkun, hvergi örlar á lækkun.

Þá hefur mikið verið gumað af því af hv. frsm., að aldrei hafi eins hárri upphæð verið varið til verklegra framkvæmda og eigi að gera í þessum fjárl. Ég gerði þetta nokkuð að umtalsefni í gær, að þótt krónurnar séu margar, þá er það ekki endilega það sama og að mikið sé framkvæmt, því að eins og við allir vitum og hæstv. fjmrh. minntist á áðan, þá hefur kostnaðurinn t. d. við að leggja vegi og byggja brýr og aðrar byggingar sex til sjöfaldazt nú á fáum árum. Og ef við deilum í þá upphæð, sem nú er í fjárl. til verklegra framkvæmda, með sex eða sjö, þá hygg ég, að krónutalan verði ekki miklu hærri en sú, sem áður var veitt til slíkra framkvæmda, eins og ég líka benti á í gær, að í sumum gr., t. d. 13. og 16. gr., eru nú um 10% lægri upphæðir til verklegra framkvæmda hlutfallslega en 1938. Hv. frsm. hneykslaðist mjög á því, að ég skyldi ekki taka 12, eða 14. gr., en þó að við tökum þær, þá er útkoman svipuð, hún er ekkert hagstæðari í núv. fjárl. eða fjárlfrv, en áður var, það er hér um bil það sama. En eins og ég hef áður getið um og minn fyrirvari byggist á, þá er ekki von á betri afgreiðslu á fjárl. vegna þeirrar stefnu í dýrtíðarmálunum, sem tekin hefur verið og framkvæmd.

Hv. frsm. hneykslaðist mjög á því, að við skyldum enn þá fara að spila þessa dýrtíðarplötu, hún sé orðin slitin og hjáróma. Ég veit, að hv. frsm. tekur meira mark á öðrum en mér. Ég hef hér fyrir framan mig ýmis ummæli frá forustumanni og formanni hans eigin flokks, sem sýna það svo greinilega og ótvírætt, að hann er í þeim efnum nákvæmlega á sama máli og okkar fyrirvari byggist á. Flokkur hv. frsm. hefur bæði í ræðum á Alþingi, í blöðum og annars staðar látið ótvírætt í ljós, að dýrtíðarflóðið væri það mesta böl og bölvun, sem yfir þessa þjóð hefði gengið. Ég kæri mig ekki um að svo komnu máli að fara að lesa upp ýmis ummæli formælenda Sjálfstfl., ég veit, að honum eru þau ljós, og ég veit, að hann er þar alveg á sama máli og ég og hv. form. flokks hans, honum er þetta ljóst, þó að hann hneykslist nú á, að verið sé að spila dýrtíðarplötuna. En ég vil benda honum á, að jafnvel samstarfsmenn hans, kommúnistar, þeir eru líka að komast á þessa skoðun, að dýrtíðin sé orðin böl. Það er ekki langt síðan þeirra eigið blað, Þjóðviljinn, talaði um, að nú yrði að stöðva sig, áður en farið yrði í vökina, það mætti ekki fara lengra áfram. Ég held, að hann hefði átt að spara sér að tala eins digurbarkalega og hann gerði um þessa hluti, því að nú stendur hann einn uppi, þetta er gamalt bergmál, sem nú hefur hvergi hljómgrunn. Nú er öllum orðið fyllilega ljóst, hvert stefnir og við verðum að reyna að stöðva okkur á þessu sem allra fyrst, Ég bendi sérstaklega á þetta í sambandi við það, sem hann talaði um okkar blómlegu atvinnuvegi og hvað þeir stæðu traustum fótum. Við vitum, hvernig það er með landbúnaðinn. Við vitum, að það er ómögulegt að reka landbúnað, það er ekki hægt. Það hefur kannske verið fram að þessu hægt að reka sjávarútveg með hagnaði þrátt fyrir gífurlegan tilkostnað. En hinar sífelldu samþykktir frá félagssamtökum þessara manna sýna, að ef þeir eiga að geta gert út á næstu vertíð, þá verður annað hvort fiskverðið að hækka eða tilkostnaðurinn að lækka. Þeir blátt áfram lýsa yfir, að þeir geti ekki gert út á næstkomandi vertíð, nema svo verði gert, og þetta býst ég við, að flestir geti fallizt á, sem um það mál hugsa. Eins og ég gat um í gær, þá er varla hægt að búast við því, að fiskverðið fari hækkandi. Ég hygg, að flestir geri ráð fyrir, að það sé komið á hámarkið og við megum frekar vænta þess, að það fari eitthvað að draga úr verðinu en að það hækki. Mér nægir alveg að vitna til ummæla hans eigin flokksmanna um dýrtíðarmálin, því að þeir eru flestir orðnir á alveg sama máli og við í þessu efni. Meðan flokkur hans var keyrður áfram af kommúnistum 1942, þá sneru þeir við blaðinu, en nú eru þeir aftur komnir á réttan kjöl, og eins og hæstv. fjmrh. lýsti yfir í fyrra og líka við þessar umr., þá er nú ekki hægt að ganga lengra í þessa átt. Hv. frsm. var með ýmsar árásir í garð framsóknarmanna, eins og ég gat um áðan. M. a. gat hann um það, að nú væri svo komið, að Pálma Loftssyni, — hann fór að blanda honum inn í þessar umr., ég veit ekki af hverju, — hefði misheppnazt einhver kaup á varðskipum, sem hann hefði átt að standa fyrir. Það kann vel að vera, að svo sé, ég skal engu um það spá, það mál er í rannsókn nú, og það er alveg óvíst, hvort nokkur skaði þarf að vera á þeim kaupum. En þetta kemur Framsfl. ekki nokkurn skapaðan hlut við. En þetta sýnir, ef svo er eins og hv. frsm. getur um, hvað mikið lánleysi og giftuleysi fylgir öllu þessu nýsköpunarfargani hæstv. ríkisstj., að jafnvel þegar þeir velja ágæta menn, sem hafa reynzt happadrjúgir í störfum fyrir ríkið, þá er eins og búið sé að snúa við blaðinu, og allt, sem þeir gera, verður til óheilla fyrir land og þjóð. Þessi maður, Pálmi Loftsson, er lengi búinn að vera starfsmaður ríkisins og hefur fengizt við skipakaup fyrir þess hönd, og ég held, að það sé alþjóðar álit, að hans starf hafi heppnazt mjög vel.

