21.02.1946
Neðri deild: 72. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (3058)

30. mál, gagnfræðanám

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. hefur nú gert nokkrar aths. út af þeim brtt., sem ég hef leyft mér að flytja í máli því, er hér liggur fyrir. Sá hv. þm. leggur gegn því, að þessar brtt. verði samþ., og kom mér það að vísu ekki á óvart, því að ég hafði lagt þær áður fram í menntmn. og ekki fengið þær samþ. þar. Rök hv. þm. gegn því, að 1. brtt. mín, um skipun kennaranna við gagnfræðaskólana, sé eðlileg, eru í fyrsta lagi þau, að kennarar verði hér eftir embættismenn ríkisins, og í öðru lagi þau, að það verði ekki unnt að girða fyrir pólitísk átök og togstreitu, þó að skólanefndir fái þarna meira íhlutunarvald en frv. gerir ráð fyrir, eins og það er orðað nú.

Þegar litið er á þessar röksemdir, verður ljóst, að þær eru ekki sterkar. Það er að vísu rétt hjá hv. þm., að kennarar verða hér eftir skoðaðir sem embættismenn ríkisins. En af því þarf ekki endilega að leiða það, að það sé sjálfsagt, að ríkið eitt og enginn annar eigi að skipa þessa embættismenn. Þeir eru ekki aðeins embættismenn ríkisins. Þeir eru um leið embættismenn fólksins í héruðunum, þar sem þeir starfa, og menn, sem eðlilega hafa mikil samskipti við fólk í þeim héruðum, sem þeir starfa fyrir. Og eðlilega hafa þeir, vegna stöðu sinnar og hæfni, skilyrði til þess, að þeir hafi íhlutun um félagsmál og ýmis framfaramál, sem þessi héruð varða. Þess vegna er það á allan hátt eðlilegt, að vald skólanefndanna um ráðningu þessara manna sé mikið, þannig að þær hafi nokkuð mikið frelsi um ráðningu þeirra, innan þeirra takmarka þó, að þar komi aðeins þeir menn til greina, sem hafa fullnægjandi menntun og séu að dómi fræðslumálastjórnar færir um að inna starf við skólann sómasamlega af hendi. Og ég vil minna á það hér í hv. þd., að það er ekki fordæmalaust um embættismenn ríkisins, að leitað sé álits fólksins um skipun þeirra. Ég minni á reglur, sem gilda um skipun prestanna hér hjá okkur. Um það efni gilda sérstök lög, og ákveðið er að efna beinlínis til kosninga um prestskjör í sóknum. Þar er málinu fyrst og fremst skotið undir úrskurðarvald fólksins, sem á að njóta starfskrafta þessara embættismanna. Og svo framarlega sem kjör prestanna nær því að uppfylla þau skilyrði, sem lög kveða á um, þá er ráðh. bundinn af því að fylgja vilja fólksins í þessu efni. Með þessari brtt. minni yrði sízt gengið lengra í þá átt að takmarka ákvörðunarrétt kennslumálaráðh. um veitingu kennaraembætta en gert er nú og gert hefur verið á undanförnum árum viðkomandi valdsviði kirkjumálaráðh. gagnvart skipun prestanna. Vel má vera, að dæmi finnist þess, að skólanefndir séu ekki gagnkunnugar öllum umsækjendum, sem sækja um kennarastöður. En ég hygg, að þær muni þá leita mjög eftir því að kynnast högum og starfhæfni þeirra manna, sem til greina geta komið við veitingu. Og oft er það svo, að þær þekkja mennina að meira eða minna leyti, sem um stöður þessar sækja, ekki aðeins próf og kennarahæfni, heldur og mannkosti og framkomu alla. Og það er eðlilegt, að hver sú nefnd, sem á að ráða fyrir héraðsbúa í þessum sökum, líti mjög á þá hlið málsins. Þá vil ég enn fremur benda á það, að um þetta fyrirkomulag skipunar er fengin nokkur reynsla. Það eru mörg ár síðan héraðsskólarnir tóku til starfa, og skipun kennara hefur verið hagað þar nákvæmlega eftir þeirri leið, sem brtt. mín fjallar um. Og brtt. mín er raunverulega uppprentun á orðalagi þeirra laga, sem nú eru í gildi um þessa skóla. Og mér er ekki kunnugt um, að nokkur óánægja hafi komið upp á undanförnum árum eða togstreita eða vandkvæði í héruðum, þar sem þessir skólar starfa, út af því að fylgja þessum reglum. Þjóðfélaginu er skipt í ákveðnar deildir, þar sem eru hreppsfélög og sýslufélög, sem hvert hefur ákveðinn fjárhag og sérstaklega úrskurðarvald um sín eigin mál. Þessi skipun er ævaforn og grundvölluð á því, að hver sé sínum hnútum kunnugastur og að sjálfs sé höndin hollust. Og ég hygg, að það opinbera stígi ekkert heillaspor með því að rýra þetta frelsi þessara félagsheilda, að svo miklu leyti sem það fer ekki í bága við hagsmuni þjóðfélagsins í heild. Og ég fæ ekki séð, að samþykkt brtt., sem hér um ræðir, geti valdið nokkurri röskun á störfum né hag þjóðfélagsins í heild.

