18.02.1946
Neðri deild: 69. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (3050)

30. mál, gagnfræðanám

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað þetta frv. ýtarlega og rætt það á mörgum fundum. Hún hefur orðið sammála um að mæla með, að það yrði samþ. að meginefni til, en með nokkrum breyt., sem till. um eru prentaðar á þskj. 419. Einn nm., hv. þm. A.–Sk., hefur þó áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja enn frekari brtt. við frv. Ég skal í stuttu máli gera grein fyrir þeim breyt., sem n. hefur orðið sammála um að leggja fram.

Um brtt. undir tölul. 1 er það að segja, að þær eru sprottnar af einni rót, sem sé þeirri, að menntmn. er sammála um að samræma ákvæði þessa frv. annars vegar og frv. til 1. um fræðslu barna hins vegar, varðandi gagnfræðaráð, gagnfræðahéruð og gagnfræðakerfi, sem rætt hefur verið um í þessu frv., og hins vegar fræðsluráð, fræðsluhéruð og skólakerfi, sem um ræðir í frv. um fræðslu barna. Það hefur þegar verið gerð grein fyrir þessari ákvörðun n. í sambandi við frv. um fræðslu barna, og þarf ekki að rifja það upp nú. Ég vil þó aðeins benda á, að samkv. því, sem menntmn. leggur til, verður landinu skipt í fræðsluhéruð, þar sem megingrundvöllurinn eru sýslufélögin og bæjarfélögin. Þó er leyfilegt að sameina sýslufélög eða hluta úr sýslufélagi öðru sýslufélagi í þessu efni. Í hverju fræðsluhéraði skal vera starfandi fræðsluráð, og hverju fræðsluhéraði verði skipt í skólahverfi, og er miðað við, að í hverju skólahverfi sé starfandi einn barnaskóli. Fræðsluráð fá samkv. þessum till. það hlutverk að hafa á hendi forustu menningarmála í sínu héraði, og tekur valdsvið þeirra og skylda bæði til barnafræðslu, gagnfræðanáms og húsmæðrafræðslu. Menntmn. var sammála um, að rétt væri að samræma þessi ákvæði þessara tveggja frv. um þetta efni og taka ákvæði um skiptingu landsins í fræðsluhéruð og skólahverfi og um fræðsluráð inn í frv. um fræðslu barna og vitna svo til þeirra ákvæða í frv. um gagnfræðanám, og enn fremur í frv. um húsmæðrafræðslu. Átta fyrstu brtt. n. eru sem sé afleiðing af þessari meginákvörðun menntmn. Ég þarf því í raun og veru ekki að rekja þær í einstökum atriðum, en vil þó benda á, að í 2. brtt. er gert ráð fyrir þeim möguleika, að fleiri en eitt fræðsluhérað standi saman um einn gagnfræðaskóla. Það er ekki gengið út frá því með þessari till. í þessum tilfellum, eins og áður var í frv., að héruðin þyrftu að sameinast, heldur megi tvö eða fleiri fræðsluhéruð sitja saman að einum og sama skóla, og eru svo nánari fyrirmæli um skipun skólanefnda í þeim tilfellum. — Þetta þótti réttara, að binda sig við barnaskólakerfið hvað þessa skiptingu snertir, en ef svo færi, að það þætti tímabært að setja upp gagnfræðaskóla í ýmsum héruðum, þá að heimila, að tvö eða fleiri fræðsluhéruð stæðu saman að einum skóla.

Þá er 7. brtt. umorðun á 10. gr. í samræmi við það, sem ég hef áður sagt. En ég vil sérstaklega benda á, að tekið er inn í þessa gr., sem er meiningin, að verði meginregla, að í sveitum fari þessi lögboðna unglingafræðsla fram í sambandi við barnaskóla. Þetta er tekið fram í síðustu mgr. þessarar gr.

Ég sný mér svo að þeim brtt., sem ekki eru afleiðing af þessari meginstefnu menntmn. Kemur þá fyrst til athugunar 9. brtt., við 19. gr. frv., sem er fólgin í því, að síðasti málsl. gr. falli niður. En þessi málsl. er þannig: „Með unglingaprófi lýkur skyldunámi í þeim sveitarfélögum, þar sem ekki er lengra skyldunám.“ Þessi setning er sjáanlega með öllu óþörf, og þykir því rétt, að hún falli niður.

