21.02.1946
Neðri deild: 72. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (3057)

30. mál, gagnfræðanám

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Brtt. þær, sem hv. þm. A.-Sk. flytur hér á þskj. 435, eru okkur kunnar. sem sitjum í menntmn. þessarar hv. d. Hv. þm. lagði þær fram í n., en hún vildi ekki fallast á þær. Kvaðst hann þá mundu bera þær fram í hv. d. — Ég mun nú taka þær til meðferðar.

1. brtt., við 10. gr., er í því fólgin að breyta til muna verksviði skólanefnda. — Í 10. gr. frv. segir svo: „Verkefni þeirra (þ. e. skólanefnda) er einkum : . . . c) að láta fræðslumálastjórn í té rökstutt álit á umsækjendum um kennara og skólastjórastöður ásamt tillögu um, hver skuli valinn, svo og vara- og þrautavaratillögu, ef nægilega margir sækja um stöðurnar.“

En hv. þm. A.-Sk. leggur til að orða svo c-liðinn: „að ráða skólastjóra og kennara úr hópi umsækjenda. Þó þarf samþykki fræðslumálastjórnar um ráðning þeirra.“

Þessa brtt. gat meiri hl. n. ekki fallizt á. Rök þess eru þessi : Menn þeir, er hér um ræðir, eru starfsmenn ríkisins, og er eðlilegt, að veitingarvaldið sé þá hjá ríkisvaldinu sem endranær. Hv. þm. getur þess, að skólanefndir héraðsskólanna hafi hingað til raunverulega ráðið mestu um val kennara og skólastjóra. Rétt er nú þetta. En nú er gert ráð fyrir að mennirnir verði embættismenn ríkisins og fái laun samkv. launalögum. Þegar þessa er gætt, virðist mér einsætt og eðlilegast, að ríkið ráði þessa skólamenn. Þetta er fyrra atriðið. Ég verð því að mæla á móti þessari brtt. — Ég vil líka benda á, að einstakar skólanefndir hafa engan veginn sömu aðstöðu til að afla sér æskilegrar vitneskju um mennina og fræðslumálastjórnin sjálf, sem hefur betra yfirlit, og er þá að sjálfsögðu eðlilegra, að veitingarvaldið sé í höndum hennar. Þetta er síðara atriðið.

Ef hv. þm. óttast, að meir muni pólitískra veitinga gæta hjá ríkisvaldinu en heima í héraði, þá er það mitt svar, að mér virðist það algerlega vera talað út í hött. Það er nefnilega alkunna, að hinn svæsnasti ágreiningur hefur oft risið úti um land við val skólanefnda á mönnum í kennara- og skólastjórastöður. — Læt ég svo útrætt um þetta mál.

2. brtt. fjallar um eignarrétt á skólahúsum gagnfræðastigsins. Í frv. er gert ráð fyrir, að þau séu sameign ríkisins og hlutaðeigandi sveitarfélaga eftir réttum hlutföllum. Mér finnst þetta rétt og eðlilegt. Samkv. þessu frv. er rekstur bygginganna í höndum skólanefndanna. Ef nú skólahúsin þykja óhentug, getur komið til mála að selja þau. Eldsvoði getur og komið til greina, þ. e. að skólabygging eyðileggist af eldi. Loks getur komið fyrir, að skóli leggist niður. Eðlilegt virðist vera, að andvirði seldra eigna eða þeirra, er eyðilagzt hafa, skuli bæði renna til ríkis og héraða og skiptast milli aðila í sama hlutfalli og stofnkostnaður var greiddur, en fé þetta skuli síðan ganga til endurbygginga skólanna. Ég álít það ætti að vera regla, að skólahús væru sameign ríkis og þeirra héraða, sem leggja fram fé til þeirra. Þetta virðist vera einfalt mál. Hv. þm. segir, að þessu sé annan veg farið með barnaskólahúsin. En þetta er ekki viðhlítandi samanburður.

