25.02.1946
Efri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (3066)

30. mál, gagnfræðanám

Bjarni Benediktsson:

Ég skal ekki blanda mér í umr. þessara tveggja þm., sem nú hafa talað. Ég vil aðeins koma með fyrirspurnir til ráðh. Hann hóf mál sitt með því, að hann gæti ekki sætt sig við þá breyt., sem frv. hefði fengið í Nd. En þessi breyt. felur í sér, að fulltrúi sveitarfélagsins hefur meiri ráð en í frv. var ætlað.

Ég get vel skilið þessa afstöðu, því að frv. skerðir mjög vald sveitarstjórna, en flytur það óbeint í hendur menntmrh. Ég minnist ekki að hafa áður séð frv., sem skerðir meira rétt sveitarfélaganna. Mér finnst það eðlilegt, að ráðh. kunni því illa, þar sem hann heimtar að ráða einn í þessum málum. En í síðari hluta 12. gr. segir: „Fræðsluráði er rétt að gera till. til fræðslumálastjórnar um, að skyldunámi sé lokið í hlutaðeigandi héraði á því ári, er nemandinn verður 16 ára. Fallist fræðslumálastjórn á slíka tillögu, tekur hún gildi.“ Ég get ekki betur séð en að þarna í síðari hluta gr. sé heimild til að hlaupa frá því fyrra og að efni síðari hluta 12. gr. sé annað en ætla mætti af upphafinu. En það má vera, að hér sé um torskilið orðalag að ræða, og vil ég spyrja hæstv. ráðh. um þetta höfuðatriði málsins.