Þá er 10. brtt. við 22. gr. frv. Sú brtt. er í því fólgin, að niður falli orðin : „Próf bóknámsdeildar veitir auk þess rétt til inngöngu í menntaskóla og hliðstæða skóla“ . . . Þetta er lagt til að falli burt, vegna þess að menntmn. fylgir þeirri meginstefnu í sambandi við frv. þetta að gera sem minnstan mun á bóknáms- og verknámsdeild. Enda kom það í ljós við nánari athugun, að það er með öllu óþarft að taka þetta fram í þessu sambandi, sem þarna er gert í frv. Og sérstaklega vil ég undirstrika það, að það er alls ekki sjálfsagt, að bóknámsdeildarpróf veiti öll sömu réttindi og verknámsdeildarpróf og auk þess rétt til inntöku í menntaskóla. Mér þykir hitt eðlilegt, að í l. um iðnskóla, búnaðarskóla og sjómannaskóla sé það tekið fram, að verknámsdeildarpróf sé inntökuskilyrði um þá skóla. Og ef svo færi, sem mér þykir rétt að yrði, þá er þetta ákvæði 22. gr. með öllu óeðlilegt.

Næst kemur til athugunar 11. brtt., við 26. gr. frv. Það er breyt., sem í sjálfu sér er bein afleiðing af þeirri breyt., sem gerð var í hv. þd. á frv. um skólakerfi og fræðsluskyldu. Þar var sem sé breytt til þess horfs að ganga út frá því sem meginreglu, að gagnfræðaskólar sveitanna eða héraðsskólar yrðu tveggja ára skólar. Og í samræmi við það er þessi orðabreyt., sem hér er gerð og felur það eitt í sér, að þessir skólar séu tveggja ára skólar og starfi samkv. námsskrá tveggja efstu bekkja gagnfræðaskólanna.

Þá er brtt. við 27. gr. frv., þar sem lagt er til, að niður falli orðin: „þó með þeim takmörkunum um hæð prófseinkunna, sem settar verða í reglugerð um bóknámsdeild.“ Eins og frvgr. var úr garði gerð, er gert ráð fyrir, að börn, sem lokið hafa barnaprófi, eigi rétt til inntöku í gagnfræðaskólana, í verknáms- eða bóknámsdeild, þó eins og þarna segir, með þeim takmörkunum um hæð prófseinkunna, sem settar verða í reglugerð um bóknámsdeild. Þetta leggur menntmn. til, að falli niður. Hún er þeirrar skoðunar, að börn, sem lokið hafa barnaprófi, öðlist um leið rétt til inngöngu í gagnfræðaskóla, jafnt í bóknámsdeild sem verknámsdeild, og er meiningin, að munur þessara tveggja deilda sé sem minnstur og að koma ekki á þeim blæ, að það sé fýsilegri kostur að ganga í bóknámsdeild. Báðar deildir eru eftir brtt. jafnopnar, og það verði þá að sýna sig, þegar á skólabrautina er komið, hvort menn duga til þess náms, sem þeir hafa valið sér.

Næst er smábrtt, við 33. gr. frv., um það, að á eftir orðunum: „setur skólastjórum“ komi: og kennurum. — Þetta var gert samkv. ábendingu skólastjórafundar gagnfræðaskólanna og héraðsskólanna, sem haldinn var í Reykjavík í sumar. Sú ábending er eðlileg og felur í sér, að fræðslumálastjórn skuli setja bæði skólastjórum og kennurum erindisbréf.

Þá er brtt. við 34. gr. frv., um að síðari málsl. gr. falli burt. Sá málsl. er svo: „Verði skólastjóri og skólanefnd ekki á eitt sátt, ber að líta á tillögur skólastjóra sem forgangstillögur,“ þ. e. a. s., þegar skólastjóri og skólanefnd gera till. til fræðslumálastj. um val kennara. Þetta ákvæði frv. finnst menntmn. með öllu óeðlilegt. Úr því að báðir þessir aðilar eiga að hafa tillögurétt, þá sýnast ekki rök fyrir því, að till. annars þess aðila skuli metnar forgangstill., ef um ágreining er að ræða.

Þá er brtt. við 35. gr. frv., varðandi námsstjóra. Í frv. er gert ráð fyrir að ráða námsstjóra fyrir gagnfræðastigið, og skuli þeir ekki vera færri en tveir. Menntmn. þótti sem þarna væri gefin of rík og víðtæk heimild til fræðslumálastj. og þótti sjálfsagt að kveða á í l. um það, hve margir námsstjórarnir mættu vera, og fannst, að þeir mættu vera tveir, og þyrfti þá lagabreyt. til þess, að þeir yrðu fleiri.

Þá er næst brtt. við 37. gr. frv., um það, að síðari málsgr. falli burt. Það er sams konar brtt. og sú, sem ég síðast lýsti, því að í þessari málsgr., sem hér er lagt til, að falli burt, segir: „Verði námsstjórar og skólanefnd eigi á eitt sátt, ber að líta á tillögur námsstjóra sem forgangstillögur.“ Þetta þótti menntmn. óeðlilegt og vildi fella þetta ákvæði niður. Bæði námsstjórar og skólanefndir hafa rétt til þess að gera till. um val skólastjóra, og er þá að sjálfsögðu eðlilegast, að þeirra till. séu jafnréttháar.

