21.02.1946
Neðri deild: 72. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

30. mál, gagnfræðanám

Skúli Guðmundsson. Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls voru gerðar á frv. nokkrar breyt. eftir till. hv. menntmn. Ein af þeim breyt. var á þeirri frvgr., sem nú er sú 54. og er í kaflanum um fjármál skólanna o. fl. Efni þeirrar gr. var upphaflega í 56. frvgr., þegar það var lagt fyrir d. Þar var ákveðið, að fastir kennarar við skóla gagnfræðastigsins skyldu vera embættismenn ríkisins og taka laun úr ríkissjóði samkv. launalögum. Þá var og ráð fyrir gert, að annar rekstrarkostnaður greiddist þannig, að hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélög greiddu 3/4 hluta, en ríkið ¼ hluta. En við 2. umr. málsins var þessu svo breytt, að nú er gert ráð fyrir, að hlutaðeigandi sveitarfélög greiði í skólasjóð það, er á vantar, að tekjur hans hrökkvi fyrir útgjöldum, en síðan skuli ríkissjóður endurgreiða fjórða hluta þess fjár, og rennur sú endurgreiðsla í skólasjóð. Hér er mikil breyting að mínu áliti. Nú á ríkissjóður að greiða ¼ hluta af því, sem til vantar, og þó ekki að fullu. Ég tel hér of langt gengið og of miklu velt yfir á sveitarfélögin. Við hv. þm. Borgf. flytjum hér brtt. við 54. frvgr., og munum við afhenda hæstv. forseta hana skriflega. En hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stað orðanna „Að svo miklu leyti . . . á næsta ári“ komi: Að svo miklu leyti, sem þessar tekjur hrökkva ekki fyrir gjöldum skólasjóðs, greiða hlutaðeigandi sveitarfélög sjóðnum helming þess, sem á vantar, eftir sömu reglum og stofnkostnaður er greiddur, en ríkissjóður greiðir hinn helminginn.“ Samkv. þessari till. verða útgjöld ríkissjóðs nokkru meiri, en þau yrðu hins vegar meiri. ef frv. yrði samþ. óbreytt í upphaflegri mynd sinni.

Ég ætla að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt. og vænti þess, að hv. d. sjái sér fært að fallast á hana.