Hv. þm. drap á, að hann teldi efamál, hvort þetta ákvæði væri í samræmi við stjskr. Vil ég í þessu sambandi benda honum á 62. gr. frv. Samkv. l. er ekki hægt að neyða neinn af nústarfandi skólum til að falla undir ákvæði þessa frv., nema forráðamenn þeirra séu því samþykkir. Hér er því alls ekki um eignarnám að ræða. Af þessum ástæðum, er ég nú hef greint frá, er ég með því að mæla gegn þessari till.

Um 3. brtt. er það að segja, að hún er bein afleiðing af hinni fyrri, þ. e. 2. brtt. Er ekki um annað að ræða en að annaðhvort verða báðar samþ. eða báðar fellar.

Þá kem ég að skrifl. brtt., varðandi 54. gr. frv., en hv. þm. V.-Húnv. hefur nú lagt hana fram. Ég tek þegar í stað fram, að ég mæli með þessari brtt. Í 54. gr. er mælt fyrir um öflun rekstrarfjár. Í fyrstu var það álit mitt, er rætt var um þetta í mþn., að eðlilegt væri, að ríkið bæri kostnaðinn að öllu leyti, eins og nú væri málum háttað. En mér var þá bent á, hver nauðsyn það væri, að sveitarfélögin hefðu áhuga á skólunum og því, er þá varðaði, en slíkan áhuga væri ekki auðvelt að vekja, auka og halda við, nema þau tækju einnig þátt í kostnaðinum, bæru sinn hluta. Það varð síðan að samkomulagi í n., að þessu skyldi svo háttað sem upphaflega var í frv. greint, þ. e. a. s., að ríkissjóður endurgreiddi ¼ hluta kostnaðarins. Þannig var það í upphafi. En síðan var haldinn fundur héraðs- og gagnfræðaskólanna, og kom þar fram gagnrýni. Héldu skólamenn því fram, að hingað til hefðu ýmsir skólar leitazt við að afla sér tekna af fremsta megni sjálfir, og lögðu þeir ríka áherzlu á fjárhagslegt sjálfstæði skólanna. Samkv. till. þessara manna voru ný ákvæði tekin upp í 54. gr., og varð niðurstaðan yfirleitt sú, sem nú sést í frv. (um rekstrarkostnað, endurgreiðslu ríkissjóðs o. fl.) — Flm. brtt., hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. Borgf., telja, að héruðunum sé um of íþyngt með þessari breyt. Með brtt. þeirra verður meginatriðið það, að kostnaðinum er skipt til helminga. Ég mæli með þessu. Einnig vil ég benda á aðra smábreyt. um uppgerð skólasjóðs. En hún er sú, að hann geri, þegar hann er gerður upp, kröfu til helmings frá ríkinu, en helmings frá sveitarfélaginu, er í hlut á. Á hinn bóginn gerði hann áður kröfu til sveitarfélagsins eins. Þetta er upphaflega skoðað sem eins konar aðhald, svo að séð sé um, að samræmi fáist við önnur ákvæði l. — Ég tel ekki ástæðu til að halda í þetta ákvæði og get fallizt á brtt. hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. Borgf. hvað þetta snertir.

Ég hef svo ekki meira um þetta mál að segja, en vil endurtaka það, að ég mæli í gegn brtt. hv. þm. A.-Sk. á þskj. 435 og tel mig þar geta talað fyrir munn meiri hl. menntmn. Því að af þeim, sem á fundi voru í n., þegar málið var afgr., vildi enginn mæla þeirri brtt. liðsyrði, nema hv. flm. sjálfur. Hins vegar mæli ég með brtt. frá hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. Borgf., en ekki fyrir hönd menntmn., því að n. hefur ekki haft aðstöðu til að líta yfir þessa brtt., enda finnst mér þess ekki þörf. Því að hér er um að ræða, hvernig á að skipta þessu milli ríkis og hlutaðeigandi sveitarfélaga, þ. e. a. s. greiðslu kostnaðar við skólahald, að svo miklu leyti sem tekjur, sem getið er í 54. gr., hrökkva ekki til. Og það er ekki menntmn., heldur þingsins að ákveða það, hvort réttara sé að skipta þessum gjöldum eftir þessum eða hinum hlutföllunum.