Þá kem ég að 2. brtt. minni og þeim röksemdum, sem hv. þm. flutti fram gegn henni. Hv. 8. þm. Reykv. færir fram þær röksemdir, að það sé eðlilegt, að sú skipun verði hér upp tekin, að stofnanir, sem reistar eru með styrk frá ríkinu, skuli teljast sameign ríkisins og þeirra aðila, sem leggja fram stofnkostnað að öðru leyti. Það hefur oft komið fyrir, að skólahús verða ófullnægjandi og þurfi því á öðru nýju að halda, og sömuleiðis þarf að byggja ný skólahús, af því að skólahús hafa elzt. Hitt getur og komið fyrir, að skólahús brenni eða ónýtist af jarðskjálfta, og eftir stefnu og röksemdafærslu hv. 8. þm. Reykv. skal þá skoða tryggingarféð sameign ríkisins og þess sveitarfélags, sem að skólanum hefur staðið í hvert sinn, og verður ekki byggður nýr skóli fyrr en tryggingarféð er greitt. Ég vil benda á í sambandi við þessar röksemdir, að það er ekki svo, að hvert hérað eða hver aðili, sem hugsar sér að koma upp skóla, geti gengið lausum höndum í ríkissjóð og tekið fjárframlag eins og hann óskar. Allt verður þetta að fara í gegnum hendur löggjafarþingsins og vera afgr. í sambandi við fjárlög hvers árs.

Mér þykir eðlilegt, einmitt þegar að því er stefnt, að ríkið leggi meira fram til skólamála en áður, að sú stefna verði tekin upp í sambandi við fjárlög ár hvert, að fræðslumálastjóri leggi fram sundurliðaðar till. um það, hve mikilli upphæð þurfi að verja í þennan eða hinn skóla, eins og vegamálastjóri gerir viðkomandi vegafé og vitamálastjóri gerir viðkomandi fé til hafnarframkvæmda o. s. frv. Af því fyrirkomulagi mundi leiða það, að fjvn. hlyti að kynna sér út í æsar í hverju máli, hvernig málið horfði við á hverjum stað fyrir sig. Fjvn. yrði þá þar af leiðandi að vega og meta það, hvaða nauðsyn væri fyrir hendi í þessum efnum á hverjum stað. Ef svo stæði á t. d., að skólahús hefði brunnið á einhverjum stað og kröfur hefðu komið fram um að reisa þar nýtt skólahús á sama stað, þá verður á valdi Alþ. að meta það, hve mikil nauðsyn er þar fyrir hendi, og Alþ. getur þá sagt: Notið þið tryggingarféð fyrst, og við skulum sjá, hvað það hrekkur, og það kemur fyrst til kasta Alþ. að ákveða viðbótarframlag, þegar það er séð. Það er því engin hætta á því, þó að eignarrétturinn á þessum eignum sé bundinn við héruðin, að ríkissjóður verði fyrir skakkafalli í sambandi við byggingu skólahúsanna.

