23.04.1946
Efri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (3032)

205. mál, beitumál

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Á síðasta Alþ. var þetta frv. hér til umr. og var þá af þessari d. gerbreytt, eins og sjá má á þskj. 534 frá 1944. Nú hefur þetta mál komið hér eins og það var upphaflega borið fram. Sjútvn. hefur ekki viljað gera breyt. á frv. Hins vegar tel ég meðferð málsins ekki æskilega, þar sem um er að ræða svo mikið fé úr ríkissjóði, því að ég tel ekki þörf fyrir ríkið að grípa inn í þessi mál nú, þar sem nú munu vera til um 87 frystihús með þeim, sem nú er að verða fulllokið. Ég vil því leyfa mér að bera fram rökst. dagskrá ásamt þm. Dal. (ÞÞ), svo hljóðandi :

„Með því að fiskiþingið, sem haldið var á þessum vetri, samþykkti svo hljóðandi tillögur um beitumál:

„Fiskiþingið telur sjálfsagt, að Fiskifélagið haldi áfram skýrslusöfnun um frystingu síldar til beitu. Hins vegar telur þingið ekki ástæðu til þess, að ríkið stofni eða starfræki frystihús til beitufrystingar, enda hefur aðstaða til beituöflunar batnað við aukningu frystihúsanna,“

og með því enn fremur, að upplýst er, að ekki færri en 76 frystihús eru nú starfandi víðs vegar á landinu, og auk þess verið að koma upp mörgum nýjum frystihúsum til viðbótar, þykir deildinni ekki nauðsyn bera til þess, að ríkissjóður stofni til áhætturekstrar í sambandi við frystingu beitu, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég mun ekki ræða þessa rökst. dagskrá, hún skýrir sig sjálf. En ef svo færi, móti vonum mínum, að þessi rökst. dagskrá yrði felld, vil ég leggja fram brtt. til vara. Hún er við 2. gr. frv. og er á þá leið, að í stað orðanna „Alþýðusambands Íslands“ komi: Landssambands íslenzkra útvegsmanna. — Finnst mér það vera eðlilegri og sanngjarnari skipan.

Ég skal svo ekki tefja umr. um þetta mál, en vil afhenda forseta þessar till.