25.02.1946
Efri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (3068)

30. mál, gagnfræðanám

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég man ekki, að nokkurt mál hafi komið hér, sem þessi hv. þm. hefur ekki talið undirbúningslaust. En ég þekki ekki mál, sem hefur verið betur undirbúið. En þessi hv. þm. er glöggur að sjá annmarka, og allir þeir, sem um þetta hafa fjallað, hafa ekki verið eins glöggskyggnir og þessi hv. þm., eða að því er honum finnst. Þeir hafa ekki komið auga á það, að lagðar verði sektir á börn, eins og þessi hv. þm., og hefur engum öðrum dottið slíkt í hug. En það er sjálfsagt að taka þetta til athugunar, og það verður athugað í nefnd. En annars vita lögfræðingar bezt um það, hvort hægt er að sekta börn. — Annars getur verið ýmislegt, sem þarf að leiðrétta, og er rétt að athuga það.

Hv. þm. talaði um, að ekki væri hægt að skylda menn til að verða gagnfræðinga 16 ára, en það stendur hvergi, og hefur hv. þm. misskilið þetta. Annars eru ýmis gögn í málinu birt hér í grg. þess. Og hér er prentuð till., sem samþ. var á fundi skólastjóra, sem haldinn var í júnímánuði, eða frádráttur úr fundargerð, og var till. samþ. einróma og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundurinn samþykkir að kjósa þriggja manna nefnd, er vinni að því við fræðslumálastjóra, kennslumálaráðherra og Alþingi, að laun héraðs- og gagnfræðaskólakennara og kennara Eiðaskóla verði greidd eins og ákveðið er í 16. og 29. gr. launalaga, þótt kennslutími skólans sé styttri en 9 mánuðir. Má benda á það, að skólarnir geta að öðrum kosti búizt við því, að beztu kennararnir hverfi frá þessum skólum og leiti sér starfs þar, sem kennslutími er lengri og árslaun því hærri. Þá felur fundurinn nefndinni að beita sér fyrir því, að héraðsskólakennarar verði færðir í sama launaflokk og gagnfræðaskólakennarar.“

Og fyrri hluti till., sem samþ. var með öllum greiddum atkv., og á þeim grundvelli, að þetta nái fram að ganga, hljóðar svo :

„Fundur héraðs- og gagnfræðaskólastjóra, haldinn í Rv. dagana 11.–13. júní árið 1945, leyfir sér að skora á hið háa Alþingi að samþykkja frumvarp það um gagnfræðanám, er milliþinganefnd í skólamálum hefur lagt fram.“

Þá kom hér fram fyrirspurn frá hv. 6. þm. Reykv. viðvíkjandi ákvæðum 10. gr., en þar stendur: „Verði ágreiningur milli sveitarstjórnar og skólanefndar um fjárframlög til skólahalds, sker fræðslumálastjórn úr.“

Þetta ákvæði er í núverandi fræðslulögum, og virðist þetta eðlilegt, þegar þess er gætt, að meginhluti kostnaðarins er greiddur úr ríkissjóði. Það virðist eðlilegt að halda þessu ákvæði, en er hins vegar sjálfsagt að ræða um þetta við þá, sem hlut eiga að máli, t. d. hv. 6. þm. Reykv., sem er borgarstjóri í stærsta fræðsluhéraði landsins. — Þá spurði hv. þm. viðvíkjandi 12. gr. frv., en þar stendur:

„Heimilt er sveitarfélagi að ákveða, að skyldunám skuli ná til þess árs, er nemandinn verður 16 ára, enda samþykki hlutaðeigandi fræðsluráð og fræðslumálastjórn ákvörðunina. Fræðsluráði er rétt að gera tillögu til fræðslumálastjórnar um, að skyldunámi sé lokið í hlutaðeigandi héraði á því ári, er nemandinn verður 16 ára. Fallist fræðslumálastjórn á slíka tillögu, tekur hún gildi.“

Ég hef skilið þetta svo. að fræðsluráð bæri aðeins fram till. viðkomandi fræðslunefndar, að öðru leyti get ég ekki svarað fyrirspurn hv. þm.