25.02.1946
Efri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (3063)

30. mál, gagnfræðanám

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég vildi aðeins benda hv. n., sem á um þetta mál að fjalla, á, að það hefur verið gerð ein breyt. á frv. í Nd., sem með engu móti getur staðizt. Það mun hafa verið breyt. frá einum hv. nm., hv. þm. A.-Sk. (PÞ), og náði hún samþykki hv. d., sennilega þó að alveg óathuguðu máli. Þetta var brtt. við 10. gr. c-lið og hljóðar svo: „að ráða skólastjóra og kennara úr hópi umsækjenda. Þó þarf samþykki fræðslumálastjórnar um ráðning þeirra.“

Hér er ætlazt til, að skólan. ráði skólastjóra og kennara, en fræðslumálastjórn eigi að samþykkja þetta. Þetta getur með engu móti staðizt. Í fyrsta lagi er um ráðningu að ræða, en með þessu móti eru engin ákvæði í l. um það, hver eigi að skipa kennara. Það lítur helzt út fyrir, að kennara eigi alls ekki að skipa, ef þannig er frá l. gengið. Þetta stangast þar að auki á við aðrar gr. frv., t. d. 33. gr., en þar stendur: „Skólastjóri gerir ásamt skólanefnd tillögur til fræðslumálastjórnar um val kennara.“ Og 36. gr. hljóðar svo : „Fræðslumálastjórn skal leita álits námsstjóra um þær umsóknir, sem berast um skólastjórastöður við skóla gagnfræðastigsins, þeir gera tillögur um val skólastjóra, svo og vara- og þrautavaratillögur, ef umsækjendur eru svo margir.“ Ef hugmyndin, sem er harla óljós, er, að veitingarvaldið eigi að vera í höndum skólanefndar, þá virðist mér það alveg fráleit hugmynd. Í fyrsta lagi getur svo skipazt, að hún sé ekki framkvæmanleg. Það er vel hugsanlegt í mörgum tilfellum, að enginn meiri hluti fáist í skólanefndum fyrir veitingu embættisins. Og ef fræðslumálastj. mundi neyta neitunarvalds síns, þá er ekkert það vald til, sem getur skipað kennara. Bara frá þessu sjónarmiði er hugmyndin fráleit. En hitt í sjálfu sér, að veitingarvaldið eigi að fara úr höndum fræðslumálastj. og í hendur skólanefnda, er fráleit till. Það er augljóst mál, að skólanefndirnar hafa að öllu leyti verri aðstöðu til að veita slíkar stöður. Og kunnugleik þeirra á þeim mönnum, sem fást til að gegna þessum stöðum, er ekki hægt að bera saman við þann kunnugleik, sem fræðslumálastjórnin hefur yfir að ráða, auk þess sem hér gæti komið til greina alls konar klíkuskapur og kunningsskapur. Ef á annað borð má gera ráð fyrir eða reikna með því, að veitingarvaldið sé hlutdrægt, þá er vissulega ekki síður ástæða til að óttast það, ef það er í höndum slíkrar n. Það verður þess vegna með öllu óhjákvæmilegt að breyta þessu ákvæði. Ég get ekki skilið, að nokkur ráðh., sem fer með kennslumál, geti sætt sig við það, að tekið sé úr höndum hans veitingarvaldið með kennarastöður. Ég á líka erfitt með að skilja, að nokkur fræðslumálastjóri sætti sig við það, að veitingarvaldið fari í hendur skólanefnda og hann hafi þar engu að ráða.

Ég geri ráð fyrir, að þessi till. hafi verið samþ. að algerlega óhugsuðu máli, enda var henni smeyga inn í frv. við síðustu umr. Ef hún hefði farið í n. og verið athuguð betur, hefði ekki verið hugsanlegt, að frv. hefði komið þannig frá hv. d. — Þetta er aðeins ábending til þeirrar hv. n., sem hér á hlut að máli.