Þá er brtt. við 38. gr., varðandi réttindi kennara við skóla gagnfræðastigsins. Brtt. er fólgin í því einu að bæta þarna inn í orðinu „skólanefnd“. Eins og þetta var í frv. upphaflega orðað, var það þannig: „Nú sækir enginn, sem fullnægir þessum skilyrðum, um lausa kennarastöðu, skal þá fræðslumálastjórn leitast við að fá til mann, er hún treystir . . .“ Eins og kunnugt er, fjalla skólanefndir yfirleitt um val kennara, gera sínar till. um það og leitast við að fá kennara að skólum, eftir því sem nauðsyn krefur. Það sýnist því óeðlilegt, að skólanefnd væri ekki með í ráðum, þegar svo stendur á sem gert er ráð fyrir í 3. málsgr. 38. gr.

Næst í röðinni er brtt. við 39. gr. frv. Fjallar hún um það, hversu fækka megi kennslustundum kennara, er náð hafa 55 eða 60 ára aldri. Í frv. var ráðgert, að fækka mætti skyldustundum 55 ára kennara úr 30 niður í 24, en 60 ára kennara niður í 18. Menntmn. féllst á að breyta þessu þann veg, að í stað 24 komi 25, en í stað 18 komi 20. Þá hefur. einnig verið aukið við greinina samkv. óskum og till. skólastjórafundarins. Við greinina bætist: eða taka tillit til slíkra aukastarfa, þegar ákveðin er lengd árlegs starfstíma kennara. Þetta virðist eðlilegt og sanngjarnt. Samkv. launal. þurfa kennarar að kenna í 9 mánuði til að fá full laun. Fyrir hvern mánuð, sem skemur er kennt, dregst frá 1/9 af fullum launum. En ef kennari vill leggja meira á sig, þá er heimilt að meta það og leggja það við starfstímann í stað þess að greiða aukaþóknun. Auk þess er kennslustundin ákveðin 45 mínútur. Nauðsynlegt er að taka þetta skýrt fram, því að á lengd kennslustunda er nú allmikil ringulreið. Eðlilegt er einnig, að kennslustundir séu styttri í barnaskólum en öðrum, enda er ráð fyrir gert, að kennslustund í barnaskólum vari 40 mínútur, en 45 mín. í unglingaskólum. Og við 45 mínútur miðast 30 kennslustundir á viku. Ef breyt. yrði á lengd kennslustundarinnar, mundi skyldustundum fjölga eða fækka skv. breyt.

Þá er lagt til, að 40. gr. falli brott. Menntmn. tók greinina til athugunar og taldi hana óþarfa. Um flutning embættismanna milli embætta ræðir í stjórnarskránni, og er grein þessi því gagnslaus.

Þá er brtt. við 41. gr. frv., og má segja, að hún kveði nánar á um það, sem sagt er í frv. Skylt er að veita kennurum orlof eftir ákveðið starfstímabil til að auka þekkingu sína, en senda verður kennari fullnægjandi greinargerð með árs fyrirvara til fræðslumálastjóra.

Við 44. gr. frv. er brtt. skv. ósk skólastjórafundarins. Orðin: „Kennarar dæma hver í sinni grein um úrlausnirnar ásamt prófnefnd eða öðrum fulltrúum fræðslumálastjórnar“ — falli niður. Skólastjórafundinum virtist ekki æskilegt, að kennarar dæmdu um úrlausnir nemanda við landspróf. Bezt væri, að kennarar væru lausir við það, til þess að tryggja óvilhallan dóm.

Þá er brtt. við 45. gr. frv., en þar segir svo: „Skólanefndir ráða starfsmenn skólanna, aðra en kennara, samkvæmt tillögum skólastjóra.“ Skv. frv. er það verksvið skólanefndar að ráða starfsmenn skólans. Þessu ákvæði er breytt þann veg, : Skólastjóri ræður starfsmenn skólanna, aðra en fasta kennara, með samþykki skólanefndar. — Þetta virðist eðlilegt og meira í samræmi við venjur, þar sem skólastjóri ber allan veg og vanda af skólahaldinu. Hitt er rétt, að skólastjóri hafi ekki óskorað vald um ráðning starfsmanna, heldur þurfi samþykki skólanefndar að koma til.

Við 51. gr. er brtt., sem fellir niður orðin: „Þau skulu og sjá um viðhald skólahúsa og skólamuna.“ Þetta sýndist vera algerlega óþarft í frv. Sams konar brtt., er við 52. gr.

