08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

16. mál, fjárlög 1946

Bjarni Benediktsson:

Ég vil leyfa mér að bera fram tvær litlar brtt. Önnur er varðandi hækkun á framlagi til íþróttasjóðs upp í eina millj. kr. Þessi till. er miðuð við það, að sjóðurinn geti lagt á móti bæjarsjóði Reykjavíkur við framkvæmdir á hinu fyrirhugaða íþróttasvæði í Laugardalnum. Bæjarsjóður hefur þegar lagt fram nokkur hundruð þús. kr., en til þess að hægt sé að halda áfram, er þörf á miklum fjárveitingum. Bæjarsjóður vill fá 2/5 úr ríkissjóði á móti 3/5 úr bæjarsjóði, og hefur íþróttaráð samþ. það. En til þess að þetta geti orðið, verður að hækka framlag til íþróttasjóðs, því að annars yrði að setja aðrar framkvæmdir í þessum málum aftur, og gæti það orðið til mikils tjóns. — Ég vil benda á, að íþróttasjóður hefur lítið lagt til Reykjavíkur, þegar athugað er, að 1/3 hluti allra landsmanna er hér saman kominn. Sýnist því hart, ef Reykjavík þarf lengi að bíða framlags úr íþróttasjóði. En hvað sem framlagi ríkissjóðs líður, verður þessum framkvæmdum hraðað, og vænti ég, að Alþingi sýni þá sanngirni að verða við þessari beiðni.

Hin brtt. mín er varðandi hækkun á styrk til „Sumargjafar“ úr 70 þús. kr. upp í 150 þús. kr., þannig að bæjarsjóður greiði tvöfalt á móti ríkinu. Það hefur sýnt sig, að starfsemi þessi verður að fá framlagið hækkað til þess að geta starfað. Bæjarsjóður hefur orðið að greiða meira en 2/3 af kostnaði, og má gera ráð fyrir að með aukinni starfsemi verði þessi upphæð, 150 þús. kr., lítil í framtíðinni. Það þarf ekki frekar um þetta að ræða, því að viðurkenning og nauðsyn á þessari starfsemi er öllum kunn.

Þá vil ég mæla með hækkun á fjárveitingu til gagnfræðaskóla Reykvíkinga í 100 þús. kr. og áskil mér rétt til að flytja hækkunartill. við 3. umr. Þá vil ég minna á, að framlag til gagnfræðaskólabyggingar er of lágt, 900 þús. kr. Hér í bæ er gagnfræðaskóli í byggingu, sem þarf að hraða. Það má gera ráð fyrir, að hann kosti 2–3 millj. kr., og mest af þessari upphæð þarf að greiðast á næsta ári. Af þessu er augljóst, að 900 þús. kr. er allt of lítið. Ég vildi ekki flytja brtt. við þessa umr., en áskil mér rétt til þess við 3. umr. Ég tel miklu meiri nauðsyn að hraða þessari byggingu en byrja á menntaskóla, þó að það sitji sízt á mér að draga úr því. En ég tel fjarri lagi að láta fjárveitingu til heimavistar við menntaskólann á Akureyri ganga fyrir.