Þá veik hv. 8. þm. Reykv. að því, að ekki væri ætlazt til þess, að um eignarnám væri að ræða á þeim skólum gagnfræðastigsins, sem fyrir eru, og ekki heldur. að um eignarrán væri að ræða á þeim, eins og hann orðaði það, því að það ætti að láta eigendur skólahúsanna eða skólanna ráða því sjálfa, hvort þeir létu þá af hendi eða ekki. En hvað liggur á bak við þetta orðalag? Ég hygg, að það sé það, að ef forráðamaður slíks skóla vill ekki fallast á það í einu og öllu að afhenda þessa eign sina ríkinu að þrem fjórðu hlutum, þá skuli hann slitna úr tengslum við ríkið að því leyti, að hann eigi að reka skólann fyrir sitt eigið fé, en hann eigi ekki von á, að tekið verði undir óskir hans um styrk af ríkisfé til þess skóla. Þetta er þá kostaboð! Ég vil ekki fara orðum um það, hvort á að kalla þetta eignarnám, eignarrán eða eignarkúgun. Það læt ég mér í léttu rúmi liggja. En efnislega liggur þetta þannig fyrir að ég hygg. Við verðum að gera okkur ljóst, að í þessu er raunverulega um stefnuatriði að ræða. Hér er stefnt að því að marka nýja stefnu í löggjöf. Ef við göngum út á þá braut að láta ríkið eignast hluta í öllum fyrirtækjum og stofnunum, sem ríkið styrkir, þá fæ ég ekki séð, hvar við stöðvum okkur á þeirri braut. Ég minni á það, að fyrir allmörgum árum var reist sundhöll hér í Reykjavík. Ég hygg, að ríkissjóður hafi þar lagt fram helming stofnkostnaðar í þá stofnun, gegn helmingi stofnkostnaðar frá Reykjavíkurbæ. Það er nú svo, að sundhöllin er kölluð Sundhöll Reykjavíkur, en ekki Sundhöll ríkisins. Hún mun ekki hafa verið færð til tekna á ríkisreikningnum. Og það skyldi nú ekki vera, að hún væri talin Reykjavíkurbæ að fullu. Nú hef ég ekki orðið var við, að till. hafi komið fram frá þm. Reykv. um það að afhenda nú aftur ríkinu helminginn af þessari eign. En vel má vera, ef þessi braut verður mörkuð hér í því máli, sem fyrir liggur nú til umr., að það dragist ekki lengi, að till. komi fram um þetta.

Ég minnist þess líka, að í sambandi við héraðsskólana eru sundlaugar og íþróttahús. Að sjálfsögðu er þessi hluti framkvæmda við skólana styrktur eftir sömu hlutföllum og bygging á kennslustofum og íbúðum kennara. En ég minnist þess, að í mörgum héruðum hafa verið reistar á sama tíma sundlaugar fyrir styrk úr íþróttasjóði, sem hefur fyrst og fremst tekjur úr ríkissjóði, en ýmis félög heima fyrir hafa lagt fram fé á móti. Ef við eigum að fara að ákveða, að sundlaugar, sem eru reistar í sambandi við héraðsskólana, skuli verða sameign ríkisins og þeirra heima í héraði, sem að þeim standa, verðum við þá ekki bráðum að ákveða, að sundlaugar, sem t. d. íþróttafélög eiga, skuli ekki heldur vera eign þeirra félaga, heldur sameign ríkisins og félaga, sem að þeim standa? Og ef við göngum út á þá braut, sem ákveður slíkt um húsin, kemur þá ekki til greina, hvort ekki á að ákveða slíka sameign þess, sem geymt er í húsunum? Stundum eru t. d. bæjarbókasöfn geymd í skólahúsum. Ætli þau eigi þá að verða sameign ríkis og bæjar? Eða eiga hreppabókasöfn, sem geymd eru í skólahúsum, líka að verða þannig sameign? Og í því tilfelli yrði það þá sennilega reglugerðarákvæði í reglugerð, sem ráðh. setti, hvaða bækur ættu að vera í eign ríkisins — kannske viss bókafjöldi í hverju safni, — og hvaða bækur í eign þeirrar félagsheildar, sem að hinu leytinu stæði að skóla þar á staðnum, eða hvort það ættu að vera viss tiltekin blöð í bókunum, sem ríkissjóður ætti að eiga.

Nei, ég held, ef við skoðum þetta mál niður í kjölinn, þá verði eðlilegast að halda sig við þá leið, sem farin hefur verið í þessum efnum, og þá er eðlilegt og sjálfsagt að samþ. þá brtt., sem ég hef lagt fram um þetta atriði. Ég held líka, að það sé fordæmalaust, þó að löggjafinn hafi sett kvaðir í lög vegna greiðslna á styrkjum til ýmissa stofnana eða til þess að byggja upp ýmislegt í þjóðfélaginu, bæði er snertir jarðræktarstyrki og fleira, að l. um þær kvaðir hafa verið látin verka aftur fyrir sig, til þeirra eigna, sem áður hefur verið búið að byggja upp eftir öðrum reglum. Þess vegna tel ég mjög óeðlilegt, að hæstv. Alþ. taki nú upp þessa stefnu gagnvart þeim skólum, sem fyrir eru í landinu og þegar hafa verið byggðir.