Við 55. gr. er brtt., að á eftir orðunum „tekju- og eignarskatt íbúanna“ komi þessi viðbót: eftir meðaltali fimm síðustu ára. — Hv. þm. A.-Sk. hefur gert nokkra grein fyrir þessu í sambandi við barnafræðslufrv. Sem sagt, það hefur nokkuð borið á því hin síðari ár, að umfangsmikil félög hafa valið sér heimili í sveitum, þar sem skattar hafa verið tiltölulega lágir. Þetta hefur orsakað það, að orðið hefur óeðlileg hækkun á tekju- og eignarskatti í eitt eða tvö ár í sumum sveitum. Þess vegna þótti betra að miða við meðaltal af tilteknu árabili, og voru 5 ár álitin hæfileg.

Brtt. við 56. gr. er samin samkv. till. skólastjórafundarins í sumar. Það þótti ekki hyggilegt að hafa engan skólasjóð. Bent var á, að eðlilegt væri, að nemendur greiddu húsaleigu. Einnig mundu koma til greina fleiri tekjuliðir, eins og ágóði af veitingasölu og ýmislegt annað það, er áhugamenn skólans vildu til vinna. Allt þetta hefur verið rætt við mþn. og hefur nú verið tekið hér upp. Hér er því ráð fyrir gert að hafa sérstakan skólasjóð, þar sem í renna allar tekjur, sem skólanum áskotnast, og hann hefur það hlutverk að greiða rekstrarkostnað skólans, annan en laun kennara. En hrökkvi þetta ekki fyrir rekstrarkostnaði, verður ákveðnu gjaldi jafnað niður á hlutaðeigandi sveitarfélög skv. reglugerð, sem ég hef áður minnzt á. En ríkissjóður endurgreiðir ¼ hluta þess, sem á vantar, að fengnum fullnægjandi skýrslum.

Brtt. við 57. gr. er einnig skv. till. skólastjórafundarins. Í frv. var svo til ætlazt, að 25 nemendur kæmu á hvern kennara. Skólastjórafundurinn benti á, að tala þessi gæti verið of há, ef um verklegt nám væri að ræða, en hins vegar kæmi það ekki að sök við bóklegt nám. Því þótti rétt að tiltaka töluna 20–30 nemendur. B-liður er svo bein afleiðing af fyrri breytingu.

Þá er næst brtt. við 59. gr. frv. Þegar mþn. skilaði þessu frv. til þáv. menntmrh., Einars Arnórssonar, var n. ekki búin að fjalla um, hversu frv. varðandi húsmæðraskóla yrði. En er það kom fram, þá sást, að ákvæði 59. gr. þessa frv. var ekki í samræmi við það. Fundir kvenna hafa einnig fjallað um málið. En rétt þótti að halda meginkjarna þessarar greinar, ef kostnaður gagnfræðahéraðs fer 15% fram úr meðalkostnaði, þá skal undir vissum kringumstæðum greiða úr ríkissjóði það, sem fer fram yfir meðalkostnað. Mþn. fannst eðlilegt að láta skólana njóta þessara réttinda, en henni fannst ekki rétt að leggja gjald á sveitarfélög til þessa, heldur að ríkið tæki þátt í kostnaðinum, þar sem skólarnir væru sóttir úr fleiru en einu héraði.

Brtt, við 60 gr. hljóðar svo : „Skólar gagnfræðastigsins skulu vera sérstakir skólar og starfa í eigin húsnæði, þar sem því verður við komið. Í skólahverfum í sveitum skal þó að jafnaði starfa unglingaskóli í sambandi við barnaskólann. Má þá fela skólastjóra barnaskólans að hafa einnig forstöðu unglingaskólans.“ — Þetta þykir rétt og í rauninni sjálfsagt, að unglingaskólar starfi í sambandi við barnaskólana. Þá eru næst till. um, að 61. og 62. gr. frv. falli niður, og er ekki þörf að skýra það nánar.

Brtt. við 67. gr. er svo: „svo og fjórðungs húsmæðraskólar“ falli brott. Er þetta í samræmi við það, sem ég hef áður sagt.

Brtt. við 70. gr. fellir hana niður. Þar er ákveðið, á hvaða árabili lög þessi skyldu koma til fullra framkvæmda.

Þá hef ég lokið við að lýsa brtt. menntmn. Jafnvel þótt n. hafi lagt mikla vinnu í endurskoðun frv., þá má vel vera, að enn megi laga betur. Ég vil lýsa yfir því fyrir hönd n., að hún mun fúslega taka til athugunar brtt. og aðrar ábendingar, sem fram kunna að koma.