Það er ekki af viljaleysi, hvorki hjá hæstv. ríkisstj.fjvn., að svona fer, að við verðum að skila fjárl. nú, þrátt fyrir okkar samþykkt í n. og góðan vilja, með stórkostlegum greiðslu- og rekstrarhalla. Það kemur nokkuð til af því, eins og okkar fyrirvari gat um, að það er ekki annað hægt. Það er komið svo fyrir okkur, eins og hæstv. fjmrh. gat um áðan, að það er ekki hægt að spenna bogann hærra með skatta, tolla og álagningar, og þá verður að grípa til lána til þess að geta haldið uppi framleiðslu í landinu. Það er eina úrræðið, sem er hægt að grípa til, þrátt fyrir það, að aldrei hefur verið mokað eins miklu af sköttum og tollum í ríkissjóð og nú undanfarin ár, en samt er svo komið, að það er ekki hægt að láta fjárl. ná saman. Ef á að halda uppi svipuðum framkvæmdum og undanfarið, þá verður að grípa til lána. Ég býst við, að það verði mörgum ógeðfellt, þó að kannske sé ekki annars úrkosta.

Hv. frsm. gat um nokkrar till., sem framsóknarmenn hefðu verið ósammála um, og er það ekki nema rétt, og skal ég minnast á eitt atriði, þar sem farið er alveg inn á nýja braut. Það hefur verið tekin upp sú nýja regla að flytja á 20. gr. milljónaútgjöld, svo sem til flugvallagerðar, skólabygginga og annars slíks, sem alltaf hefur verið á viðkomandi greinum fjárl., en er nú sett á 20. gr., ég vil segja, til þess að villa útkomu fjárl. Það er tekið sem „eignahreyfingar, út,“ en það hefur ekki verið venja á undanfarandi fjárl. að taka inn á þá gr. nema þær framkvæmdir, sem hafa gefið tekjur á móti. Nú er þessu viðhorfi breytt, og það skekkir mjög útkomu fjárl. að setja alla hluti, sem einn og er aðeins til þess að rugla enn þá meir. Ég lagði til, að þetta yrði meira sundurliðað, en fékk því ekki ráðið. — Það getur verið, að ég hafi einhverju gleymt, en vil ekki tefja umr. meir nú.